Við stoppum ekki skátastarf -> Við færum það á netið!
Þegar Covid-19 byrjaði að færast aftur í aukana í seinustu viku var ákveðið að hvetja öll skátafélög til að færa starfið sitt á netið. Þetta átti sérstaklega við fyrir eldri skáta sem eiga flest auðvelt með að eiga samskipti við aðra á netinu. Ákveðið var að setja áherslu á rafræna viðburði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta og tókum við það að okkur, við verandi Ásgerður og Kolbrún. Þetta hefur verið skemmtileg áskorun fyrir okkur og höfum við lært margt í ferlinu, t.d. vissum við ekki hvað Discord-server er.. en við vitum það svona sirka núna!
Rafrænir viðburðir
Mörg skátafélög hafa verið að nota Discord-servera sem vettvang fyrir skátafundi og var því ákveðið að nýta þann vettvang og búa til svæði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta. Við vissum lítið um þennan server og fengum því góða hjálp frá skátum sem kunnu vel á forritið (skáti er svo sannarlega hjálpsamur! Takk!).
Fyrsti viðburðurinn sem var haldinn var rafrænt spilakvöld. Við vissum í raun ekkert hversu mörgum við áttum að búast við og fór það fram úr öllum væntingum þar sem hátt í 60 skátar mættu, spjölluðu saman og spiluðu. Flestir fóru í leikinn Among us, sem svipar til Varúlfs sem margir þekkja úr skátastarfi. Skemmtilegur andi var yfir öllu og gaman hversu vel til tókst!
Nýir samfélagsmiðlar prófaðir
Við settum okkur í skó yngri kynslóðanna og þá var auðvitað ekki annað hægt en að skella í TikTok áskorun! Fyrsta áskorunin sem var sett fram er #klútaflipp og hvetjum við alla til að taka þátt! Við vekjum athygli á því að ekki þarf að eiga TikTok til að taka þátt, það má einfaldlega taka myndband og senda á Kolbrúnu 🙂
Swisskviss
Auðvitað var svo skellt í skemmtilegar spurningakeppnir, önnur sem var sérstaklega beint að fjölskyldum og hin að drótt-, rekka- og róverskátum. Mætingin var mjög góð og einstaklega skemmtilegt að “hitta” svona marga skáta og eiga góða kvöldstund saman 🙂 Það mátti sjá kakóbolla hjá mörgum, gleðin var allsráðandi og miklar pælingar í gangi! Takk allir fyrir þátttökuna!
Höldum stuðinu gangandi
Framundan eru spennandi viðburðir og má til dæmis nefna Minecraft og PowerPoint kynningar. Fyrir ykkur sem finnst það ekki hljóma spennandi, þá mælum við með að fylgjast vel með því! Þetta verða sko ekki venjulegar PowerPoint kynningar…
Við látum ykkur vita hvað er í gangi á samfélagsmiðlum skátanna og hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur þar! Skátarnir á Facebook, Instagram og TikTok!