Landsmót hefst á morgun!

Landsmót skáta verður haldið 12. – 19. júlí á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.  Skátar fagna því að geta aftur komið saman eftir 8 ára hlé, en fella þurfti síðasta mót niður vegna Covid 19.  Á landsmótum skáta er samheldni, gleði og skátaandinn í fyrirrúmi.

Þema landsmóts í ár er „Ólíkir heimar“ sem vísar til þess að á landsmóti eru ekki bara íslenskir skátar heldur koma skátar alls staðar að úr heiminum, enda er skátahreyfing stærsta æskulýðs- og friðarhreyfing í heimi.  Skátarnir koma frá ólíkum löndum, hafa ólíkan menningarbakgrunn og tala ólík tungumál en eiga það öll sameiginlegt að vera skátar.

Landsmót skáta stendur yfir í viku, og er gist í tjöldum.  Tjaldbúðirnar sem rísa munu rúma yfir 2000 skáta og fjölskyldur þeirra, og á örfáum dögum rís nýtt bæjarfélag skáta á Úlfljótsvatni.  Dagskráin er  fjölbreytt og skemmtileg þar sem öll ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, reynt við nýjar áskoranir og á sama tíma eignast nýja vini.  Dæmi um dagskrá eru hike-gönguferðir, sköpunarsmiðjur, bogfimi, klifur og stór þrautasvæði. Stór hluti skátastarfs byggir á þjónustu við samfélagið og munu því allir skátar mótsins taka þátt í því að bæta heiminn í einn dag, og vinna verkefni sem byggja upp miðstöðina á Úlfljótsvatni.

Sérstakar fjölskyldubúðir verða starfræktar á mótinu þar sem fjölskyldur þátttakenda, eldri skátar og fjölskyldur þeirra og þau sem eru áhugasöm um að kynnast skátastarfi stendur til boði að tjalda saman og taka þátt í mótinu.  Dagskráin er sérstaklega miðuð að yngri kynslóðinni og fá þau meðal annars að fara í bátasmiðju, útieldun, á kvöldvöku og margt fleira.

Á heimsóknardegi þann 18. júlí geta þau sem vilja komið í heimsókn á mótið og tekið þátt í dagskrá, rölt um svæðið og kynnst skátafélögunum sem mörg hver verða með kynningar, leiki og fleira. Einnig er hægt að kíkja á kaffihúsið í Strýtunni og fá sér kaffi og vöfflur eða versla í Skátabúðinni og enda svo daginn á hátíðarkvöldvöku.


Stuð, pepp og stemning á Fimmvörðuhálsi

Texti eftir: Þorkel Grím Jónsson, Einar Tryggva Petersen, Unu Signýu Sigurðardóttur og Ragnheiði Óskarsdóttur --- Myndir: Harpa Hrönn Grétarsdóttir, Sigurður Viktor Úlfarsson og Sædís Ósk Helgadóttir

Þann 7. júní lögðu tæplega 30 dróttskátar og 11 foringjar af stað í leiðangur yfir Fimmvörðuháls sem er gönguleið á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Veðrið setti aðeins strik í reikninginn og þess vegna var ekki farið eftir upphaflega planinu en ekkert stöðvaði okkur. Við lögðum af stað frá Landnemaheimilinu að morgni föstudags í góðu veðri og þá byrjaði ævintýrið. Keyrt var alla leið á Hvolsvöll og þar var stoppað til að fá sér að borða og skreppa á klósettið.

Eftir langt og gott stopp keyrðum við áfram að Seljalandsfossi og hann var skoðaður gaumgæfilega. Sumir komu smá blautir úr þeirri upplifun en það var bara SPS (stuð, pepp og stemning#takkEinar ). Næst á dagskrá var að skoða Gljúfrabúa sem er foss inn í gili. Það var tekið mikið af myndum af fossinum, enda var hann mjög töfrandi. Svo skelltum við okkur í Nauthúsagil og gengum þar meðfram klettaveggjunum að litlum fossi og var þetta fyrsta áskorunin fyrir suma, þar sem að þurfti að klifra á keðju til að komast að fossinum. Merkurker var næst í röðinni, á bílastæðinu skelltu sér allir í sundföt og síðan var stokkið út í á sem liggur í gegnum helli.

