Nýjungar á heimasíðu Skátanna

Undanfarin misseri hefur verið unnið að úrbótum á heimasíðu Skátanna. Heimasíðan hefur fengið litlar og stórar en nauðsynlegar upplyftingar ásamt því að upplýsingar og efni hefur verið einfaldað og gert aðgengilegra fyrir öll. Einnig hefur verið unnið að því að koma áður birtu efni ásamt nýju efni inn á heimasíðuna, en sú vinna er enn í gangi og mun halda áfram jafnt og þétt.

Við mælum með að vafra um síðuna til að kynnast henni og læra á hana þar sem eitthvað hefur færst til í þessum breytingum.

Það sem er nýtt á síðunni er:

Undir "Um okkur" hafa birst tveir nýjir undirflokkar sem eru "Öryggi í skátastarfi" og "Útgefið efni" ásamt flestu því efni sem þar er undir en einnig er þar reglulega efni að bætast við.

Undir "Verkfærakista" hefur "Bakpokinn" verið uppfærður og fengið nýja undirkafla. Þar má helst nefna "Dagskrárbankann" en þar munu bætast við gömul verkefni af gömlu skátamál síðunni ásamt nýjum og spennandi verkefnum frá ykkur. Hér má senda inn hugmyndir að dagskrárefni sem væri hægt að setja þar inn.

Ef farið er í "EN" í valmyndinni birtist síða með ýmsum nytsamlegum upplýsingum fyrir erlenda skátahópa sem vilja koma í heimsókn til Íslands en einnig fyrir skáta með annað móðurmál og vilja kynnast íslensku skátastarfi og finna skátafélag.


Vetrarskátun á Úlfljótsvatni

Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í níunda sinn í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni um helgina. Þema mótsins að þessu sinni var heimskautaferðalangar.

Um 150 skátar skemmtu sér konunglega í frábæru veðri. Á föstudagskvöldið var setning þar sem skátarnir bjuggu til kyndla og kveiktu upp í stórum varðeld og kyrjuðu skátalög.

Að því loknu fóru eldri skátarnir að reisa tjaldbúðir til að gista í og á meðan fóru yngri skátarnir í dýrindis skátakakó og kex.

Á laugardeginum var fjölbreytt skátadagskrá þar sem tekist var á við klifurturninn, eldað hikebrauð yfir opnum eldi, byggt snjóhús, grunnur í snjóflóðafræðum var kennd en það sem stóð uppúr hjá skátunum var sleðabrekkan þar sem var rennt sér niður á öllu því sem hendi var næst. Gleðin var á hverju andliti þegar þau renndu sér niður brekkuna í frábærum vetraraðstæðum.

Fálkaskátar komu í dagsferð á laugardeginum en vegna slæmrar færðar á leiðinni austur var farið góða skoðunarferð um suðurlandið í gegnum Laugarvatn á leiðinni á Úlfljótsvatn en Fálkaskátarnir voru hamingjusamir þegar loksins var komið á Úlfljótsvatn og tóku þátt í póstaleiknum og í lok dagsferðar var kvöldvaka með skátakakó, snúðum og gómsætum kökum.

Boðið var upp á glæsilegan kvöldverð að hætti Arthurs gjaldkera SSR og eftir hann tók við næturleikur þar sem skátarnir þurftu að fanga góðar mörgæsir og forðast vondar mörgæsir til þess að fá hráefni til þess að búa til risa skilti til þess að senda neyðarboð til þess að komast aftur heim frá suðurskautinu.

Á sunnudaginn var frágangur á staðnum og stórleikur þar sem skátarnir tókust á í „capture the flag“ en sleðabrekkan var áfram afar vinsæl. Mótinu var síðan slitið með Bræðralagssöng og félögin fengu þátttökuviðurkenningar sem voru glæsilegir skildir í tilefni 10 ára afmælis vetrarmóts. Við brottför fengu skátarnir svo afhent mótsmerki fyrir vel unnin skátastörf um helgina.

Markmið með Vetrarmóti Reykjavíkurskáta er fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Sjálfboðaliðar úr skátafélögunum sjá um undirbúning og framkvæmd mótsins og eiga þau hrós skilið fyrir frábært vetrarmót og spennandi dagskrá.


Árangur, ævintýri og undirbúningur: Crean 2025 tekur síðustu skrefin fyrir stóru ferðina!

Crean 2025 sveitin er á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir hina stóru ferð í febrúar. Helgin sem leið var stór áfangi, þar sem skátarnir komu saman við Skátalund í Hafnarfirði, tóku þátt í vetrarfærnis kynningum, gistu í tjöldum í -3° frosti og gengu 18km til Bláfjalla. Núna er ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir það sem fram undan er.


