Gunni Atla er farinn heim

Kveðja frá skátahreyfingunni

Gunnar AtlasonGunnar Atlason er farinn heim. Gunnar var sannur skáti, hann lét gott af sér leiða, var jákvæður með eindæmum, hjálpsamur og lífsglaður. Gunnar var átta ára gamall þegar skátaheimili Dalbúa opnaði fyrir aftan heimili hans og hann ákvað að byrja í skátunum. Hann sagði sjálfur að þar hafi hann kynnst skemmtilegum krökkum, og síðan þá haldið áfram að kynnast skemmtilegu fólki í skátastarfinu. Án efa hafði það áhrif á fólkið sem hann hitti að Gunnar var sjálfur mjög skemmtilegur maður. Um tíma leiddi Gunnar skátastarfið í Mosfellsbæ með eftirtektarverðum árangri og nú undanfarin ár var Gunnar forstöðumaður Fræðaseturs skáta og mun hans ötula og óeigingjarna starf fyrir Fræðasetrið verða minnst um ókomin ár. Á sama tíma og Gunnar vann að varðveislu og kynningu á sögu skátahreyfingarinnar á Íslandi, hvatti hann til nútímalegrar hugsunar í skátastarfi og hvatti fólk á öllum aldri til dáða og treysti þeim til góðra verka.

 

Þú ert skáti horfinn heim,

himinn, jörð, ber sorgarkeim.

Vinar saknar vinafjöld,

varðar þökkin ævikvöld.

Sérhver hefur minning mál,

við munum tjöld og varðeldsbál,

bjartan hug og brosin þín,

þau bera ljósið inn til mín.

Kveðjustundin helg og hlý,

hugum okkar ríkir í.

Skátaminning, skátaspor,

skilja eftir sól og vor.

H.Z.

 

Skátahreyfingin sendir ástvinum Gunnars og skátasystkinum einlægar samúðarkveðjur og minnist hans með miklu þakklæti.

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi

 

Þeim sem vilja minnast Gunna bendum við á styrktarsíðu Skátasafnsins.