Líf í lundi: Brauðilmur og náttúrubingó í hjarta skógarins

Frétt og myndir frá Skógarskátum.
Líf í lundi á Úlfljótsvatni
Það vr eitthvað sérstakt við andrúmslotfið í skógarrjóðrinu við KSÚ á Úlfljótsvatni laugardaginn 21. júní síðastliðinn. Ilmur af nýbökuðu brauði blandaðist við sumarloftið, hlátur barna og mjúkan fuglasöng. Skógræktarfélag skáta við Úlfljótsvatn stóð þá fyrir sínum fyrsta Líf í lundi viðburði og úr varð samverustund í faðmi náttúrunnar.
Gestirnir - hátt í 25 manns - mættu vel búnir og tilbúnir að njóta dagsins, þrátt fyrir smá skúrir. Veðrið var milt, nánast stillt og regnið gaf stemningunni jafnvel meiri dýpt - eins og náttúran væri sjálf að taka þátt í hátíðinni.
Við eldstæðin var mikið fjör. Með birkigrein í hendi og pítsadeig vafið utan um bökuðu þátttakendur sitt eigið brauð. Þegar tók að rjúka úr deginu voru valkostirnir klárir: hvítlauksolía eða kanilsykur - eða bæði! Sérstaklega vinsælt reyndist að hella fyrst olíunni yfir og síðan sykrinum - olían virkaði sem fullkomið "lím" og úr varð brakandi góð blanda af krydduðu og sætu.
Fyrir þau sem vildu hreyfa sig var boðið upp á náttúrubingó. Gengið var í gegnum skóginn með bingóspjöld í hönd og augun opin fyrir laufblöðum, steinum og öðrum fjársjáðum skógarins. Þetta reyndist vinsælt hjá börnum og fullorðnum og veitti aukna tengingu við umhverfið.
Viðburðurinn vakti ánægju og sýndi að einföld gleði - eldur, brauð og náttúra - dugar langt til að skapa dýrmætar minningar. Skógræktarfélagið hvetur nú öll að ganga skógarstíginn sem hefst á litríkum steinum skammt frá undirgöngunum á Úlfljótsvatni - róleg ganga sem tekur einungis um 30 mínútur og hentar vel fyrir fjölskyldur.
Við þökkum öllum sem komu í lundinn kærlega fyrir og hlökkum til að sjá ykkur aftur á næsta Líf í lundi!
Hefur þú áhuga á lagasmíð?
Undirbúningur fyrir Landsmót 2026 er hafin og leitar nú BÍS og mótsstjórn Landsmóts að næsta mótslagi.
Hefur þig dreymt um að semja mótslag en ekki haft tíma eða ekki þorað að taka af skarið?
Nú er tækifærið til að semja lag og texta! Sendu inn þitt lag og það gæti orðið fyrir valinu fyrir Landsmót 2026.
Hægt er að senda inn myndbönd með lagi og hreyfingum til 21. ágúst næstkomandi hér.
Geimdrekar tóku yfir Úlfljótsvatn

