Tóku þátt í vetrarskátun

Fréttin birtist fyrst hjá akureyri.net og er birt með leyfi.

Skíðasamband skáta stendur árlega fyrir dagskrá í „vetrarskátun“ sem endar með 4-5 daga gönguferð á skíðum um páska sem kallast ÍSHÆK. Í ár fóru tíu vaskir skátar í leiðangurinn og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum.

Vetrarskátun er dagskrá fyrir skáta, 14 ára og eldri, þar sem lögð er áhersla á kennslu á gönguskíðum utan brautar og ferðamennsku að vetri. Það eru skátar úr Skátafélaginu Klakki á Akureyri sem halda utan um verkefnið og sjá um skipulagningu undir merkjum Skíðasambands skáta. Dagskráin er í boði fyrir skáta alls staðar að af landinu.

Yfir veturinn eru reglulegar skíðaæfingar þar sem hinar ýmsu listir utanbrautarskíða eru reyndar og þátttakendur æfa sig í að rata. Skátunum gefst einnig kostur á að taka þátt í útilífsnámskeiði yfir helgi þar sem þeir læra það helsta um útivist, svo sem klæðnað, búnað, matarræði, skyndihjálp, skíðabúnað og margt fleira. Þátttakendur gista eina nótt inni, en seinni nóttina í tjaldi. Námskeiðið er að mestu leyti verklegt og fer að stórum hluta fram utandyra.

Þeir skátar sem náð hafa 16 ára aldri, ljúka útilífsnámskeiðinu, tilteknum fjölda skíðaæfinga og standast rötunarpróf eru svo gjaldgengir í lokaþolraunina, ÍSHÆK og bikarmót Skíðasambands skáta.

ÍSHÆK 2025

Það voru tíu vaskir skátar sem lögðu af stað í ÍSHÆK laugardaginn 12. apríl og var stefnan sett að Gili suður af Fjörðum. Gengið var frá bílaplaninu neðan Kaldbaks, upp Grenjárdal og niður Trölladal um 14 km leið uns komið var að ferðaskála að Gili þar sem hópurinn hafði bækistöð í ferðinni. Veður var með ágætum en snjóalög frekar slök sökum hitatíðar dagana á undan. Þótt hópurinn þyrfti að ganga með skíðin á bakinu frá Finnastaðatungum miðaði honum vel en skátarnir voru þó hvíldinni fegnir í lok þessa fyrsta dags þegar komið var á áfangastað.

Á Pálmasunnudegi hafði veðrið versnað nokkuð, skátarnir létu það þó ekki á sig fá og var farið í dagsferð frá Gili og gengið upp fjallshlíðina austan við á, upp Illagil og til baka. Byrjað var að blása og kólna og þar sem spáin fyrir mánudaginn var ekki sem best var ákveðið að taka forskot á bikarmót Skíðasambands skáta, sem til stóð að halda daginn eftir. Það reyndist skynsamlegt því á mánudeginum var slagviðri; bálhvasst og úrkoma. Ferðalangarnir héldu sig því mest innandyra þann dag, en luku þeim keppnisgreinum sem eftir voru af bikarmótinu í kringum skálann.

Bikarmótið

Hefð er fyrir því að halda bikarmót Skíðasambands skáta í ferðinni. Keppt er í ýmsum þolraunum s.s. spjótkasti, skíðasvigi, spretthlaupi o.fl. Þá tíðkast, segja skátar í léttum dúr, að múta megi – eða hreinlegi eigi að múta – dómurum til að auka vegferð keppanda að hinum mikla heiðri sem felst í því að fá nafn sitt á forláta farandbikar sem sigurvegarinn hlýtur í verðlaun! Að keppni lokinni var það Anton Dagur Björgvinsson sem bar sigur úr bítum og hefur þannig ritað nafn sitt rækilega í sögu ÍSHÆK.

