Útkall: Sjálfboðaliði (IST) á alheimsmóti 2027
LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM SJÁLFBOÐALIÐI (IST)?
Fararstjórarnir leita að sjálfboðaliðum (IST) til að slást í fararhópinn á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.
Hvað felst í því að vera sjálfboðaliði Alheimsmóts ?
Skátar, 18 ára og eldri, geta farið sem IST (international service team) á Alheimsmót. IST liðar starfa sem hluti að teymi og gegna mikilvægu hlutverki við að hvetja og styðja þátttakendur á mótinu og veita þeim þjónustu. IST liðar fá þjálfun og fræðslu til þess að geta sinnt sínu hlutverki.
Þau sem vilja skrá sig sem IST liða á alheimsmót þurfa að vera tilbúin til þess að sinna öllum þeim verkum sem þarf að sinna fyrir mót af þessari stærð. Sum hlutverk geta krafist langs vinnudags eða vinnu á nóttunni og einnig geta sum fengið hlutverk að aðstoða íslenska fararhópinn sérstaklega á mótinu. Að auki verða IST liðar að vera skráðir meðlimir Bandalags íslenskra skáta og verða hluti af íslenska fararhópnum á mótið.
Sjálfboðaliðar gista á sér svæði innan mótssvæðisins og verður sér dagskrá einungis fyrir alþjóðlega sjálfboðaliðahópinn. Gera má ráð fyrir að lifa og starfa með nýjum alþjóðlegum vinum.
Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is.
Skilyrði fyrir sjálfboðaliða (IST)
- Vera orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027.
- Mæting á mótssvæðið fyrir sjálfboðaliðana er 27./28. júlí 2027 og brottför er 10. ágúst 2027.
- Geta séð um sig sjálf við fjölbreyttar og krefjandi aðstæður.
- Hafa getu til þess að vera þrjár vikur í tjaldútilegu við frumstæðar aðstæður og taka þátt í tjaldbúðalífi.
Mikilvæg reynsla fyrir sjálfboðaliða alheimsmóts
- Reynsla af allskonar aðstæðum, t.d. ólíku hitastigi, svefnvenjum, matarvenjum o.fl.
- Vera tilbúin til þess að vinna ólík störf og hafa opinn huga gagnvart því að prófa eitthvað nýtt.
- Hæfni og jákvætt viðmót gagnvart samvinnu með fjölbreyttum, ólíkum og alþjóðlegum hópi fólks.
- Kostur að hafa verið sjálfboðaliði á skátamóti eða í stjórn skátamóts, starfað í vinnuhópi BÍS, unnið í hóp við krefjandi verkefni eða viðburð.
Umsókn fyrir sjálfboðaliða