Árangur, ævintýri og undirbúningur: Crean 2025 tekur síðustu skrefin fyrir stóru ferðina!

Crean 2025 sveitin er á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir hina stóru ferð í febrúar. Helgin sem leið var stór áfangi, þar sem skátarnir komu saman við Skátalund í Hafnarfirði, tóku þátt í vetrarfærnis kynningum, gistu í tjöldum í -3° frosti og gengu 18km til Bláfjalla. Núna er ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir það sem fram undan er.


Vikan í febrúar, Ævintýrið sem sameinar

Vikan í febrúar, þar sem sveitin mun sameinast 32 írskum skátum við Úlfljótsvatn, verður stútfull af ævintýrum, fræðslu og þjálfun í vetrarfærni. Skátarnir munu læra um Tom Crean, írskan suðurskautsfara, og hetjudáðir hans, sem er mikill innblástur í þessari áskorun. Auk þess munu þau fá þjálfun í rötun og kortalestri, vetrarfærnin tekur einnig á mikilvægum þáttum eins og snjóflóðum, félagabjörgun, ganga í mannbroddum, byggja snjóhús og að draga púlku.
Ekki má gleyma að ferðin er líka tækifæri til að efla vináttu og læra hvert af öðru. Skátarnir munu einnig kynnast menningu og sögu landa hvor annars í gegnum fræðslu, samskipti og samverustundir. Þetta mun dýpka skilning þeirra og auka enn frekar ríkidæmi þessa ævintýris.
Til viðbótar við þessa þjálfun mun sveitin fara í tvær upphitunargöngur í nágrenni Úlfljótsvatns og gista tvær nætur í tjaldi. Þetta verður einstakt tækifæri til að prófa búnað, byggja upp reynslu og auka sjálfstraustið fyrir stóra daginn.
Ferðin endar með göngu frá Úlfljótsvatni í skátaskálana á Hellisheiði, þar sem hópurinn mun hvíla sig og fagna vel unnu verki. Þaðan verður ferðinni haldið áfram til Reykjavíkur, þar sem henni verður lokið með hátíðlegri athöfn og pizzaveislu – fullkominn endir á þessari mögnuðu áskorun. Vetraráskorunin Crean er einstakt verkefni sem sýnir hvað hægt er að ná þegar unnið er saman með ástríðu og þrautseigju.


Köfuðum dýpra á Neista 2025

Nú um helgina komu hátt í 70 manns saman á Úlfljótsvatni og tóku þar þátt í Neista 2025. Neisti er árlegur helgarviðburður þar sem skátar, 16 ára og eldri, fá tækifæri til að læra nýja færni, kynnast öðrum skátum og byrja nýtt skátaár á því að viðhalda skátaneistanum sínum. Neisti í ár var með breyttu sniði en vanalega, nú völdu þátttakendur sér leið eftir áhugasviðum og nýttu helgina til að kafa djúpt í valið viðfangsefni. Leiðirnar sem stóðu þeim til boða voru þrjár; dagskrá, útivist og stjórnun skátafélaga.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Helgin hófst á setningarathöfn þar sem þátttakendum var skipt í flokka og hin sívinsæla flokkakeppni hófst. Að því loknu fóru þátttakendur í póstaleik þar sem verkefnið var að byggja kafbát sem gerði þeim kleift að kafa djúpt ofan í hafsjó þeirrar þekkingar sem þátttakendur völdu að tileinka sér. Hver leið táknaði eina stöð innan kafbátsins en það sýndi okkur einnig að þó þátttakendur væru á ólíkum leiðum yfir helgina þá virkar kafbáturinn ekki nema við séum öll að vinna saman - líkt og í skátastarfinu.

Kvöldið endaði í Ólafsbúð þar sem þátttakendur áttu huggulega stund saman við varðeldinn.