Á þriðjudeginum var pakkað saman og skíðuðu skátarnir sem leið lá ríflega 16 km suður um Leirdalsheiði uns komið var til byggða. Súlur – Björgunarsveitin á Akureyri – sá um að ferja skátana í sund þar sem ferðarykið var skolað af mannskapnum og tröllasögur úr ferðinni sagðar í pottinum.


Sækjum fram - skátar í hverri höfn

Skátaþing var haldið helgina 4.-6. apríl í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Yfirskrift þingsins var "sækjum fram - skátar í hverri höfn" og vísar það til hringferðar sem verið er að leggja í með það að markmiði að fjölga skátafélögum og veita fleiri börnum og ungmennum tækifæri á því að stunda skátastarf. Skátaþing var einkar vel sótt og voru þátttakendur um 150 talsins. Kjörbréf voru 58 og voru 50% atkvæða í höndum ungmenna á aldrinum 13-25 ára.

Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, setti þingið og ávarpaði þingheim. Í ávarpinu kom hún inná hvað skátastarf hefur þróast og dafnað undanfarin tæp 120 ár og á enn jafn vel við í dag og þá. Enn er skátastarfið að skila sínu til samfélagsins, stuðla að frið, efla ungt fólk til ábyrgðar og halda tengslum við upprunan og náttúruna. Þá talaði hún einnig um hvernig síðustu ár hafa farið í að styrkja innviði skátastarfs, hvatakerfið, uppbyggingu viðburða og fleira og þess vegna er skátahreyfingin tilbúin að sækja fram og efla skátastarf í landinu.

Heiðursmerki voru veitt fyrir ýmis vel unnin störf og voru það eftirfarandi sem hlutu heiðursmerki:

Þjónustumerki BÍS úr gulli:
Alex Már Gunnarsson, Vífill, fararstjórn Roverway
Halldóra Hinriksdóttir, Landnemar, fararstjórn Roverway
Valdís Huld Jónsdóttir, Vífill, fararstjórn Roverway
Þóra Lóa Pálsdóttir, Hraunbúar, fararstjórn Roverway

Þórshamarinn úr bronsi:
Bjarni Freyr Þórðarson, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Haukur Friðriksson, Ægisbúar, fráfarandi félagsforingi Ægisbúa

Skátakveðjan úr bronsi:
Claus Hermann, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði
Þórey Valgeirsdóttir, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Skátakveðjan úr gulli:
Guðni Gíslason, Hraunbúar, fyrir framlag sitt til skátastarfs í Hafnarfirði

Bronskrossinn:
Anna Kristjana Öfjörð Helgadóttir, Klakkur.
Fyrir rétt viðbrögð við slysi á dróttskátamóti í Viðey þar sem skáti ökklabrotnaði. Anna tók stjórn á aðstæðum, hlúði að skátanum og veitti aðstoð við andlega skyndihjálp, lét útbúa börur og stýrði því að skátanum var komið ferjuna til að fá aðstoð við hæfi á Landspítalanum.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, 8 ára, Heiðabúar.
Fyrir að sýna hárrétt viðbrögð þegar það rofnaði kransæð hjá móður hennar og þær tvær einar heima. Hún lét móður sína hringja í 112 og beið róleg með henni þar til sjúkraflutningamenn komu og fylgdi henni alla leið á hjartagáttina sem stuðningur. 

Silfurkrossinn:
Jón Andri Helgason, Árbúar.
Fyrir hetjulega björgun á Crean þar sem írskir skátar misstu fótana í straumharðri á sem þeir reyndu að þvera. Jón Andri Stakk sér á eftir þeim og kom þeim að lokum í land, blautum en afar þakklátum fyrir lífgjöfina.

