Pax Lodge - London

Pax Lodge er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í London. Pax Lodge er í senn farfuglaheimili, þjálfunar- og ráðstefnustaður með skátaandann í fyrirrúmi.
Hægt er að gerast sjálfboðaliði hjá Pax Lodge en þau bjóða upp á 3-6 mánaða leiðtogaupplifun frá 18 ára aldri, þar sem þú býrð á svæðinu og sinnir sjálfboðastörfum sem efla leiðtogahæfni þína. Á þessum tíma muntu efla sjálfstraustið þitt, læra nýja hluti, fá aðra sýn á heiminn og verða hvetjandi leiðtogi.
Ef þú ert að leita að spennandi ævintýrum og langar að fara út í heim að vinna, gerast sjálfboðaliði eða bara hafa gaman þá ættir þú að kíkja á heimasíðuna hjá Pax Lodge í London.
Our Chalet - Svissnesku Alparnir

Our Chalet er ein af 5 skátamiðstöðvum WAGGGS og er staðsett í Alpaþorpinu Adelboden í Sviss.
Svæðið samanstendur af nokkrum skálum með mismunandi magni af svefnplássum og þægindum. Hægt er að gista í rúmum og vera í fullu fæði en einnig er hægt að gista í minni skálum á dýnum og koma með eigin mat, allt eftir því hversu mikið fjármagn hópurinn hefur á milli sín. Það eru mismunandi dagskrár möguleikar eftir því hvenær á árinu staðurinn er heimsóttur og það eru mismunandi erfiðleikastig í boði.
Einnig er hægt að sækja um sem tímabundin sjálfboðaliði frá 2 vikum í allt að 6 mánuði við 18 ára aldur. Það er bæði hægt að sækja um ákveðnar stöður en einnig sem almennur sjálfboðaliði þar sem viðkomandi fær tækifæri til þess að takast á við ýmis verkefni tengd rekstri og dagskrá. Öllum kynjum óháð búsetu er velkomið að sækja um stöður í Our Chalet. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Our Chalet.
KISC - Sviss

Alþjóðlega skátamiðstöðin í Kandersteg, í Sviss, var stofnuð af Baden Powell með það að markmiði að allt árið um kring væri í boði að taka þátt í skátastarfi. Skátamiðstöðin hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er í dag frábært tækifæri fyrir skáta að prófa að vinna í skátamiðstöð sem sjálfboðaliði.
Í KISC er hægt að sækja um að vera “Pinkie” en það eru þriggja mánaða sjálfboðaliðastarf sem eru í boði fyrir allar árstíðir. Þau verkefni sem Pinkies taka að sér eru fjölbreytt, skemmtileg og lærdómsík. Þar má nefna útivistatengda dagskrá, kvöldvökur, þrif og matreiðsla og vinna á tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt. En hér má finna nánari upplýsingar um KISC.