Þegar buslinu lauk, lá leiðin beint inn í Bása, þar sem reist var tjaldbúð. Um kvöldið var lögð mikil vinna í að grilla kjúkling sem að sló í gegn hjá þreyttum skátum. Nokkrir skátar kveiktu lítinn eld, sungu saman og fengu sér sykurpúða. Aðrir þreyttir skátar eftir langan ferðadag skriðu inn í tjöld en nokkrir hressir skátar skelltu sér að kanna Þórsmörk. 

Morguninn eftir vöknuðu allir í blíðskapar veðri og byrjað var að taka niður tjaldbúðina. Lagt var af stað upp hálsinn um hádegisbilið og það var mikið SPS í gangi. Gangan byrjar á að fara upp Kattarhrygginn sem var áskorun fyrir marga lofthrædda í hópnum. Eftir það var komið að Heljarkambi sem margir voru orðnir stressaðir fyrir keðju sem þarf að ganga eftir part af leiðinni, allir komu úr því ævintýri heilir á húfi. Þá var bara leiðin upp að skálunum. Krökkunum var síðan skipt á tvo skála, Baldvinsskála sem er í 800m hæð og Fimmvörðuskála sem er í 1000 m hæð. Á leiðinni var mikið verið að vinna með ,,Njóta en ekki þjóta” (kannski aðeins of mikið). Nokkrir af reyndari skátunum í hópnum peppuðu þau sem voru orðin þreytt og uppgefin. Við komum loks í skálana um hálf eitt, öll svöng og þreytt tilbúin að fara að sofa.

Skátarnir vöknuðu í svitakófi eftir með misgóðan svefn og gerðu sig tilbúin til að hittast aftur á leiðinni niður að Skógum. Sá endurfundur vakti gleði og þrömmuðu þau áfram með SPS í hjarta, tilbúinn fyrir ferðina að handan. Smá snjór var eftir þannig við nýttum öll tækifæri til að renna okkur niður snjóbrekkurnar. Á leiðinni niður var glæsilegt útsýni og fossarnir nærri því óteljandi, þó að einhverjir reyndir foringjar hafi náð góðri tölu. Skógar voru sýn sem öllum þreyttum skátum hafði dreymt um og hamingju magnið var yfirfullt.

Margir skátar fengu sér lúr í rútunni sem að kom sérstaklega seint heim eftir smá vesen á leiðinni því að dekkið sprakk á miðri leið. Heimkoman í Landnemaheimilið var í kringum miðnætti.

Gangan yfir Fimmvörðuháls tekur þrjósku, pepp og algjört meistarahugarfar og er þetta risastórt afrek á vonandi löngum ferli þessa frábæru skáta. Þeir skátar sem tóku þetta verkefni að sér eru formlega orðnir sigurvegarar í augum okkar og við þökkum öllum æðislegu foringjunum sem þoldu öll þau vandamál sem komu upp fyrir æðislega og ógleymanlega ferð. Sjáumst á Landsmóti SPS!

Þetta var í annað sinn sem hópur dróttskáta gekk yfir Fimmvörðuháls og er ferðin styrkt af styrktarsjóði skáta, þannig að dósunum frá Grænum skátum var breytt í káta skáta.


Fyrrverandi skátahöfðingi sæmd Fálkaorðu

Mynd: Forsetaembættið

Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi var í gær þann 17. júní 2024, sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.

Margrét Tómasdóttir gekk til liðs við skátahreyfinguna á barnsaldri, fyrst í Reykjavík síðan í Kópavogi og Garðabæ.
Hún gegndi öllum helstu foringjastörfum í hreyfingunni á yngri árum og að námi loknu var hún í forystu skátahreyfingarinnar m.a. formaður starfsráðs Bandalags íslenskra skáta, en ráðið fjallar um viðfangsefni skátastarfsins á hverjum tíma. Margrét sat í stjórn Skátafélagsins Vífils í Garðabæ á árunum 1991-1996 og var Margrét einstaklega röggsöm og fylgin sér og á félagið henni margt að þakka! Árið 2004 var hún fyrst kvenna kjörin skátahöfðingi Íslands eftir að hafa gegnt embætti aðstoðarskátahöfðingja um árabil. Margrét var skátahöfðingi alls í sex ár eða til ársins 2010.

