Útkall eftir umsóknum á norrænt gilwell
BÍS stendur til boða að senda 3 þátttakendur á norrænt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Finnlandi. Þátttakendur verða frá öllum Norðurlöndunum en námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.
HVAR OG HVENÆR
Námskeiðinu í Finnlandi er skipt í nokkra hluta:
- 3 netnámskeið: sunnudaginn 1. febrúar, sunnudaginn 22. mars og sunnudaginn 26. apríl. Nánari tímasetningar koma síðar
- Útilega í Asikkala, suður Finnlandi, dagana 29. júní - 4. júlí 2026
- Lokahelgi þjálfunarinnar í suður Finnlandi 6.-9. janúar 2027. Nánari staðsetning kemur síðar.
MARKMIÐ
Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.
Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.
KRÖFUR
Þátttakendur þurfa að vera 22 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.
KOSTNAÐUR
Þátttökugjaldið er 550 evrur ásamt því að þátttakendur þurfa að greiða eigin ferðakostnað (2 ferðir til Finnlands).
UMSÓKNIR
Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 12. október.
Vinnuhópur um nýliðaprógram

Langar þig að taka þátt í að fjölga sjálfboðaliðum í skátahreyfingunni?
Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu. Nánari upplýsingar um Hringferðina má finna hér.
Vinnuhópurinn mun skipuleggja og stýra Nýliðaprógrami fyrir nýja fullorðna sjálfboðaliða þar sem þátttakendur fá tækifæri til að upplifa skátastarfið sjálf og læra um hvað starfið snýst.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái grunnþekkingu á skátastarfi, séu valdefld til að taka þátt í starfi og upplifi sig tilbúin til að sinna verkefnum sem falla að þeirra áhuga. Prógrammið samanstendur af 3 hittingum og jafnvel vinnu utan skipulagðra hittinga.
Vinnuhópurinn sér um að skipuleggja dagskrá allra hluta námskeiðsins og stýra námskeiðunum.
Vinnuhópur fjölgun sjálfboðaliða
Langar þig að taka þátt í að fjölga sjálfboðaliðum í skátahreyfingunni?
Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu. Nánari upplýsingar um Hringferðina má finna hér.
Vinnuhópur um fjölgun skátafélaga

Langar þig að taka þátt í að fjölga skátafélögum á landinu?
Bandalag íslenskra skáta (BÍS) vill efla skátastarf á landsvísu og þar með auka valmöguleika barna og ungmenna um allt land þegar kemur að vali á æskulýðsstarfi í þeirra nærumhverfi.
Við erum því að leggja af stað í Hringferð um Ísland til að fjölga skátafélögum og starfandi skátum í landinu.
Verkefnið felur í sér að taka þátt í teymi sem hefur það að markmiði að stofna eða endurvekja skátafélög, deildir, sveitir eða flokka á landsbyggðinni.
Köfuðum dýpra á Neista 2025
Nú um helgina komu hátt í 70 manns saman á Úlfljótsvatni og tóku þar þátt í Neista 2025. Neisti er árlegur helgarviðburður þar sem skátar, 16 ára og eldri, fá tækifæri til að læra nýja færni, kynnast öðrum skátum og byrja nýtt skátaár á því að viðhalda skátaneistanum sínum. Neisti í ár var með breyttu sniði en vanalega, nú völdu þátttakendur sér leið eftir áhugasviðum og nýttu helgina til að kafa djúpt í valið viðfangsefni. Leiðirnar sem stóðu þeim til boða voru þrjár; dagskrá, útivist og stjórnun skátafélaga.

