Geimdrekar tóku yfir Úlfljótsvatn

Frétt skrifuð af mótsstjórn Drekaskátamóts 2025. Myndir: Andrea Dagbjört

Helgina 13.-15. júní héldu hátt í 200 drekaskátar á vit ævintýranna á landsmót drekaskáta 2025 á Úlfljótsvatni. Helgin var svo sannarlega ævintýraleg þar sem þema mótsins í ár var geimveruþema.

Skátarnir reistu glæstar tjaldbúðir í góðu veðri og landsmót drekaskáta var svo sett með miklum látum þegar hann Goggi geimvera brotlenti geimflauginni sinni. Þar komu skátarnir sér saman um að hjálpa þyrfti Gogga aftur heim til plánetunnar sinnar Zurka.

Á laugardeginum unnu skátarnir hörðum höndum að því að safna stjörnuorku til þess að knýja geimskipið hans Gogga áfram. Til dæmis var klifrað í klifurturninum, buslað í vatnasafaríinu og farið í bogfimi. Einnig máluðu skátarnir steina til þess að skreyta nýju fallegu gönguleiðina. Sumir máluðu meira að segja steina með myndum af plánetunni Zurka svo að Goggi fengi ekki heimþrá. Ekki var það verra að íslenska sumarið skartaði sínu allra fegursta og glampandi sólin lék við drekaskátana allan daginn. Þegar kvöldaði vantaði þó enn stjörnuorku í geimskipið hans Gogga og eftir vel heppnaða kvöldvöku heyrðust orðrómar um að vísindamenn væru komnir á kreik, tilbúnir að selja skátunum stjörnuorku gegn því að leysa þrautir. Skátarnir voru ekki lengi að hlaupa af stað og finna vísindamennina, enda þótti þeim vænt um Gogga og vildu óðum hjálpa honum að komast heim.

Óhætt er að segja að skátarnir stóðu sig með prýði við söfnun stjörnuorkunnar og Goggi kvaddi þakklátur þegar hann flaug til heimaplánetunnar sinnar Zurka í geimflauginni sinni. Allt er gott sem endar vel og landsmót drekaskáta 2025 endaði svo sannarlega vel. Vert er að minnast á að í ár hefur mótsstjórn síðustu ára unnið að því að þjálfa nýja mótsstjórn samhliða undirbúnings mótsins. Mótsstjórnin var því vel mönnuð af bæði miklum reynsluboltum sem og nýjum og metnaðarfullum mótsstjórnarmeðlimum. Fráfarandi mótsstjórnarmeðlimir kveðja stoltir og bjartsýnir fyrir nýrri mótsstjórn komandi drekaskátamóta og þakka innilega fyrir samfylgdina síðustu ár.