Nýr rekstrarstjóri hefur störf á Úlfljótsvatni

 

Við tilkynnum með mikilli ánægju og tilhlökkun að Elín Esther Magnúsdóttir hefur verið ráðin sem rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni. Elín Esther hóf störf 3.júní 2024 og mun nýta fyrstu vikuna sína til þess að komast aftur inn í starfsemina á Úlfljótsvatni.
Elín Esther þekkir Úlfljótsvatn mjög vel og hefur lagt sín lóð á vogaskálarnar sem sjálfboðaliði og sem starfsmaður síðastliðna áratugi við góðan orðstír.
Elín kemur inn í hópinn með mikla staðarþekkingu og mikinn metnað fyrir því að lyfta staðnum enn betur upp og vinna náið með starfsfólki staðarins, BÍS, sjálfboðaliðum og skátum á Íslandi.


„Ég er þakklát fyrir traustið, og tækifærið til að koma aftur í Undralandið. Úlfljótsvatn hefur verið mitt annað heimili í skátastarfi síðan ég byrjaði í Fossbúum í gamla daga, og mér finnst hvergi betra að vera. Fyrir utan að hafa verið sumarbúðastarfsmaður og dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni kem ég líka til starfa með reynslu úr fjölmiðlaheiminum, frístundastarfi með börnum og ungu fólki, björgunarsveitum, ferðaþjónustu og svo hef ég starfað sem ökukennari síðustu ár. Ég reikna með að þetta muni allt nýtast að einhverju leiti, þó líklega mismikið.
Á Úlfljótsvatni í dag starfar mjög öflugt teymi og ég hlakka til að læra af þeim. Síðustu ár hefur verið lögð mikil vinna í að skipuleggja starfið og marka stefnu sem ég hlakka til að vinna að með. Ég brenn fyrir þjálfunar- og öryggismálum og reikna með að þau verði í forgrunni hjá mér.“


Við bjóðum Elínu Esther hjartanlega velkomna aftur á Úlfljótsvatn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.