Nordic Adventure Race 2026

 

Alþjóðaráð leitar að bæði þátttakendum og foringjum til að taka þátt í Nordic Adventure Race á vesturströnd Noregs,  10-16. júlí 2026!  Tilvalið tækifæri fyrir drótt- og rekkaskátaflokka og foringja þeirra en Nordic Adventure Race er skátakeppni þar sem skátarnir ganga ákveðna vegalend, leysa þrautir og keppa í ýmsum skátaáskorunum. Þemað í þetta skipti er ævintýri og þjóðsögur!

Hvað er Nordic Adventure Race (NAR) ?

Nordic Adventure Race er spennandi viðburður sem flakkar á milli norðurlandanna. Færeyjar héldu viðburðinn fyrst 2022 og er nú komið að Noregi.

Á viðburðinum munu 50 skátar frá hverju landi vera skipt upp í nýja 6 skáta flokka og fá þar að leiðandi að kynnast skátum frá hinum norðurlöndunum. Flokkarnir fara síðan að stað í vikulanga göngu um norska fjallalendið þar sem þau munu fá tækifæri til að keppa í ýmsum þrautum á leiðinni til að safna inn stigum til að sigra keppnina. Á viðburðinum er lögð áhersla á skapandi hugsun, samvinnu og krefjandi útivist.

Almennar upplýsingar fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða

  • Dróttskáta og rekkaskáta, skáta fædd á bilinu 10. 07. 2008 - 17. 10. 2013
  • Rekkaskátar eldri en 18 ára geta farið með sem foringjar eða sjálfboðaliðar, skátar fædd 10. 07. 2008 eða fyrr.
  • Skátafélag sendir inn eina umsókn fyrir alla sína skáta ásamt foringjum og sjálfboðaliðum
  • Einungis 50 þátttakendapláss og 10 foringja/sjálfboðaliðapláss
  • Sjálfboðaliðar og foringjar aðstoða við dagskrá mótsins og ólíklegt er að þau verði með sínum skátum á meðan á viðburðinum stendur.

Hér er hægt að lesa nánari upplýsingar um viðburðinn 

Þátttökugjald

Þátttökugjaldið fyrir skátanna er 4.000 NOK ( u.þ.b. 50.000 kr.)

Gjaldið fyrir foringja / sjálfboðaliða er 1.5000 NOK (u.þ.b. 19.000 kr.)

Annar kostnaður er í höndum fararhópsins en fluggjaldið og sameiginleg einkenni er ekki innifalið í þátttökugjaldinu. Það sem er innifalið í þátttökugjaldinu er allur matur þegar viðburðurinn hefst, ferðalagið til og frá Oslo/Gardermoen að staðsetningu viðburðar, mótsmerki, öll dagskrá ásamt einhverjum sameiginlegum búnaði sveitarinnar.

Skráningin

Skátafélagið fyllir út umsóknareyðublaðið hér að neðan fyrir hönd skátaflokksins. Alþjóðaráð fer svo yfir allar skráningar og hefur samband við hópinn um næstu skref. Skátaforingjar hópanna mynda svo saman fararstjórn fyrir íslenska fararhópinn.

Skráningafrestur er til 31. júlí 

Ertu með einhverjar spurningar? Endilega sendu á althjodarad@skatarnir.is


Skátadagatalið snýr aftur

Það er með mikilli gleði sem við endurvekjum skátadagatalið. Dagatalið er útprentað í stærð A2 svo það er þægilegt að bæta félagsviðburðum inn á. Nú þegar hafa nokkur félög fengið dagatal fyrir sitt skátaheimili og munum við koma þeim til allra félaga á næstu dögum. Hér má einnig nálgast dagatalið rafrænt og fylla inn í.