Frétt skrifuð af mótsstjórn Drekaskátamóts 2025. Myndir: Andrea Dagbjört
Helgina 13.-15. júní héldu hátt í 200 drekaskátar á vit ævintýranna á landsmót drekaskáta 2025 á Úlfljótsvatni. Helgin var svo sannarlega ævintýraleg þar sem þema mótsins í ár var geimveruþema.
Skátarnir reistu glæstar tjaldbúðir í góðu veðri og landsmót drekaskáta var svo sett með miklum látum þegar hann Goggi geimvera brotlenti geimflauginni sinni. Þar komu skátarnir sér saman um að hjálpa þyrfti Gogga aftur heim til plánetunnar sinnar Zurka.
Á laugardeginum unnu skátarnir hörðum höndum að því að safna stjörnuorku til þess að knýja geimskipið hans Gogga áfram. Til dæmis var klifrað í klifurturninum, buslað í vatnasafaríinu og farið í bogfimi. Einnig máluðu skátarnir steina til þess að skreyta nýju fallegu gönguleiðina. Sumir máluðu meira að segja steina með myndum af plánetunni Zurka svo að Goggi fengi ekki heimþrá. Ekki var það verra að íslenska sumarið skartaði sínu allra fegursta og glampandi sólin lék við drekaskátana allan daginn. Þegar kvöldaði vantaði þó enn stjörnuorku í geimskipið hans Gogga og eftir vel heppnaða kvöldvöku heyrðust orðrómar um að vísindamenn væru komnir á kreik, tilbúnir að selja skátunum stjörnuorku gegn því að leysa þrautir. Skátarnir voru ekki lengi að hlaupa af stað og finna vísindamennina, enda þótti þeim vænt um Gogga og vildu óðum hjálpa honum að komast heim.
Óhætt er að segja að skátarnir stóðu sig með prýði við söfnun stjörnuorkunnar og Goggi kvaddi þakklátur þegar hann flaug til heimaplánetunnar sinnar Zurka í geimflauginni sinni. Allt er gott sem endar vel og landsmót drekaskáta 2025 endaði svo sannarlega vel. Vert er að minnast á að í ár hefur mótsstjórn síðustu ára unnið að því að þjálfa nýja mótsstjórn samhliða undirbúnings mótsins. Mótsstjórnin var því vel mönnuð af bæði miklum reynsluboltum sem og nýjum og metnaðarfullum mótsstjórnarmeðlimum. Fráfarandi mótsstjórnarmeðlimir kveðja stoltir og bjartsýnir fyrir nýrri mótsstjórn komandi drekaskátamóta og þakka innilega fyrir samfylgdina síðustu ár.
Einstakt Sumar-Gilwell á Úlfljótsvatni

Blað var brotið í sögu Gilwell á Íslandi síðustu helgi þegar 16 gilwellskátar fengu tækifæri til að hefja vegferð sína að þriðju og fjórðu perlu. Er það í fyrsta skipti sem framhaldsnámskeið með þessu sniði er haldið á Íslandi. Á sama tíma fór fram grunnnámskeið Gilwell, með 10 þátttakendum í tveimur flokkum, Gaukum og Hröfnum. Grunnnámskeiðið tók forskot á sæluna, og mætti degi fyrr heldur en framhaldsnámskeiðið eða miðvikudaginn 28. maí. Þá gafst þeim tími til að kynnast flokknum sínum og reisa tjaldbúð.
Dagskrá námskeiðanna var fjölbreytt. Báðir hópar fengu tækifæri til að æfa sig í útieldun, taka þátt í póstaleikjum og kvöldvökum og sitja vinnustofur um menningu og gildi og þarfamiðuð samskipti. Á grunnnámskeiðinu einbeittu þátttakendur sér að eigin skátastarfi og starfi skátafélagsins á meðan áhersla framhaldsgilwells er skátastarf á landsvísu; verkefnastjórnun og stefnumótun. Þátttakendur framhalds Gilwell fengu innihaldsríkt örnámskeið í verkefnastjórnun frá Halldóru Guðrúnu Hinriksdóttur og vinnustofu í krísustjórnun frá Hermanni Sigurðssyni. Þá ber að nefna að Gilwell skátinn Valdís Þorkelsdóttir fékk Gilwell einkenni sín afhent 58 árum eftir að hún hóf Gilwell vegferðina sína, eftir að áhuginn kviknaði aftur í kjölfar Gilwell útskriftar barnabarns Valdísar fyrir ekki löngu síðan. Síðan þá hefur Valdís orðið hluti af skátasamfélaginu á ný en viðstödd afhendinguna voru því góðir vinir úr starfinu sem og þátttakendur framhaldsnámskeiðsins ásamt leiðbeinendum þeirra.
Sérstakur gestur á námskeiðinu var Diana Slabu frá Evrópustjórn WOSM en hún kynnti fyrir þátttakendum störf Evrópustjórnarinnar, stefnur og áherslur og uppbyggingu teymisins. Andinn var sérstaklega góður á námskeiðunum og samheldni hópanna áberandi. Þar var hlegið, grátið, sungið og allt þess á milli. Aðspurð um upplifun sína af námskeiðinu lýsti Díana henni eins og að ganga inn í fjölskyldu. Þar hitti hún naglann á höfuðið en samheldnin, samvinnan og samveran var einkennandi fyrir námskeiðið. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig verkefni þátttakendanna þróast og skila sér út í skátastarfið í landinu.
