Helgin hófst á setningarathöfn þar sem þátttakendum var skipt í flokka og hin sívinsæla flokkakeppni hófst. Að því loknu fóru þátttakendur í póstaleik þar sem verkefnið var að byggja kafbát sem gerði þeim kleift að kafa djúpt ofan í hafsjó þeirrar þekkingar sem þátttakendur völdu að tileinka sér. Hver leið táknaði eina stöð innan kafbátsins en það sýndi okkur einnig að þó þátttakendur væru á ólíkum leiðum yfir helgina þá virkar kafbáturinn ekki nema við séum öll að vinna saman - líkt og í skátastarfinu.
Kvöldið endaði í Ólafsbúð þar sem þátttakendur áttu huggulega stund saman við varðeldinn.
Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn og hláturjóga og svo byrjaði dagskráin þar sem þátttakendur dýfðu sér ofaní þá leið sem þau völdu. Þátttakendur tókust á við ýmis verkefni, bæði utandyra og innandyra og var góður andi yfir hópnum. Á meðal viðfangsefna var leikjasmiðja, táknræn umgjörð, hvernig virka stjórnir skátafélaga, og snjóflóðaýla leit.



Að kvöldi var svo komið að hinum klassísku Eldleikum og að þeim loknum var haldin öflug kvöldvaka þar sem hópurinn söng og hló saman til skiptis.


Á sunnudeginum kláruðu hóparnir sína leið og tóku svo til hendinni og gengu frá öllu eins og skátum einum er lagið.
Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka helgi, takk fyrir samveruna og takk öll sem aðstoðuðu við skipulag og gerðu helgina að veruleika.
Gleðilegt nýtt skátaár!

Kraftur í boði Leiðbeinendasveitarinnar
Leiðbeinendasveit skátanna hefur haft í mörgu að snúast síðastliðinn mánuð en í nóvember hefur sveitinn haldið tvö leiðtogaþjálfunarnámskeið, DróttKraft og FálkaKraft.
55 dróttskátar á Blönduósi
Skátar norðan og sunnan heiða hittust í Glaðheimum á Blönduósi helgina 15.-17. nóvember og gerðu sér glaða daga. Reyndar frestaðist ferðin til ósa Blöndu ögn vegna veðurs en við hittumst hress í hádegi á laugardag eftir gistingu í skátaheimili Landnema fyrir sunnan og skátaheimili Klakks fyrir norðan.

Þema helgarinnar var Landvættir en skátarnir áttu m.a. að finna nafnið á sínum landvætti. 55 skátar frá Akranesi, Garðbúum, Landnemum, Skjöldungum, Ægisbúum, Mosverjum, Heiðabúum og Klakki blönduðu sér í 8 flokka og unnu saman að ýmsum verkefnum, m.a. að undirbúa útilífsmiðstöð í Hrútey við Blönduós, kveiktu eld og lærðu á Hollendinga, undirbjuggu starfsáætlun og héldu æðislega kvöldvöku.

Mjög skemmtileg helgi er að baki og við vonumst til að geta tengt skátafélög víðsvegar að af landinu saman í meira mæli á næstu námskeiðum.
Við sendum þakkir til allra þátttakenda og sjálfboðaliða sem aðstoðuðu okkur við að gera þennan viðburð að veruleika!

Fyrsti FálkaKraftur fyrir norðan
Sveitarforingjar fálkaskátasveitanna Arna og Skeifa í Klakki báðu Leiðbeinendasveitina um að halda Fálkakraft hjá sér og var það okkur sönn ánægja að verða við þeirri ósk.
Námskeiðið var haldið í Valhöll laugardaginn 23. nóvember í sveitarútilegu fálkaskátasveitanna sem 15 skátar tóku þátt í. Þema námskeiðsins var heimshornaflakk þar sem skátarnir heimsóttu m.a. Palavúflugvöll og fóru í ímyndað útsýnisflug yfir Akureyri til að skoða hvar þau vilja bæta nærsamfélag sitt með því að vinna samfélagsverkefni.

Draumur fálkaskátanna í Klakki er að byggja tívolí í bænum, það verður spennandi að fylgjast með því.
Þá hönnuðu skátarnir póstaleik þar sem viðfangsefnið var skátalögin og póstarnir tengdir þeim. Sem dæmi má nefna að "Skáti er glaðvær" var túlkað með því að renna sér í snjónum niður svakalega skemmtilega brekku.
Við þökkum skemmtilegri fálkaskátasveit fyrir að fá okkur í heimsókn norðum og hlökkum til að fara í heimsókn til fleirri sveita á árinu.
Hvað gerir Leiðbeinendasveitin?
Leiðbeinendasveitin er vinnuhópur á vegum Skátaskólans. Hlutverk hennar er að sjá um leiðtogaþjálfun á vegum BÍS, undirbúa, framkvæma og meta námskeið.

