Íslenskir skátar fóru til Noregs að taka þátt í Ung i Norden

Helgina 10.-12. nóvember 2023 lögðu þrír ungir skátar land undir fót og ferðuðust til Oslóar í Noregi. Þar var haldin viðburðurinn Ung i Norden sem er samstarf Bandalaga allra Norðurlandana. Þar koma saman ungir skátar frá öllum norðurlöndunum og kynnast og fræðast um ýmis viðfangsefni. Í ár var viðfangsefnið Flóttamenn og hvernig það er að vera flóttamaður.

 Það var notast við margskonar aðferðir til að lærdómar og vitneskju vakningar. Margir fyrirlestrar voru haldnir þar sem farið kynnt ýmis málefni sem skipuleggjendurnir vildu leggja áherslu á. Fjallað var um hulinn átök sem eru átök sem eru ekki í umfjöllun í fjölmiðlum og því verða þau “hulin” sem og hver er skilgreiningin á flóttamanni.

 Það var einnig farið í leik þar sem markmiðið var að fá þátttakendur til að reyna að setja sig í spor flóttamanna. Vissulega var leikurinn hannaður fyrir en yngri skáta en voru á þessum viðburði svo að megin markmið leiksins náði ekki alveg til skila.

 Á laugardagskvöldinu var horft á mynd sem heitir Invisible Republic, hún var afar áhugaverð. Myndin fjallaði um átökin í Nagorno-Karabakh. Konan sem gerir myndina er fréttamaður frá armeníu og býr á þessu svæði sem átökin eru á og er á svæðinu á meðan þau standa yfir.

Síðan var svona pallborðsumræður þar sem komu sérfræðingar frá Noregi í þessum málefnum. Þar gátu þátttakendur spurt spurninga og var þetta mjög áhugaverður líður í dagskrá viðburðarins. Viðburðin kláraðist síðan með fallegri athöfn þar sem allir skátarnir kveiktu á kertum og sungu bræðralagssöngin á sínu eigin tungumáli. Noregsfararnir mæla með þessum viðburði fyrir alla unga skáta. Maður kynnist ekki bara nýju fólki heldur líka nýjum skátamenningum.

 

Höfundur: Reynir Tómas Reynisson

 


Staða Erindreka laus til umsóknar

 

Markmið með starfi erindreka er að efla starf skátafélaga í landinu og vinna að því að fjölga skátum í starfi með stuðningi við skátafélög.

Leitað er eftir að erindreki sýni frumkvæði og eigi auðvelt með að vinna með ungu fólki, geti unnið sjálfstætt, skipulagt verkefni og stýrt verkefnum jafnt sem að vinna í hópastarfi.

Erindreki vinnur náið með viðburðastjóra og öðru starfsfólki BÍS í samráði við starfsráð að því að þróa og efla innra starf skátafélaga með þeim verkfærum sem þróuð hafa verið. Erindreki er mikið í beinum samskiptum við skátafélögin og sveitastjórnir/bæjarstjórnir eftir tilvikum – í samráði við framkvæmdastjóra BÍS.

Vinnutími er sveigjanlegur og gert er ráð fyrir því að erindreki sé einnig á ferðinni í heimsóknum til skátafélaga, forsvarsmanna sveitarfélaga og stuðningsaðila skátastarfs. Starfsstöð erindreka er í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 í Reykjavík en við hvetjum fólk á landsbyggðinni einnig að sækja um.

 

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Veitir stuðning við uppbyggingu skátastarfs og fjölgun skáta í starfi
  • Aðstoð við uppbyggingu á fjölskylduskátun

Stuðningur við skátastarf

  • Ber ábyrgð á og styður við verkefni fyrir skátafélög í landinu sem tengjast skátaaðferðinni og dagskrármálum
  • Stuðningur við nýja foringja
  • Vinnur með öðrum að þróun dagskrár í skátastarfi. Fundir með dagskrárforingjum
  • Aðstoðar við fræðslumál og námskeiðahald í skátastarfi
  • Aðstoða og ráðgjöf við gerð á nýju dagskrárefni og dagskrárvef
  • Setja inn upplýsingar á heimasíðu
  • Önnur tilfallandi verkefni á skrifstofu

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð almenn tölvukunnátta (ritvinnsla – gagnagrunnar)
  • Reynsla af skipulagningu og stjórnun verkefna
  • Sjálfstæð vinnubrögð,  frumkvæði
  • Eftirfylgni með verkefnum
  • Góð mannleg samskipti og með góða, jákvæða og hvetjandi framkomu
  • Eiga auðvelt með að vinna með öðrum og virkja fólk
  • Nauðsynlegt að hafa mikla reynslu og brennandi áhuga á skátastarfi, með þekkingu á stöðu skátastarfs á Íslandi í dag og hafa verið virk/ur í starfi undanfarin ár

