hópefli og örnámskeið

Vinalegt á Úlfljótsvatni

Það var vinamargt á Úlfljótsvatni um helgina, en auk tjaldgesta, þátttakenda í Frisbýgolfmóti og annarra sem leið áttu um, tóku 30 ungir skátar þátt í hópefli og örnámskeiði. „Við skipulögðum þessa helgi til að ná til yngri skátaforingja sem geta lagt  Úlfljótsvatni lið,“ segir Pani, en hann heitir fullu nafni Javier Paniagua og er dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni.

 

Markmiðið var að stækka hópinn sem getur kallað sig Vini Úlfljótsvatns, en það er fjöldi skáta með hlýjar tilfinningar til Úlfljótsvatns og starfseminnar þar. Pani og Jakob Guðnason, forstöðumaður á Úlfljótsvatni eru ánægðir og þakklátir fyrir góða þátttöku. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Jakob. „Við viljum stækka hópinn sem finnst hann eigi heima hérna,“ segir Jakob. „Þetta er ekki og má ekki vera lokaður hópur, hvort sem við köllum hann Vini Úlfljótsvatns eða heimalinga. Það eru allir velkomnir“.  Þeir sem komust ekki um helgina geta haft samband við Pani og Jakob, sem koma nýju fólki inn í hópinn.

Gagnast í félagsútilegunni í sumar

Auður Eygló úr skátafélaginu Landnemum var ánægð með helgina. Við hittum hana við klifurturninn og þó hún sé vön sem skátaforingi að leiða krakka í skátastarfi lærði hún margt gagnlegt.

Landnemar halda félagsútilegu á Úlfljótsvatni í sumar. „Það verður frábært að nýta sér þessa kunnáttu til að geta hjálpað þeim og vera með dagskrána,“ segir Auður Eygló.


Helga Þórey

Nota Hleiðru fyrir útilífsnámskeiðin

Helga Þórey

Félagar í Skjöldungum hafa staðið í stórræðum undanfarið við endurnýjun Hleiðru, skátaskála síns við Hafravatn. „Við erum að gera Hleiðru nothæfa á ný,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, félagsforingi Skjöldunga og í vídeó viðtalinu hér að neðan segir hún nánar frá verkefninu.

Sjálfboðaliðar hafa unnið mikið verk á liðnum vikum, en þau hittast alla þriðjudaga og fimmtudaga. Unnið er að endurnýjun palla, gróðursetningar og grisjunar á skógi umhverfis Hleiðru.

Helga Þórey segir að Skjöldungar hafi ákveðið að stökkva í þetta verkefni í miðju Covid-faraldrinum til að geta boðið upp á útilífsnámskeiðin í sumar, en það leit út fyrir að ekki væri hægt að halda námskeiðin með hefðbundum hætti. Skjöldungar hafa verið með sín námskeið í skátaheimilinu í Sólheimum og nýtt sér nálægð við Laugardalinn og aðstöðu sem þar er s.s. sundlaugar og fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Námskeið Skjöldunga í sumar verða þrjá daga í Hleiðru og tvo daga í Sólheimum. „Nú verða námskeiðin í raun meiri útilífsnámskeið,“ áréttar Helga Þórey.

Tengt efni:


Marta Magnúsdóttir og Harpa Ósk Valgeirsdóttir

Samtal um nýja framtíðarsýn

Færni til framtíðar er heitið á framtíðarsýn skátanna til ársins 2025. Þessi nýja stefna Bandalags íslenskra skáta var tekin fyrir á vinnufundi stjórnar í liðinni viku og verður hún send skátum til kynningar í sumar. Stefnan verður lögð fram á Skátaþingi sem haldið verður 18. – 19. september á Úlfljótsvatni.

Marta Magnúsdóttir og Harpa Ósk Valgeirsdóttir

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, er spennt að kynna stefnuna og önnur stór mál fyrir Skátaþingi haustsins og nefnir þar sérstaklega Skátaskólann og MOVIS sem er stuðningskerfi við sjálfboðaliða í skátastarfinu. Margir skátar ættu að þekkja til innihaldsins því stefnan hefur verið unnin á opnum fundum með skátum í vetur.