Í leiðbeinendasveitinni er þegar hópur öflugra leiðtoga en það er alltaf opið fyrir einstaklinga sem eru áhugasöm um að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga og vill auka gæði þjálfunar og fræðslu á vegum Bandalags íslenskra skáta. Leiðbeinendasveitin vinnur að því að auka leiðtogafærni og valdefla unga skáta til virkrar þátttöku í skátastarfi sem og í daglegu lífi þeirra. Leiðbeinendasveitin miðlar þekkingu sinni og reynslu til annara skáta og vinnur að því að auka áhrif skátastarfs á íslenskt samfélag.
Nánari upplýsingar um starf sveitarinnar má finna hér.
Uppgötvun á foringjanámskeiði
Foringjanámskeið var haldið helgina 6.-8. september í Lækjarbotnum.
Þangað voru mættir foringjar sem eru að hefja starfsárið í sínum skátafélögum en það var sérstaklega gaman að þátttakendahópurinn var mjög fjölbreyttur; bæði foringjar sem eru að taka sín fyrstu skref í foringjastörfum en líka reynslumeiri foringjar, og hópurinn samanstóð af foringjum frá mörgum aldursbilum.

Þema helgarinnar var “Uppgötvum!”, þar sem markmiðið var að uppgötva töfra foringjahlutverksins, og skátastarfs í heild. Þátttakendur störfuðu í þremur flokkum sem báru nöfnin Nóbel, Tinnarnir og Einstein. Á námskeiðinu lærðu þátttakendur meðal annars um hlutverk skátaforingja, markmiðaflokkana og hvernig þeir geta stutt við dagskrárval, PGM og ÆSKA, færnimerkin, stikumerkin og könnuðamerkin.

Þá lærðu þátttakendurnir að gera starfsáætlun fyrir veturinn og fengu að heyra innlegg um frávik í hegðun og öryggi í skátastarfi.

Á laugardagskvöldinu var haldin kvöldvaka undir stjörnubjörtum himni þar sem flokkarnir sýndu skemmtiatriði og bæði klassísk og minna þekkt skátalög voru sungin.
Foringjanámskeið er ekki síst kjörinn vettvangur til að spjalla við aðra foringja, deila ráðum, hugmyndum og mismunandi sjónarhornum og nú halda þátttakendurnir út í starfsárið með gott veganesti.
Leiðbeinendasveitin óskar öllum sveitar- og aðstoðarsveitarforingjum góðs gengis og góðrar skemmtunar á starfsárinu sem er framundan!
Róvervikan í Kandersteg

Nú gefst rekka- og róverskátum frá aldrinum 18 til 26 ára tækifæri á að fara til Kandersteg skátamiðstöðinnar og upplifa áramótin í svissnesku Ölpunum.
Róvervikan (e. Roverweek) er haldin dagana 28. desember 2024 - 4. janúar 2025. Á viðburðinum fá skátar að upplifa þá vetrardagskrá sem er í boði í skátamiðstöðinni, kynnast erlendum skátavinum og læra alls konar sniðugar nýjungar til að nýta í skátastarfi.
Verðið á viðburðinn er 300 CHF (um 48.500 ISK) en þátttakendur þurfa einnig að borga ferðakostnað sjálf og skipuleggja hvernig þau ferðast til Kandersteg.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu viðburðarins en senda þarf inn umsókn til að fara á viðburðinn.
Umsóknarfrestur er til og með 16. ágúst!
Vakin er athygli á reglugerð BÍS um utanferðir skáta, forvarnarstefnu skáta og siðareglur Æskulýðsvettvangsins.
Samvinna, tjaldbúð og veðurviðvaranir á 2. hluta Gilwell

