Líf í lundi: Brauðilmur og náttúrubingó í hjarta skógarins
Frétt og myndir frá Skógarskátum.
Líf í lundi á Úlfljótsvatni
Það vr eitthvað sérstakt við andrúmslotfið í skógarrjóðrinu við KSÚ á Úlfljótsvatni laugardaginn 21. júní síðastliðinn. Ilmur af nýbökuðu brauði blandaðist við sumarloftið, hlátur barna og mjúkan fuglasöng. Skógræktarfélag skáta við Úlfljótsvatn stóð þá fyrir sínum fyrsta Líf í lundi viðburði og úr varð samverustund í faðmi náttúrunnar.
Gestirnir – hátt í 25 manns – mættu vel búnir og tilbúnir að njóta dagsins, þrátt fyrir smá skúrir. Veðrið var milt, nánast stillt og regnið gaf stemningunni jafnvel meiri dýpt – eins og náttúran væri sjálf að taka þátt í hátíðinni.
Við eldstæðin var mikið fjör. Með birkigrein í hendi og pítsadeig vafið utan um bökuðu þátttakendur sitt eigið brauð. Þegar tók að rjúka úr deginu voru valkostirnir klárir: hvítlauksolía eða kanilsykur – eða bæði! Sérstaklega vinsælt reyndist að hella fyrst olíunni yfir og síðan sykrinum – olían virkaði sem fullkomið “lím” og úr varð brakandi góð blanda af krydduðu og sætu.
Fyrir þau sem vildu hreyfa sig var boðið upp á náttúrubingó. Gengið var í gegnum skóginn með bingóspjöld í hönd og augun opin fyrir laufblöðum, steinum og öðrum fjársjáðum skógarins. Þetta reyndist vinsælt hjá börnum og fullorðnum og veitti aukna tengingu við umhverfið.
Viðburðurinn vakti ánægju og sýndi að einföld gleði – eldur, brauð og náttúra – dugar langt til að skapa dýrmætar minningar. Skógræktarfélagið hvetur nú öll að ganga skógarstíginn sem hefst á litríkum steinum skammt frá undirgöngunum á Úlfljótsvatni – róleg ganga sem tekur einungis um 30 mínútur og hentar vel fyrir fjölskyldur.
Við þökkum öllum sem komu í lundinn kærlega fyrir og hlökkum til að sjá ykkur aftur á næsta Líf í lundi!