Nýtt ungmennaráð kosið á ungmennaþingi

Ungmennaþing var haldið fyrstu helgina í febrúar á Akranesi þar sem kosið var í ungmennaráð Bandalag íslenskra skáta.  Fimm sæti voru laus til kjörs í ungmennaráði auk þess sem kosið var í stöðu sérstaks áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS. Þau ungmenni sem voru kosin í embætti og myndi því nýtt ungmennaráð eru:

  • Annika Daníelsdóttir Schnell - Skátafélagið Akraness
  • Grímur Chunkuo Ólafsson - Skátafélagið Fossbúar
  • Hafdís Rún Sveinsdóttir - Skátafélagið Fossbúar
  • Lára Marheiður Karlsdóttir - Skátafélagið Fossbúar - Áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS.
  • Þorkell Grímur Jónsson - Skátafélagið Garðbúar

Nýja ungmennaráðið hefur þegar hafið störf og héldu þau fyrsta ungmennaráðsfundinn strax í vikunni eftir ungmennaþing ásamt fráfarandi meðlimum sem munu vera nýja ráðinu innan handar fyrst um sinn.

Við óskum nýju ungmennaráði innilega til hamingju með kjörið og óskum þeim velfarnaðar í nýju hlutverki.


Skátaævintýri á Útilífsnámskeiði

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn stóðu Skíðasamband skáta og skátafélagið Klakkur fyrir Útilífsnámskeiði í Eyjafirði fyrir drótt- og rekkaskáta.

Námskeiðið er haldið árlega og að þessu sinni voru 20 þátttakendur á námskeiðinu, 11 skátar frá Klakki og 9 skátar af höfuðborgarsvæðinu ásamt foringjum.

Hópurinn að sunnan lagði af stað með rútu frá Skátamiðstöðinni í hádeginu föstudaginn 9. febrúar og voru mætt í Valhöll tilbúin í verkefni helgarinnar þegar námskeiðið var sett klukkan 18.

Markmið námskeiðsins er að vera hvatning til skátanna að stunda útivist að vetri til og kenna þeim hvernig best er að undirbúa sig fyrir slík ævintýri.

Til þess fá þau fræðslu um ýmislegt sem nauðsynlegt er að vita, meðal annars um viðeigandi klæðnað og búnað ásamt því að þjálfast í rötun og á gönguskíðum.

Að auki gerðu þátttakendur eldhús úr snjónum, sem nóg var af, en þar elduðu þau og borðuðu flestar máltíðir á meðan námskeiðinu stóð.

Einnig tjölduðu þau í snjónum og létu kuldan ekki á sig fá þegar þau gistu í tjöldunum seinni nóttina.

Það voru sáttir skátar sem héldu heim á sunnudegi.

 

 

 

 


Framkvæmdastjóri & Skátahöfðingi sóttu fund í Gilwell park

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn sóttu Ragnar og Harpa fund skátahöfðingja og framkvæmdastjóra Evrópu í Gilwell Park á vegum Evrópustjórnar WOSM. Yfirskrift fundarins var sjálfbærni í skátastarfi og voru vinnulotur og fundir helgarinnar tileinkaðar því mest alla helgina. Í Gilwell park er góð aðstaða fyrir samkomur af þessu tagi, mörg skemmtileg og óhefðbundin rými í boði og hópurinn gisti í hefðbundnum skátaskálum á svæðinu. Fundinn sóttu yfir 50 fulltrúar 26 Evrópulanda auk fulltrúa Evrópustjórnar WOSM.

Fundir helgarinnar voru samkeyrðir að nokkru leiti á milli skátahöfðingja og framkvæmdastjóra en einnig voru vinnustofur sértaklega tileinkaðar öðrum hvorum hópnum. Það er frábært tækifæri að fá að mæta á fund þar sem aðrir einstaklingar sem sinna sömu stöðu í öðrum bandalögum ná að hittast og kynnast, deila hugmyndum og fá speglun á vandamál þvert á menningu og landsvæði.

Meðal fyrirlestra og vinnusmiðja voru
· Innleiðing sjálfbærnihugsjónar í skátastarf
· Seigla bandalaga
· Gagnadrivin ákvarðanataka
· Geðræn heils
· Sjálfbærni í rekstri
· Skautun í þjóðfélögum í Evrópu
· Gegnsæji í stjórnun bandalaga
· Þátttaka ungmenna í stjórnun bandalaga

Umræður um stefnumótun lituðu stóran hluta föstudags og laugardags og komu þá fram að mikilvægustu þættir flestra bandalaga voru vöxtur, dagskrármál, fjárhagslegur stöðugleiki, efling sjálfboðaliða og sjálfbærni.

 

Það var góð tilfinning og heilmikil upplifun að funda og ræða við alþjóðlega kollega á stað sem hefur mikla þýðingu fyrir upphaf skátastarfs í heiminum. Ekki skemmdi fyrir að við fengum að sjá Kúdúhornið fræga og silfurúlf BP sjálfs. Samkoman skilaði okkur miklum innblæstri og nýjum hugmyndum, auk þess var gott að fá staðfestingu að íslenskt skátastarf er á góðri leið í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að sameiginlegar áskoranir skátastarfs í Evrópu, hvort sem þátttakendafjöldi landsins sé 1000 eða 100.000. Frábær og vel skipulögð helgi að baki þar sem skátahöfðingi og framkvæmdastjóri koma til baka innblásin og betur tengdari en fyrir fund.

 

 


Privacy Preference Center