ESC verkefni – Aðgengilegt skátastarf

Starfsárið 2023-2024 vinnum við að verkefni sem snýr að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í skátastarfi. Þetta er okkur mjög mikilvægt verkefni, við höfum verið að leggja aukna áherslu á innglindingu í skátastarfi og er þetta einn liður í því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast skátastarfi.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr samfélagsverkefnahluta Erasmus+ áætlunarinnar og eru verkþættir verkefnisins eftirfarandi:

  • Bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum hreyfingarinnar upp á fræðslu
  • Þýða dagskrárefni skáta
  • Þýða bókina “Hvað er skátastarf?” ætlað börnum, foreldrum og starfsfólki til kynningar
  • Koma á tengslaneti fullorðinna skáta með erlendan uppruna búsett á Íslandi og hvetja þau til þátttöku.

Forsenda þess að verkefnið takist vel er að við sem hreyfing leggjumst öll á eitt að gera starfið aðgengilegt, á vettvangi bandalagsins en einnig á vettvangi skátafélaganna.

Því er fyrsti verkþátturinn fræðsla fyrir sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm þar sem við fáum tækifæri á því að öðlast innsýn í reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi og hvað aftrar þátttöku þeirra í æskulýðsstarfi.

FJÖLMENNINGARFRÆÐSLA MANNFLÓRUNNAR

Fyrsta fræðsluerindið var haldið í nóvember en þá kom Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi Mannflórunnar, til okkar og hélt fræðslu um fjölmenningu.

Chanel kom með ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig íslenskt samfélag er byggt upp með þátttöku einstaklinga með ólíkan bakgrunn, fjölda ólíkra og sameiginlegra uppruna og einnig einstaklingar sem tilheyra mörgum fjölbreyttum menningarheimum.

Hún kom einnig með fræðslu varðandi ýmiss hugtök sem snertir fjölmenningu og mikilvægt fyrir virka einstaklinga í samfélagi að vera meðvituð um eins og

  • Staðalímyndir
  • Kynþátttafordóma
  • Menningarfordóma
  • Öráreiti
  • Hvítleika
  • Forréttindi
  • Forréttindi hvítra

Við hvetjum öll að fræðast um þessi mikilvægu málefni en þau sem ekki komust á fræðsluna hjá Chanel geta nálgast ítarefni hjá starfsmanni síns skátafélags.

Við vonum að sem flest sjái sér fært um að mæta á aðrar fræðslur á vorönn.

Ef þið hafið hugmyndir að áhugaverðum fræðsluerinudm má endilega senda þær á skatarnir@skatarnir.is.