Við óskum Margréti innilega til hamingju um leið og við þökkum henni fyrir ómetanlegt starf í gegnum árin.


Drekar fóru í sirkus

Helgina 31. maí - 2. júní var Drekaskátamót haldið á Úlfljótsvatni og var þemað í ár Sirkus. Skátarnir reistu tjaldbúð við Strýtuna sem að var nú orðin að sirkustjaldi og fengu að kynnast trúðunum á svæðinu og hjálpuðu þeim að læra nýjar sirkúskúnstir.

Dagskráin var svipuð og síðustu ár en meðal annars var boðið upp á klifur, bogfimi, báta, hoppukastala og samfélagsverkefni. Þetta árið stóðu samfélagsverkefnin upp úr þar sem drekaskátarnir hjálpuðu til við að snyrta skóginn fyrir aftan KSÚ og máluðu regnboga með höndunum á vegginn á Norðursal.

Á laugardeginum var Karnival þar sem að skátarnir gátu unnið sér inn miða með því að leysa allskonar skemmtilegar þrautir og gátu svo keypt sér kandífloss, popp og ferð í hoppukastalana með miðunum.

Veðrið stríddi okkur en við létum það þó ekki stoppa okkur og nutum okkar út í smá regni og roki. Sólin kom þó og kvaddi okkur með geislunum á sunnudeginum.

   


Samvinna, tjaldbúð og veðurviðvaranir á 2. hluta Gilwell

Um síðastliðna helgi var annar hluti Gilwell námskeiðsins á Úlfljótsvatni haldið.  Hópurinn sem nú tekur þátt í námskeiðinu hóf ferðina í febrúar og nú líkt og þá voru gular veðurviðvaranir í kortunum dagana fyrir setningu námskeiðsins.  Þrátt fyrir það reis glæsileg tjaldbúð á Hvítasunnuflötinni dagana 5. -9. júní og flokkarnir þrír komu sér vel fyrir með útieldhúsi, útilegukamínu, eldstæði og gashellum, enda er útieldun mikilvægur þáttur námskeiðsinns.  

Verkefni flokkanna var þó helst það að reyna á eigin skinni þá áskorun að vera í þéttum samskiptum og sambúð með skátaflokknum sínum.  Á þessu skrefi var áherslan á flokkastarf, samvinnu og samkennd og hjálpuðu veðurguðirnir okkur við að reyna á seiglu og þol þátttakenda með stöðugu roki og smá hagléli í hike-inu.  Skátarnir stóðust allar þessar áskoranir með prýði og skemmtu sér vel í göngunni og tjölduðu svo í skógarrjóðri þar sem langþráð skjól fannst fyrir norðanáttinni. 

Áfram var svo haldið að leggja inn hjá þeim ýmsar aðferðir til að styrkja hópinn, greina vandamál, nota jákvæð samskipti og virka hlustun auk þess að vinna með aðgengileika skátastarfs og lýðræðislegar ákvarðanir.

Við erum sérstaklega þakklát öllum þeim sérfræðingum sem hjálpuðu til við að gera námskeiðið einstakt með því að sýna okkur hvernig töfra má fram gómsætar máltíðir yfir eldi og gera tjaldbúðina flottari ásamt þeim sem deildu með okkur visku sinni og reynslu.

Á laugardagskvöld var boðið í opna kvöldvöku sem var vel sótt af eldri Gilwell skátum og var einstaklega góð stemming og sungið hátt og snjallt, auk þess sem borðin svignuðu undan kræsingum og heitu kakói með rjóma.

Það voru glaðir og þreyttir skátar sem luku námskeiðinu í sól og blíðu og öll hlökkum við til lokaskrefsins sem verður í nóvember,  þar sem við skoðum hvernig virkja má leiðtogann í sér,  bæði í skátastarfi og í eigin lífi.