 


Daði gengur til liðs við Úlfljótsvatn

Daði Már Gunnarsson hefur verið ráðinn í starf tengiliðs erlendra hópa og dagskrárstarfsmanns við Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Daði mun sjá um að taka við bókunum erlendra hópa, hafa umsjón með búnaðarleigu og ferðum fyrir og eftir Landsmót skáta 2026, auk þess að vera hluti af dagskrárteymi Úlfljótsvatns og aðstoða við skólabúðir, sumarbúðir og fleira.

Daði er ekki ókunnugur Úlfljótsvatni, en fyrir utan að hafa sótt þangað námskeið og viðburði var hann dagskrárstarfsmaður í hlutastarfi síðasta vetur, og lék þá lykilhlutverk í rekstri skólabúðanna.Daði hefur numið leiklist, bifreiðasmíði og tungumál og hefur verið virkur í skátastarfi síðan 2007. Hann hefur meðal annars verið sveitarforingi, félagsforingi, starfsmaður SSR, meðlimur í Leiðbeinendasveitinni og sveitarforingi á Jamboree í Kóreu. Daði hefur verið mjög virkur í alþjóðastarfi og situr í dag í Alþjóðaráði.

„Ég er ánægður að hljóta þann heiður að fá að vinna á svo fínum stað, með svo góðu fólki og umvafinn náttúru sem leikur við augað,” segir Daði. “Á öðrum nótum er ég annars spenntur að fá að sinna dagskrá og vinna öll þau verkefni sem beinast að mér.”

Við bjóðum Daða hjartanlega velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi.


Ertu skapandi skáti?

Ertu skapandi skáti, upprennandi kvöldvökustjóri, áhugaljósmyndari eða snillingur í textagerð?

Þá er kynningateymi Landsmóts rétta teymið fyrir þig! 

Teymið sér um kynningar í félögum, búa til skemmtilegt efni á samfélagsmiðlum Landsmóts ásamt fleiri skemmtilegum verkefnum. 

 

Kynningastjóri Landsmóts er Védís Helgadóttir og mun hún leiða teymið. 

Áhugasöm geta sent póst á Védísi hér.

 


Alþjóðatækifæri: Euro Mini Jam 2026

Hvað?
Alþjóðaráð leitar að íslenskum skátaflokkum til að taka þátt í Smáþjóðaleikum skáta, Euro-Mini-Jam, sumarið 2026. 
Smáþjóðaleikar skáta er sjö daga skátamót fyrir þjóðir sem eru með færri en milljón íbúa.
Mótið verður haldið í Kýpur 2. - 8. ágúst 2026. Smáþjóðir skiptast á að vera gestgjafar mótsins. Fyrsta mátið var haldið á Íslandi 2010, Liechtenstein árið 2013, Mónakó 2016, Færeyjum 2018 og núna síðast í Gíbraltar 2024. 

Hverjir?
Þátttakendur eru skátar á aldrinum 13-16 ára. Hver þjóð fær pláss fyrir 2 skátaflokka á mótinu fyrir þátttakendur á þessum aldri. Hver skátaflokkur samanstendur af 6-8 þátttakendum og 2 foringjum. 
Auk þess er í boði að senda eldri skáta sem IST (sjálfboðaliða fyrir mótið) svo skátafélögin mega senda með IST liða í umsóknum skátaflokkanna. Alþjóðaráð leitar því að skátaflokkum sem hafa áhuga á að taka þátt! Mótsgjaldið fyrir þátttakendur er 440 EUR og fyrir IST og foringja er gjaldið 365 EUR.  Ofan á mótsgjaldið leggst ferðakostnaður og allt sem ferðalaginu fylgir. 

Foringjar skátaflokkana sem verða valdir, mynda saman fararstjórn fyrir mótið og sjá um fjárhagsáætlun, skipulag og framkvæmd ferðarinnar. Alþjóðaráð og Skátmiðstöðin mun veita stuðning við verkefnið þegar þörf er á.

Flokkar verða valdir eftir að skráningarfresti lýkur.