 

Almenn þingstörf fóru fram fyrri hluta laugardags og var þar kosið um lagabreytingatillögur og rætt um ýmis mál. Að þingstörfum loknum voru haldnar vinnusmiðjur  þar sem starfsráð kynnti færnimerki, R.s. Snúðar kynntu færnifant sem er nýtt færnimerkjaspil og alþjóðaráð fræddi fólk um hvað þau geta gert á eigin vegum í alþjóðastarfi. Einnig voru Úlfljótsvatn, Hraunbyrgi og Hamrar með umræðusmiðju um skátamiðstöðvar á Íslandi og tækifærin sem þar liggja. Vinnuhópur Hringferðarinnar var með tvær smiðjur, annars vegar um fjölgun sjálfboðaliða og hinsvegar um fjölgun skátafélaga. Þá var einnig smiðja um skátasambönd.

Hátíðarkvöldverður var haldin á laugardagskvöldinu þar sem Jakob Burgel veislustýrði með miklum glæsibrag og Elfa Dögg reytti af sér brandarana.

Sunnudagurinn var tileinkaður stefnumótun þar sem um 80 skátar mættu og fóru yfir það sem vel var gert í stefnunni sem klárast í ár en jafnframt var horft fram á við og hvaða markmið skátahreyfingin vill sjá í stefnu 2026 - 2030. Stærstur hluti þeirra sem komu að þessari undirbúningsvinnu nýrrar stefnu voru ungmenni og erum við stolt af því að rödd þeirra muni sjást og heyrast í næstu stefnu. Smiðjan um stefnuna var þó einungis upphafið að vinnu við gerð nýrrar stefnu og kemur hún til með að lýta dagsins ljós í upphafi árs 2026.

 


Skátaþing var sett í gærkvöldi

Skátaþing var sett í gærkvöldi með hátíðlegri setningarathöfn sem var einkar vel sótt en yfir 160 manns sóttu setninguna. Skátaþing fer fram í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og eru gestgjafar þingsins skátafélagið Hraunbúar. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, setti þingið og ávarpaði þingheim.

Ávörp fluttu Ólafur Proppé landsgildismeistari, Bjarni Freyr Þórðarson félagsforingi Hraunbúa og Ágúst Þorsteinsson fyrrverandi skátahöfðingi.

Veitt voru heiðursmerki og hetjudáðarmerki, en sjaldgæft er að hetjudáðamerki séu afhent.

Hetjudáðarmerki hlutu:

Anna Kristjana Helgadóttir, skátafélaginu Klakki, fyrir rétt viðbrögð þegar dróttskáti ökklabrotnaði í Viðey.

Jón Andri Helgason, skátafélaginu Árbúum, fyrir lífsbjörg þegar Crean farar misstu fæturnar í straumharðri á fyrr á árinu.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, 8 ára, skátafélaginu Heiðabúum, fyrir rétt viðbrögð þegar hún og móðir hennar voru tvær heima og kransæð rofnaði hjá móður hennar. Matthildur lét móður sína hringja í 112 og hlúði að móður sinni þar til sjúkrabíll kom.

Nokkur skemmtileg verkefni voru kynnt þingheim en það voru kynningar á samstarfi skátamiðstöðva á Íslandi, Landsmóti skáta 2026, hringferð sem verið er að leggja í en markmið hennar er að fjölga skátum og skátafélögum í landinu. Að lokum var kynnt hughrifaherferð og sýnt var frá fyrsta tökudegi hennar.

Skemmtilegt er að segja frá því að 50% atkvæða þingsins eru í höndum ungmenna á aldrinum 13-25 ára.

Þingstörf halda áfram í dag 5. apríl en þinginu lýkur á morgun.


Erindreki landsbyggðar og verkefnastjóri viðburða

Markmið með starfi erindreka er að efla starf skátafélaga í landinu og vinna að því að fjölga skátum í starfi með stuðningi við skátafélög ásamt því að vinna að og eftir atvikum leiða verkefni sem stuðla að aukinni þátttöku í skátastarfi.

