Undirbúningur í fullum gangi

Vaskur hópur sjálfboðaliða og starfsfólks hefur undanfarnar vikur og mánuði unnið hörðum höndum að því að fegra og betrumbæta Úlfljótsvatn svo hægt sé að taka á móti þeim fjölda skáta sem leggja leið sína á Landsmót skáta 12. - 19. júlí.
Hvort sem það hefur verið að mála hús, moka fyrir lögnum, hreinsa beð eða eitthvað allt annað þá hefur fólk gert það með bros á vör. Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir frá vinnunni.





Einnig hefur stór hópur fólks unnið að því að flokka safngripi Skátasafnsins um leið og húsnæði þess hefur verið betrumbætt. Skátasafnið mun opna dyr sínar aftur fyrir Landsmót!



"að vera skáti snýst um að vera heiðarlegur þátttakandi í samfélagi fólks, eiga góð samskipti og gera gagn."

Margrét Tómasdóttir, fyrrverandi skátahöfðingi fór í viðtal á Rás 1, Morgunvaktin. Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Margréti með því að stilla á mínútu 01:24:40.
Í viðtalinu rifjar Margrét upp hvernig hún byrjaði í skátunum, hvað var skemmtilegast og hvernig kom til að hún varð síðar meir skátahöfðingi.
Stuð, pepp og stemning á Fimmvörðuhálsi

Þann 7. júní lögðu tæplega 30 dróttskátar og 11 foringjar af stað í leiðangur yfir Fimmvörðuháls sem er gönguleið á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Veðrið setti aðeins strik í reikninginn og þess vegna var ekki farið eftir upphaflega planinu en ekkert stöðvaði okkur. Við lögðum af stað frá Landnemaheimilinu að morgni föstudags í góðu veðri og þá byrjaði ævintýrið. Keyrt var alla leið á Hvolsvöll og þar var stoppað til að fá sér að borða og skreppa á klósettið.

Eftir langt og gott stopp keyrðum við áfram að Seljalandsfossi og hann var skoðaður gaumgæfilega. Sumir komu smá blautir úr þeirri upplifun en það var bara SPS (stuð, pepp og stemning#takkEinar ). Næst á dagskrá var að skoða Gljúfrabúa sem er foss inn í gili. Það var tekið mikið af myndum af fossinum, enda var hann mjög töfrandi. Svo skelltum við okkur í Nauthúsagil og gengum þar meðfram klettaveggjunum að litlum fossi og var þetta fyrsta áskorunin fyrir suma, þar sem að þurfti að klifra á keðju til að komast að fossinum. Merkurker var næst í röðinni, á bílastæðinu skelltu sér allir í sundföt og síðan var stokkið út í á sem liggur í gegnum helli.


Þegar buslinu lauk, lá leiðin beint inn í Bása, þar sem reist var tjaldbúð. Um kvöldið var lögð mikil vinna í að grilla kjúkling sem að sló í gegn hjá þreyttum skátum. Nokkrir skátar kveiktu lítinn eld, sungu saman og fengu sér sykurpúða. Aðrir þreyttir skátar eftir langan ferðadag skriðu inn í tjöld en nokkrir hressir skátar skelltu sér að kanna Þórsmörk.



Morguninn eftir vöknuðu allir í blíðskapar veðri og byrjað var að taka niður tjaldbúðina. Lagt var af stað upp hálsinn um hádegisbilið og það var mikið SPS í gangi. Gangan byrjar á að fara upp Kattarhrygginn sem var áskorun fyrir marga lofthrædda í hópnum. Eftir það var komið að Heljarkambi sem margir voru orðnir stressaðir fyrir keðju sem þarf að ganga eftir part af leiðinni, allir komu úr því ævintýri heilir á húfi. Þá var bara leiðin upp að skálunum. Krökkunum var síðan skipt á tvo skála, Baldvinsskála sem er í 800m hæð og Fimmvörðuskála sem er í 1000 m hæð. Á leiðinni var mikið verið að vinna með ,,Njóta en ekki þjóta” (kannski aðeins of mikið). Nokkrir af reyndari skátunum í hópnum peppuðu þau sem voru orðin þreytt og uppgefin. Við komum loks í skálana um hálf eitt, öll svöng og þreytt tilbúin að fara að sofa.




Skátarnir vöknuðu í svitakófi eftir með misgóðan svefn og gerðu sig tilbúin til að hittast aftur á leiðinni niður að Skógum. Sá endurfundur vakti gleði og þrömmuðu þau áfram með SPS í hjarta, tilbúinn fyrir ferðina að handan. Smá snjór var eftir þannig við nýttum öll tækifæri til að renna okkur niður snjóbrekkurnar. Á leiðinni niður var glæsilegt útsýni og fossarnir nærri því óteljandi, þó að einhverjir reyndir foringjar hafi náð góðri tölu. Skógar voru sýn sem öllum þreyttum skátum hafði dreymt um og hamingju magnið var yfirfullt.


