Drekaskátar breyttust í ninjur í Hveragerði

Laugardaginn 2. mars síðastliðinn stóð Skátafélagið Strókur fyrir hinum árlega Drekaskátadegi þar sem um 160 skátar komu saman  til að efla skátaandann og samheldni. Drekaskátarnir hjá Stróki völdu að hafa Ninja þema og fengu því öll ninja grímur áður en haldið var í dagskrá.

Fálka- og Dróttskátar Stróks sáu um að skipuleggja og stýra dagskrá sem var ekki af verri endanum. Tvö dagskrárbil voru í boði, annarsvegar í Lystigarðinum þar sem boðið var upp á 7 leikjastöðvar með hinum ýmsu hópeflisleikjum, og hinsvegar 7 stöðva ratleik um Hveragerði þar sem skátarnir gengu eftir korti, leystu ninjaþrautir og höfðu gaman. Vinsælasti pósturinn var klárlega póstur númer 5 þar sem grillaðir voru sykurpúðar og ninjaskátasudoku leyst.

   

Í hádeginu voru borðaðar hvorki meira né minna en 380 pylsur og var gott fyrir skátana að komast aðeins inn að hlýja sér á milli dagskrárbila. Eftir að öll höfðu lokið dagskrá var komið saman fyrir utan Bungubrekku þar sem öll fengu ninjamerki fyrir þátttöku, kakó, kex og ís því auðvita borða Drekaskátar ís í -5 stiga frosti. Drekaskátadeginum var slitið með Bræðralagssöngnum og héldu skátarnir svo glaðir heim eftir vel heppnaðan dag.

Skátafélagið Strókur þakkar öllum sem tóku þátt og gerðu þennan dag mögulegan og hlakkar til að hitta öll í næsta skátaævintýri.

Fyrir hönd Skátafélagsins Stróks,
Sjöfn Ingvarsdóttir félagsforingi.


Mælitæki á áhrif æskulýðsstarfs á ungt fólk kynnt á ImpactYouth

Þann 22. febrúar sótti Védís Helgadóttir lokafund MIYO verkefnisins í Belgíu.

MIYO verkefnið (e. Measuring Impact: with, for and by youth organisations) er samstarfsverkefni WOSM, YMCA í Evrópu og Maynooth University og markmið þess er að búa til mælitæki til þess að mæla áhrif ýmissa ungmennahreyfinga, t.d. skátahreyfingarinnar, á ungt fólk.
Á fundinum var þetta mælitæki kynnt en það hefur verið í þróun síðastliðin tvö ár og nokkur bandalög hafa nú þegar tekið þátt í pilot-rannsóknum.

Það er mikilvægt fyrir skátahreyfinguna, og smærri einingar innan hennar, að geta sýnt með sannanlegum hætti hver áhrif starfs hennar er á skátana, t.d. hvaða færni skátarnir öðlast og hvað þeir læra.
Fyrst og fremst er það mikilvægt fyrir hreyfinguna sjálfa, til að vita á hvaða leið hún er, en það er líka mikilvægt að hreyfingin eigi þessi gögn til að geta sýnt almenningi hver áhrif skátastarfs eru, sem og til að kynna fyrir styrktaraðilum sínum.

 

Mælitækið er tvíþætt en miðað hefur verið við að þátttakendur í rannsókninni séu á aldrinum 14-18 ára.
Annars vegar byggist mælitækið á spurningalista og hins vegar á umræðum í rýnihópum. Þannig eiga rýnihóparnir að dýpka svörin úr spurningalistunum.
Spurningalistinn sem lagður er fyrir þátttakendur er tvíþættur; fyrri hlutinn inniheldur lýðfræðilegar spurningar þar sem er spurt um bakgrunnsupplýsingar skátanna, m.a. hve lengi þeir hafa verið starfandi.
Í seinni hlutanum eru fullyrðingar lagðar fyrir og þátttakendur beðnir um að meta á skalanum 1-10 hversu sammála þeir eru fullyrðingunum. Fullyrðingarnar koma alltaf tvær saman og tengjast þær innbyrðis.

Dæmi um fullyrðingapar:

  • Ég reyni að lifa heilsusamlegu lífi (næring, svefn, hreyfing)
  • Skátastarf hvetur mig til þess að lifa heilsusamlegu lífi

Þannig lýtur fullyrðing A meira að skátanum sjálfum en fullyrðingu B er ætlað að kanna hver bein áhrif af skátastarfinu sjálfu eru.
Þegar fullyrðingarnar fyrir spurningalistann voru samdar var stuðst við SPICES módelið sem WOSM þróaði og hefur hér heima verið kallað þroskasviðin 6 þannig að fullyrðingarnar tengjast allar einhverju þroskasviðanna.

