Boðið upp á skátastarf í Guluhlíð

 

Í þessari viku er skátavika hjá Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir börn með sérþarfir. Frístundaheimilið er fyrir börn úr Klettaskóla í 1.-4. bekk og yfir sumarmánuðina er boðið upp heilsdags þjónustu fyrir börnin. Yfir vetrartímann sinnir Gulahlíð frístundastarfi barnahópsins eftir að hefðbundnum skóladegi líkur. Skátavikan er fyrsti liðurinn í nýju samstarfi milli Skátanna og Guluhlíðar um skátastarf í frístundaheimilinu. Markmið samstarfsins er að börn með ólíkar stuðningsþarfir fái tækifæri til að upplifa skátastarf á eigin forsendum, verja tíma í náttúrunni og takast á við ævintýraleg skátaverkefni við þeirra hæfi. Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar hjá Skátunum hefur umsjón með samstarfinu, ásamt Margréti forstöðukonu Guluhlíðar.

 

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi, Haraldur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Kringlumýri frístundamiðstöðvar og Margrét Halldórsdóttir forstöðukona Guluhlíðar skrifuðu undir samtarfsyfirlýsingu þann 15. Júní í Guluhlíð. Hér eru þau ásamt Elvu Dögg Guðbjörnsdóttur, aðstoðarforstöðukonu Guluhlíðar, Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, verkefnastýru inngildingar hjá Skátunum og Helgu Þóreyju Júlíudóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Skátanna og núverandi starfsmanns Guluhlíðar.

 

Fyrsta daginn í skátavikunni var skátafundur þar sem útilega var á dagskrá. Öll settu upp skátaklúta, tjölduðu samann og prufuðu að verja tíma inn í tjöldunum. Svo var boðið upp á kakó og kleinur fyrir nýju skátana í lok fundarins.

Á næstu dögum verður skynjunar- og náttúrubingó í anda skátastarfs þar sem markmiðið er að skátarnir í Guluhlíð kanni og upplifi náttúruna í kringum frístundaheimilið, ásamt útieldun í lok vikunnar þar sem börnin fá að poppa, baka skátabrauð og grilla pylsur yfir opnum eldi með aðstoð starfsfólksins.

Þetta nýja samstarf Skátanna og Guluhlíðar er fyrsta skrefið í verkefninu Skátastarf fyrir alla sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna. Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi.


Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur verið ráðin verkefnastýra inngildingar hjá Bandalagi íslenskra skáta. Þórhildur hefur starfað með Skátafélaginu Kópum frá 8 ára aldri og er núverandi dagskrárforingi félagsins. Hún er með B.A. gráðu frá Háskólanum á Bifröst í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, diplómu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands, og lauk nýverið meistaragráðu í kynjafræði frá Linköping Háskóla. Áður starfaði Þórhildur í félagsmiðstöðvum í Reykjavík, síðast sem aðstoðarforstöðukona félagsmiðstöðvar í Grafarvogi.

Sem verkefnastýra inngildingar hefur Þórhildur umsjón með verkefninu „Skátastarf fyrir alla“ sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna.

Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi. Fræðsluefni um skátastarf verður útbúið fyrir starfsfólk frístundaheimilanna svo þau séu í stakk búin til að framkvæma ævintýralegt skátastarf á sínum starfsstað.

Til að auka aðgengi barna og fullorðinna af erlendum uppruna að skátastarfi verður fræðslu og dagskrárefni skátanna þýtt yfir á önnur tungumál, ásamt því að leitast verður eftir því að fullorðnir skátar af erlendum uppruna sem búa hérlendis verði virkjaðir til þátttöku í skátastarfi. Innifalið í verkefninu er einnig að þróa fræðsluefni fyrir skátaforingja og aðra sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar um hvernig skal taka á móti börnum með fjölbreyttar þarfir og bakgrunn í skátastarfið.

