Crean þátttakendur gengu frá sólarupprás til sólseturs
Á laugardaginn síðasta skunduðu af stað hressir skátar í fjallgöngu. Þetta var þriðja undirbúningsferðin í Crean Vetraráskoruninni ´23-´24. Í fyrri undirbúningsferðum hafa þau gengið að Hafravatni og einnig gengið um Hvaleyrarvatn.
Að þessu sinni var gengið frá Kjósinni upp á Trönu og þaðan yfir á Móskarðshnúka. Síðan lauk göngunni niðri við skátaskálann Þrist.
Þátttakendurnir byrjuðu gönguna á því að skoða bestu gönguleiðina á kortum og skipuleggja sig. Svo lagði hópurinn af stað við sólarupprás. Létt var yfir hópnum og öll í góðu skapi, skátarnir styttu sér stundir við gönguna með léttum orðaleikjum og spjalli á meðan þau nutu útsýnisins. Víðtækt landslag var í göngunni eins og tún, grjótaslóðar og sandsteinar en svo var einnig smávægis snjór og klaki á toppi Móskarðshnúka og Trönu. Þegar hópurinn var kominn að Móskarðshnúkum var sólin byrjuð að lækka á lofti og gengu þau niður hlíðina við sólsetrið.
Gangan tók um það bil 7 klukkustundir og gengið var 12.5 km. með 1.137m. hækkum.
Hópurinn byrjaði að elda sér verðskuldaðan kvöldmat þegar komið var niður af Móskarðshnúkum og svo var hugguleg kvöldstund með söng, eld í arninum og spjalli. Þau fóru sæl í háttinn bæði inni í Þrist og einnig úti í tjaldi. Haldið var heim á leið fyrir hádegi á sunnudegi.