Nokkur þátttökulönd í verkefninu, m.a. Svíar og Tékkar, sögðu á fundinum frá pilot-rannsóknum sem þau höfðu framkvæmt á meðan verið var að þróa mælitækið og það var verulega gagnlegt að heyra frá þeim hvernig mælitækið virkaði í praktík og hvaða hindrunum þau hefðu mætt og hvernig þau hefðu leyst úr þeim, og sömuleiðis var athyglisvert að heyra niðurstöðurnar þeirra sem voru um sumt svipaðar milli landanna.

Það var gaman að sjá hvað mikill metnaður hefur verið lagður í MIYO verkefnið en að því koma líka akademískir starfsmenn úr Maynooth University sem miðluðu á sérlega skýran máta fræðilegum atriðum varðandi mælitækið og sögðu m.a. frá því hvernig á að velja úrtak og hvernig best er að leiða umræður í rýnihóp.

Á fundinum var mælitækið formlega gefið út þannig að núna geta öll bandalög framkvæmt sínar eigin rannsóknir með notkun þess.
Á vefsíðunni impactofyouth.org eru góðar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í því og það verður spennandi að sjá niðurstöður úr frekari rannsóknum.

Eins og áður sagði snýr mælitækið sem nú hefur verið þróað að því hver áhrif skátastarfs eru á einstaklingana sem taka þátt í skátastarfinu.
Hópurinn sem annast hefur MIYO verkefnið ætlar ekki að láta þar við sitja því nú vonast hópurinn til að fá styrk til að geta þróað annað  mælitæki sem rannsakar áhrif skátastarfs á samfélagið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því enda verulega áhugaverð rannsóknarspurning.

Það var verulega gaman og athyglisvert að sitja þennan fund og heyra um þetta mikilvæga verkefni sem mikill metnaður hefur verið lagður í, og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

Texti: Védís Helgadóttir


Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna Skátaþings 2024

Sækja tilkynningu á pdf formi

Á Skátaþingi helgina 5.-7. apríl n.k. verður kosið í neðangreind embætti í samræmi við lög BÍS. Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þau embætti sem eru laus til kjörs, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess. Lýsingar á þeim embættum sem kosið er í má finna neðst í þessari tilkynningu.
Athygli skal vakin á eftirfarandi:

  • Kosið er í öll embætti annað hvert ár til tveggja ára.
  • Við kosningu í stjórn BÍS er kosið sérstaklega um skátahöfðingja og gjaldkera en fimm meðstjórnendur eru kjörnir í einni kosningu.
  • Kosið er í fjögur fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð og stjórn Skátaskólans.
  • Kosið er í ungmennaráð (16 - 25 ára) og áheyrnarfulltrúa ungmenna í stjórn BÍS á ungmennaþingi 2 - 4. febrúar. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með undirbúningi ungmennaþings, sækja þingið og bjóða sig fram.
  • Kosið er um fimm sæti í uppstillingarnefnd, þrjá félagslega skoðunarmenn og löggiltan endurskoðanda.
  • Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.
  • Stjórn hefur ákveðið fjölda fulltrúa í fastaráðum sbr 26. grein laga, sjá upptalningu að neðan.

EFTIRTALIN EMBÆTTI ERU LAUS TIL KJÖRS Á SKÁTAÞINGI

STJÓRN

Skátahöfðingi
Gjaldkeri
Fimm meðstjórnendur

FASTARÁÐ

Fjögur sæti í alþjóðaráði
Fjögur sæti í starfsráði
Fimm sæti í stjórn Skátaskólans
Þrjú sæti í útilífsráði

ANNAÐ

Fimm sæti í uppstillingarnefnd
Þrír félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

KJÖRIN Á UNGMENNAÞINGI

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi embætti óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 15. mars kl. 12:00.
Tilkynningar um framboð þurfa að berast í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar.
Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

UPPSTILLINGARNEFND SKIPA:

Berglind Lilja Björnsdóttir, form s. +45 50 18 13 25 berglind@skatarnir.is
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Jón Ingvar Bragason s. 699-3642 joningvarbragason@gmail.com
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir s. 661-6433 saedis@skatarnir.is

LÝSING EMBÆTTA

Hér eru skýringar um helstu verkefni sem þau embætti sinna sem kosið verður í á Skátaþingi. Athugið að þetta eru ekki tæmandi listar og verkefnin geta verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ennfremur starfa ráð oft saman að ýmsum verkefnum.