Margir skátar fengu sér lúr í rútunni sem að kom sérstaklega seint heim eftir smá vesen á leiðinni því að dekkið sprakk á miðri leið. Heimkoman í Landnemaheimilið var í kringum miðnætti.
Gangan yfir Fimmvörðuháls tekur þrjósku, pepp og algjört meistarahugarfar og er þetta risastórt afrek á vonandi löngum ferli þessa frábæru skáta. Þeir skátar sem tóku þetta verkefni að sér eru formlega orðnir sigurvegarar í augum okkar og við þökkum öllum æðislegu foringjunum sem þoldu öll þau vandamál sem komu upp fyrir æðislega og ógleymanlega ferð. Sjáumst á Landsmóti SPS!
Þetta var í annað sinn sem hópur dróttskáta gekk yfir Fimmvörðuháls og er ferðin styrkt af styrktarsjóði skáta, þannig að dósunum frá Grænum skátum var breytt í káta skáta.

Fyrrverandi skátahöfðingi sæmd Fálkaorðu

Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi var í gær þann 17. júní 2024, sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.
Margrét Tómasdóttir gekk til liðs við skátahreyfinguna á barnsaldri, fyrst í Reykjavík síðan í Kópavogi og Garðabæ.
Hún gegndi öllum helstu foringjastörfum í hreyfingunni á yngri árum og að námi loknu var hún í forystu skátahreyfingarinnar m.a. formaður starfsráðs Bandalags íslenskra skáta, en ráðið fjallar um viðfangsefni skátastarfsins á hverjum tíma. Margrét sat í stjórn Skátafélagsins Vífils í Garðabæ á árunum 1991-1996 og var Margrét einstaklega röggsöm og fylgin sér og á félagið henni margt að þakka! Árið 2004 var hún fyrst kvenna kjörin skátahöfðingi Íslands eftir að hafa gegnt embætti aðstoðarskátahöfðingja um árabil. Margrét var skátahöfðingi alls í sex ár eða til ársins 2010.
Við óskum Margréti innilega til hamingju um leið og við þökkum henni fyrir ómetanlegt starf í gegnum árin.
Drekar fóru í sirkus

Helgina 31. maí - 2. júní var Drekaskátamót haldið á Úlfljótsvatni og var þemað í ár Sirkus. Skátarnir reistu tjaldbúð við Strýtuna sem að var nú orðin að sirkustjaldi og fengu að kynnast trúðunum á svæðinu og hjálpuðu þeim að læra nýjar sirkúskúnstir.
Dagskráin var svipuð og síðustu ár en meðal annars var boðið upp á klifur, bogfimi, báta, hoppukastala og samfélagsverkefni. Þetta árið stóðu samfélagsverkefnin upp úr þar sem drekaskátarnir hjálpuðu til við að snyrta skóginn fyrir aftan KSÚ og máluðu regnboga með höndunum á vegginn á Norðursal.
Á laugardeginum var Karnival þar sem að skátarnir gátu unnið sér inn miða með því að leysa allskonar skemmtilegar þrautir og gátu svo keypt sér kandífloss, popp og ferð í hoppukastalana með miðunum.
Veðrið stríddi okkur en við létum það þó ekki stoppa okkur og nutum okkar út í smá regni og roki. Sólin kom þó og kvaddi okkur með geislunum á sunnudeginum.

Sumaropnun og skátabúðin flytur tímabundið

Afgreiðslutímar skrifstofu Skátamiðstöðvarinnar munu taka breytingum frá 14. júní og verða eftirfarandi:
| Mánudag - Fimmtudag | Föstudag | |
|---|---|---|
| 14. - 28. júní | 09:00 - 16:00 | 09:00 - 13:00 |
| 1. júlí - 19. júlí | Skert þjónusta | Skert þjónusta |
| 19. júlí - 26. júlí | Lokað | Lokað |
| 29. júlí - 12. ágúst | Skert þjónusta | Skert þjónusta |
Frá og með 1. júlí mun hluti af starfsfólki færa starfstöð sína á Úlfljótsvatn vegna Landsmóts og verður því þjónusta Skátamiðstöðvarinnar skert. Hægt verður að hafa samband í tölvupósti eða hringja í 550-9800.
Eftir landsmót taka við sumarleyfi starfsfólks og verður því þjónusta áfram skert fram í miðjan ágúst.
Skátabúðin flytur tímabundið á Úlfljótsvatn vegna Landsmóts skáta. Skátabúðin verður lokuð 1. júlí vegna flutninga. Að öðru leiti verða opnunartímar hennar eftirfarandi:
| Skátabúðin | |
|---|---|
| 1.júlí | Lokað |
| 2. -11. júlí | Opið á Úlfljótsvatni |
| 12. - 19. júlí | Opið fyrir landsmótsgesti |
| 20. júlí - 16. ágúst | Lokað en hægt að senda póst |
Á lokunartíma er hægt að senda fyrirspurnir í tölvupósti.
Samvinna, tjaldbúð og veðurviðvaranir á 2. hluta Gilwell