 

Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn og hláturjóga og svo byrjaði dagskráin þar sem þátttakendur dýfðu sér ofaní þá leið sem þau völdu. Þátttakendur tókust á við ýmis verkefni, bæði utandyra og innandyra og var góður andi yfir hópnum. Á meðal viðfangsefna var leikjasmiðja, táknræn umgjörð, hvernig virka stjórnir skátafélaga, og snjóflóðaýla leit.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Að kvöldi var svo komið að hinum klassísku Eldleikum og að þeim loknum var haldin öflug kvöldvaka þar sem hópurinn söng og hló saman til skiptis.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Á sunnudeginum kláruðu hóparnir sína leið og tóku svo til hendinni og gengu frá öllu eins og skátum einum er lagið.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka helgi, takk fyrir samveruna og takk öll sem aðstoðuðu við skipulag og gerðu helgina að veruleika.

Gleðilegt nýtt skátaár!

Mynd: Andrea Dagbjört

Kraftur í boði Leiðbeinendasveitarinnar

Leiðbeinendasveit skátanna hefur haft í mörgu að snúast síðastliðinn mánuð en í nóvember hefur sveitinn haldið tvö leiðtogaþjálfunarnámskeið, DróttKraft og FálkaKraft.

55 dróttskátar á Blönduósi

Skátar norðan og sunnan heiða hittust í Glaðheimum á Blönduósi helgina 15.-17. nóvember og gerðu sér glaða daga. Reyndar frestaðist ferðin til ósa Blöndu ögn vegna veðurs en við hittumst hress í hádegi á laugardag eftir gistingu í skátaheimili Landnema fyrir sunnan og skátaheimili Klakks fyrir norðan.

Þema helgarinnar var Landvættir en skátarnir áttu m.a. að finna nafnið á sínum landvætti. 55 skátar frá Akranesi, Garðbúum, Landnemum, Skjöldungum, Ægisbúum, Mosverjum, Heiðabúum og Klakki blönduðu sér í 8 flokka og unnu saman að ýmsum verkefnum, m.a. að undirbúa útilífsmiðstöð í Hrútey við Blönduós, kveiktu eld og lærðu á Hollendinga, undirbjuggu starfsáætlun og héldu æðislega kvöldvöku.

Mjög skemmtileg helgi er að baki og við vonumst til að geta tengt skátafélög víðsvegar að af landinu saman í meira mæli á næstu námskeiðum.

Við sendum þakkir til allra þátttakenda og sjálfboðaliða sem aðstoðuðu okkur við að gera þennan viðburð að veruleika!

Fyrsti FálkaKraftur fyrir norðan

Sveitarforingjar fálkaskátasveitanna Arna og Skeifa í Klakki báðu Leiðbeinendasveitina um að halda Fálkakraft hjá sér og var það okkur sönn ánægja að verða við þeirri ósk.

Námskeiðið var haldið í Valhöll laugardaginn 23. nóvember í sveitarútilegu fálkaskátasveitanna sem 15 skátar tóku þátt í. Þema námskeiðsins var heimshornaflakk þar sem skátarnir heimsóttu m.a. Palavúflugvöll og fóru í ímyndað útsýnisflug yfir Akureyri til að skoða hvar þau vilja bæta nærsamfélag sitt með því að vinna samfélagsverkefni.

Draumur fálkaskátanna í Klakki er að byggja tívolí í bænum, það verður spennandi að fylgjast með því.

Þá hönnuðu skátarnir póstaleik þar sem viðfangsefnið var skátalögin og póstarnir tengdir þeim. Sem dæmi má nefna að "Skáti er glaðvær" var túlkað með því að renna sér í snjónum niður svakalega skemmtilega brekku.

Við þökkum skemmtilegri fálkaskátasveit fyrir að fá okkur í heimsókn norðum og hlökkum til að fara í heimsókn til fleirri sveita á árinu.

Hvað gerir Leiðbeinendasveitin?