Um síðastliðna helgi var annar hluti Gilwell námskeiðsins á Úlfljótsvatni haldið. Hópurinn sem nú tekur þátt í námskeiðinu hóf ferðina í febrúar og nú líkt og þá voru gular veðurviðvaranir í kortunum dagana fyrir setningu námskeiðsins. Þrátt fyrir það reis glæsileg tjaldbúð á Hvítasunnuflötinni dagana 5. -9. júní og flokkarnir þrír komu sér vel fyrir með útieldhúsi, útilegukamínu, eldstæði og gashellum, enda er útieldun mikilvægur þáttur námskeiðsinns.


Verkefni flokkanna var þó helst það að reyna á eigin skinni þá áskorun að vera í þéttum samskiptum og sambúð með skátaflokknum sínum. Á þessu skrefi var áherslan á flokkastarf, samvinnu og samkennd og hjálpuðu veðurguðirnir okkur við að reyna á seiglu og þol þátttakenda með stöðugu roki og smá hagléli í hike-inu. Skátarnir stóðust allar þessar áskoranir með prýði og skemmtu sér vel í göngunni og tjölduðu svo í skógarrjóðri þar sem langþráð skjól fannst fyrir norðanáttinni.

Áfram var svo haldið að leggja inn hjá þeim ýmsar aðferðir til að styrkja hópinn, greina vandamál, nota jákvæð samskipti og virka hlustun auk þess að vinna með aðgengileika skátastarfs og lýðræðislegar ákvarðanir.
Við erum sérstaklega þakklát öllum þeim sérfræðingum sem hjálpuðu til við að gera námskeiðið einstakt með því að sýna okkur hvernig töfra má fram gómsætar máltíðir yfir eldi og gera tjaldbúðina flottari ásamt þeim sem deildu með okkur visku sinni og reynslu.
Á laugardagskvöld var boðið í opna kvöldvöku sem var vel sótt af eldri Gilwell skátum og var einstaklega góð stemming og sungið hátt og snjallt, auk þess sem borðin svignuðu undan kræsingum og heitu kakói með rjóma.
Það voru glaðir og þreyttir skátar sem luku námskeiðinu í sól og blíðu og öll hlökkum við til lokaskrefsins sem verður í nóvember, þar sem við skoðum hvernig virkja má leiðtogann í sér, bæði í skátastarfi og í eigin lífi.




Sumarskátastarf fyrir dróttskáta snýr aftur!

Skátasveitin DS. Ramus mun starfa í sumar á höfuðborgarsvæðinu og er öllum dróttskátum velkomið að taka þátt. Krakkar sem ekki hafa verið í skátunum eru einnig velkomin að koma og vera með í sumar. Skátafundir munu fara fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið milli 17:30 og 19:30 á þriðjudögum og fimmtudögum frá og með 20. júní til 8. ágúst.
Starfið byggist að mestu á flokkastarfi og gefst skátunum færi á að skapa sín eigin sumarævintýr með öðrum jafningjum á ýmsum útivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Þeir skátar sem ekki skrá sig með flokk munu fá aðstoð við að finna flokk og sem hentar þeim.
Fyrstu fundir munu fara fram á Klambratúni en mæting er við Kjarvalsstaði klukkan 17:30 á fyrsta fundinn þann 20. júní.
Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á Abler og kostar 3000 kr. fyrir hvern skáta að taka þátt í allt sumar. Dróttskátar sem vegna ferðalaga eða annars komast ekki á alla fundi, eru engu að síður hvött til að taka þátt.
Mikilvægt er síðan að fylgjast vel með upplýsingum á Sportabler. Einnig þarf að láta vita fyrir hvern fund hvort skáti mætir eða ekki. Ef lágmarksmæting (4 skátar) næst ekki á fund fyrir hádegi sama dag fellur fundurinn þann daginn niður.
Skátakveðjur og hlökkum til að sjá sem flest í sumar,
Sveitarforingjar Ds. Ramus.









