Að vera einn með sjálfum sér
Hrafnkell Úlfur Ragnarsson, Fossbúi og einbúi
“Öll vandamál mannsins stafa frá vangetu hans til þess að sitja einn í þöglu herbergi.”
-Blaise Pascal
Hringferð í kringum sjálfan sig
Sú alda hófst þegar árið var hálfnað og mánuðurinn það líka og öll ungmenni landsins höfðu klárað sinn skólaskammt og veðrið varð betra að þau hópuðu sig mörg saman í sitthvoru lagi með það fyrir stafni að keyra hringinn í kringum landið. Þessi alda skvettist yfir alla þá samfélagsmiðla sem fyrirfundust og var enginn öruggur fyrir myndum af þeim mörgum náttúruperlum sem að Ísland hefur að geyma.
En hvað með einstakling sem finnst fátt leiðinlegra en að keyra bíl? Hvað getur hán gert? Hán getur í stað þess að fara vikulanga hringferð í kringum landið ákveðið að halda sér á sama stað og farið í hringferð í kringum sjálfan sig innra með sér. Hringferð þar sem engar náttúruperlur eru að finna heldur er einungis að finna margar mismunandi hliðar á sjálfum sér. Hán getur gert eins og ég gerði og prófað að vera eitt með sjálfum sér í viku.
Ég fór því í málið og sendi póst á Stefán skálavörð Þryms sem tók afar vel í hugmyndina og fyrr en varir var ég búinn að leigja Þrym út í viku. Þetta myndi verða vika þar sem ég myndi ekki hafa aðgang að rafmagni, klukku, rennandi vatn né klósetti. En í stað þess að einblína á allt það sem ég myndi ekki hafa aðgang að í viku hugsaði ég mun frekar um það sem ég gæti gert yfir vikuna. Því þetta myndi verða vika af einsetu, lestri, göngum, frelsi, næði og rólegheitum.
Kvikmyndafólk í leit að aðstoð
Upp rann brottfarardagur án mikils undirbúnings og var pakkað því mikilvæga, fötum, stafla af bókum og haldið út í búð til að fylla kerruna af mat þangað til að hrúgan leit út fyrir að vera sjö daga virði af næringu. Eftir það var yfirgefið siðmenninguna og haldið á leið til Þrymheima. Þegar komið var voru allir kvaddir á einn hátt eða annan og svo slökkt á símanum og yrði hann svo ekki notaður út vikuna, og var einveran þar með hafin og mundi hún ekki vera brotin nema tvisvar yfir alla vikuna. Í báðum tilfellum voru þetta örstuttar utanaðkomandi heimsóknir sem að entust samanlagt ekki nema um 10 mínútur. Í fyrra tilfellinu kom kvikmyndatökufólk í leit að aðstoð vegna þess að þau fundu ekki Bæli, en höfðu þó fundið Kút, og seinna tilfellið var fjölskylda sem átti leið hjá og ákvað því að banka upp á Þrym til að sjá hvað var um að vera, og bjóst líklega ekki við einbúa.
Frelsandi og einfalt líf
En í hverju fólst þessi vikulanga einvera? Fyrst og fremst fólst hún í miklum lestri samhliða því að kanna þá náttúru sem í nærumhverfinu var, og einfaldlega því að vera einn og gera ekki neitt. Þessi einvera var gífurlega frelsandi og róleg. Ég var ekki með neitt skipulag yfir vikuna að því frátöldu að ganga í og baða mig í Reykjadal sem að ég gerði á fimmtudeginum. Þetta skipulagsleysi leiddi til þess að ég bar ekki ábyrgð á neinu og þurfti því ekki að hafa áhyggjur af neinu. Einnig hjálpaði það að ég var ekki með neina klukku á mér og vissi því aldrei hvað klukkan var og gat því aldrei skipulagt neitt almennilega. Dagurinn skiptist því í þrjú mislöng tímabil, þegar sólin var uppi, þegar sólin var komin fyrir fjall og þegar sólin var sest. Þetta þýddi að ég fór yfirleitt að sofa stuttu eftir að sólin sast og vaknaði þegar hún byrjaði að skína í gegnum gluggana hjá mér, aldrei vitandi hvað klukkan var í raun.
Lífið yfir þessa viku snérist um að vakna, gera mér hafragraut, lesa bækur, fara í göngur, saga niður eldivið, kynda kamínuna þegar sólin var farin fyrir fjall og það byrjaði að kólna, elda mér kvöldmat. Þetta var afar einfalt líf, en mér leiddist aldrei heldur var það þveröfugt. Þetta var allt afar fljótt að líða og áður en ég vissi af var dvöl minni í Þrym lokið. Ég lærði margt um sjálfan mig og lífið almennt í þessari ferð, og var það ekki bara í gegnum lestur á bókum sem það gerðist heldur var það vegna einsetu minnar sem að ég náði að kynnast sjálfum mér svona vel. Þetta var einfalt líf, en þetta var gott og kósý líf.
“Einungis í einsetu getur maður upplifað raunverulegt frelsi”
-Michel Montaigne