Leiðbeinendasveitin er vinnuhópur á vegum Skátaskólans. Hlutverk hennar er að sjá um leiðtogaþjálfun á vegum BÍS, undirbúa, framkvæma og meta námskeið.

Í leiðbeinendasveitinni er þegar hópur öflugra leiðtoga en það er alltaf opið fyrir einstaklinga sem eru áhugasöm um að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga og vill auka gæði þjálfunar og fræðslu á vegum Bandalags íslenskra skáta. Leiðbeinendasveitin vinnur að því að auka leiðtogafærni og valdefla unga skáta til virkrar þátttöku í skátastarfi sem og í daglegu lífi þeirra. Leiðbeinendasveitin miðlar þekkingu sinni og reynslu til annara skáta og vinnur að því að auka áhrif skátastarfs á íslenskt samfélag.

Nánari upplýsingar um starf sveitarinnar má finna hér.


Þroski - samheldni - heiðarleiki

Glæsilegur hópur skáta fengu Gilwell einkennin sín afhent á hátíðlegri stund í Gilwell skálanum um helgina. Þeir sem fá Gilwell einkenni hafa lokið 10 daga leiðtogaþjálfun og gert lokaverkefni. Gilwell leiðtogaþjálfun er æðsta stig foringjaþjálfunar BÍS.  Fyrsti hluti ævintýrsins var í febrúar, í júní var tjaldbúð reist á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem fræðslu var blandað við tjaldbúðarupplifun. Þriðji og síðasti hlutinn var svo núna um helgina. Hápunktur helgarinnar var þegar skátarnir kynntu Gilwell verkefnið sitt fyrir hópnum en þau völdu sér verkefni á vordögum sem þau unnu svo að fram á haust. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt, allt frá því að smíða sturtuhús við vatnasafaríið á Úlfljótsvatni í að gera handbók fyrir fararstjóra á Landsmót skáta og endurskoða hlutverk sjálfboðaliðaforingja.

Þó nokkrir gestafyrirlesarar hafa komið að námskeiðunum en á þessum síðasta hluta má nefna Jakob Frímann Þorsteinsson og Vöndu Sigurgeirsdóttur, Elínu Ester, Hrönn Pétursdóttir, Guðrúnu Ásu og Arnór Bjarka Svarfdal. Þau eru öll skátar og miklir leiðtogar á sínum sviðum í atvinnulífinu en leiðtogafræði og leiðtogaþjálfun var einmitt þema helgarinnar og unnið er með hæfni hvers og eins

Skátarnir fjórtán eru á aldrinum 20 – 52 ára og koma úr 9 skátafélögum. Skipt var í flokka í upphafi sem héldust í gegnum ferlið, flokkarnir unnu saman að stórum sem smáum verkefnum. Síðasta verkefni þeirra var að velja eitt orð sem lýsir upplifun af námskeiðinu – þessi orð urðu fyrir valinu:  Þroski – samheldni - heiðarleiki


Risaþrautir, eldkeppni og kvöldvaka á fálkaskátadegi

Fálkaskátadagurinn var haldinn laugardaginn 2. nóvember á 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi en í þetta sinn voru það Landnemar sem voru gestgjafar dagsins. 

 

Dagskráin hófst á póstaleik í Öskjuhlíðinni þar sem flokkarnir fóru í risamíkadó, risamyllu, leystu skátadulmál, fóru í blindandi skógargöngu, bjuggu til sjúkrabörur, reiknuðu út hæð, lengd og rúmmál undirganganna undir Bústaðaveg, gáðu til veðurs, kynntust vatnstankinum á Veðurstofuhæðinni, fluttu vatn og fleira. Í lok póstaleiksins söfnuðust allir flokkarnir saman fyrir framan Landnemaheimilið og kepptu í eldkeppni þar sem markmiðið var að brenna snæri sem strengt hafði verið yfir eldstæðin. Eftir æsispennandi póstaleik stóð flokkurinn Ostasnakk úr Garðbúum uppi sem sigurvegarar leiksins en flokkurinn fékk samtals á þriðja þúsund stig og hlaut að launum farandfánann Fálkakempur.