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður dagskrárráðs, segir mikilvægt að skátar kynni sér stefnuna. „Flestir eru sammála um hver séu stóru málin í skátahreyfingunni, en við þurfum öll að vera saman í að keyra þau áfram,“ segir hún. „Við þurfum öll að vera meðvituð um hvert við erum að fara og þessi stefna hjálpar okkur við að vita það og hjálpi okkur við að svara spurningunni hvað er skátastarf.“


Kópar

Meira úti eftir Covid

Skátastarfið er óðum að taka á sig fyrri mynd eftir að samkomubanni var aflétt. Skátarnir í Kópum ætla að lengja starfið inn í sumarið til að koma til móts við skátana og foreldra.


„Skátastarfið hjá okkur breyttist aðeins. Við leggjum meiri áherslu á útiveru,“ segja  Heiða Hrönn Másdóttir félagsforingi Kópa og Ásdís Erla Pétursdóttir, starfsmaður Kópa.

Mætingin eftir Covid hefur verið mjög góð og þær finna hvað skátarnir eru ánægðir með að vera komnir í starfið á nýjan leik.  Boðið verður upp á starf inn í júnímánuð.

Nánari upplýsingar um starf skátafélagsins Kópa er á www.kopar.is


Fresta skátaþingi en virkja nýtt fólk

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta skátaþingi sem boðað hafði verið til í lok þessa mánaðar. Gert er ráð fyrir að kynna nýja tímasetningu með vorinu. Ástæða þessar ákvörðunar stjórnar Bandalags íslenskra skáta (BÍS) er Covid faraldurinn og áhrif hans á samfélagið.


Flestir í fráfarandi stjórn BÍS gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Á mynd eru frá vinstri: Jón Halldór Jónasson, Marta Magnúsdóttir, Dagmar Ólafsdóttir, Sævar Skaptason, Jón Ingvar Bragason, Ásgerður Magnúsdóttir, Björk Norðdahl og Harpa Ósk Valgeirsdóttir. 

Vilji stjórna skátafélaga kannaður

Stjórn og fulltrúar í fastaráðum hefðu verið sjálfkjörin á skátaþingi og má sjá framboðslistann neðar í þessari frétt. Í samræmi við breytingar á lögum BÍS sem gerðar voru á síðasta skátaþingi verður kosið til stjórnar og starfsráða til tveggja ára. Einnig voru gerðar í nýju lögunum breytingar á skipan starfsráða.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi sendi í dag póst á stjórnir skátafélaga og upplýsti þær um stöðu mála og viðraði hugmyndir um hvernig virkja mætti nýtt fólk sem er að bjóða sig fram. Hún segir að verðandi stjórn BÍS sé full tilhlökkunar og vilji gjarnan hefja vinnu sem fyrst miðað við nýja skipan. Þar sem sjálfkjörið sé í allar stöður þá sé sú hugmynd uppi að ný stjórn og ráð taki við eins og skátaþing hefði verið haldið.  Ef skátafélögin lýsi sig ekki andvíg þessari ráðagerð yrði stefnt að því að nýtt fólk taki við í samræmi við framboðslista uppstillingarnefndar. Formleg kosning til  stjórnar og ráða verður á skátaþingi samkvæmt venju.

