Félagsstarf skáta til og með 12. janúar
Ný reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tók gildi 21. desember 2021 og gildir til og með 12. janúar 2022. Að þessu sinni voru ekki settar ólíkar reglugerðir um samkomur almennt og um skóla- og tómstundastarf barna. Þar að auki var æskulýðsstarf ekki nefnt í reglugerðinni og því nokkur óvissa hjá skátunum og öðrum æskulýðssamtökum hvaða reglum bæri að fylgja í starfinu og leita þurfti til ráðuneytis til að staðfesta túlkun reglugerðarinnar.
Í svari heilbrigðisráðuneytisins var áréttað að æskulýðsstarfi væri hvorki ætlað að miða við þau ákvæði sem væru sett um íþróttaæfingar barna né um við þau ákvæði sem væru sett um frístund barna á grunnskólaaldri, starfsemi æskulýðsfélaga fellur undir almennar samkomutakmarkanir þ.e. samanlagt mega 20 koma saman börn og fullorðin fædd fyrir 2016 í félagsstarfi skáta, almennar nándartakmarkanir gildi fyrir alla og grímuskylda fyrir þau fædd fyrir 2006 þegar ekki er hægt að tryggja nándartakmörk.
Því eru það tilmæli Bandalags íslenskra skáta að allt félagsstarf skáta á grunnskólaaldri (dreka-, fálka- og dróttskáta) í raunheimum fari í hlé a.m.k. til og með 12. janúar. Við teljum afar erfitt fyrir nokkurt félag að halda uppi starfi við þessar takmarkanir á ábyrgan máta. Félagsstarf sé strax flutt á rafrænan vettvang eða einstaklingsbundin dagskrá send til skáta eða hlé gert á starfi og slíkt undirbúið. Erindrekar undirbúa nú dagskrárpakka byggða á góðu starfi sem við sáum í svipuðu ástandi í fyrri bylgjum fyrir hvert aldursbil sem skátaforingjar geti nýtt sér og aðlagað í stað þess að þurfa að finna upp á öllu sjálf. Þetta efni verðu gert aðgengilegt á sérstakri undirsíðu sem má nú finna í valmynd efst á síðunni undir „Covid“. Nú og í náinni framtíð er mikið af börnum í sóttkví og einangrun og við teljum starfið gert aðgengilegra öllum með þessum hætti við núverandi ástand og dregið úr áhættu á smitum fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða meðan þessi bylgja gengur yfir.
Rekka-, róver og eldri skátum er ráðlagt vilji þau koma saman að færa allt það starf utandyra, vera aldrei fleiri en 20, gæta nándartakmarkana og bera grímur sé ekki hægt að tryggja þær. Allar samkomur sem snúa að skipulagi félagsins s.s. foringjaráðsfundir, stjórnarfundir, baklandsfundir og samanborið sé framkvæmdt rafrænt.
Dreka- fálka- og dróttskátar (7 – 15 ára)
Mælst er til þess að til 12. janúar sé allt félagsstarf þessara aldursbila sett í hlé. Það sé annaðhvort strax fært á rafrænan vettvang eða einstaklingsbundin dagskrá send til þátttakenda eða hlé gert á starfi og slíkt undirbúið.
Rekka- og róverskátar (16 – 25 ára) og eldri skátar (26 ára og eldri)
Vilji skátar á þessum aldursbilum koma saman er þeim ráðlagt að færa allt það starf utandyra, vera aldrei fleiri en 20, gæta nándartakmarkana og bera grímur sé ekki hægt að tryggja þær. Allar samkomur sem snúa að skipulagi félagsins s.s. foringjaráðsfundir, stjórnarfundir, baklandsfundir og samanbærilegt sé framkvæmt rafrænt.