 

Eftir póstaleikinn var haldin kvöldvaka þar sem fálkaskátarnir tóku vel undir í söng og að henni lokinni var boðið upp á kakó og kex en rúsínan í pylsuendanum var draugahúsið sem dróttskátarnir í Landnemum höfðu sett upp í skátaheimilinu.

 

Um 100 fálkaskátar ásamt foringjum tóku þátt í Fálkaskátadeginum og veður var með besta móti. Landnemar þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum kærlega fyrir samveruna, og óska öllum skátum til hamingju með 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi!

 


Myndaratleikur um eyjuna Soumenlinna

Höfundur og myndir: Ísold Vala Þorsteinsdóttir

Dagur 1 á Ung i Norden í Finnlandi
Til að byrja með voru allar upplýsingar sem voru gefnar fyrir viðburðin mjög skýrar og mjög hjálplegar. T.d. Hvernig maður kæmist frá flugvellinum að hostelinu og hvernig dagskráin yrði.
Þegar ég lenti í Helsinki vissi ég strax hvert ég átti að fara og var komin á hostelið á innan við hálftíma. Hitti þar mótstjórana, þær Ronju og Kimmel og voru þær mjög almennilegar og hjálplegar. Ég kom mér fyrir í koju og svo var farið í kynningarleiki.
Það fannst nánast öllum mjög áhugavert að ég væri eini Íslendingurinn, það voru meira að segja fleirri frá færeyjum, en við lærðum nöfnin á öllum (eða ekki) og fórum svo út að kanna svæðið og borða svo kvöldmt á Indverksum stað.

Dagur 2
Ræs kl 8:00 og borðað morgunmat, þriggja tíma mismunur fór aðeins illa í mann en maður reyndi sitt besta að halda sér vakandi. Við fórum í heimsókn til bandalags skáta í Helsinki þar sem við vorum frædd um allskonar friðarsáttmála og allskonar tengt frið. Fórum svo út í leiki og fengum okkur hádegismat. Við kíktum svo niður á höfn þar sem beðið var eftir bát til að fara með okkur á eyjuna Soumenlinna. Þegar við komum á eyjuna var talað meira um frið og mismunandi sjálfsmyndir. Fengum við þá blað þar sem við áttum að finna 5 staðreyndir (sjálfsmyndir) um okkur, fara svo í tvöfalda línu og velja úr hjá hvoru öðru hvaða sjálfsmynd ætti að taka í burtu, þar til þú ættir eitt eftir.  Áhugaverður “leikur”.
Eftir þetta var okkur skipt í hópa þar sem hver og einn úr hverju landi átti að vera í hópnum, nema auðvitað var það ekki hægt þar sem það var einn Íslendingur og of margir Svíar 😂 en hafðist allt að lokum. Fórum svo í myndaratleik um eyjuna. Taka mynd af góðum felustað, taka mynd af góðum stað til að slaka á, taka mynd af einhverju múmínlegu og meira til. Það var mjög gaman að skoða eyjuna með þessum hætti og gaman að kynnast fólkinu sem var með mér í hóp. Fórum svo aftur upp á land og fórum á annan asískan veitingastað að borða kvöldmat. Eftir kvöldmat var að sjálfsögðu kvöldvaka, en þar sem veðrið var vont þurftum við að hafa hana inni. Þar átti hvert og eitt land að koma með skemmtiatriði eða einhverskonar leik. Ég vissi reyndar ekki af því en náði að kenna þeim hið víðfræga aramdamdaram. Danir kendu leikinn slurp, Svíarnir komu með einhvern froska söng/dans, Færeyingar kendu þjóðdans, Finnar sýndu okkur Finnskar martraðir og Norðmenn komu með brúnan ost, smash og hlaup fyrir alla til að smakka og sýndu einnig ósýnilega bekkinn. Að kvöldvöku liðinni fór ég að sofa.

