REKKASKÁTAR

16 - 18 ára

Frelsi, seigla og útsjónarsemi

Flestir vegir verða færir, áhuginn ákveðnari og margir rekkaskátar hefja vegferð sína að forsetamerkinu. Stjórn á eigin starfi verður algjör en rekkaskátar byrja líka að hafa rödd í ýmsum málefnum skátahreyfingarinnar.


UM STARF REKKASKÁTA

Rekkaskátum býðst fjöldi nýrra tækifæra í eigin starfi og byrja að spreyta sig á hinum ýmsu ábyrgðarhlutverkum innan skátahreyfingarinnar. Rekkaskátar starfa gjarnan saman þvert á skátafélög og byrja þar að auki í auknum mæli að starfa með róverskátum (19 – 25 ára). Rekkaskátum býðst að taka þátt í ýmsum spennandi viðburðum bæði innanlands og utan og byrja rekkaskátar því gjarnan að mynda tengsl við aðra skáta þvert yfir hnöttinn. Á rekkaskátaaldri byrja margir skátar að sinna foringjastörfum eða öðrum hlutverkum innan skátafélaganna og því er boðið upp á fjölda námskeiða í leiðtogaþjálfun. Reynsla og þekking sem skátarnir búa yfir og eru að læra mun nýtast þeim við leik og launuð störf um ókomna tíð. Möguleikarnir eru jafn margir og þeir eru ólíkir og reynslan sem hver skáti öðlast því bundin áhugasviði, áherslum og iðkun hvers og eins. Í rekkaskátastarfinu eru tækifærin  endalaus, félagsskapurinn er frábær og starfið er ekki bara styrkjandi og skemmtilegt heldur kemur það líka sífellt á óvart.

REGLULEGIR HITTINGAR REKKASKÁTA

Rekkaskátar hittast reglulega yfir starfsárið. Skátafélög hafa ólíkan hátt á hvort þetta sé á föstum tímum eða á föstum stað og í mörgum skátafélögum hittast rekkaskátar og róverskátar saman. Yngri aldursbil vinna í svokölluðum skátaflokkum þar sem 5 – 8 skátar mynda skátaflokk og starfa saman að flestu yfir starfsárið. Í rekkaskátum er hópskiptingin ekki jafn formföst, rekkaskátar taka sig saman um þá dagskrá sem þau hafa áhuga á og starfa því jafnvel í mörgum hópum samtímis og ólíkum hópum yfir árið. Rekkaskátar skipuleggja líka og framkvæma einstaklingsmiðaðri dagskrá og verkefni en áður, sérstaklega þau sem vinna að forsetamerkinu. Rekkaskátar eru færir um að halda utan um eigið starf en gjarnan er einn eða fleiri eldri skátaforingi þeim til halds og trausts. Hlutverk skátaforingjans er vera skátunum til stuðnings við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og leiðbeina þeim eftir þörfum, þá reynir skátaforinginn iðulega að miðla vissri kunnáttu, fræðslu og reynslu til rekkaskátanna og hvetja þau til að reyna nýja hluti í starfinu.


VIÐBURÐIR Á VEGUM SKÁTAFÉLAGSINS

Á rekkaskátaaldri verða skátarnir mun sjálfstæðari í að ferðast á eigin vegum og hátta ferðalögum eins og hópnum eða einstaklingnum hentar. Áfram býðst að fara í bæði lengri og styttri ferðir sem skipulagðar eru af skátafélaginu en hlutverk rekkaskáta í þeim ferðum er nokkuð annað en yngri skáta.

Útilegur rekkaskáta eru afar fjölbreyttar. Rekkaskátar innan sama skátafélags taka sig stundum saman og fara í sameiginlega helgarferð en oftar en ekki er líka farið í slíkar ferðir með rekkaskátum úr öðrum skátafélögum. Slíkar útilegur eru eins tíðar og rekkaskátar vilja vegna þess að þau skipuleggja og fara í slíkar útilegur að mestu leyti sjálf en hafa til þess aðgang að fjölda skátaskála, tjaldsvæða og öðrum spennandi útivistarsvæðum. Í þessum útilegum spreyta skátarnir sig á ferða- og fjallamennsku, fara í göngur, kynnast hvert öðru og jafnvel nýju fólki. Stundum er farið í afslappaðri útilegur þar sem megintilgangurinn er einfaldlega að njóta félagsskaps hvors annars.

