Effelturninn súrraður á Úlfljótsvatni!

Helgina 25. - 27. apríl síðastliðinn mættu 36 dróttskátar víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu á súrr viðburðinn - DS. Súrr-realisma á Úlfljótsvatni. Viðburðurinn var haldinn af Grænjöxlunum, viðburðarsveit sem var að halda sinn annan viðburð. Síðast héldu Grænjaxlarnir 18:23 árið 2023 svo það stefnir í eitthvað spennandi 2027.
Hugmyndin með DS.Súrr-realisma var að þátttakendurnir fengu tækifæri til þess að súrra eitthvað flippað, annað en þeir eru vanir að gera á skátamótum eða fundum, sem þeir gerðu svo sannarlega. Hitt markmiðið okkar var að gista í tjöldum og halda í klassíska tjaldútilegu stemningu. Helgin byrjaði á því að þátttakendurnir skiptu sér í flokka og plönuðu hvað þeir ætluðu að súrra daginn eftir.
Flokkarnir voru
- Alltaf aftur, sem súrruðu stað til að hanga
- Df. Zipz, sem súrruðu aparólu á upphækkuðum palli
- Föðurlandsþjófarnir, sem súrruðu borð með hangandi bekk og netahengirúmi
- Gervi-Frakkar, sem súrruðu Eiffel turninn (e.þ.s. þrífótaþrífóturinn)
- Klifurgengið, sem súrraði brú með neti
- Reynir, sem súrraði stað til að hanga

Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn, morgunleikfimi og fána og svo fór restin af deginum í að súrra. Þess á milli skiptust flokkarnir á að elda fyrir hópinn, sem heppnaðist ljómandi vel. Á laugardagskvöldinu, þegar allar súrr-byggingar voru reistar, var haldin skemmtileg kvöldvaka þar sem allir flokkarnir voru með skemmtiatriði og svo var farið í æsispennandi næturleik - þorpaleikinn. Dagurinn endaði svo á klassísku skátakakó og kexi. Á sunnudeginum fengu þátttakendurnir tækifæri til að sýna hvort öðru trönubyggingarnar sínar áður en tekið var saman og haldið heim á leið.
Vert er að minnast á að mikil áhersla var lögð á öryggi og flokkarnir sem voru að súrra hátt uppi voru vel tryggðir í beltum og hjálmar hafðir við alltaf þegar eitthvað átti á hættu á að detta niður á fólk. Einnig var lagt upp með að skera ekki á nein bönd, #Náttturuvinur, en til að gera það þarf að brenna endana strax og böndin eru skorin og setja smá vinnu í að leysa hnútana á sunnudeginum.
Það sem stóð upp úr á viðburðinum var að sjá hugmyndir flokkana verða að veruleika; að sjá samvinnuna, þrautsegjuna og metnaðinn sem þurfti til að fá allar trönubyggingarnar til að rísa. Þeir gáfust ekki upp, þó svo að súrrið hafi verið erfitt. Þá fundu þeir nýjar leiðir og héldu áfram að reyna. #PGM! (Plana, gera og meta).

Frétt skrifuð af Grænjöxlum.
Úlfur umsjónarmaður í Undralandinu

Úlfur Fríðuson var nýlega ráðinn í starf umsjónarmanns fasteigna og útisvæða í Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Úlfur hefur yfirumsjón með viðhaldi húsnæðis og annarra innviða á Úlfljótsvatni. Hann sér einnig um umhirðu, ræktun og slátt á tjaldsvæðinu, sér um að halda ökutækjum og öðrum búnaði í góðu ástandi og sér um gerð viðhalds- og kostnaðaráætlana fyrir stærri verkefni.
Úlfur nam smíðar við Tækniskólann en hefur síðustu ár unnið við úttektir á brunakerfum. Þá hefur hann umtalsverða reynslu af skátastarfi og var m.a. starfsmaður skátafélagsins Seguls um tíma.
„Mér finnst frábært að vera kominn hingað og fá að vinna í svona fallegu umhverfi og með besta fólkinu“ segir Úlfur. „Og heiður að fá að sinna og leiða skátana hér áfram í viðhaldi og uppbyggingu á svæðinu,“ bætir hann við.
Við bjóðum Úlf hjartanlega velkominn til starfa, og óskum honum velfarnaðar í starfi.
Nýkjörin stjórn Skátagildanna á Íslandi

Guðni Gíslason, landsgildismeistari
Sigríður Kristjánsdóttir, varalandsgildismeistari
Þóra Guðnadóttir, ritari
Hjördís Sigursteinsdóttir, gjaldkeri
Agnes Ösp Þorvaldsdóttir, alþjóðlegur bréfritari
Laufey Bragadóttir, varamaður í stjórn

- Að efla kynningarstarf og gera gildisstarfið meira áberandi
- Að efla tengsl skátagildanna
- Að hvetja til fjölgunar í starfandi gildum
- Að hvetja til stofnunar nýrra skátagilda
- Að efla enn fremur samstarf við BÍS og skátafélögin
Á þinginu var samþykkt tillaga fráfarandi stjórnar að styrkja Karmelsystur í Hafnarfirði um 500 þúsund kr. til byggingar hjúkrunardeildar við klaustrið en Karmelsystur hafa hýst Friðarlogann í góðu samstarfi við Skátagildin í fjölmörg ár.

Fararstjórar á Jamboree í Póllandi 2027
Stjórn BÍS hefur falið þeim Dagbjörtu Brynjarsdóttur og Dagmari Ýr Ólafsdóttur það hlutverk að vera fararstjórar fararhóps BÍS á Jamboree í Póllandi 2027.
Dagbjört eða Dagga eins og hún er ávallt kölluð kemur úr Mosverjum og Dagmar kemur úr Skjöldungum, þær hafa verið í skátaflokk saman í mörg ár, eru Gilwell skátar og hafa unnið að ýmsum skátaverkefnum saman, stórum og smáum.
Þeim hlakkar til að takast á við það verkefni að leiða fararhóp BÍS á alheimsmót í Pólandi þar sem „Hugrekki“ er slagorð mótsins!
Okkur hjá BÍS hlakkar til samstarfsins og óskum þeim til hamingju með nýtt hlutverk!




