Nýr leikjavefur skátanna birtur!
Nýtt vefsvæði með leikjum hefur verið birt á heimasíðu Skátanna. En þar er nú hægt að finna safn skemmtilegra og frumlegra leikja sem líklegt þykir að skátar um allt land geti haft gaman af og hafa jafnvel ekki prófað áður.
Á vefnum er reynt að setja skemmtilega táknræna umgjörð í kringum hvern leik eða í hið minnsta gefa skátaforingan fróðleik til að kynna leikin með. Með því að nota þessi þemu er oft hægt að glæða leikina auknu lífi og gefa skátunum tækifærið á að setja sig í hlutverk áður en leikar hefjast.
Hvernig virkar nýr leikjavefur?
Vefurinn hefur hinar ýmsu síur til að auðvelda foringjum að finna leiki fyrir hvert tilefni fyrir sig. Leikir skiptast upp í hina ýmsu flokka s.s. flokkakeppnir, skátaklútaleiki, hópeflisleiki og söng- og hreyfileiki, þá er búið að flokka leiki eftir því hvaða aldursbilum þeir eru taldir henta best, hvaða umhverfi þeir henta best og svo er auðvitað hægt að leita eftir hópastærðum og tímaramma.
Á undirsíðu hvers leiks má svo finna sögu leiksins, hvað þarf fyrir leikinn, leiðbeiningar og hvernig má útfæra leikinn á annan máta til að umbreyta leiknum.
Þau sem lögðu hönd á plóg
Vefsvæðið hefur verið unnið í hlutum yfir langt tímabil og því hannað af breiðum hóp bæði fyrrum og starfandi erindreka Skátamiðstöðvarinnar þeim Kolbrúnu, Halldóri, Sigurgeiri og Sædísi. Benedikt Þorgilson hjálpaði svo við tæknilega uppsetningu bakenda og útliti hverrar leikjasíðu fyrir sig en Halldór Valberg setti upp yfirlitssíðuna þar sem hægt er að leita eftir leikjum.
Langar þig að leggja hönd á plóg?
Til að fagna nýjum leikjavef sem getur safnað saman og hýst skemmtilega leiki fyrir skáta viljum við efna til keppni og bjóðum glæsilegt vasaljós í verðlaun!
Ef þú kannt skemmtilegan leik hvetjum við þig til að senda leikinn inn í gegnum formið hér að neðan, þú getur sent miklu fleiri en einn leik og fyrir hvern leik sem er valinn frá þér inn á vefinn kemstu 1 sinni í pottinn. Í hvert sinn sem þú kemst í pottinn eykur þú lýkur þess að þú hreppir vinninginn. Við merkjum svo hvern leik þeim sem sendi hann inn og titlum viðkomandi sem höfund leiksins á leikjavef skátanna um aldur og ævi. Í tilfellum þar sem margir aðilar senda sama eða samskonar leik getur bæði gerst að eingöngu sá fyrsti sem sendi inn leikinn sé titlaður höfundur eða ef útfærslurnar eru ólíkar gæti Skátamiðstöðin sameinað hugmyndirnar á einhvern hátt og eru þá öll titluð sem höfundar.