Rifist um rækjusamlokur

Atrenna

Rifist um rækjusamlokur

Undirbúningshelgi reykvískra sveitarforingja fór fram í Landnemaheimilinu um helgina, þar sem sveitarforingjar komu saman og skipulögðu komandi starfsvetur. Markmiðið með helginni var að þétta foringjahópinn, undirbúa næstu önn og bjóða um leið upp á leiðtogaþjálfun fyrir okkar öfluga fólk. Foringjahópurinn var fjölbreyttur, en foringjar frá nánast öllum félögum mættu. Þarna voru í bland reynslumiklir sveitarforingjar sem eru að fara að stýra sömu sveit og síðasta starfsár, nýir foringjar með nýjar sveitir og í það minnsta einn reynslubolti sem er að fara að stýra skátasveit eftir 20 ára hlé frá sveitarforingjastörfum!

Engir langdregnir fyrirlestrar

Viðfangsefnin voru fjölbreytt, en lögð var áhersla á raunverulega skipulagningu næsta vetrar, séreinkenni aldursbila, samskipti og samstarf, auk hinna sívinsælu þroskasviða, sem allir skátar elska að kjammsa á. Ragnheiður Silja, fálkaskátaforingi í Garðbúum, var afar ánægð með helgina: „Mér fannst mjög gott að fá tíma til að undirbúa sveitaráætlun og geta spurt út í hana um leið.“ Henni fannst sérstaklega frábært hvernig viðfangsefnunum var miðlað á fjölbreyttan hátt: „Við fórum í lýðræðisleik og umræðuhóp og vorum alltaf að gera eitthvað sjálf, en vorum ekki að hlusta á fyrirlestra allan daginn.“ Hún bætir við að ekki hafi félagsskapurinn verið af verri endanum.

Flóttarými til fræðslu

Sá dagskrárliður sem vakti hvað mesta kátínu var nýung í skátastarfi: Flóttarýmið - fangi Ingólfs. Fræðsluflóttarými, eða Educational Escape Room, er kennsluaðferð sem hefur verið í þróun í æskulýðsstarfi undanfarin ár. Fræðsluflóttarými eru eins og önnur Escape Room að því leyti að þau ganga út á að leysa þrautir til þess að komast út úr lokuðu rými eða ná sameiginlegu markmiði, en í fræðsluflóttarýmum er fræðslunni fléttað saman við þrautirnar og svo ítarleg ígrundun tekin eftir reynsluna til þess að ná yfir upplifunina og heimfæra lærdóminn yfir á skátastarfið. Flóttarýmið þótti ekki gefa atvinnuflóttarýmum neitt eftir og varð einum skátanum það að orði að þetta væri erfiðasta flóttarými sem viðkomandi hefði tekið þátt í.

Lýðræði í landnámsþema

Til þess að kynnast betur lýðræðisleikjunum fengu þátttakendur að kjósa um hvað yrði í hádegismat. Kosningin fór fram í gegnum lýðræðisleik í landnámsstíl, þannig að hver flokkur hafði ákveðið mörg kýrgildi á milli handanna og gat valið að verja þeim í mismunandi möguleika. Rækjusamlokur háðu grimma baráttu við samlokur frá Subway, en að lokum hafði alþjóðlega bátakeðjan vinninginn. Gengur betur næst, Benni.
Atrenna 2019


Skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni

Á mynd; Huldar Hlynsson

Sex vaskir skátar hlupu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka síðastliðinn laugardag og stóðu sig með prýði. Þau söfnuðu áheitum til styrktar margra góðra málefna og safnaði hópurinn samtals 180.000 krónum.

Hópurinn hljóp til styrktar UNICEF en einstaklingar í hópnum söfnuðu einnig áheitum fyrir Ljósið, Neistann, MND félagið, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og ABC barnahjálp.

Á mynd frá vinstri; Ásdís Erla og Gréta Björg
Við óskum þessum köppum innilega til hamingju með árangurinn og erum ótrúlega stolt af því að hafa svona gott fólk í okkar röðum.
Smellið hér til þess að sjá nánari upplýsingar um hlauparana og málefnin sem þau styrktu með framlagi sínu.
Á mynd frá vinstri; Kristófer Helgi, Védís Helgadóttir og Sigurður Viktor

 


Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Skátanna

Skátarnir efndu til ljósmyndasamkeppni á Instagram í ágúst. Viðfangsefnið var "Skátamót erlendis". Fjölmargar flottar myndir bárust og þrjár fengu verðlaun.

Ísold Vala
Ísold Vala birti þessa flottu mynd af hópi skáta úr sveitinni Sleipni á gangi á Jamboree

Þær  Hildur Bragadóttir, Ísold Vala og Ragnheiður Silja birtu þær myndir á instagram sem ritstjórn vef- og samfélagsmiðla Skátanna tilnefndu til sigurs og fá nýjan BÍS bol að launum.

Þær vissu ekki allar af keppninni eða að þær væru að taka þátt í henni en voru þó allar hæstánægðar með verðlaunin.

Raghneiður Silja
Ragnheiður birti þessa skemmtilegu mynd af skátum í háloftaþrautabrautinni á Jamboree

Myllumerkið Skátanna er #skatarnir og við hvetjum alla til að deila skemmtilegum myndum úr skátastarfi á samfélagsmiðlum með því myllumerki og hver veit nema að þú vinnir óvart ljósmyndakeppni!

Hildur Bragad.
Hildur Bragadóttir birti þessa mynd af íslenskum IST liðum í klifri á Jamboree

Skátarnir taka þátt í Gleðigöngunni!

Skátarnir taka þátt í Gleðigöngu Hinsegindaga í ár líkt og við höfum gert frá árinu 2014. Verkefnið hefur frá upphafi verið að frumkvæði einstaklinga úr röðum skátanna og stutt af landssamtökum skátanna. Það er alltaf mikil stemming og gleði yfir undirbúningi og framkvæmd hjá skátunum í tengslum við gönguna.

Í grunngildum BÍS stendur „Skátahreyfingin er opin fyrir alla sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda.“
Þátttaka okkar í gleðigöngunni er til að undirstrika þessa stefnu og í von um að allir upplifi sig velkomna í skátastarfi.

Þema skátavagnsins í ár er ‚Rataðu út‘. Oft hefur það reynst mörgu hinsegin fólki erfitt að komast út úr skápnum og opinbera hinseginleika sinn fyrir fjölskyldu, vinum eða almenningi. Skátarnir vilja veita ungu fólki þann vettvang og stuðning sem það þarf til að finna sjálft sig.  Í skátunum eru það meðmæli að vera öðruvísi og fjölbreytileikinn upphafinn í allri sinni mynd.

Gangan í ár hefst klukkan 14:00, laugardaginn 17. ágúst og gengið er frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg og endað á Sóleyjargötu við Hljómskálagarðinn þar sem taka við glæsilegir útitónleikar að göngu lokinni.

Við hlökkum mikið til að taka þátt og vonumst til þess að hitta sem flesta skáta niðri í bæ á laugardaginn að fagna fjölbreytileikanum með okkur!


Privacy Preference Center