Rekkaskátar fara gjarnan í félagsútilegur ásamt yngri og eldri skátum í skátafélaginu. Rekkaskátar eru iðulega elstu þátttakendur í þeim útilegum en taka líka þátt á ýmsan hátt í framkvæmd hennar í þágu yngri skáta. Félagsútilegur eru gjarnan einu sinni á önn og þar fá rekkaskátar tækifæri til að tengjast stærri hópi sem þau tilheyra innan skátafélagsins. Rekkaskátum bjóðast gjarnan tækifæri til að taka þátt í skátamótum erlendis á vegum landssamtaka skáta víða um heim, oftast fá þau ráðið hvert sé farið. Að ferðast utan á skátamót er meðal skemmtilegustu upplifana í skátastarfinu, þar gefst færi á að kynnast samhuga jafnöldrum og kynnast ólíkum menningarheimum hvers annars. Dagskrá á slíkum skátamótum er jafnan metnaðarfull og ógleymanlega skemmtileg. Það er ekki síður spennandi að upplifa hvernig skátastarf er samtímis líkt en ólíkt víðsvegar um heiminn.

VIÐBURÐIR Á VEGUM BÍS

Á vegum Bandalags íslenskra skáta (BÍS), landssamtaka skátafélaganna, er fjöldi viðburða haldinn fyrir rekkaskáta á ári hverju en umgjörð og fjöldi þeirra viðburða er breytilegur eftir áherslum sjálfboðaliðanna sem standa að þeim. Viðburðirnir snúast oftast um að gefa rekkaskátum færi á að stunda útivist eða afla sér kunnáttu og fræðslu en allir eiga það sameiginlegt að gefa rekkaskátunum færi á að kynnast og stunda skátastarf með jafnöldrum úr öðrum skátafélögum. Oft standa rekkaskátar sjálfir fyrir viðburðum þar sem þeir bjóða jafnöldrum úr öðrum skátafélögum og tryggja þannig enn betur að spennandi viðburðir standi til boða.


LANDSMÓT SKÁTA

Rekkaskátar geta tekið þátt í Landsmóti skáta með sínu skátafélagi líkt og yngri skátar en rekkaskátar eru elstu þátttakendur á mótinu og er dagskráin ólík þeirri sem yngri skátarnir taka þátt í. Landsmót skáta er vikulangt skátamót haldið á þriggja ára fresti, á Úlfljótsvatni og Hömrum til skiptis. Landsmót er fyrir öll skátafélög á landinu fyrir fálkaskáta og eldri. Á landsmót sækja einnig skátar og skátafélög allstaðar að úr heiminum, því mót sem þessi eru frábær tækifæri til að efla skátatengsl og vináttu. Dagskrá landsmóts er ávallt fjölbreytt og skemmtileg, krefjandi og eftirminnileg. Á landsmóti muntu eignast nýja vini og læra nýja hluti.

LANDSMÓT REKKASKÁTA

Landsmót rekkaskáta er nokkurra daga skátamót í tjaldbúð þar sem öll dagskrá og umgjörð miðast við þennan aldur en oft er það haldið með róverskátum. Mótið er haldið á þriggja ára fresti og er því aldrei langt á milli móta.

Fyrsta mótið var í tveim hlutum og á fyrri hluta mótsins var Laugarvegurinn genginn frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk á þremur dögum þar sem stöðvað var og gist á tjaldsvæðum í Landmannalaugum, Álftavatni og Emstrum. Síðari hluti mótsins var tjaldmót í Básum við Þórsmörk þar sem þátttakendum bauðst að síga um 30 metra í frjálsu falli, fara í allskyns gönguferðir en síðast en ekki síst voru unnin ýmis samfélagsverkefni fyrir svæðið. Þátttakendur gróðursettu tré, dreifðu fræjum til að græða land og báru 80 stykki af 12 metra löngum rörum um kílómetra leið upp í fjall fyrir staðarhaldara.

