Skátafundir grunnskólabarna geta hafist á ný

18/11/2020

Í dag, 18. nóvember, taka nýjar reglur um æskulýðsstarf gildi. Þær heimila að skátafundir hefjist á ný hjá dreka-, fálka- og dróttskátum. Skátafélög skulu hátta skátastarfi samkvæmt þessum leiðbeiningum.

Þátttakendur:

  • Drekaskátar mega vera 50 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
  • Fálkaskátar mega vera 25 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
  • Dróttskátar mega vera 25 saman á skátafundi og ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð milli þeirra.
  • Á skátafundum allra þriggja aldursbila þarf ekki að gæta sömu hópaskiptingar og í grunnskólastarfi.

Staðsetning skátafunda:

Sé þess kostur skal skátastarf fara fram utandyra. Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými. Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.

Skátaforingjar:

Skátaforingjar mega að hámarki vera 10 á skátafundum, þeim ber að gæta 2 metra fjarlægðar frá hvoru öðru og þátttakendum en bera grímu ef ekki er unnt að tryggja nálægðartakmörk. Mælst er til þess að skátaforingjar allra aldursbila beri andlitsgrímur öllum stundum á meðan að skátafundir standa yfir. Ef skátafélög hafa starfsmann gilda sömu reglur um viðkomandi og skátaforingja á skátafundum.

Forráðamenn og aðstandendur:

Forráðamenn og aðstandendur þátttakenda skulu ekki koma inn í skátaheimili eða á skátafundi nema brýna nauðsyn beri til en þá skulu þau vera með andlitsgrímu. Um foreldra og aðstandendur sem leiðbeina á skátafundum gilda að sjálfsögðu sömu reglur og um skátaforingja.

Aðrir aðilar:

Öll umferð annarra en skátaforingja og þátttakenda skal bönnuð á svæði skátafélagsins meðan skátafundir standa yfir nema brýna nauðsyn beri til en þá er grímuskylda.

Hvert skátafélag er í ólíkri stöðu og því bendum við þátttakendum og aðstandendum þeirra á að upplýsingar um hvernig framhaldi starfsins verður háttað mun koma beint frá skátafélaginu.