Verkefnið er nú þegar farið af stað og mun til dæmis frístundaheimilið Gulahlíð við Klettaskóla bjóða upp á skátadagskrá í sumar þar sem börn prófa að tjalda, elda yfir opnum eldi og kynnast náttúrunni við frístundaheimilið sitt nánar.


Sumarskátafundir - Dróttskátasveitin Ramus

Skátasveitin DS. Ramus mun starfa í sumar á höfuðborgarsvæðinu og er öllum dróttskátum velkomið að taka þátt. Krakkar sem ekki hafa verið í skátunum eru einnig velkomin að koma og vera með í sumar.

Hvar og hvenær

Skátafundir munu fara fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið milli 17:00 og 19:00 á þriðjudögum og fimmtudögum frá og með 20. júní til 10. ágúst.

Hvað

Starfið byggist að mestu á flokkastarfi og gefst skátunum færi á að skapa sín eigin sumarævintýr með öðrum jafningjum á ýmsum útivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Þeir skátar sem ekki skrá sig með flokk munu fá aðstoð við að finna flokk sem hentar þeim.

Fyrstu fundir

Fyrstu fundir munu fara fram í Elliðaárdalnum en mæting er við Árbæjarsafnið klukkan 17:00 á fyrsta fundinn þann 20. júní.

Skráning

Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á skraning.skatarnir.is og kostar 3000 kr fyrir hvern skáta að taka þátt í allt sumar. Ef skátinn hættir við er ekki endurgreitt staðfestingargjaldið sem er 10% af heildarverðinu.

Þátttakendur sem vegna ferðalaga eða annars komast ekki á alla fundi, eru engu að síður hvött til að taka þátt.

Mikilvægt er síðan að fylgjast vel með upplýsingum á Sportabler. Einnig þarf að láta vita fyrir hvern fund hvort skáti mætir eða ekki. Ef lágmarksmæting (4 skátar) næst ekki á fund fyrir hádegi sama dag fellur fundurinn þann daginn niður.

 

Skátakveðjur og hlökkum til að sjá sem flesta í sumar,
Sveitarforingjar Ds. Ramus.

Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir (ragnheidursilja@gmail.com) dróttskátaforingi Garðbúa
Salka Guðmundsdóttir (salkagu97@gmail.com) dróttskátaforingi Mosverja


160 drekaskátar dönsuðu diskó á Úlfljótsvatni

Diskódrekar fylktu liði á Úlfljótsvatn um helgina þegar 160 drekaskátar á aldrinum 8-10 ára reistu tjaldbúð, dönsuðu diskó og skemmtu sér að skáta sið.
Ný mótsstjórn lék listir sínar í fyrsta sinn, með stuðningi 25 starfsmanna mótsins á aldrinum 16-28 ára.

Veðrið lék við hópinn á föstudaginn og var því auðvelt að tjalda og koma sér fyrir. Um 260 skátar tóku þátt í mótinu í heild sinni auk þess voru fjölskyldur drekanna sjáanlegar á tjaldsvæðinu.  Laugardagurinn gekk vel, dagskrá fór fram víðsvegar um Úlfljótsvatn, á vatnasvæðinu við KSÚ, í klifurturni og bogfimi auk þess sem mótið gróðursetti skjólbelti við stallaflatirnar undir handleiðslu Skógræktarfélags Íslands. Drekagleðin skein úr andlitum skátanna við heimför á sunnudag og voru öll sammála um að mótið hefði verið afskaplega vel heppnað og hlakka til að koma aftur að ári.


Nýja útgáfan af Forsetamerkisbókinni er loksins komin!

Ný uppfærð útgáfa af Vegabréfi rekkaskáta á leið að Forsetamerkinu er nú loksins komin úr prentun!
Bókin hefur verið uppfærð í samræmi við starfsgrunninn og fengið yfirhalningu til að endast betur.
Nú geta allir rekkaskátar haldið glaðir inn í sumarið og byrjað að skipleggja næstu ævintýri í Vegabréfinu.
Bókin er fáanleg í Skátabúðinni og í vefverslun.


Privacy Preference Center