Vikan í febrúar, Ævintýrið sem sameinar

Vikan í febrúar, þar sem sveitin mun sameinast 32 írskum skátum við Úlfljótsvatn, verður stútfull af ævintýrum, fræðslu og þjálfun í vetrarfærni. Skátarnir munu læra um Tom Crean, írskan suðurskautsfara, og hetjudáðir hans, sem er mikill innblástur í þessari áskorun. Auk þess munu þau fá þjálfun í rötun og kortalestri, vetrarfærnin tekur einnig á mikilvægum þáttum eins og snjóflóðum, félagabjörgun, ganga í mannbroddum, byggja snjóhús og að draga púlku.
Ekki má gleyma að ferðin er líka tækifæri til að efla vináttu og læra hvert af öðru. Skátarnir munu einnig kynnast menningu og sögu landa hvor annars í gegnum fræðslu, samskipti og samverustundir. Þetta mun dýpka skilning þeirra og auka enn frekar ríkidæmi þessa ævintýris.
Til viðbótar við þessa þjálfun mun sveitin fara í tvær upphitunargöngur í nágrenni Úlfljótsvatns og gista tvær nætur í tjaldi. Þetta verður einstakt tækifæri til að prófa búnað, byggja upp reynslu og auka sjálfstraustið fyrir stóra daginn.
Ferðin endar með göngu frá Úlfljótsvatni í skátaskálana á Hellisheiði, þar sem hópurinn mun hvíla sig og fagna vel unnu verki. Þaðan verður ferðinni haldið áfram til Reykjavíkur, þar sem henni verður lokið með hátíðlegri athöfn og pizzaveislu – fullkominn endir á þessari mögnuðu áskorun. Vetraráskorunin Crean er einstakt verkefni sem sýnir hvað hægt er að ná þegar unnið er saman með ástríðu og þrautseigju.


Dagskrárbankinn stækkar með þinni hjálp

Saman getum við hjálpast að og búið til stóran og flottan dagskrárbanka. Vegna fjölda áskorana hefur Skátamiðstöðin tekið af skarið og byrjað að setja inn efni. Við vitum að skátar og skátaforingjar eiga mikið af spennandi dagskrárefni í bakpokanum sínum sem gæti nýst öðrum. Hér getur þú skoðað efnið sem er komið inn núþegar!

Villt þú hjálpa til við að stækka dagskrárbankann? Þú getur fyllt út formið eða sent póst á skatarnir@skatarnir.is með þínum hugmyndum!

Hvaða aldursstigi hentar verkefnið? Hvað tekur verkefnið langan tíma? Hvaða búnað þarf?
Drag & Drop Files, Choose Files to Upload
Ef þú villt, getur þú hlaðið upp viðhengi hér.

 


Köfuðum dýpra á Neista 2025

Nú um helgina komu hátt í 70 manns saman á Úlfljótsvatni og tóku þar þátt í Neista 2025. Neisti er árlegur helgarviðburður þar sem skátar, 16 ára og eldri, fá tækifæri til að læra nýja færni, kynnast öðrum skátum og byrja nýtt skátaár á því að viðhalda skátaneistanum sínum. Neisti í ár var með breyttu sniði en vanalega, nú völdu þátttakendur sér leið eftir áhugasviðum og nýttu helgina til að kafa djúpt í valið viðfangsefni. Leiðirnar sem stóðu þeim til boða voru þrjár; dagskrá, útivist og stjórnun skátafélaga.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Helgin hófst á setningarathöfn þar sem þátttakendum var skipt í flokka og hin sívinsæla flokkakeppni hófst. Að því loknu fóru þátttakendur í póstaleik þar sem verkefnið var að byggja kafbát sem gerði þeim kleift að kafa djúpt ofan í hafsjó þeirrar þekkingar sem þátttakendur völdu að tileinka sér. Hver leið táknaði eina stöð innan kafbátsins en það sýndi okkur einnig að þó þátttakendur væru á ólíkum leiðum yfir helgina þá virkar kafbáturinn ekki nema við séum öll að vinna saman - líkt og í skátastarfinu.

Kvöldið endaði í Ólafsbúð þar sem þátttakendur áttu huggulega stund saman við varðeldinn.

 

Laugardagurinn byrjaði á fánaathöfn og hláturjóga og svo byrjaði dagskráin þar sem þátttakendur dýfðu sér ofaní þá leið sem þau völdu. Þátttakendur tókust á við ýmis verkefni, bæði utandyra og innandyra og var góður andi yfir hópnum. Á meðal viðfangsefna var leikjasmiðja, táknræn umgjörð, hvernig virka stjórnir skátafélaga, og snjóflóðaýla leit.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Að kvöldi var svo komið að hinum klassísku Eldleikum og að þeim loknum var haldin öflug kvöldvaka þar sem hópurinn söng og hló saman til skiptis.

Mynd: Árni Már Árnason, Klakki
Mynd: Árni Már Árnason, Klakki

Á sunnudeginum kláruðu hóparnir sína leið og tóku svo til hendinni og gengu frá öllu eins og skátum einum er lagið.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka helgi, takk fyrir samveruna og takk öll sem aðstoðuðu við skipulag og gerðu helgina að veruleika.

Gleðilegt nýtt skátaár!

Mynd: Andrea Dagbjört

Privacy Preference Center