Leitað er eftir að erindreki sýni mikið frumkvæði og eigi auðvelt með að vinna með ungu fólki, sé framfærin, geti unnið sjálfstætt, skipulagt verkefni og stýrt verkefnum jafnt sem að vinna í hópastarfi. Óskað er sérstaklega eftir því að Erindreki þessi sé búsett á landsbygðinni og þá sérstaklega á norðurlandi.

Erindreki á að vera mikið í beinum samskiptum við skátafélög á landsbyggðinni og sveitastjórnir/bæjarstjórnir eftir tilvikum – í samráði við framkvæmdastjóra BÍS.

Í starfi þessu felst einnig viðburðastjórnun í samstarfi við annað starfsfólk BÍS og í samráði við starfsráð. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við mótsnefnd Landsmóts skáta sem haldið verður á Hömrum, Akureyri árið 2026 auk annarra viðburða.

Vinnutími er sveigjanlegur, starfsaðstaða einnig og gert er ráð fyrir því að erindreki sé töluvert á ferðinni í heimsóknum til skátafélaga, forsvarsmanna sveitarfélaga og stuðningsaðila skátastarfs.

Helstu verkefni og ábyrgð

Erindrekstur

  • Veita stuðning við uppbyggingu skátastarfs, fjölgun skátafélaga og skáta í starfi
  • Samtal og samvinna með sveitastjórnum/bæjarstjórnum eftir tilvikum
  • Styðja við verkefni fyrir skátafélög í landinu sem tengjast skátaaðferðinni og dagskrármálum
  • Stuðningur við foringja og stjórnir skátafélaga
  • Miðla upplýsingum á heimasíðu skátanna
  • Aðstoð við fræðslumál og námskeiðahald í skátastarfi
  • Aðstoða skátafélög við styrkumsóknir

 

Viðburðastjórnun

    • Styðja mótsstjórn Landsmótar skáta 2026 í undirbúningi
    • Samskipti við erlenda skátahópa
    • Skráningar (innlendra og erlendra skáta) á Landsmót
    • Rútuferðir, skráningar, skipulag og utanumhald á ferðum innlendra og erlendra skáta (pre & post tours) ásamt samskiptum við birgja.
    • Vinna að markaðssetningu Landmóts í samvinnu við mótsstjórn og markaðsstýru BÍS

 

Menntunar- og hæfniskröfur
  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Reynsla af skipulagningu og stjórnun verkefna/viðburða
  • Mjög sjálfstæð vinnubrögð og afburða frumkvæði
  • Eftirfylgni með verkefnum
  • Góð mannleg samskipti og með góða, jákvæða og hvetjandi framkomu
  • Eiga auðvelt með að vinna með öðrum og virkja fólk
  • Nauðsynlegt að hafa mikla reynslu og brennandi áhuga á skátastarfi, með þekkingu á stöðu skátastarfs á Íslandi í dag og hafa verið virk/ur í starfi undanfarin ár
  • Geta til þess að vinna undir álagi
Fríðindi í starfi
  • Sveigjanlegur vinnutími
  • Fjölskylduvæn stefna
  • Heilsustyrkur
  • Hvetjandi starfsumhverfi

Sækið um hér https://www.alfred.is/starf/erindreki-landsbyggdar-verkefnastjori-vidburda


Skátamiðstöðin lokuð vegna Skátaþings

Skátamiðstöðin verður lokuð föstudaginn 4. apríl og mánudaginn 7. apríl vegna Skátaþings.


Sjóræningjar í Vesturbæ

Þrátt fyrir rok og rigningu var Drekaskátadagurinn 2025 haldinn hátíðlegur í Vesturbænum laugardaginn 2. mars. Skátafélagið Ægisbúar skipulagði viðburðinn, sem er ætlaður drekaskátum á aldrinum 7 til 9 ára. Um 124 skátar frá 10 mismunandi skátafélögum tóku þátt í deginum, sem var með sjóræningjaþema.

