Fálkaskátaforingjar köfuðu ofan í könnuðarmerkjabók

Hringborð fálkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudaginn 19. september en hringborðin eru vettvangur fyrir sjálfboðaliða um land allt í samskonar hlutverkum að kynnast innbyrðis, ræða sín á milli þær áskoranir sem þau mæta í sínu starfi og deila á milli sín lausnum og góðum aðferðum.
19 skátaforingjar fálkaskáta úr 10 skátafélögum, þar af 3 sem tóku virkan þátt úr 2 skátafélögum utan af landi, mættu að hringborðinu og fór fram skemmtileg umræða um hin ýmsu málefni. Mestum tíma var varið í umræður um nýju könnuðarmerkin sem ætluð eru elstu fálkaskátunum, hvaða kröfur liggja að baki merkinu og hvernig sé best að leiðbeina hópi fálkaskáta á sinni vegferð að því. Þá sköpuðust afar gagnlegar umræður um praktísk atriði á hlið skátaforingjanna. Þá var einnig rætt um nýju stiku- og hæðarmerkin sem ætlað eru að styðja við aukna útivist í skátastarfi meðal yngri aldursbilanna jafnt sem þeirra eldri. Þau eru svo ný af nálinni að skátaforingjar hafa enn ekki fengið tækifæri til að nýta þau en ljóst var að mikil ánægja var með að svona merki væru komin og öll hyggðust nýta þau á komandi ári.
Kvöldið var líka nýtt til kynninga en Skátaskólinn kynnti tilboð til félaga um að koma með Fálkakraft dagskránna á vettvang félaganna og svo voru öll minnt á fálkaskátadaginn í nóvember og hvött til að fjölmenna.
Í opnum umræðum var rætt um mikilvægi þess að fara í útilegur og ferðir með fálkaskáta en ánægjulegt var að heyra að þau mál voru í lagi hjá öllum sveitum við hringborðið sem sum eru á leið í fystu útilegu ársins um komandi helgi. Flokkakerfið fékk sinn sess og hve gagnlegt sú umgjörð væri til að reka gott fálkaskátastarf, margir foringjar eru í fyrsta sinn að afla sér reynslu í að stýra slíku starfi og önnur á fundinum sem nota það ekki virtust sannfærast um að láta á það reyna líka í sínum sveitum sem lausn við vissum áskorunum í starfinu. Rætt var um mikilvægi þess að setja sér starfsáætlun sem væri síðan miðlað áfram til forráðafólks svo að skátaforingjar, skátarnir og forráðafólk þeirra væru öll með sömu væntingar til starfsins. Í lokin fengu foringjunum lampa með anda sem veitti þeim eina ósk um stuðningsefni sem myndi gagnast þeim í starfi og komu allskonar spennandi hugmyndir fram sem spennandi verður að skoða betur.
Hringborðin virðast sannarlega hafa markað sér sess en þetta er annað árið sem þessum vettvangi er haldið úti og því ánægjulegt að þau reynist eins fjölmenn og lífleg og raun ber vitni.
Næst er það hringborð dróttskátaforingja sunnudaginn 24. september og verður spennandi að sjá hvað kemur úr því.
Vel sótt foringjanámskeið í Búðardal

