Vel sótt námskeið – Verndum þau
Námskeiðið Verndum þau var haldið í Skátamiðstöðinni þann 22. Janúar síðastliðinn. Þátttaka var nokkuð góð og tóku þrjátíuogfimm einstaklingar þátt, annað hvort á staðnum eða í gegn um fjarfundabúnað. Mikilvægt er fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi eigi sér stað, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt og vita hvernig bregðast á við ef grunsemdir vakan um slíkt misferli.
Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.
Næsta námskeið verður haldið fimmtudaginn 6. febrúar í Reykjanesbæ. Fleiri námskeið eru svo áætluð á næstunni, á Akureyri, í Borgarnesi og í Reykjavík.
Ef áhugi er fyrir námskeiði í þinni heimabyggð má hafa samband við Sigurgeir í Skátamiðstöðina.