Útkall: Sjálfboðaliði (IST) á alheimsmóti 2027
LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM SJÁLFBOÐALIÐI (IST)?
Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum (IST) til að slást í fararhópinn á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.
Hvað felst í því að vera sjálfboðaliði Alheimsmóts ?
Skátar, 18 ára og eldri, geta farið sem IST (international service team) á Alheimsmót. IST liðar starfa sem hluti að teymi og gegna mikilvægu hlutverki við að hvetja og styðja þátttakendur á mótinu og veita þeim þjónustu. IST liðar fá þjálfun og fræðslu til þess að geta sinnt sínu hlutverki.
Þau sem vilja skrá sig sem IST liða á alheimsmót þurfa að vera tilbúin til þess að sinna öllum þeim verkum sem þarf að sinna fyrir mót af þessari stærð. Sum hlutverk geta krafist langs vinnudags eða vinnu á nóttunni og einnig geta sum fengið hlutverk að aðstoða íslenska fararhópinn sérstaklega á mótinu. Að auki verða IST liðar að vera skráðir meðlimir Bandalags íslenskra skáta og verða hluti af íslenska fararhópnum á mótið.
Sjálfboðaliðar gista á sér svæði innan mótssvæðisins og verður sér dagskrá einungis fyrir alþjóðlega sjálfboðaliðahópinn. Gera má ráð fyrir að lifa og starfa með nýjum alþjóðlegum vinum.
Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is.
Skilyrði fyrir sjálfboðaliða (IST)
- Vera orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027.
- Mæting á mótssvæðið fyrir sjálfboðaliðana er 27./28. júlí 2027 og brottför er 10. ágúst 2027.
- Geta séð um sig sjálf við fjölbreyttar og krefjandi aðstæður.
- Hafa getu til þess að vera þrjár vikur í tjaldútilegu við frumstæðar aðstæður og taka þátt í tjaldbúðalífi.
Mikilvæg reynsla fyrir sjálfboðaliða alheimsmóts
- Reynsla af allskonar aðstæðum, t.d. ólíku hitastigi, svefnvenjum, matarvenjum o.fl.
- Vera tilbúin til þess að vinna ólík störf og hafa opinn huga gagnvart því að prófa eitthvað nýtt.
- Hæfni og jákvætt viðmót gagnvart samvinnu með fjölbreyttum, ólíkum og alþjóðlegum hópi fólks.
- Kostur að hafa verið sjálfboðaliði á skátamóti eða í stjórn skátamóts, starfað í vinnuhópi BÍS, unnið í hóp við krefjandi verkefni eða viðburð.
Umsókn fyrir sjálfboðaliða
Útkall: Sveitarforingi á alheimsmót 2027
LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM SVEITARFORINGI ?
Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum til að slást í fararhópinn sem sveitarforingjar á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.
Hvað felst í því að vera sveitarforingi Alheimsmóts ?
Sveitarforingjar bera ábyrgð á skátum sinnar sveitar meðan á ferð stendur, þau dvelja með þeim í tjaldbúð, fylgja þeim í dagskrá á mótinu sjálfu og reyna hvað þau geta til að tryggja þátttakendum góða upplifun af ferðinni. Fararstjórarnir eru leiðbeinendur sveitarforingjanna og búast má við miklum samskiptum þar á milli fyrir og á meðan á ferð stendur.
Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is.
Helstu verkefni og ábyrgð sveitarforingja
- Fyrir mót þurfa sveitarforingjar að taka virkan þátt í undirbúningi, kynnast skátum sinnar sveitar, skuldbinda sig til að taka þátt í undirbúningsviðburðum fararhópsins og mæta á upplýsingafundi fyrir forráðafólk sinnar sveitar.
- Á mótinu sjálfu dvelja sveitarforingjar í tjaldbúð með þátttakendum, þau skipuleggja tjaldbúð, halda reglulega upplýsingafundi með þátttakendum, tryggja að þátttakendur mæti í dagskrá og fylgja þeim í dagskrá, skipuleggja matseld með þátttakendum og fylgjast vel með líðan sinnar sveitar.
- Á mótinu gætu sveitarforingjar þurft að mæta á fundi með fararstjórn eða með fulltrúum mótsstjórnar og skipta því með sér verkefnum eftir þörfum og leiðbeiningum frá viðkomandi aðilum.