Fríðindi í starfi

  • Sveigjanlegur vinnutími
  • Fjölskylduvæn stefna
  • Heilsustyrkur
  • Hvetjandi starfsumhverfis

Skátamiðstöðin lokuð milli jóla og nýárs

Skátamiðstöðin verður lokuð frá 22. desember til 2. janúar.
Takmörkuð þjónusta verður milli jóla og nýárs en aðkallandi mál má senda á Framkvæmdastjóra BÍS

Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. 🌟


Læst inni í Garðbúaheimilinu

Síðastliðinn þriðjudag spreyttu róverskátar sig á nýju flóttarými (escape room) í Garðbúaheimilinu. Flóttarýmið var sett upp sem dagskrá fyrir róverskáta og eldri skáta og fékk styrk frá Evrópusambandinu. Þetta flóttarými, Föst á fjöllum, var með skátaþema þar sem skátaflokkur í fortíðinni fór í útilegu í fjallaskála og dularfullir atburðir áttu sér stað. Skátarnir sem prófuðu flóttarýmið leystu svo þrautir og gátur til að komast að því hvað hefði gerst og opna lásinn á herberginu til að komast sjálf út.

Viðburðurinn var vel heppnaður og er nú hægt að fá allan búnað í flóttarýmið lánaðan til að setja upp í sínu skátafélagi. Þeir sem hafa áhuga á að setja upp flóttarýmið fyrir dróttskáta, rekkaskáta, róverskáta eða eldri hafið samband við skatarnir@skatarnir.is


Íslenskir skátar fordæma stríðsrekstur á Gaza


Bandalag íslenskra skáta skorar á íslensk stjórnvöld að fordæma allan stríðsrekstur á Gaza og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðaraðstæðum. Skátar eru skelfingu lostnir yfir þeim hörmulegu aðstæðum sem ríkja nú á Gaza og því gífurlega manntjón sem þar hefur orðið. Yfir 11.000 hafa þegar týnt lífi, þar á meðal þúsundir barna og tala látinna á eftir að hækka.

Skátarnir eru stærsta friðarhreyfing heimsins og fordæma allt ofbeldi. Við hvetjum þjóðir heims til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að binda enda á öll stríðsátök og tryggja öryggi óbreyttra borgara.

www.unwomen.is
www.unicef.is
www.amnesty.is


Hæða- og Stikumerkjavefurinn uppfærður

Hugmyndir að gönguleiðum fyrir hæða- og stikumerki komnar inn í Verkfærakistu BÍS

Við erum búin að uppfæra vefinn fyrir hæða- og stikumerkin með listum yfir gönguleiðir víðsvegar um landið. Það er mikið úrval af gönguleiðum fyrir hvert merki og eru leiðirnar flokkaðar eftir bæði hæð og lengd svo það er þægilegt að finna þá gönguleið sem hentar best fyrir hvert merki. Það er líka hægt að smella á sumar gönguleiðir til að fá nánari lýsingar á gönguleiðunum.

Vefinn er að finna undir „Verkfærakista“ – „Ferðir og Útilegur“ – „Hæða og stikumerki“. Einnig er hægt að smella hér.

Hugmyndabankinn er í stöðugri þróun svo við hvetjum öll sem fara í ferðir til að segja okkur frá þeim. Ef þú ert með hugmyndir um ferðir sem hægt er að fara til að vinna að merkjunum má senda þær á skatarnir@skatarnir.is.


11 öflugir leiðtogar luku Gilwell þjálfun um helgina

Sunnudaginn 5.nóvember síðastliðinn fengu 11 kraftmiklir leiðtogar í skátahreyfingunni afhent Gilwell einkennin sín.  Þessi öflugi og samheldni hópur hefur unnið hörðum höndum að þessu takmarki frá því í byrjun árs.  Markmið Gilwell þjálfunarinnar er að gera skáta að betri og meðvitaðri leiðtogum, bæði í skátastarfi og í eigin lífi. Vegferðin hófst í janúar þar sem áhersla var lögð á gildi skátahreyfingarinnar og eigin gildi þátttakenda. 

Í júní gisti hópurinn í tjöldum á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem þjálfun fór fram bæði úti og inni. Hópurinn sinnti verklegum þáttum sem tengdust tjaldbúð og útivist en einnig voru huglægari þættir eins og lýðræði í barna og ungmennastarfi og leiðir til að leysa ágreining og samskiptareglur í þéttum vinnuhópum.

