Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja
Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja

Kynningarfundur þróunarverkefnis um launaða starfsmenn skátafélaga sem haldinn var í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ í gærkvöldi var ákaflega vel sóttur. Alls mættu fulltrúar frá níu skátafélögum til fundarins í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ. Fram kom á fundinum að flest félaganna íhuga þátttöku. „Þessar undirtektir skátafélaganna eru mun betri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Jón Halldór Jónasson, í stjórn BÍS og formaður stýrihóps verkefnisins.
„Við efnum til þessa verkefnis með það í huga að auðvelda skátafélögunum að finna hæfa foringja og ná að halda þeim lengur í starfi,“ segir Jón Halldór, en hann kynnti hugmyndirnar ásamt Helga Þór Guðmundssyni úr skátafélaginu Vogabúum og formanni Skátasambands Reykjavíkur.
Tvö launuð hlutverk
Þróunarverkefnið gerir ráð fyrir tveimur launuðum hlutverkum hjá skátafélagi, annars vegar starfi framkvæmdastjóra sem fær aukið vægi miðað við fyrirkomulag hjá flestum skátafélögum í dag og hins vegar fá sveitarforingjar laun fyrir sín störf. Með þessu nýja fyrirkomulagi á að fást meiri festa í starfið, en eins og staðan er í dag keppir skátahreyfingin um tíma ungs fólks í foringjastörfum og eru dæmi um að vaktaplanið hafi betur á kostnað skátafundarins.
Helgi Þór segir mikilvægt að skátafélögin sníði sér stakk eftir vexti og í því rekstrarlíkani sem var kynnt er starfshlutfall framkvæmdastjóra breytilegt eftir stærð skátafélags. Það sé auðvelt að auka það þegar félagið vex og að sama skapi minnka ef fækkar í félaginu. Mikilvægt sé að ráða framkvæmdastjóra sem hafi reynslu af rekstri, með brennandi áhuga á skátastarfi og frumkvæði. Margvíslegir möguleikar opnist með öflugu fólki og skátafélög hafi ríkt erindi við samfélagið, en þurfi svigrúm til að fylgja því eftir.
Skátafélögin með svipaðar hugmyndir
Ástæðan fyrir því hve fundurinn í gær var vel sóttur er að mörg skátafélög voru með svipaðar hugmyndir í skoðun þegar boð um hann barst frá Skátamiðstöðinni. Líklegt er að þau hefðu farið í þessa átt hvort sem er, en með samfloti skátafélaga innan þróunarverkefnisins næstu þrjú árin fengist aukinn kraftur. Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri BÍS segir að Skátamiðstöðin komi inn í verkefnið til að gefa því enn meiri kraft. Hægt er að létta stjórnum félaganna lífið með margvíslegum hætti þannig að krafturinn fari í skátastarfið en ekki skrifstofurekstur.
Eins og áður segir mættu fulltrúar frá níu skátafélögum: Fossbúar á Selfossi, Heiðabúar í Reykjanesbæ, Skátafélag Akraness, Vífill í Garðabæ og úr Reykjavík komu fulltrúar fimm félaga, frá Skjöldungum, Garðbúum, Vogabúum, Árbúum og Haförnum.
Næstu skref
Flest skátafélaganna sem mættu á fundinn vilja skoða möguleika á að fara í þróunarverkefnið strax í haust. Sum þeirra hafa þegar tilkynnt formlega þátttöku og önnur láta heyra í sér á næstu dögum eftir að hafa rætt innan sinna stjórna.
Gert er ráð fyrir vinnustofum með þeim skátafélögum sem koma inn í verkefnið og ræðst það á næstu vikum hvernig fyrirkomulag þeirra verður, en það tekur að sjálfsögðu mið af þátttöku.
Verkefni skátamiðstöðvar og stýrihóps skv. erindisbréfi stjórnar BÍS verða þessi:
- Fullmóta rekstrarlíkan fyrir skátafélög með launaða starfsmenn
- Vinna með skátafélögum sem ákveða að taka þátt í þróunarverkefninu
- Ganga frá starfslýsingum fyrir framkvæmdastjóra og skátaforingja.
- Vera talsmenn verkefnisins innan skátahreyfingarinnar
- Skoða gildi stuðnings og hvatningar sem skátaforingjar fá í starfi.
- Miðla upplýsingum um framvindu verkefnisins til áhugasamra
- Vera til ráðgjafar vegna samninga við sveitarfélög
- Fylgjast með gæðum þess skátastarfs sem boðið er
- Skoða og vinna með leiðir til að ná til nýrra skátaforingja
Rakel Ýr Sigurðardóttir verkefnastjóri í Skátamiðstöð mun leiða verkefnið ásamt stýrihópi. Formaður stýrihóps er Jón Halldór Jónasson úr stjórn BÍS og auk hans eru í hópnum Birgir Ómarsson, skátafélaginu Garðbúum, Helgi Þór Guðmundsson, skátafélaginu Vogabúum, Jóhanna Másdóttir, fulltrúi starfsráðs, Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir, skátafélaginu Garðbúum og Þórhallur Helgason, fulltrúi Skátaskólans.