- Á ferðalögum með fararhópnum aðstoða sveitarforingjar fararstjórn og hafa líka umsjón með skátum sem eru ekki úr þeirra sveitum. Sveitarforingjar þurfa að vera tilbúin til að fylgja fararhópnum hvert skref frá Íslandi og heim aftur.
- Sveitarforingjar eru ábyrgir fyrir velferð skáta í þeirra sveitum á meðan á móti stendur og að skátarnir fylgi reglum fararhópsins og mótsins meðan að á því stendur.
Skilyrði fyrir sveitarforingja
- Hafa getu til þess að vera tvær vikur í tjaldútilegu við frumstæðar aðstæður og taka þátt í tjaldbúðalífi.
- Reynsla af allskonar aðstæðum, t.d. ólíku hitastigi, svefnvenjum, matarvenjum o.fl.
- Reynsla af sveitaforingjastörfum eða öðrum leiðtogastörfum (stjórn skátafélags, uppeldi, annað sjálfboðastarf).
- 20 ára eða eldri árið 2026.
Mikilvæg reynsla fyrir sveitarforngja
- Tekið þátt í forystustarfi, heilbrigðismálum, tjaldbúðamálum eða dagskrármálum fyrir hópa, viðburði eða í skátastarfi.
- Reynsla af fararstjórn á mótum innanlands eða erlendis.
- Færni í að hvetja og leiða ungt fólk á aldrinum 14 til 18 ára við ólíkar aðstæður.
- Jákvætt lífsviðhorf og vilji til verka.
- Góð kunnátta í ensku.
Umsókn sveitarforingja, umsóknarfrestur er til 1. september 2025
Útkall: Vertu í fararteymi á alheimsmót 2027
LANGAR ÞIG AÐ KOMA Í FARARTEYMIÐ SEM STUÐNINGUR VIÐ FARARSTJÓRANA ?
Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum til að slást í hóp fararteymisins (e. contingent management team, CMT) á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.
Hvað felst í því að vera hluti af fararteymi Alheimsmóts (CMT)
Teymið samanstendur af fullorðnum sjálfboðaliðum sem bera ábyrgð á þátttakendum ferðarinnar, þau annast allan undirbúning og sinna allri upplýsingagjöf fram að ferðinni. Teymið undirbýr þátttakendur, sveitarforingja og IST liða fyrir það sem koma skal á mótinu og stýrir öllum ferðalögum hópsins frá því að farið er út og þar til komið er heim aftur en nýtur dyggrar aðstoðar sveitarforingja.
Á mótinu sjálfu annast fararteymið miðstöð fararhópsins í miðbæ mótsins, mætir á fararstjórnarfundi og miðlar upplýsingum áfram til sveitarforingja og þjónustuliða fararhópsins. Þau fylgjast með sveitum fararhópsins og passa að allt gangi eftir óskum og eru til taks ef eitthvað kemur upp. Þau annast einnig upplýsingagjöf til Skátamiðstöðvar og til forráðafólks þátttakenda eftir því sem við á.
Mikilvæg reynsla og færni fararteymisins (CMT)
- Hafa sterka reynslu af einhverju af eftirfarandi þáttum: öryggismálum, heilbrigðismálum, íslenskri menningu, alþjóðlegu skátastarfi, upplýsingamálum, þúsundþjalasmiður, ferðamálafræði, skipulagningu skemmtiferða, fjármálalæsi og utanumhald fjárhagsáætlunar.
- Góð kunnátta í ensku.
- Reynsla af fararstjórn, mótsstjórn eða annarri sambærilegri reynslu.
- Vinna vel í hópi og styðja teymisvinnu.
- Geta tekið ábendingum og leiðbeiningum annarra.
- Jákvætt lífsviðhorf og vilji til verka.
- Sjálfstæð og lausnamiðuð hugsun.
- Haft til þess burði að vera tvær vikur í tjaldútilegu og taka þátt í tjaldbúða lífi.
- Sveigjanleiki við breyttar aðstæður og góð aðlögunarhæfni.
Umsókn í stuðningshópinn, umsóknarfrestur er til 10. ágúst 2025
Athugið að ekki verður fyllt í allar stöður strax, heldur mun fararteymið stækka með fjölgun þátttakenda í fararhópnum. Ef það eru einhverjar spurningar þá er hægt að senda fyrirspurnir á fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is.