Dagurinn hófst með risahókípóki þar sem krakkarnir vöktu Vesturbæinn með gleði og fjöri. Eftir það tóku skátarnir þátt í hópleikjum og ratleik um Vesturbæinn. Í ratleiknum áttu skátarnir að leysa ýmsar þrautir, þar á meðal að taka myndir af þremur leiðum með nafninu Anna í Hólavallakirkjugarði.

Þrátt fyrir óhagstætt veður stóðu krakkarnir sig mjög vel og héldu í góða skapið eins og sannir sjóræningjar. Í hádeginu voru borðaðar pylsur, sem var án efa hápunktur dagsins fyrir marga. Eftir ratleikin fengu drekarnir kex og kakó í von um að fá smá hita í kroppinn.

Ægisbúar þakka fyrir frábæran dag og góða mætingu.


Mótsstjóri Landsmóts skáta 2026 

Ingibjörg Guðmundsdóttir hefur verið skipuð mótsstjóri Landsmóts skáta 2026 sem fram fer á Hömrum á Akureyri.  

Ingibjörg hefur verið í skátunum frá því hún var barn og komið að ýmsum skemmtilegum verkefnum. Hún er í skátafélaginu Vífli en er búsett á Akureyri með Hamra í bakgarðinum hjá sér og eyðir þar miklum tíma. Ingibjörg starfaði hjá Útilífsskóla skáta hjá Vífli, hefur komið að foringjaþjálfun, farið á mörg landsmót, alheimsmót í Hollandi og Síle ásamt því að syngja í Skátakórnum.  

Ingibjörg á stóran og góðan vinahóp sem hún kynntist í skátunum og segir að allar skemmtilegustu minningarnar séu úr skátastarfi.  

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt með einum eða öðrum hætti getur þú sent Ingibjörgu tölvupóst hér. 

Bandalag íslenskra skáta er þakklátt að Ingibjörg taki að sér svo stórt verkefni og hlökkum við til samstarfsins!


Vetaráskorun Crean 2025 – Ógleymanlegt ævintýri á Íslandi

Eftir 7 mánaða ferli og 4 undirbúningsferðir hófst lokaleiðangur Vetaráskorunnar Crean. Dagana 14–21. febrúar 2025 fór fram Crean Challenge Expedition á Íslandi, þar sem 32 írskir og 15 íslenskir skátar tóku þátt í krefjandi og spennandi leiðangri. Viðburðurinn hófst Úlfljótsvatni, þar sem hópurinn safnaðist saman til að hefja þetta einstaka viku ferðalag.

Þolpróf í íslenskri náttúru
Þrátt fyrir lítið magn snjós skapaði náttúran töfrandi umgjörð fyrir ævintýrið, með norðurljósum sem lýstu upp himininn. Skátarnir stóðu frammi fyrir breytilegum aðstæðum, þar á meðal kulda sem fór niður í -6°C, blautum stígum og ófyrirsjáanlegu veðri. Þau sýndu gott úthald og seiglu, sérstaklega á sjötta degi þegar þau gengu 15 km leið í drullu og krefjandi landslagi.

Samvinna og menningarsamskipti
Meðan á ferðinni stóð lærðu þátttakendur fjölbreytta færni, allt frá leiðsögn í náttúrunni til teymisvinnu við krefjandi aðstæður. Menningarsamskipti milli íslenskra og írskra skáta sköpuðu einstaka stemningu, þar sem nýjar vináttur mynduðust og ómetanleg reynsla safnaðist í minningabankann.

Lokaathöfn í Reykjavík
Leiðangrinum lauk 22. febrúar með viðurkenningaafhendingu í Reykjavík, þar sem skátarnir voru verðlaunaðir fyrir framúrskarandi frammistöðu og þrautseigju. Sérstakar þakkir voru veittar Hörpu Ósk Valgeirsdóttur, skátahöfðingja, og Eoin Callanan skátahöfðingja Írlands fyrir þeirra framlag og stuðning við viðburðinn.

