Gilwell útskrift
5. skref Gilwell leiðtogaþjálfunar og útskrift Gilwell nema fór fram á Úlfljótsvatni um helgina. 22 nemar luku sinni Gilwell vegferð með glæsibrag! Við óskum þeim til hamingju með áfangann.
Gil
well leiðtogaþjálfun er frábært tækifæri fyrir skáta 18 ára og eldri til þess að efla sig í starfi og eigin lífi. Gilwell eflir leiðtogahæfileika og skerpir og eykur þekkingu einstaklinga, hvort sem það er í skátastarfi eða utan þess.
Fullorðnir sjálfboðaliðar eru mjög mikilvægir innan skátahreyfingarinnar. Án þeirra væri ómögulegt að hafa öruggt og eflandi starf fyrir skátana okkar. Þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á góða þjálfun fyrir fullorðnu sjálfboðaliðana okkar, og mjög ánægjulegt að sjá þann fjölda af áhugasömum og kröftugum einstaklingum sem taka þátt í leiðtogaþjálfuninni.
Dagskrárstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni
Dagskrárstjóri ÚSÚ óskast
Í boði er spennandi starf í kraftmiklu umhverfi. Leitað er að einstaklingi sem getur axlað ábyrgð og tekist á við krefjandi verkefni auk þess að sýna frumkvæði og metnað í starfi. Starfinu fylgir húsnæði á staðnum. Starfið er tímabundið til haustsins til að byrja með en getur orðið heilsárs staða.
Starfssvið dagskrárstjóra:
- Vinnur að stefnumótun og þróun dagskrárliða
- Stýrir dagskrá fyrir skólabúðir, tjaldbúðagesti og innlenda og erlenda skátahópa
- Umsjón með hópeflis- og hvataferðum fyrir fyrirtæki og hópa
- Markaðssetning, kynning og samskipti við viðskiptavini
- Önnur tilfallandi verkefni
Menntun og reynsla:
- Háskólamenntun eða reynsla sem nýtist í starfi
- Lipurð í samskiptum, frumkvæði og sjálfstæði
- Stjórnunar- og leiðtogahæfileikar með áherslu á skipulögð vinnubrögð
- Góð íslensku- og enskukunnátta ásamt hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
- Reynsla af skátastarfi er skilyrði
Nánari upplýsingar veitir Jakob Guðnason staðarhaldari ÚSÚ í síma 894-2074 eða á jakob@skatar.is Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn 4. febrúar 2019 og skal umsóknum ásamt ferilskrá skilað á skrifstofu BÍS merkt „Dagskrárstjóri“ eða sent á netfangið kristinn@skatar.is
Neisti 2019
Síðustu helgi komu saman yfir 100 skátar á sveitarforingjanámskeiði á Úlfljótsvatni.
Skátaforingjar og leiðtogar fengu tækifæri til þess að efla þekkingu sína á ýmsum sviðum og höfðu gaman af!
Alls voru í boði 36 mismunandi smiðjur sem þátttakendur gátu valið um. Hægt var að læra kvöldvökustjórnun, varðeldagerð, allt um færnimerkin, photoshop, samfélagsmiðlanotkun, fundarsköp, verkefnastjórnun, leðurgerð og allt þar á milli.
Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel og allir lærðu eitthvað nýtt eða uppfærðu hugmyndabankann.
Við vonum að allir foringjar séu endurnærðir og uppfullir áhuga og spennu fyrir næstu misserum!
Skoðaðu myndir frá viðburðinum hér.
Myndir í færlsu: Margrethe Grønvold Friis
Nýtt skátaár er hafið
Gleðilegt nýtt skátaár öllsömul!
Árið 2019 verður svo sannarlega viðburðaríkt og skemmtilegt. Fundir hefjast að nýju hjá flestum skátafélögum í vikunni og skátarnir fara að undirbúa sig fyrir áskoranir og ævintýri ársins. Sumir eru að fara í sínar fyrstu tjaldútilegur, aðrir á fyrsta Alheimsmótið sitt í sumar og enn aðrir halda ótrauðir áfram með sín verkefni og markmið. Eitt er víst að skátar á öllum aldri mega búast við frábæru skátaári 2019!
Viðburðir á döfinni;
11. - 13. janúar - Neisti leiðtogaþjálfun.
Rúmlega 100 skátar, 16 ára og eldri, munu koma saman á Úlfljótsvatni og taka þátt í þessu frábæra og fjölbreytta sveitarforingjanámskeiði!
19. - 20. janúar - Gilwell leiðtogaþjálfun 5. skref og útskrift Gilwell nema.
9. - 10. febrúar - Gilwell leiðtogaþjálfun 1. og 2. skref.
15. - 22. febrúar - Vetraráskorun Crean fyrir dróttskáta.
Hópur írskra skáta mun koma til landsins og slást í för með nokkrum íslenskum dróttskátum þar sem allir læra að bjarga sér í alvöru vetrar aðstæðum.
15. - 17. febrúar - Ungmennaþing og árshátíð rekka- og róverskáta.
Skátar á aldrinum 16 - 25 ára koma saman og láta sér málefni skátahreyfingarinnar varða, undirbúa sig fyrir Skátaþing og gera sér jafnframt glaðan dag saman í Borgarnesi.
23. febrúar - Dróttskátadagurinn.
Öllum dróttskátum landsins er boðið að koma á Selfoss og taka þátt í spennandi dagskrá!
3. mars - Drekaskátadagurinn.
Drekaskátar koma saman og skemmta sér í leikjum og þrautum.
8. - 10. mars - Rekkaskátaruglið.
Rekkaskátar mæta í fjöruga og frjálsa dagskrá í Skorradal.
5. - 6. apríl - Skátaþing á Úlfljótsvatni.
1. - 2. júní - Drekaskátamót.
Drekaskátamót er árlegt tveggja daga mót stútfullt af frábærri dagskrá. Þemað 2019 verður ofurhetjuþema!
Mótsstjórn leitar að áhugasömum einstaklingum til að ganga til liðs við sig. Ef þú hefur áhuga fylltu þá út þetta umsóknareyðublað.
22. júlí - 2. ágúst - Alheimsmót skáta í Bandaríkjunum!
Nokkur sæti hafa losnað fyrir bæði þátttakendur og IST, svo ef þú misstir af skráningarfresti en vilt ennþá fara...
... sendu þá línu á rakelyr@skatar.is og tryggðu þér sæti!
Þetta eru þeir viðburðir sem Bandalag íslenskra skáta er með á sínum snærum á árinu og það má búast við að þeim fjölgi heilan helling!
Fylgstu með dagatalinu á Skátamálum svo þú missir ekki af þegar nýjir viðburðir bætast við!
Svo má ekki gleyma skemmtilegu skátafundunum og hinum ýmsu viðburðum hjá skátafélögunum.
Auðvitað verða svo á sínum stað fastir liðir eins og Sumardagurinn fyrsti og 17. júní.