Forseti fagnar með Kóreuförum

Myndir: Daði Már Gunnarsson

Síðastliðin sunnudag var haldið lokahóf á Úlfljótsvatni, fyrir fararhópinn á Alheimsmót skáta 2023. Veðrið lék við gestina sem nýttu sér það vel og léku sér úti og snæddu pylsur að klassískum skátasið.

Guðni Th. forseti kíkti í heimsókn sem vakti mikla lukku. Hann, ásamt Hrafnhildi Ýri, fararstjóra, og Hörpu Ósk, skátahöfðingja, afhentu þátttakendum, sjálfboðaliðum og foringjum viðurkenningjaskjal vegna þátttöku sinnar á 25. Alheimsmóti skáta í Suður Kóreu, en þessi hópur sýndi af sér mikla seiglu og dug í ferðinni og stóðu sig eins og hetjur.

Einnig var Guðni Th. forseti sæmdur gullmerki skáta sem þakkir fyrir síðastliðin ár sem verndari skátahreyfingarinnar.

Það kom ekki annað til greina en að syngja nokkur lög saman og tók forsetinn vel undir með hópnum. Eftir athöfnina var opin dagskrá á svæðinu og mátti sjá skáta klifra í klifurturninum, sigla á Úlfljótsvatni, strengja boga í bogfimi, hoppa í hoppukastala og spjalla saman. Frábær dagur á Úlfljótsvatni með skemmtilegum skátum.


"fræin sem við sáum í dag hafa möguleika til að breyta heiminum"

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi með stutta hugvekju um skátastarf. Þar rifjar hún upp minningu af sínu fyrsta landsmóti á Úlfljótsvatni, þjónustu Grænna skáta og því skemmtilega og mikilvæga starfi sem skátarnir sinna. Við mælum með að hlusta - smellið hér.

 


Skátar skemmtu sér í ýmsum veðrum

Um Hvítasunnuhelgina héldu Hraunbúar sitt árlega Vormót í 82. skipti. Vormót er mót fyrir fálkaskáta og eldri og fjölskyldur eru velkomnar í fjölskyldubúðir. 

Eftirvæntingin var mikil og má segja að mótið hafi staðið undir væntingum þar sem skátar voru við leik og störf.

Veðrið var allskonar, all frá sól og blíðu yfir í rok, örlitla rigningu, pínulítið haglél og svo kórónað með tvöföldum regnboga, ekkert af þessu setti mótið út af laginu enda skátarnir við öllu búnir bæði með sólarvörn og pollagalla meðferðis. 

  

Dagskrá mótsins var krefjandi og að hluta til miðuð við Rekkaskáta. Í boði voru göngur allt að 20km þar sem hægt var að vinna sér inn stiku- og/eða hæðarmerki, metnaðarfull útieldun þar sem hann Klási okkar kenndi skátunum að elda paellu yfir eldi og djúpsteikja ástarpunga, víkingarnir voru á sínum stað, kanóar og kayakar á Hvaleyrarvatni, ratleikir, hjólaferðir í sund og svo aðstoðaði hún Sigríður Júíla þátttakendur við að skreyta mótsklútana með útsaum, stimplun og fleiru.

Skátapartý, kvöldvaka og næturleikur eru fastir punktar á Vormóti og voru á sínum stað í dagskránni. Rekkaskátar fengu auk þess kvölddagskrá enda ekki annað hægt þegar um fjórðungur þátttakenda eru Rekkaskátar.

 

Það er fátt skemmtilegra en að vera á góðu skátamóti með góðum vinum og við vorum svo lánsöm að með okkur voru skátar frá Landnemum, Garðbúum, Fossbúum, Ægisbúum, Vífli, Mosverjum og Skjöldungum. Þau settu sinn svip á mótið með jákvæðni og gleði.

Á næsta ári verður Vormót 6.-9. júní svo ætla má að það verði ögn hlýrra þó það sé engin trygging eins og veðurglöggir skátar vita. Næsta ár markar einnig 100 ára samfellt skátastarf Hraunbúa í Hafnarfirði svo við höfum fulla ástæðu til að ætla að gleðin verði alls ráðandi á Vormóti 2025. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Texti og myndir: Harpa Hrönn Grétarsdóttir, Hraunbúi


Skátar frá Norðurlöndunum vinna saman - Norðurlandaþing 2024

Dagana 8.-12. maí tók hópur íslenskra skáta þátt í Norðurlandaþingi sem haldið var í Færeyjum að þessu sinni. Norðurlandaþing er haldið á 3 ára fresti af norrænu skátanefndinni (NSK) sem er samstarfsvettvangur skátasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið vettvangsins er að skapa tækifæri til samstarfs, til að miðla reynslu og deila menningu á milli landanna. Hér er hægt að lesa meira um starfsemi NSK.