Sjálfkjörið í allar stöður

Eftirtaldir bjóða sig fram á skátaþingi:

Stjórn Bandalags íslenskra skáta

  • Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
  • Sævar Skaptason, gjaldkeri
  • Jón Halldór Jónasson
  • Ásgerður Magnúsdóttir
  • Harpa Ósk Valgeirsdóttir
  • Björk Norðdahl
  • Þórhallur Helgason

Alþjóðaráð

  • Þórey Lovísa Sigmundsdóttir
  • Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir
  • Aron Gauti Sigurðarson

Starfsráð

  • Eva María Sigurbjörnsdóttir
  • Birta Ísafold Jónasdóttir
  • Páll Kristinn Stefánsson

Stjórn Skátaskólans

  • Dagbjört Brynjarsdóttir
  • Inga Jóna Þórisdóttir
  • Halldór Valberg Skúlason

Ungmennaráð

  • Úlfur Leó Hagalín
  • Thelma Líf Sigurðardóttir
  • Ísold Vala Þorsteinsdóttir

Uppstillinganefnd

  • Berglind Lilja Björnsdóttir
  • Birgir Ómarsson
  • Sigurður Viktor Úlfarsson
  • Katrín Kemp Stefándóttir
  • Jóhanna Björg Másdóttir

Félagslegir skoðunarmenn

  • Guðmundur Þór Pétursson
  • Kristín Birna Angantýsdóttir
  • Jón Þór Gunnarsson

 

Tengt efni:

 


Verður skátamiðstöð við Rauðavatn?

Uppbygging skátamiðstöðvar á nýjum stað hefur verið til skoðunar og er horft til staðsetningar sem gefur möguleika í útivist og svigrúm til uppbyggingar á tengdri þjónustu s.s. gistiaðstöðu sem rýma myndi 50 manns og jafnvel hægt að slá upp tjaldbúð. Svigrúm væri einnig fyrir geymslu á búnaði í skemmum.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi segir engar ákvarðanir um flutning hafa verið teknar en skátar séu opnir fyrir áhugaverðum hugmyndum og tækifærum. Fyrirséð er aukin byggð í Hraunbænum sem takmarkar svigrúm skáta á núverandi stað.

Nýi staðurinn sem er til skoðunar er við Rauðvatn og jaðar Hólmsheiðar, en þessi staðsetning tengist vel útivistarsvæði sem þar er. Nýja skátasvæðið er í brekkunni fyrir neðan Hádegismóa og nýtur því skjóls fyrir norðanáttinni. Þar hafa staðið sumarhús í gegnum tíðina og mikið er um hávaxin tré m.a. lerki, birki og einstaka reynitré, eins og segir í skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags, sem er í kynningarferli.

Möguleiki á gistiaðstöðu

Verði af þessum hugmyndum skapast nýir möguleikar í starfsemi skáta, en í byggingum yrði auk skrifstofuaðstöðu gert ráð fyrir gistirými ásamt matsal sem myndi rýma um 50 manns. Útisvæðið yrði fjölbreytt bæði fyrir leiki og einnig tjaldbúðir. Reisa mætti skemmur sem rýma myndu búnað sem skátamiðstöðin þarf fyrir sína starfsemi.

Hugmyndir gera  ráð fyrir að skátafélagið Árbúar myndu fá annað svæði og hentugra innan hverfisins. Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta myndu hins vegar flytja að Rauðavatni með fundaaðstöðu og almennan skrifstofurekstur.

Endanleg ákvörðun tekin í samráði við skátafélögin

Þegar málið var kynnt fyrir stjórnum skátafélaganna á fundi í haust var áréttað að engar ákvarðanir yrðu teknar án samráðs við skátafélögin og að fjárhagslegar skuldbindingar yrðu skoðaðar sérstaklega.

Nú þegar skipulags- og matslýsing liggur fyrir verður hægt að skoða heildardæmið betur og verður það gert á næstunni og kynnt innan skátasamfélagsins þannig að ábendingar, rök með og móti verði skoðuð í heildarmyndinni.

Stjórn BÍS og framkvæmdastjóri nálgast verkefnið með opnum huga. „Ég vil leggja áherslu á að hér erum við að hugsa til framtíðar. Önum ekki að neinu en þetta opnar klárlega áhugaverðar hugmyndir og tækifæri. Það er svo gott að hafa enga tímapressu á sér,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar, en hann hefur haldið utan um ferlið með umboði stjórnar.

Hér má skoða Skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags.


Privacy Preference Center