ALHEIMSMÓT SKÁTA

Alheimsmót skáta er haldið víðsvegar um heim með fjögurra ára millibili. Rekkaskátar sem ekki eru orðnir 18 ára þegar mótið hefst geta farið sem þátttakendur,  18 ára og eldri geta tekið þátt sem alþjóðlegir þjónustuliðar. Alheimsmót eru stærstu viðburðir sem haldnir eru á heimsvísu á vegum skátahreyfingarinnar en skátar úr öllum heiminum koma þar saman, reisa tjaldbúð, kynnast hvert öðru og deila ólíkum menningarheimum hvert með öðru. Dagskrá mótsins er einstök þegar horft er til stærðar og metnaðar. Fararhópur er myndaður af landssamtökum hvers lands og BÍS hefur tekið þátt í mótinu síðustu áratugi.


FORSETAMERKIÐ

Rekkaskátar geta unnið að forsetamerkinu séu þau áhugasöm um það og tekur vegferðin að forsetamerkinu rúmlega tvö ár. Rekkaskátar sem byrja að vinna að forsetamerkinu fá úthlutað forsetamerkis vegabréf til að halda utan um vegferðina. Til að hljóta forsetamerkið þarf rekkaskátinn að skipuleggja og framkvæma 24 verkefni sem falla undir einhvern af fjórum verkefnaflokkum forsetamerkisins. Í hverjum verkefnaflokki þarf að ljúka einu skylduverkefni og að minnsta kosti tveimur valverkefnum.

VERKEFNAFLOKKARNIR
Ferðalög og alþjóðastarf
Útilífsáskoranir
Samfélagsþátttaka
Lífið og tilveran

SKYLDUVERKEFNIN
Þátttaka í skátamóti, sem varir 5 daga eða lengur
Ferðast 45 km eða lengra, á eigin afli
Helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun
Skyndihjálparnámskeið

Hver rekkaskáti þarf síðan að taka þátt í undirbúningi, framkvæmd og endurmati á tveimur stærri verkefnum sem taka 3 – 12 mánuði. Þetta getur verið viðburðahald, aðstoð með starf yngri skáta, stjórnarseta fyrir félagið eða eitthvað sem er gert utan skátastarfs. Þegar rekkaskátar hefja vegferð að forsetamerkinu lista þau upp væntingar sínar um hvaða kunnáttu og vöxt þau muni hljóta á vegferð sinni og að leiðarlokum líta þau aftur á afrek sín og ígrunda hvaða áhrif vegferðin hafði í raun á þau. Að vegferð lokinni fá rekkaskátar forsetamerkið afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn að Bessastöðum og að athöfn lokinni býður forsetinn jafnan forsetamerkishöfum og gestum þeirra til kaffisamsætis þar sem þeim gefst færi á að kynnast forsetanum og starfsemi embættisins örlítið betur.


EINKENNI REKKASKÁTA

Klútur rekkaskáta er blár og festur með skátahnút sem skátarnir útbúa sjálfir eða bundinn með vinahnút. Klútinn fá skátarnir afhentan til að marka að þau séu vígðir meðlimir í skátahreyfingunni og hafi lokið vígslugrunni síns aldursbils. Vígslugrunnur rekkaskáta er að vinna skátaheitið, þekkja kjörorð skáta og tileinka sér allar tíu greinar skátalaganna:

SKÁTALÖG REKKASKÁTA
Skáti er hjálpsamur
Skáti er glaðvær
Skáti er traustur
Skáti er náttúruvinur
Skáti er tillitssamur
Skáti er heiðarlegur
Skáti er samvinnufús
Skáti er nýtinn
Skáti er réttsýnn
Skáti er sjálfstæður

Aldursmerki rekkaskáta er þríhyrningslaga og er saumað aftan á klútinn. Merkið er mosagrænt með nafni aldursbilsins og forsetamerkinu ísaumað með silfri, brún merkisins er einnig silfruð. Merkið fá skátarnir afhent frá sínum skátafélögum sem hafa ólíkan hátt á því hvernig og hvenær þau eru afhent. Mörg skátafélög afhenda það ekki fyrr en eftir að rekkaskátar hafa lokið vegferð sinni að forsetamerkinu en önnur afhenda það þegar skáti byrjar að starfa innan aldursbilsins.