Heimsþing - Útkall
HEIMSÞING - ÚTKALL

Langar þig að vera fulltrúi BÍS á heimsþingi skáta? Við leitum að áhugasömu fólki til að taka þátt í heimsþingi WOSM sem fer fram á netinu þann 25-28. ágúst. Þetta er frábært tækifæri til að læra hvernig skátahreyfinginn virkar á heimsvísu og skapa vináttu við skáta allstaðar úr heiminum.
Á heimsþingi eru stórar ákvarðanir teknar m.a. hvar næsta alheimsmót verður haldið árið 2027 og að hverju WOSM mun vinna næstu þrjú árin, síðast en ekki síst fáum við tækifæri til að deila reynslu milli landa.
Þátttaka í þinginu veitir mikla alþjóðlega reynslu og möguleika á að víkka persónulegt tengslanet. Íslenski fararhópurinn mun hittast og eyða þinginu saman (staðsetning óákveðin), þar sem verður dagskrá bæði á netinu og í raunheimum.
Fyrir þá sem eru 25 ára og yngri þá er einnig tækifæri til að mæta á ungmennaþingið sem er haldið fyrir aðalþingið dagana 18-22. ágúst. Þar verður rætt um mikilvægi þátttöku ungmenna og hvernig þau geta haft áhrif á samfélagið.
Frekari upplýsingar um þingið er hægt að finna inná https://scoutconference.org/
Hægt að skrá sig með því að senda umsókn á althjodarad@skatar.is
Umsóknarfrestur er til 18. júní
Sumaropnun Skátamiðstöðvarinnar
Sumaropnun Skátamiðstöðvarinnar
Frá mánudeginum 14. júní verður opnunartími Skátamiðstöðvarinnar og Skátabúðarinnar 9 – 16 alla virka daga.
Opnunartími endurvinnslumóttöku Grænna skáta breytist ekki, verður áfram 9- 18 virka daga og 12 – 16:30 um helgar.
Drekaskátamótin 2021
Drekaskátamót 2020 2021
DREKASKÁTAMÓT Á TÍMUM HEIMSFARALDURS
Drekaskátamót 2020 2021 fór fram á Úlfljótsvatni 5. og 6. júní síðastliðinn. Mótið er árlegur liður í starfi 7 – 9 ára skáta og ekki óvanalegt að þess sé beðið með mikilli eftirvæntingu. En í ár var eftirvæntingin jafnvel meiri en áður því ekki var mögulegt að halda mótið sumarið 2020 vegna heimsfaraldurs og því höfðu mörg beðið í tvö ár eftir því að komast á mótið.
Þótt Covid hafi ekki komið í veg fyrir mótið þetta sumarið, minnti heimsfaraldurinn samt á sig. Vegna samkomutakmarkanna var ekki mögulegt að allir þátttakendur og sjálfboðaliðar kæmu á Úlfljótsvatn í einu og gistu yfir nótt og því brugðið á það ráð að halda tvö styttri mót sitt hvorn daginn í staðin.
Þessa ákvörðun þurfti að taka þegar rúm vika var í mót og því þurfti mótstjórnin að leggja gífurlega vinnu í að aðlaga mótið út frá aðstæðum.

EINS MÓT ÓLÍK VEÐRÁTTA
Það var sólstrandarþema á Drekaskátamóti 2020 2021 og sólin var svo sannarlega á sínum stað, en því miður var hrúga af skýjum á milli hennar og skátanna á mótinu. En það kom ekki í veg fyrir að 150 þátttakendur og sjálfboðaliðar ættu fjörugan dag á Úlfljótsvatni á laugardeginum og gekk rigningunni ekki betur að stöðva gleðina hjá hinum 150 þátttakendunum og sjálfboðaliðunum sem komu á mótið á sunnudegi.
Drekaskátarnir nýttu aðstöðuna til fulls og sigldu bátum, sigruðu vatnasafaríið, mátuðu gamla skátabúninga, náðu toppi klifurturnsins, spenntu boga og þöndu lungun á kvöldvöku í lok dags.

ÁVALLT VIÐBÚIN
Þátttakendur voru ekki ein í hópi þeirra sem skemmtu sér um helgina, reynsluboltarnir í mótstjórn og starfsmannahópnum höfðu ekki síður gaman af. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt að prófa að gera þetta á nýjan máta og takast á við nýjar áskoranir.“ sagði einn mótstjórnenda og holdgervingur skátamottósins Ísak Árni Eiríksson Hjartar sem var í miðju kafi að sauma efstu töluna aftur á Hawai skyrtuna sína.

LEARNING BY DOING
En ekki voru öll að gera þetta í annað, þriðja eða fjórða sinn því þrjú ný tóku sæti í mótstjórn öll á rekkaskátaaldri, 16 – 19 ára. „Það er gaman að sjá yngri skátana vera tilbúna til að taka við keflinu og að sjá eldmóðinn hjá ungum mótstjórnarmeðlimum, foringjum og starfsfólki. Ég er allavega stolt af drekaskátamóti fyrir að gefa yngri skátum tækifæri til að spreyta sig í viðburðarhaldi og sjálf lærði ég mikið af þessu og er enn að.“ sagði Unnur Líf úr mótstjórn og bar svo á sig sólarvörn í þriðja skiptið svo að rigningin héldi áfram að renna af henni eins og nýbónuðum bíl.

DÝRMÆTT AÐ GETA KOMIÐ SAMAN
Þrátt fyrir aukið álag á mótstjórn og starfsfólk mótsins þótti þeim vel þess að virði að geta fundið lausn svo hægt væri að halda mótið. „Þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að bjóða þátttakendum öllum í einu í tjaldútilegu eins og vanalega var mjög dýrmætt og þarft fyrir bæði skáta og foringja þeirra að komast loksins á almennilegan skáta og útivistarviðburð.“ Sagði Salka Guðmundsdóttir leiðtogi mótstjórnar á meðan hún réri brimbrettinu sínu um vatnasafaríið.

AFTUR STÆRRA AÐ ÁRI
Sumarið 2022 verður landsmót á hverju aldursbili skátanna og verður drekaskátamótið auðvitað á sínum stað og jafnvel stærra en nú og áður.