Crean Challenge heldur áfram
Eftir 7 mánaða ferli, 12 nætur og 110 gengna kílómetra hafa 15 íslenskir skátar öðlast einstaka reynslu í farteskinu sínu, innblásnir af áskoruninni sem þeir tóku þátt í. Crean Challenge Expedition 2025 var ekki aðeins þrekraun heldur einnig vettvangur fyrir vináttu, lærdóm og ógleymanlegar stundir í íslenskri náttúru. Við hlökkum til að fylgjast með næstu ævintýrum sem skátarnir taka sér fyrir hendur!

Takk fyrir þátttökuna – sjáumst í næsta ævintýri!


Ari eldar í Undralandinu

Ari Björn Össurarson hefur verið ráðinn í stöðu matráðs í Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni.

Ari er menntaður matreiðslumaður og hefur síðustu 9 ár unnið í eldhúsum hjá veitingahúsunum Varmá, Fiskmarkaðnum, Skyrgerðinni, Hótel Selfoss og Tryggvaskála. Hlutverk Ara verður að hafa yfirumsjón með eldhúsi, þrifum, innkaupum og öðru utanumhaldi þar að lútandi. Hann mun einnig leiða og leiðbeina starfsfólki og sjálfboðaliðum í eldhúsinu og við þrif.

Auk mikillar reynslu úr veitingabransanum hefur Ari lengi starfað sem foringi í skátafélaginu Fossbúum og verið virkur í alþjóðastarfi.

„Ég er aðallega spenntur yfir því að vera Fossbúum til sóma, og að elda góðan mat fyrir skáta og aðra gesti Úlfljótsvatns“ segir Ari. „Góður matur skiptir lykilmáli fyrir fólk sem er mikið úti, eins og oftast er á Úlfljótsvatni og ég hlakka til að fá að starfa við mitt fag í skátaumhverfi. Svo er líka mikilvægt að brosa og hafa gaman!“ segir Ari brosandi.

Við bjóðum Ara hjartanlega velkominn til starfa og hlökkum mikið til að borða matinn hans.


Skátahreyfingin á fund forseta Íslands

Mynd: Forsetaembættið

Þau Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi og Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdarstjóri BÍS fóru á fund forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, í liðinni viku. Rætt var um náið samband forsetaembættisins og skátahreyfingarinnar allt frá lýðveldisstofnun og um framhald á því samstarfi í embættistíð núverandi forseta.

Forseti Íslands hefur verið verndari skátahreyfingarinnar frá 50 ára afmæli skátastarfs á Íslandi árið 1961 og engin breyting er þar á en Halla Tómasdóttir, forseti er verndari skátahreyfingarinnar. Samstarfið hefur meðal annars átt sinn fasta sess með afhendingu forsetamerkisins á Bessastöðum á ári hverju, en þar afhendir forseti heiðursmerki til 18-19 ára ungmenna sem hafa til þriggja ára sett sér markmið um að efla sig sjálf en á sama tíma efla samfélagið með sjálfboðalistastarfi.

Fram kom á fundinum að skátahreyfingin hefur á síðustu árum náð að byggja upp þátttöku ungmenna innan sinna raða í þátttöku lýðræðislegra ákvarðanna og sett i lög að í öllum ákvörðunareiningum séu fulltrúar ungmenna. Á síðasta aðalfundi hreyfingarinnar, Skátaþingi vorsins 2024, voru yfir 70% þátttakenda undir 30 ára aldri og voru 65% atkvæða í höndum skáta á aldrinum 13-25 ára. Á fundinum var rætt um möguleika á samstarfi fleiri æskulýðssamtaka um að koma á verkefnum á landsvísu þar sem ungmenni fái stuðning og fræðslu til áhrifa á samfélagið. (Texti unnin uppúr texta forsetaembættisins).

Mynd: Forsetaembættið
Mynd: Forsetaembættið

Privacy Preference Center