Flakk og flandur - Útivistaráskorun skáta
Flakk og flandur
Útivistaráskorun skáta sumarið 2020
Sumarið 2020 verður útivistar- og ferðasumarið mikla! Þar sem ekki er mikið um utanlandsferðir í sumar er kjörið að nýta tækifærið og eyða tíma úti í náttúrunni okkar og prófa nýja hluti. Ungmennaráð Bís setti saman áskorun sem er beint að rekka- og róverskátum en öllum er velkomið að taka þátt. Til að taka þátt þarf að framkvæma áskorun, taka mynd og setja á samfélagsmiðla með myllumerkjunum #flakkogflandur og #skátarnir eða senda myndirnar á netfangið ungmennarad@skatar.is ef þið viljið ekki birta þær á netinu. Áskoranirnar eru miserfiðar og miserfitt að ná fullkláruðu verkefni á mynd en hér ætti að vera eitthvað fyrir alla og við treystum á að allir sýni heiðarleika við að klára einstakar áskoranir og senda þær inn. Allir sem klára a.m.k. fimm áskoranir fá þátttökuverðlaun og þau sem klára þær allar fá sérstaka viðurkenningu.


Gunni Atla er farinn heim
Kveðja frá skátahreyfingunni
Gunnar Atlason er farinn heim. Gunnar var sannur skáti, hann lét gott af sér leiða, var jákvæður með eindæmum, hjálpsamur og lífsglaður. Gunnar var átta ára gamall þegar skátaheimili Dalbúa opnaði fyrir aftan heimili hans og hann ákvað að byrja í skátunum. Hann sagði sjálfur að þar hafi hann kynnst skemmtilegum krökkum, og síðan þá haldið áfram að kynnast skemmtilegu fólki í skátastarfinu. Án efa hafði það áhrif á fólkið sem hann hitti að Gunnar var sjálfur mjög skemmtilegur maður. Um tíma leiddi Gunnar skátastarfið í Mosfellsbæ með eftirtektarverðum árangri og nú undanfarin ár var Gunnar forstöðumaður Fræðaseturs skáta og mun hans ötula og óeigingjarna starf fyrir Fræðasetrið verða minnst um ókomin ár. Á sama tíma og Gunnar vann að varðveislu og kynningu á sögu skátahreyfingarinnar á Íslandi, hvatti hann til nútímalegrar hugsunar í skátastarfi og hvatti fólk á öllum aldri til dáða og treysti þeim til góðra verka.
Þú ert skáti horfinn heim,
himinn, jörð, ber sorgarkeim.
Vinar saknar vinafjöld,
varðar þökkin ævikvöld.
Sérhver hefur minning mál,
við munum tjöld og varðeldsbál,
bjartan hug og brosin þín,
þau bera ljósið inn til mín.
Kveðjustundin helg og hlý,
hugum okkar ríkir í.
Skátaminning, skátaspor,
skilja eftir sól og vor.
H.Z.
Skátahreyfingin sendir ástvinum Gunnars og skátasystkinum einlægar samúðarkveðjur og minnist hans með miklu þakklæti.
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
Þeim sem vilja minnast Gunna bendum við á styrktarsíðu Skátasafnsins.
17. júní - Hæ hó jibbí jei
Hæ hó jibbí jei það er kominn 17.júní!
Á morgun er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Í ár verða hátíðarhöldin þó með breyttu sniði en venjulega þar sem ekki er mælt með því að stór fjöldi safnist saman. Eru fjölskyldur hvattar til að halda hátíð heima, skreyta heimilin sín og nærumhverfið og fagna með sínum nánustu.
Skátar eru oft sýnilegir í hátíðarhöldum og er ekki mikil breyting í ár. Hægt verður að finna hressa skáta um allt land að bralla ýmislegt skemmtilegt! Við mælum með að þið kynnið ykkur dagskrána betur en hér er stiklað á stóru hvað skátafélögin eru að gera.

Klakkur á Akureyri sér um fánahyllingu, skrúðgöngu og einnig ætla þau að vera með tívolí þar sem hægt verður að prófa risatafl, frisbígolf og fleira skemmtilegt! Frekari upplýsingar hér.
Garðbúar í Bústaðarhverfi ætla að bjóða upp á hoppukastala fyrir framan skátaheimilið sitt. Frekari upplýsingar hér.
Fossbúar á Selfossi ætla að vera með ratleik um Selfoss Frekari upplýsingar hér.
Mosverjar í Mosfellsbæ bjóða upp á fjölskylduratleik um MosfellsbæS þar sem spennandi þrautir verða út um allt. Frekari upplýsingar hér.
Vífill í Garðabæ verður með Kanósiglingar við Ylströndina í Sjálandi og ratleik sem leiðir þátttakendur um bæinn. Auk þess munu þau standa heiðursvörð í Vídalínskirkju og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur. Frekari upplýsingar hér.
Svanir á Álftanesi munu standa heiðursvörð í Safnaðarheimili Bessastaðasóknar og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur í Álftanesi. Frekari upplýsingar hér.
Faxi í Vestmannaeyjum leiðir skrúðgöngu frá íþróttamiðstöðinni. Frekari upplýsingar hér.
Strókur í Hveragerði mun taka þátt í skrúðgöngu og sjá um skemmtilegan ratleik fyrir fjölskylduna. Frekari upplýsingar hér.
Stígandi í Dalabyggð verður með candy floss til sölu, eldstæði og pylsur á pinnum á túninu bakvið stjórnsýsluhúsið. Frekari upplýsingar hér.
Heiðabúar í Reykjanesbæ verða með skrúðgöngu, draga stærsta íslenska fánann að húni, leiða fjallkonuna og sjá um fánahyllingu fyrir fjallkonuna. Frekari upplýsingar hér.
Skátar úr Reykjavík standa heiðursvakt í morgunathöfninni á Austurvelli. Frekari upplýsingar hér.
Vinalegt á Úlfljótsvatni
Það var vinamargt á Úlfljótsvatni um helgina, en auk tjaldgesta, þátttakenda í Frisbýgolfmóti og annarra sem leið áttu um, tóku 30 ungir skátar þátt í hópefli og örnámskeiði. „Við skipulögðum þessa helgi til að ná til yngri skátaforingja sem geta lagt Úlfljótsvatni lið,“ segir Pani, en hann heitir fullu nafni Javier Paniagua og er dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni.
Markmiðið var að stækka hópinn sem getur kallað sig Vini Úlfljótsvatns, en það er fjöldi skáta með hlýjar tilfinningar til Úlfljótsvatns og starfseminnar þar. Pani og Jakob Guðnason, forstöðumaður á Úlfljótsvatni eru ánægðir og þakklátir fyrir góða þátttöku. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Jakob. „Við viljum stækka hópinn sem finnst hann eigi heima hérna,“ segir Jakob. „Þetta er ekki og má ekki vera lokaður hópur, hvort sem við köllum hann Vini Úlfljótsvatns eða heimalinga. Það eru allir velkomnir“. Þeir sem komust ekki um helgina geta haft samband við Pani og Jakob, sem koma nýju fólki inn í hópinn.
Gagnast í félagsútilegunni í sumar
Auður Eygló úr skátafélaginu Landnemum var ánægð með helgina. Við hittum hana við klifurturninn og þó hún sé vön sem skátaforingi að leiða krakka í skátastarfi lærði hún margt gagnlegt.
Landnemar halda félagsútilegu á Úlfljótsvatni í sumar. „Það verður frábært að nýta sér þessa kunnáttu til að geta hjálpað þeim og vera með dagskrána,“ segir Auður Eygló.