Helgina 1.-3. september stóð Leiðbeinendasveitin fyrir foringjanámskeiði í Búðardal en námskeiðið sóttu á fjórða tug sveitar- og aðstoðarsveitarforingja úr ýmsum skátafélögum.
Þema námskeiðsins var “Sjáðu tindinn” og alla helgina voru þátttakendur á leiðinni á tindinn; að sjálfu foringjahlutverkinu. Af nógu var að taka og í gegnum lausnaleitaræfingar, fyrirlestra, umræðuhópa og leiki lærðu foringjarnir um hlutverk skátaforingja, ólíka leiðtogastíla, skátaaðferðina, flokkakerfið, dagskrárrammann, markmiðaflokkana, PGM, ÆSKA, hvatakerfið og vígslugrunninn. Þá lærðu foringjarnir um hegðun barna, öryggi í skátastarfi, Æskulýðsvettvanginn og viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þátttakendur störfuðu í flokkum á námskeiðinu og á hverjum degi námskeiðsins var haldinn sveitarráðsfundur þar sem flokks- og aðstoðarflokksforingjar hittust og komu á framfæri skilaboðum frá sínum flokkum.
Þá má ekki gleymast að söng- og leiklistarhæfileikar þátttakenda fengu heldur betur að njóta sín á námskeiðinu, því á laugardagskvöldinu var haldin kröftug kvöldvaka með framúrskarandi skemmtiatriðum frá öllum flokkum, svo að eftir var tekið!
Afar fjölbreyttur hópur foringja sótti námskeiðið; þau voru ýmist að stíga sín fyrstu skref sem skátaforingjar eða búin að starfa í lengri tíma, enda er mikilvægt og gott fyrir foringja að sækja sér þjálfun og fræðslu reglulega, sérstaklega núna þegar ýmis ný tól hafa bæst í verkfærakistu foringa: könnuðamerkin, hæða- og stikumerkin og markmiðaflokkarnir, svo fátt eitt sé nefnt.
Á námskeiðinu öllu spunnust sérlega góðar umræður um allt það er viðkemur foringjastarfinu og foringjarnir skiptust á reynslusögum og hugmyndum og veittu hver öðrum innblástur. Eftir göngu helgarinnar á tindinn héldu skátaforingjarnir heim á leið með gott veganesti í farteskinu, tilbúnir fyrir foringjastörf starfsársins!
Fjölmennt á fyrsta hringborði haustsins

Fjölmennt var á fyrsta hringborði haustsins sem að þessu sinni var fyrir skátaforingja drekaskáta en 15 skátaforingjar frá 8 skátafélögum mættu auk 1 fulltrúa starfsráðs BÍS og erindreka BÍS.
Á hringborðinu var kynning á nýju verkefnabókinni fyrir könnuðarmerki drekaskáta, hvernig ætti að fara að því að stýra elstu drekaskátunum í vinnu að merkjunum og fengu skátaforingjarnir líka að skoða ofnu merkin sem eru komin í Skátabúðina. Síðan var líka talað um hvernig gott væri að nýta nýju stiku- og hæðarmerkin til að hvetja til aukinnar útivistar í drekaskátunum.
Skátaforingi drekaskáta í Hraunbúum var svo með kynningu á starfinu þar á bæ en starfið hefur verið vel sótt undanfarið auk þess að vera sýnilegt. Þá hafa drekaskátar Hraunbúa fjölmennt á flesta viðburði sem hafa staðið þeim til boða.
Að lokum var umræðan gefin laus og var m.a. rætt um hvernig hátt félög hafa á því að bjóða nýja skáta velkomna á fyrstu fundum ársins, góð ráð þegar kemur að skipulagi og hugmyndavinnu vegna skátafunda. Þá var mikil og góð umræða um hvort félög hyggðust fara bæði á landsmót og drekaskátamót eða eingöngu á drekaskátamótið. Í lokin sögðu gestgjafar drekaskátadagsins 2024 hvers mætti vænta í umgjörð og skipulagi þar.
Hægt er að nálgast frekari útlistun á umræðum hér.
Pax Lodge - London

Pax Lodge er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í London. Pax Lodge er í senn farfuglaheimili, þjálfunar- og ráðstefnustaður með skátaandann í fyrirrúmi.
Hægt er að gerast sjálfboðaliði hjá Pax Lodge en þau bjóða upp á 3-6 mánaða leiðtogaupplifun frá 18 ára aldri, þar sem þú býrð á svæðinu og sinnir sjálfboðastörfum sem efla leiðtogahæfni þína. Á þessum tíma muntu efla sjálfstraustið þitt, læra nýja hluti, fá aðra sýn á heiminn og verða hvetjandi leiðtogi.
Ef þú ert að leita að spennandi ævintýrum og langar að fara út í heim að vinna, gerast sjálfboðaliði eða bara hafa gaman þá ættir þú að kíkja á heimasíðuna hjá Pax Lodge í London.
Our Chalet - Svissnesku Alparnir