STJÓRN

Skátahöfðingi er formaður sjórnar BÍS og leiðtogi alls skátasarfs á landinu.

Gjaldkeri situr í stjórn BÍS. Hann ber m.a. ábyrgð á fjármálum BÍS og vinnur náið með framkvæmdastjóra hreyfingarinnar að stjórn þeirra, framkvæmd fjáraflana, vinnslu bókhalds, áætlanagerð o.þ.h.

Meðstjórnendur (5) sitja í stjórn BÍS sem skiptir með sér verkum og ber m.a. sameiginlega ábyrgð á starfi stjórnar, ráða og nefnda. Sitja eftir atvikum í fastaráðum samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Áheyrnarfulltrúi ungmenna hefur áheyrnarrétt í stjórn BÍS en ekki atkvæðisrétt. Kosið er í embættið á ungmennaþingi.

FASTARÁÐ OG FLEIRI EMBÆTTI

Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.

Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.

Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.

Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun eigin skátastarfs og hreyfingarinnar. Kosið er í ráðið á ungmennaþingi.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa í stjórn og fastaráð fyrir Bandalag íslenskra skáta. Við störf sín skal nefndin ávallt leita eftir sem hæfustum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.

Félagslegir skoðunarmenn reikninga Félagsleg skoðun reikninga BÍS og dótturfélaga er í höndum þriggja manna félagslegrar skoðunarnefndar sem Skátaþing kýs. Félagslegir skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir BÍS sem snerta fjármál. Þeir bera ábyrgð gagnvart Skátaþingi og skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi BÍS og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess.

Löggiltur endurskoðandi Reikningar BÍS og dótturfélaga skulu skoðaðir ár hvert af löggiltum endurskoðanda, kosnum af Skátaþingi.

 


Ógleymanlegt Gilwell-ævintýri í Slóveníu

Íslenski fararhópurinn. Frá vinstri: Elín (Fossbúum), Tero (Úlfljótsvatni), Steinar Logi (Kópum), Hinrik (Vogabúum), Sebastian (Klakki), Hjálmar (Kópum) og Thelma (Hraunbúum).

Síðustu helgina í febrúar fóru sex skátaforingjar frá Íslandi, og einn leiðbeinandi, til Postojna í Slóveníu til að taka þátt í seinni hluta Gilwell-námskeiðs. Ferðin var hin eftirminnilegasta í alla staði og á námskeiðinu fengu foringjarnir gott veganesti fyrir foringjastörf sín, og fyrir síðasta hluta þjálfunarinnar – Gilwell-verkefnið.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur hópur fer á Gilwell í Slóveníu, en um er að ræða fjölþjóðlegt námskeið sem styrkt er af Erasmus+, og hét fullu nafni International Wood Badge course - Bohinj 2023. Samhliða fjölþjóðlega námskeiðinu eru keyrð tvö önnur námskeið á sama tíma og undir sama hatti. Á þeim er lögð áhersla á dagskrármál annars vegar og stjórnun skátafélaga og viðburða hins vegar. Á alþjóðlega námskeiðinu er áherslan hins vegar á að foringinn læri að þekkja sjálfan sig – hver gildi hans eru og hvernig þau nýtast í leiðtogastörfum.

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í skátamiðstöð við Bohinj-vatn í ágúst á síðasta ári. Auk Íslendinga og Slóvena sóttu foringjar frá Svartfjallalandi og Serbíu námskeiðið líka. Gilwell-námskeið eru alltaf mikil upplifun, en að sitja slíkt námskeið í suður-evrópskri náttúruperlu og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast vel skátaforingjum með allt annan bakgrunn, það er ævintýri líkast!

 

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í Bohinj í ágúst sl. Hér má sjá Tero og Sebastian vinna verkefni með flokknum sínum, úti í skógi.

Hópurinn flaug út á fimmtudegi. Eftir stutt næturstopp í höfuðborginni Ljubljana var farið með lest til Postojna-borgar, sem er hvað frægust fyrir samnefndan helli sem er alls um 23 km langur og fullur af dropsteinum. Fyrir námskeiðið gafst hópnum tími til að fara í skoðunarferð um hellinn, sem var sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Íslensku þátttakendurnir fóru að sjálfsögðu í Postojna-helli, sem er ævintýraheimur út af fyrir sig.

