Tilmæli um viðburði
Til Skátamiðstöðvarinnar hafa leitað skátafélög sem höfðu í einhvern tíma stefnt á að vera með viðburði um komandi helgi 29.-31. október. Skátafélög hafa verið að spyrja starfsfólk Skátamiðstöðvar hvað BÍS ráðleggi þeim að gera í ljósi ástandsins og í ljósi þess að sóttvarnarlæknir sagði í fjölmiðlum í dag, 28. október, að aðilar sem stefndu á stóra viðburði um helgina ættu að endurskoða það.
Þegar skýrar leiðbeiningar hafa ekki borist okkur frá yfirvöldum eða okkar ráðuneyti í formi reglugerðar er erfitt að setja boð eða bönn og vera viss um að þau séu rétt. Skátamiðstöðin leitaði til covid.is eftir ráðgjöf en þar var vísað til 2000 manna samkomutakmarkanna sem væru nú í gildi.
Skátamiðstöðin ráðleggur því öllum skátafélögum að fara varlega og hugsa sig vel um. Í slíku mati gæti verið gott að hugsa hvort hópurinn sem myndi mætast á viðburðinum sé þegar að blandast í skólastarfi eða ekki. Ef viðburðir eru skipulagðir skal fyrst kanna hug meðal sjálfboðaliða, þátttakenda og forráðafólks til að meta hvort það sé áhugi á að viðburðum sé haldið til streitu. Ef viðburðir eru haldnir leggjum við til að gætt sé upp á sóttvarnir meðan að á þeim stendur byggt á þeirri reynslu sem við eigum öll að hafa eftir tæp tvö ár af þessu ástandi.
Við höfum fengið fregnir af því að í öðru ungmennastarfi sé verið að gera það að kröfu að öll sem hyggist mæta á viðburði um helgina fari í hraðpróf 48 klst fyrir komu, en slík má t.d. bóka á hradprof.covid.is.
Ef skátafélögin eru óörugg og vilja heldur fresta eða aflýsa viðburðum sem þau höfðu skipulagt hvetjum við þau til að vera óhrædd að gera það og útskýra fyrir sínum skátum og forráðafólki þeirra að það sé gert í öryggisskyni og að skátafélagið treysti sér ekki til annars.
Við hvetjum fólk að vera skynsamt og fylgja samvisku sinni. En einnig að muna að skáti er tilitssamur.