Yfir 100 mættu á skátadag fyrir úkraínskar fjölskyldur á Úlfljótsvatni
Þann 30. september héldu Skátarnir skátadag á Úlfljótsvatni fyrir fjölskyldur frá Úkraínu. Dagurinn byrjaði á því að rútur ferjuðu hópinn frá Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatn um morguninn. Um leið og komið var austur hófst spennandi skátadagskrá sem starfsfólk Úlfljótsvatns hafði sett saman. Klifur, bogfimi, útieldun, leikir og fjör voru á meðal dagskrárliða. Í hádeginu voru grillaðar pulsur ofan í hópinn, og voru sum að smakka þennan íslenska ‚þjóðarrétt‘ í fyrsta sinn. Yfir 100 einstaklingar tóku þátt í deginum og ríkti mikil gleði í hópnum í skátadagskránni allri, þrátt fyrir smá vætu.
Dagurinn var styrktur af mennta- og barnamálaráðuneytinu, ásamt European Solidarity Corps, og var þátttakendum alveg að kostnaðarlausu. Það var gaman að geta boðið þessum hópi upp á skemmtilega dagsferð með fjölskyldum sínum þar sem þau fengu tækifæri til að upplifa ævintýralega skátadagskrá saman umkringd töfrum Úlfljótsvatns. Skátamiðstöðin vinnur nú að því að kynna fjölskylduskátastarf fyrir Úkraínskum fjölskyldum og við hlökkum til að bjóða þau sérstaklega velkomin í skátana á komandi misserum.