Á námskeiðinu sjálfu var að þessu sinni kafað dýpra ofan í verkefnastjórnun, fullorðna í skátastarfi, leiðtogahlutverkið, sögu Gilwell-námskeiða og fleira. Auk þess var sérstök vinnustofa þar sem þátttakendur reyndu að festa hönd á því hvað þeir höfðu lært á fyrri hluta námskeiðsins. Það getur nefnilega verið auðveldara að átta sig á slíku þegar smá tími hefur liðið og reynsla er komin á að nýta fróðleikinn af námskeiðinu.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram í hosteli sem er líka menntaskóli fyrir verðandi skógfræðinga.

Eftir slit á sunnudegi beið svo leigubíll eftir hópnum. Leiðin lá í Predjama kastala, sem er steinsnar frá Postojna. Kastalans er fyrst getið í heimildum árið 1274, en hann er byggður að hluta inni í kletti. Eftir stutta en mjög áhugaverða heimsókn til miðalda lá leiðin aftur til Ljubljana og beint upp í flugvél.

Ferðin endaði svo á heimsókn í Predjama-kastala. Þetta væri nú ágætis skátaheimili!

Við tekur vinna við Gilwell-verkefnin, en hver þátttakandi þarf að klára verkefni sem reynir á verkefnastjórnunar- og leiðtogahæfileika viðkomandi. Verkefnin eru fjölbreytt, allt frá því að skipuleggja útilegu fyrir dróttskáta í tveimur félögum, yfir í viðamiklar rannsóknir eða bókaútgáfu.

Fyrir hvern og einn þátttakanda er ferð eins og þessi ógleymanlegt ævintýri. Fyrir utan það sem hægt er að læra á svona námskeiði fara skátaforingjarnir heim af því með nýja vini frá öðrum heimshornum. Slík vinátta getur enst alla ævi og býður upp á alls konar samstarf, skoðanaskipti, ferðalög og fleira. Þetta vita allir skátar sem hafa ferðast. Balkanlöndin kunna að virðast óralangt frá Íslandi, bæði menningarlega og landafræðilega, en eftir stutt kynni kemur auðvitað í ljós að fólk er meira og minna eins alls staðar. Við borðum morgunmat á morgnanna og kvöldmat á kvöldin.

Fyrir hreyfinguna sjálfa er svo dýrmætt að foringjar sækji sér þjálfun og reynslu sem víðast. Það auðgar flóruna heima við og kemur í veg fyrir stöðnun og fábreytni. Áherslurnar á þessu námskeiði eru enda býsna frábrugðnar þeim á íslenska námskeiðinu, þó svo að unnið sé að sama markmiði. Þess háttar fjölbreytni styrkir hreyfinguna og meðlmi hennar.

Það ætti því að vera keppikefli fyrir skátafélög og -bandalög að senda foringja sína vítt og breytt um heiminn. Þátttaka í Slóveníu-Gilwelli er einmitt ein birtingarmynd þeirrar stefnu.

Í ágúst byrjar nýtt námskeið, sem Íslendingar taka ekki þátt í, en þess í stað fara íslenskir þátttakendur á norrænt Gilwell-námskeið. Það verður spennandi að sjá hvað þau læra þar!


Nýr framkvæmdastjóri Grænna skáta

Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grænna skáta. Jón Ingvar tekur við af Kristni Ólafssyni sem óskaði eftir starfslokum þar sem hann tekur sér nýtt starf fyrir hendur á sumarmánuðum. Nýr framkvæmdastjóri mun byrja með vorinu eftir nánara samkomulagi. Grænir skátar þakka Kristni kærlega fyrir vel unnin störf í uppbyggingu félagsins undanfarin ár.
Stjórn Grænna skáta hóf ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun janúar og var starfið auglýst í aldreifingu prentmiðla, á vefsíðu, Alfreð og samskiptamiðlum sem skátahreyfingin notar. Viðtöl við umsækjendur fóru fram í febrúar.
Jón Ingvar er viðskiptafræðingur og hefur verið skáti frá unga aldri. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem rekstrarstjóri Heimaleigu sem er með um 400 íbúðir í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Jón Ingvar hefur unnið í fjölbreyttum störfum innan skátahreyfingarinnar lengst af sem viðburðastjóri, var framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017 sem haldið var á Íslandi.
Um Græna skáta
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi. Fjölmörg skátafélög nýta jafnframt Græna skáta til fjáröflunar.


Privacy Preference Center