Skátablaðið Pappírsheimur - 1. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 1. tölublað.
Skátar streyma að

Landsmót skáta er að hefjast og skátar allstaðar að úr heiminum hafa streymt á svæðið frá því á mánudag. Öll íslensku skátafélögin og fleiri erlendir skátar setja upp tjaldbúðir sínar á svæðinu í dag. Eftirvæntingin leynir sér ekki á mótsvæðinu á Úlfljótsvatni, enda hafa liðið átta ár frá síðasta Landsmóti skáta.

Mikil gleði ríkir á svæðinu þrátt fyrir hressilega rigningu og fagna skátarnir því að geta prófað allan búnaðinn sinn á mótinu. Samkvæmt veðurspá styttir upp skömmu eftir helgi.

Á mótið koma um 2000 skátar, t.d. frá Kanada, Hong Kong, Tavían, Evrópu og Bandaríkjunum.
„Það er erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki mætt á Landsmót hvað það er, því þetta er meira en bara útilega. Skátaandinn sem svífur yfir svæðið og samheldnin sem er til staðar í skátasamfélaginu okkar er einstök og býr til þessa fallegu stemmningu sem einkennir Landsmót“.
- Kolbrún Ósk Pétursdóttir, mótsstýra Landsmóts skáta
Mótið verður sett í kvöld kl 20:00 með glæsilegri setningarathöfn.

Það er spennandi og skemmtileg vika framundan þar sem við hittum skáta allsstaðar að úr heiminum og byggjum upp stórt alþjóðlegt skátasamfélag. Fimmtudaginn 18. júlí bjóðum við öllum áhugasömum að koma í heimsókn. Hægt verður að rölta um allt svæðið og kynnast ólíkum menningarheimum skáta frá mismunandi löndum. Deginum lýkur með hátíðarkvöldvöku. Við hvetjum öll til þess að taka daginn frá og gleðjast með okkur á Úlfljótsvatni.

Hægt verður að fylgjast með Landsmótinu á heimasíðu og samfélagsmiðlum skátanna, Facebook og Instagram. Gefið verður út daglegt fréttablað frá Landsmóti og að auki hægt að fylgjast með því í útvarpi á rásinni 106.1 eða á spilarinn.is
Landsmót hefst á morgun!

Landsmót skáta verður haldið 12. – 19. júlí á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Skátar fagna því að geta aftur komið saman eftir 8 ára hlé, en fella þurfti síðasta mót niður vegna Covid 19. Á landsmótum skáta er samheldni, gleði og skátaandinn í fyrirrúmi.
Þema landsmóts í ár er „Ólíkir heimar“ sem vísar til þess að á landsmóti eru ekki bara íslenskir skátar heldur koma skátar alls staðar að úr heiminum, enda er skátahreyfing stærsta æskulýðs- og friðarhreyfing í heimi. Skátarnir koma frá ólíkum löndum, hafa ólíkan menningarbakgrunn og tala ólík tungumál en eiga það öll sameiginlegt að vera skátar.
Landsmót skáta stendur yfir í viku, og er gist í tjöldum. Tjaldbúðirnar sem rísa munu rúma yfir 2000 skáta og fjölskyldur þeirra, og á örfáum dögum rís nýtt bæjarfélag skáta á Úlfljótsvatni. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg þar sem öll ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, reynt við nýjar áskoranir og á sama tíma eignast nýja vini. Dæmi um dagskrá eru hike-gönguferðir, sköpunarsmiðjur, bogfimi, klifur og stór þrautasvæði. Stór hluti skátastarfs byggir á þjónustu við samfélagið og munu því allir skátar mótsins taka þátt í því að bæta heiminn í einn dag, og vinna verkefni sem byggja upp miðstöðina á Úlfljótsvatni.
Sérstakar fjölskyldubúðir verða starfræktar á mótinu þar sem fjölskyldur þátttakenda, eldri skátar og fjölskyldur þeirra og þau sem eru áhugasöm um að kynnast skátastarfi stendur til boði að tjalda saman og taka þátt í mótinu. Dagskráin er sérstaklega miðuð að yngri kynslóðinni og fá þau meðal annars að fara í bátasmiðju, útieldun, á kvöldvöku og margt fleira.
Á heimsóknardegi þann 18. júlí geta þau sem vilja komið í heimsókn á mótið og tekið þátt í dagskrá, rölt um svæðið og kynnst skátafélögunum sem mörg hver verða með kynningar, leiki og fleira. Einnig er hægt að kíkja á kaffihúsið í Strýtunni og fá sér kaffi og vöfflur eða versla í Skátabúðinni og enda svo daginn á hátíðarkvöldvöku.
Vinnudagur á ÚSÚ fyrir landsmót

Laugardaginn næstkomandi (6.júlí) ætlum við að byrja tjalda undirbúninginn á landsmóti og ætlum við að setja upp 2 tjöld ásamt sviðinu. Við óskum eftir hressu og skemmtilegu fólki til að koma að hjálpa okkur og taka þátt í undirbúningnum fyrir mótið. Einnig verður nóg af minni verkefnum tengd dagskrármálum og Úlfljótsvatni í boði fyrir þau sem vilja. Við hvetjum ykkur til að nýta tækifærið og koma í útilegu yfir helgina á Úlfljótsvatn.
Mótstjórn mætir á föstudaginn en aðal vinnan fer fram á laugardegi.
Vinsamlegast látið Benedikt Þorgilsson vita hér eða í facebook skilaboðum, ef þið mætið svo hægt sé að áætla matarmál, en ÚSÚ mun elda mat fyrir sjálfboðaliða.