Nú um helgina var svo lagður lokaásetningur um að bæta heiminn í gegn um skátastarf og að verða betri leiðtogi. Við fengum mjög áhugaverða gesti sem fræddu okkur um áhrif skátastarfs á þeirra líf og leiðtogahæfni og þökkum þeim fyrir innilitið. Það voru stoltir og metnaðarfullir skátaforingjar sem luku námskeiðinu og ekki síður stoltir leiðbeinendur.

Námskeiðaröðinni hefur nú verið lokið og við bíðum spennt eftir næsta hóp sem byrjar í febrúar 2024.  

Við óskum þessum flottu Gilwell skátum innilega til hamingju með þennan merka áfanga og bjóðum þau velkomin í stærstu skátasveit í heimi.
Við hlökkum til að sjá afrek þeirra og næstu skref í skátastarfi.  

Gilwell 2024

Næsta Gilwell námskeið hefst þann 2. febrúar og er skráning á það hafin.
Áhugasöm mega senda umsókn með lýsingu á þeirra skátastarfi á gilwell@skatarnir.is


Yfir 100 mættu á skátadag fyrir úkraínskar fjölskyldur á Úlfljótsvatni

Þann 30. september héldu Skátarnir skátadag á Úlfljótsvatni fyrir fjölskyldur frá Úkraínu. Dagurinn byrjaði á því að rútur ferjuðu hópinn frá Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatn um morguninn. Um leið og komið var austur hófst spennandi skátadagskrá sem starfsfólk Úlfljótsvatns hafði sett saman. Klifur, bogfimi, útieldun, leikir og fjör voru á meðal dagskrárliða. Í hádeginu voru grillaðar pulsur ofan í hópinn, og voru sum að smakka þennan íslenska ‚þjóðarrétt‘ í fyrsta sinn. Yfir 100 einstaklingar tóku þátt í deginum og ríkti mikil gleði í hópnum í skátadagskránni allri, þrátt fyrir smá vætu.

Dagurinn var styrktur af mennta- og barnamálaráðuneytinu, ásamt European Solidarity Corps, og var þátttakendum alveg að kostnaðarlausu. Það var gaman að geta boðið þessum hópi upp á skemmtilega dagsferð með fjölskyldum sínum þar sem þau fengu tækifæri til að upplifa ævintýralega skátadagskrá saman umkringd töfrum Úlfljótsvatns. Skátamiðstöðin vinnur nú að því að kynna fjölskylduskátastarf fyrir Úkraínskum fjölskyldum og við hlökkum til að bjóða þau sérstaklega velkomin í skátana á komandi misserum.


Pax Lodge - London

Pax Lodge er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í London. Pax Lodge er í senn farfuglaheimili, þjálfunar- og ráðstefnustaður með skátaandann í fyrirrúmi.

Hægt er að gerast sjálfboðaliði hjá Pax Lodge en þau bjóða upp á 3-6 mánaða leiðtogaupplifun frá 18 ára aldri, þar sem þú býrð á svæðinu og sinnir sjálfboðastörfum sem efla leiðtogahæfni þína. Á þessum tíma muntu efla sjálfstraustið þitt, læra nýja hluti, fá aðra sýn á heiminn og verða hvetjandi leiðtogi.

Ef þú ert að leita að spennandi ævintýrum og langar að fara út í heim að vinna, gerast sjálfboðaliði eða bara hafa gaman þá ættir þú að kíkja á heimasíðuna hjá Pax Lodge í London.


Our Chalet - Svissnesku Alparnir

Our Chalet er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í Alpaþorpinu Adelboden í Sviss.
Svæðið samanstendur af nokkrum skálum með mismunandi magni af svefnplássum og þægindum. Hægt er að gista í rúmum og vera í fullu fæði en einnig er hægt að gista í minni skálum á dýnum og koma með eigin mat, allt eftir því hversu mikið fjármagn hópurinn hefur á milli sín. Það eru mismunandi dagskrár möguleikar eftir því hvenær á árinu staðurinn er heimsóttur og það eru mismunandi erfiðleikastig í boði.

Einnig er hægt að sækja um sem tímabundin sjálfboðaliði frá 2 vikum í allt að 6 mánuði við 18 ára aldur. Það er bæði hægt að sækja um ákveðnar stöður en einnig sem almennur sjálfboðaliði þar sem viðkomandi fær tækifæri til þess að takast á við ýmis verkefni tengd rekstri og dagskrá. Öllum kynjum óháð búsetu er velkomið að sækja um stöður í Our Chalet. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Our Chalet. 


Privacy Preference Center