Allt að 180 skátar frá öllum Norðurlöndunum voru samankomin á ráðstefnunni, þar af 19 manns frá Íslandi. Íslenski hópurinn samanstóð af stjórn og starfsfólki BÍS, fulltrúum frá Alþjóðaráði og fulltrúum ungmenna.

Fyrsta daginn fengu þátttakendur að upplifa náttúruundir Færeyja með vali um ferðir um eyjarnar. Hægt var að fara í fjallgöngu í Klaksvík, gönguferð um Kirkjubø eða göngu um Gásadal og að skoða Múlafoss. Seinna um daginn var þingið sett en þemað að þessu sinni var Tími breytinga. Á opnunarathöfninni fengum við ræður frá Skátahöfðingja og forsætisráðherra Færeyja ásamt tónlistaratriðum, eitt frá ungum skátum í Þórshöfn og svo flutti færeyski tónlistarmaðurinn Marius Ziska nokkur lög.

Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá sem samanstóð að mestu af kynningum og vinnusmiðjum ásamt því að þátttakendur fengu tækifæri á því að rýna betur í sýn, stefnu og samstarfsgrundvöll NSK.

Vinnusmiðjurnar komu frá þátttökulöndunum þar sem lögð var áhersla á spennandi og gagnlegar smiðjur til að kynna hin ýmsu verkefni sem bandalögin eru að vinna að. Sem dæmi má nefna smiðju um geðheilbrigðismál í skátastarfi, hvernig hægt er að vekja vitund skáta um veruleika flóttafólks, hvernig dagskrá rekka- og róverskáta lítur út, hvernig sænskir skátar kynna tækifæri til alþjóðastarfs og svo margt margt fleira. Íslensku skátarnir stóðu fyrir þrem smiðjum, einni um sjálfbæra viðburði, aðra um öryggi í skátastarfi og sú þriðja kynnti starfsemi Grænna skáta og hvað það gefur íslensku skátahreyfingunni.

Að lokum ber sérstaklega að nefna að Færeyingar héldu smiðju sem bar heitið Skótahjálpin, þar sem þau sögðu frá góðgerðarstarfi sínu þar sem þau safna peningum fyrir góð málefni. Til að mynda gáfu þau íslenskum skátum 500 þúsund krónur fyrir sumarstarfi grindvískra barna.

Einnig sammældust Norrænu bandalögin um að veita styrk til skáta í Brasilíu sem standa í ströngu um þessar mundir að hjálpa samfélagi sínu að kljást við mikil flóð sem hafa geysað í suðurhluta landsins.

Að sjálfsögðu var svo boðið upp á kvöldvökur að skátasið í lok hvers dags!

Við þökkum frændfólki okkar í Færeyjum fyrir einstaklega vel skipulagða og gagnlega ráðstefnu og erum full tilhlökkunar að innleiða þær hugmyndir sem við fengum á ráðstefnunni í okkar starfsemi.

 


Agora 2024

Skátamótið Agora fór fram í Göransborg skátamiðstöð í Svíþjóð fyrstu helgina í apríl. Um 56 þátttakendur frá 22 löndum tóku þátt og fóru tveir skátar frá Íslandi. Agora er skátamót skipulagt og haldið af róverskátum fyrir róverskáta.

Á mótinu var mikið rætt um mismunandi róverstarf eftir löndum og valdeflingu ungs fólks. Eitt af markmiðum Agora er að vera samkomustaður róverskáta til að ræða drauma, tilfinningar, áhyggjur, upplifanir og hugmyndir, sækja innblástur og orku og að geta verið til staðar hvort fyrir annað og kennt hvort öðru nýja hluti.

Ljósmyndir: Scouting in Europe

 


Privacy Preference Center