Um síðastliðna helgi var annar hluti Gilwell námskeiðsins á Úlfljótsvatni haldið. Hópurinn sem nú tekur þátt í námskeiðinu hóf ferðina í febrúar og nú líkt og þá voru gular veðurviðvaranir í kortunum dagana fyrir setningu námskeiðsins. Þrátt fyrir það reis glæsileg tjaldbúð á Hvítasunnuflötinni dagana 5. -9. júní og flokkarnir þrír komu sér vel fyrir með útieldhúsi, útilegukamínu, eldstæði og gashellum, enda er útieldun mikilvægur þáttur námskeiðsinns.


Verkefni flokkanna var þó helst það að reyna á eigin skinni þá áskorun að vera í þéttum samskiptum og sambúð með skátaflokknum sínum. Á þessu skrefi var áherslan á flokkastarf, samvinnu og samkennd og hjálpuðu veðurguðirnir okkur við að reyna á seiglu og þol þátttakenda með stöðugu roki og smá hagléli í hike-inu. Skátarnir stóðust allar þessar áskoranir með prýði og skemmtu sér vel í göngunni og tjölduðu svo í skógarrjóðri þar sem langþráð skjól fannst fyrir norðanáttinni.

Áfram var svo haldið að leggja inn hjá þeim ýmsar aðferðir til að styrkja hópinn, greina vandamál, nota jákvæð samskipti og virka hlustun auk þess að vinna með aðgengileika skátastarfs og lýðræðislegar ákvarðanir.
Við erum sérstaklega þakklát öllum þeim sérfræðingum sem hjálpuðu til við að gera námskeiðið einstakt með því að sýna okkur hvernig töfra má fram gómsætar máltíðir yfir eldi og gera tjaldbúðina flottari ásamt þeim sem deildu með okkur visku sinni og reynslu.
Á laugardagskvöld var boðið í opna kvöldvöku sem var vel sótt af eldri Gilwell skátum og var einstaklega góð stemming og sungið hátt og snjallt, auk þess sem borðin svignuðu undan kræsingum og heitu kakói með rjóma.
Það voru glaðir og þreyttir skátar sem luku námskeiðinu í sól og blíðu og öll hlökkum við til lokaskrefsins sem verður í nóvember, þar sem við skoðum hvernig virkja má leiðtogann í sér, bæði í skátastarfi og í eigin lífi.




Nýr rekstrarstjóri hefur störf á Úlfljótsvatni

Við tilkynnum með mikilli ánægju og tilhlökkun að Elín Esther Magnúsdóttir hefur verið ráðin sem rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni. Elín Esther hóf störf 3.júní 2024 og mun nýta fyrstu vikuna sína til þess að komast aftur inn í starfsemina á Úlfljótsvatni.
Elín Esther þekkir Úlfljótsvatn mjög vel og hefur lagt sín lóð á vogaskálarnar sem sjálfboðaliði og sem starfsmaður síðastliðna áratugi við góðan orðstír.
Elín kemur inn í hópinn með mikla staðarþekkingu og mikinn metnað fyrir því að lyfta staðnum enn betur upp og vinna náið með starfsfólki staðarins, BÍS, sjálfboðaliðum og skátum á Íslandi.
„Ég er þakklát fyrir traustið, og tækifærið til að koma aftur í Undralandið. Úlfljótsvatn hefur verið mitt annað heimili í skátastarfi síðan ég byrjaði í Fossbúum í gamla daga, og mér finnst hvergi betra að vera. Fyrir utan að hafa verið sumarbúðastarfsmaður og dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni kem ég líka til starfa með reynslu úr fjölmiðlaheiminum, frístundastarfi með börnum og ungu fólki, björgunarsveitum, ferðaþjónustu og svo hef ég starfað sem ökukennari síðustu ár. Ég reikna með að þetta muni allt nýtast að einhverju leiti, þó líklega mismikið.
Á Úlfljótsvatni í dag starfar mjög öflugt teymi og ég hlakka til að læra af þeim. Síðustu ár hefur verið lögð mikil vinna í að skipuleggja starfið og marka stefnu sem ég hlakka til að vinna að með. Ég brenn fyrir þjálfunar- og öryggismálum og reikna með að þau verði í forgrunni hjá mér.“
Við bjóðum Elínu Esther hjartanlega velkomna aftur á Úlfljótsvatn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.