Our Chalet er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í Alpaþorpinu Adelboden í Sviss.
Svæðið samanstendur af nokkrum skálum með mismunandi magni af svefnplássum og þægindum. Hægt er að gista í rúmum og vera í fullu fæði en einnig er hægt að gista í minni skálum á dýnum og koma með eigin mat, allt eftir því hversu mikið fjármagn hópurinn hefur á milli sín. Það eru mismunandi dagskrár möguleikar eftir því hvenær á árinu staðurinn er heimsóttur og það eru mismunandi erfiðleikastig í boði.
Einnig er hægt að sækja um sem tímabundin sjálfboðaliði frá 2 vikum í allt að 6 mánuði við 18 ára aldur. Það er bæði hægt að sækja um ákveðnar stöður en einnig sem almennur sjálfboðaliði þar sem viðkomandi fær tækifæri til þess að takast á við ýmis verkefni tengd rekstri og dagskrá. Öllum kynjum óháð búsetu er velkomið að sækja um stöður í Our Chalet. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Our Chalet.
KISC - Sviss

Alþjóðlega skátamiðstöðin í Kandersteg, í Sviss, var stofnuð af Baden Powell með það að markmiði að allt árið um kring væri í boði að taka þátt í skátastarfi. Skátamiðstöðin hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er í dag frábært tækifæri fyrir skáta að prófa að vinna í skátamiðstöð sem sjálfboðaliði.
Í KISC er hægt að sækja um að vera “Pinkie” en það eru þriggja mánaða sjálfboðaliðastarf sem eru í boði fyrir allar árstíðir. Þau verkefni sem Pinkies taka að sér eru fjölbreytt, skemmtileg og lærdómsík. Þar má nefna útivistatengda dagskrá, kvöldvökur, þrif og matreiðsla og vinna á tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt. En hér má finna nánari upplýsingar um KISC.
Vegna heimildarmyndar Netflix um Boy Scouts of America (BSA)
BÍS (Bandalag íslenskra skáta) fordæmir viðbrögð stjórnenda BSA og allan málarekstur þess í tengslum við þau brot sem myndin fjallar um.
BÍS vill einnig árétta að þrátt fyrir að þau séu samstarfsaðilar BSA í alheimsbandalagi skáta (WOSM) þá er laga- og regluverk bandalaganna gjörólík auk þess sem sögur þeirra, hefðir og gildi séu ekki þau sömu.
Það að tryggja öryggi barna og ungmenna í skátastarfi er eitt allra mikilvægasta hlutverk BÍS. Skýrir verkferlar eru til staðar til að fjalla um öll þau mál sem upp koma og eru þau afgreidd á faglegan hátt. Þessir verkferlar eru unnir í samstarfi Æskulýðsvettvangsins, sem er samstarfsvettvangur BÍS, KFUM/K, Landsbjargar, og UMFÍ um hagsmunamál barna og ungmenna, og Ráðuneytis barnamála, sem hefur sérstakan samskiptaráðgjafa til að aðstoða í öllum málum sem upp kunna að koma og er þeim vísað í réttan farveg og til þar til bærra yfirvalda eftir atvikum. Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins starfa eftir siðareglum sem aðildafélög hans hafa sett sér og öll mál afgreidd skv. sérstakri viðbragðsáætlun.
BÍS vill einnig koma á framfæri að hægt er að tilkynna öll mál sem upp kunna að koma í æskulýðs- og íþróttastarfi á vef samskiptaráðgjafa.
Nánari upplýsingar um málið í heild veitir stjórn BÍS og framkvæmdastjóri.






