Ungmennaþing 2025
Ungmennaþing verður haldið í Grunnskólanum í Stykkishólmi dagana 7.–9. febrúar 2025. Þetta verður einstakt tækifæri fyrir alla skáta yngri en 26 ára að kynnast nýjum vinum, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og hafa áhrif á skátastarfið okkar allra. Gisting, dagská og allur matur eru innifalin í verðinu, sem er 13.000 krónur, og þátttakendur geta búist við ljúffengum mat á meðan á þinginu stendur. Þetta er frábært tækifæri til að læra nýja hluti, njóta samveru með jafnöldrum og efla skátaferil sinn. Við stefnum á að eiga skemmtilega helgi saman. Við hvetjum alla unga skáta til að koma og taka þátt. Einnig verður fyrirkomulag skátaþings útskýrt og geta ungmenni komið með lagabreytingatillögur og áskoranir fyrir skátaþing. Það verður líka hawaii þema svo við hvetjum öll til að taka þátt í því.
Það eru 5 sæti til kjörs í ungmennaráði og sæti áheyrnarfulltrúa ungmenna sem situr stjórnarfundi BÍS hlustar á og hefur málfrelsi. Kjörtímabilið fyrir þessi hlutverk er 1 ár.
En hvað gerir ungmennaráð? Í 26. grein laga BÍS segir: "Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs." Ungmennaráð sér einnig um að halda ungmennaþing árlega og getur einnig haldið allskonar skemmtilega viðburði yfir árið ef þau vilja!
Framboð í ungmennaráð og í áheyrnarfulltrúa ungmenna mega berast alveg fram að kosningum en við hvetjum sem flesta að tilkynna þau fyrir þing í tölvupósti á ungmennarad@skatarnir.is og uppstillingarnefnd@skatarnir.is og eru allir skátar á aldrinum 13-25 ára kjörgengir.
En aftur að þinginu sjálfu þá geta allir skátar yngri en 26 ára komið á þingið en fálkaskátar og yngri þurfa fylgd sveitarforingja. Engin rúta verður á staðinn en við hvetjum öll til að taka strætó eða sameinast í bíla. Dagskráin er sniðin utan um strætó til og frá Stykkishólmi. Ef það eru einhverjar sérþarfir t.d. mataróþol, vegan o.s.frv. heyrið í okkur á ungmennarad@skatarnir.is
Setning er kl 20 á föstudeginum, strætó leggur af stað frá Mjódd 16:28 og slit eru á sunnudeginum kl 16 strætóinn leggur af stað kl 16:35 frá Stykkishólmi.
Hlökkum til að sjá sem flest með okkur í Stykkishólmi!