Dagur 3
Ræs kl 8:00, morgunmatur og pakka niður. Við kvöddum hostelið um 10 leitið og komum okkur aftur upp í bandalag, þar var okkur skipt í tvennt þar sem fyrsti hópurinn bjó til jólaskraut á klútinn sinn og hinn talaði um staðalímyndir og hvernig við getum breytt þeim. Fórum í nokkra leiki og fengum okkur hádegismat. Eftir matinn var kynnt fyrir okkur hinir og þessir viðburðir sem eru væntanlegir í skátahreyfingunni og hvernig við getum farið á hina og þessa skáta staði í heiminum og gerst sjálfboðaliðar.  Þegar dagskránni var við það að ljúka komumst við að því að það væri ekki búið að hanna eða búa til Ung i norden merki handa okkur, unnum við þá í að hanna flottasta merkið og ætlum að láta framleiða það fyrir okkur. Þá var komið að kveðjustund, kvöddum foringjana okkar og héldum í smá búðarferð.

Ég kynntist mikið af nýju fólki og nýjum leikjum og fannst verulega áhugavert að fara ein á skátaviðburð.

Ég tel þetta góðann viðburð sem mun standa uppúr ❤️


Vel heppnað Merkjamót

Þann 12. október hélt Ungmennaráð Merkjamót í Skátamiðstöðinni. Um 30 skátar á aldrinum 13-19 ára sóttu viðburðinn og fræddust um merki og merkjaskipti. Dagskrá var fjölbreytt og kom margt skemmtilegt fólk með dagskrárliði. Starfsráð kom og hélt geggjaða kynningu um færnimerkin og svo fengu skátarnir að búa til sín eigin færnimerki. Aldrei að vita, kannski koma færnimerki í Skátabúðina hönnuð af þátttakendum Merkjamóts.
Katrín fræðslustýra BÍS ræddi um samskipti og fór með skátana í leik sem heppnaðist mjög vel. Á milli dagskrárliða var farið í nafnaleiki og geggjað boðhlaup með veglegum vinningum og heppnaðist það einstaklega vel. Haldin var smiðja um red flags í samskiptum, hverju þarf að taka eftir, hvenær er verið að svindla á þér og svo framvegis. Tveir rekkaskátar sögðu frá þeirra reynslu í merkjaskiptum. Þrír sjálfboðaliðar Úlfljótsvatns komu og kynntu skátastarf í sínu heimalandi og merkin þeirra.

Seinni part dags var farið í tvær stórar keppnir, önnur þeirra var Skátatankurinn sem er keppni byggð á þáttunum “Shark Tank” þar sem þátttakendur þurf að selja dómnefnd einhverja vöru. Að þessu sinni áttu skátar að selja dómnefnd merki. Í dómnefnd sátu Harpa Ósk skátahöfðingi, Úlfur Kvaran og Einar Tryggvi. Það var ríkti mikið keppnisskap enda voru vegleg verðlaun í boði. Seinni keppnin var skátarúlleta, þá skiptu skátarnir merkjum og var markmiðið að safna sem flestum. Veitt voru verðlaun fyrir flest merki og mesta úrvalið.

Einnig var borðuð pizza og Skátabúðin var opin og seldi meðal annars bland í poka af merkjum svo öll ættu að geta skipt við erlenda skáta á næstu viðburðum.

Ungmennaráð vill þakka skipulagsteyminu og öllum sem komu og tóku þátt fyrir frábært Merkjamót. En hugmyndin af þessu móti kviknaði hjá Styrmi í Garðbúum og Einari og Daníel í Árbúum. Þeir í samvinnu við Ungmennaráð skipulögðu svo viðburðinn. Ef þú ert með hugmynd sem þig langar að gera að veruleika, ekki hika við að hafa samband í tölvupósti.