Umsóknarferlið
Þeir skátaflokkar sem hafa áhuga á að fara á mótið fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta þurfa að sækja um með því að svara eyðublaðinu hér að neðan og skila inn myndbandi á þar sem þau leysa nokkur verkefni. Myndbandið skal senda á althjodarad@skatarnir.is 
Valdir verða fjölbreyttir flokkar. Þar af leiðandi er ekki víst að ef tveir flokkar frá sama skátafélagi sæki um að báðir flokkarnir verði fyrir valinu. Skátafélögum er velkomið að sameinast í 6 til 8 skáta flokka, ekki er tekið við umsóknum skátaflokka ef fjöldi skáta nær ekki 6 eða er yfir 8.

 

Um myndbandið og verkefnin: 
Reglur:

  • Myndbandið má ekki vera lengra en 10 mínútur
  • Skátaflokkurinn kynnir nafn flokksins, skátafélags og nöfn allra meðlima flokksins
  • Mikilvægt er að sýna vel og vandlega þegar verkefni eru leyst

Verkefnin:

  • Semja flokkshróp og flytja það
  • Gera góðverk sem hefur áhrif á samfélagið
  • Byggja katapúlt með sykurpúðum og spaghetti og ná að kasta hlut a.m.k. 50 cm
  • Kynna ykkur hvernig skátastarf er í Kýpur og segja stuttlega frá því
  • Setja upp tjald á innan við mínútu
  • Kveikja eld með því að nota einungis stál og tinnu

Umsóknarfrestur er 5. nóvember 2025

Foringi / foringjar

max 2 foringjar per flokkur
max 2 foringjar per flokkur

Flokkurinn

Annað

Ef félagið vill senda IST liða á mótið skal fylla það inn hér.

Framkvæmdarstjóri í fæðingarorlofi

Ragnar, framkvæmdarstjóri BÍS, verður í 80% fæðingarorlofi á tímabilinu 25. ágúst - 31. október. Á því tímabili verður hann með viðveru í Skátamiðstöðinni á þriðjudögum.

Í fjarveru hans verður Katrín Kemp staðgengill framkvæmdarstjóra.


Heiðdís hefur störf fyrir skátana

Heiðdís Snorradóttir hefur verið ráðin í fullt starf sem erindreki landsbyggðarinnar og verkefnastjóri viðburða.

Heiðdís mun vinna að því að efla skátastarf á landsbyggðinni og vinna að því að fjölga skátum í starfi. Að auki mun hún sinna stuðningi við viðburðahald og verður sérstök áhersla lögð á stuðning við Landsmót skáta 2026 sem verður haldið á Hömrum, Akureyri.

Við bjóðum Heiðdísi innilega velkomna til starfa.


Skert þjónusta í júlí og ágúst

Nú er sumartíminn þar sem fólk skellir sér í frí runninn upp og verður því takmörkuð þjónusta hjá Skátamiðstöðinni frá 11. júlí - 15. ágúst.

Hægt er að senda tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is eða hringja í síma 550-9800.

Skátabúðin verður með venjulegan opnunartíma nema annað sé tekið fram. Fylgist endilega með Skátabúðinni á facebook.


Skátafélagið Klakkur leitar að starfsmanni

Skátafélagið Klakkur leitar að umsjónaraðila skátastarfs. Um er að ræða fullt starf til lok ársins 2026 með möguleika á framlengingu.

Allar nánari upplýsingar má sjá á myndinni eða fá hjá félagsforingja Klakks. 

 


Hefur þú áhuga á lagasmíð?

Undirbúningur fyrir Landsmót 2026 er hafin og leitar nú BÍS og mótsstjórn Landsmóts að næsta mótslagi.

Hefur þig dreymt um að semja mótslag en ekki haft tíma eða ekki þorað að taka af skarið?

Nú er tækifærið til að semja lag og texta! Sendu inn þitt lag og það gæti orðið fyrir valinu fyrir Landsmót 2026.

Hægt er að senda inn myndbönd með lagi og hreyfingum til 21. ágúst næstkomandi hér.


Privacy Preference Center