Stuð, pepp og stemning á Fimmvörðuhálsi

Texti eftir: Þorkel Grím Jónsson, Einar Tryggva Petersen, Unu Signýu Sigurðardóttur og Ragnheiði Óskarsdóttur — Myndir: Harpa Hrönn Grétarsdóttir, Sigurður Viktor Úlfarsson og Sædís Ósk Helgadóttir

Þann 7. júní lögðu tæplega 30 dróttskátar og 11 foringjar af stað í leiðangur yfir Fimmvörðuháls sem er gönguleið á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Veðrið setti aðeins strik í reikninginn og þess vegna var ekki farið eftir upphaflega planinu en ekkert stöðvaði okkur. Við lögðum af stað frá Landnemaheimilinu að morgni föstudags í góðu veðri og þá byrjaði ævintýrið. Keyrt var alla leið á Hvolsvöll og þar var stoppað til að fá sér að borða og skreppa á klósettið.

Eftir langt og gott stopp keyrðum við áfram að Seljalandsfossi og hann var skoðaður gaumgæfilega. Sumir komu smá blautir úr þeirri upplifun en það var bara SPS (stuð, pepp og stemning#takkEinar ). Næst á dagskrá var að skoða Gljúfrabúa sem er foss inn í gili. Það var tekið mikið af myndum af fossinum, enda var hann mjög töfrandi. Svo skelltum við okkur í Nauthúsagil og gengum þar meðfram klettaveggjunum að litlum fossi og var þetta fyrsta áskorunin fyrir suma, þar sem að þurfti að klifra á keðju til að komast að fossinum. Merkurker var næst í röðinni, á bílastæðinu skelltu sér allir í sundföt og síðan var stokkið út í á sem liggur í gegnum helli.

Þegar buslinu lauk, lá leiðin beint inn í Bása, þar sem reist var tjaldbúð. Um kvöldið var lögð mikil vinna í að grilla kjúkling sem að sló í gegn hjá þreyttum skátum. Nokkrir skátar kveiktu lítinn eld, sungu saman og fengu sér sykurpúða. Aðrir þreyttir skátar eftir langan ferðadag skriðu inn í tjöld en nokkrir hressir skátar skelltu sér að kanna Þórsmörk. 

Morguninn eftir vöknuðu allir í blíðskapar veðri og byrjað var að taka niður tjaldbúðina. Lagt var af stað upp hálsinn um hádegisbilið og það var mikið SPS í gangi. Gangan byrjar á að fara upp Kattarhrygginn sem var áskorun fyrir marga lofthrædda í hópnum. Eftir það var komið að Heljarkambi sem margir voru orðnir stressaðir fyrir keðju sem þarf að ganga eftir part af leiðinni, allir komu úr því ævintýri heilir á húfi. Þá var bara leiðin upp að skálunum. Krökkunum var síðan skipt á tvo skála, Baldvinsskála sem er í 800m hæð og Fimmvörðuskála sem er í 1000 m hæð. Á leiðinni var mikið verið að vinna með ,,Njóta en ekki þjóta” (kannski aðeins of mikið). Nokkrir af reyndari skátunum í hópnum peppuðu þau sem voru orðin þreytt og uppgefin. Við komum loks í skálana um hálf eitt, öll svöng og þreytt tilbúin að fara að sofa.

Skátarnir vöknuðu í svitakófi eftir með misgóðan svefn og gerðu sig tilbúin til að hittast aftur á leiðinni niður að Skógum. Sá endurfundur vakti gleði og þrömmuðu þau áfram með SPS í hjarta, tilbúinn fyrir ferðina að handan. Smá snjór var eftir þannig við nýttum öll tækifæri til að renna okkur niður snjóbrekkurnar. Á leiðinni niður var glæsilegt útsýni og fossarnir nærri því óteljandi, þó að einhverjir reyndir foringjar hafi náð góðri tölu. Skógar voru sýn sem öllum þreyttum skátum hafði dreymt um og hamingju magnið var yfirfullt.

Margir skátar fengu sér lúr í rútunni sem að kom sérstaklega seint heim eftir smá vesen á leiðinni því að dekkið sprakk á miðri leið. Heimkoman í Landnemaheimilið var í kringum miðnætti.

Gangan yfir Fimmvörðuháls tekur þrjósku, pepp og algjört meistarahugarfar og er þetta risastórt afrek á vonandi löngum ferli þessa frábæru skáta. Þeir skátar sem tóku þetta verkefni að sér eru formlega orðnir sigurvegarar í augum okkar og við þökkum öllum æðislegu foringjunum sem þoldu öll þau vandamál sem komu upp fyrir æðislega og ógleymanlega ferð. Sjáumst á Landsmóti SPS!

Þetta var í annað sinn sem hópur dróttskáta gekk yfir Fimmvörðuháls og er ferðin styrkt af styrktarsjóði skáta, þannig að dósunum frá Grænum skátum var breytt í káta skáta.