Ályktun frá stjórn BÍS

Þann 10. október var haldinn stjórnarfundur til að geta brugðist við yfirvofandi umfjöllun Kveiks um Alheimsmótið í Suður-Kóreu 2023. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum.

Ályktun stjórnar 10.10.24


Uppgötvun á foringjanámskeiði

Foringjanámskeið var haldið helgina 6.-8. september í Lækjarbotnum.

Þangað voru mættir foringjar sem eru að hefja starfsárið í sínum skátafélögum en það var sérstaklega gaman að þátttakendahópurinn var mjög fjölbreyttur; bæði foringjar sem eru að taka sín fyrstu skref í foringjastörfum en líka reynslumeiri foringjar, og hópurinn samanstóð af foringjum frá mörgum aldursbilum.

Þema helgarinnar var “Uppgötvum!”, þar sem markmiðið var að uppgötva töfra foringjahlutverksins, og skátastarfs í heild. Þátttakendur störfuðu í þremur flokkum sem báru nöfnin Nóbel, Tinnarnir og Einstein. Á námskeiðinu lærðu þátttakendur meðal annars um hlutverk skátaforingja, markmiðaflokkana og hvernig þeir geta stutt við dagskrárval, PGM og ÆSKA, færnimerkin, stikumerkin og könnuðamerkin.

Þá lærðu þátttakendurnir að gera starfsáætlun fyrir veturinn og fengu að heyra innlegg um frávik í hegðun og öryggi í skátastarfi.

Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka undir stjörnubjörtum himni þar sem flokkarnir sýndu skemmtiatriði og bæði klassísk og minna þekkt skátalög voru sungin.

Foringjanámskeið er ekki síst kjörinn vettvangur til að spjalla við aðra foringja, deila ráðum, hugmyndum og mismunandi sjónarhornum og nú halda þátttakendurnir út í starfsárið með gott veganesti.

Leiðbeinendasveitin óskar öllum sveitar- og aðstoðarsveitarforingjum góðs gengis og góðrar skemmtunar á starfsárinu sem er framundan!


Nýjar reglugerðir og afsökunarbeiðni fyrir WSJ23 á Alheimsþingi

Alheimsþing skáta fer nú fram í Egyptalandi og á Bandalag íslenskra skáta tvo fulltrúa þar, þau Berglindi Lilju Björnsdóttur og Daða Má Gunnarsson.

Ýmislegt hefur verið á dagskrá en meðal annars var samþykkt níu ára áætlun til að tryggja öryggi á viðburðum, stórum sem smáum. Áætlunin er þróuð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila og leggur áherslu á öryggi, tækniframfarir og að öll séu velkomin með óháð kyni, trú, kynhneigð, fötlun eða öðru. Markmiðið er að setja hærri staðla í að tryggja að Alþjóðlegir viðburðir séu öruggir, grípandi, áhrifamiklir og hvetjandi fyrir næstu kynslóðir leiðtoga. Hægt er að lesa nánar um áætlunina hér.

Bandalag Kóresku skátanna baðst afsökunar til allra bandalaga, þátttakenda alheimsmóts 2023 og aðra hlutaðeigandi og lýsir eftirsjá yfir göllum mótsins og þeim erfiðleikum sem öll þurftu að takast á við. Þau hafa endurmetið mótið og lýstu þeim atriðum sem fóru úrskeiðis til að hægt verði að koma í veg fyrir slíkt á komandi mótum. Hægt er að horfa á myndbandið hér, en það hefst á mínútu 46:33.

Einnig var lögð fram viðburðarreglugerð sem gengur út á viðburðarstefnu þar sem ábyrgð er skýr, væntingastjórnun er skilvirk og öryggi tryggt. Stefnan miðar að því að geta haft öruggari, sjálfbærari og áhrifaríkari viðburði um leið og traust meðal aðildarfélaga og gestgjafa er gætt. Einnig mun WOSM hafa auknari heimildir til að stíga inn í og veita utanumhald og aðstoð.


Privacy Preference Center