Skilmálar BÍS
Skráningar skilmálar BÍS
Síðast uppfærðir á stjórnarfundi BÍS 13. september 2022
Með þessari skráningu, greiðslu á félagsgjaldi, eða kaupum á þessari þjónustu staðfestir þú að hafa meðvitund um og samþykki þitt fyrir eftirfarandi:
Landssamtök skáta á Íslandi heita Bandalag íslenskra skáta, skammstafað BÍS. Hvert það sem gerist skáti hefur félagsaðild að BÍS og þar að auki félagsaðild að sínum skátahóp eða skátafélagi. Fullorðnir einstaklingar geta haft félagsaðild að BÍS eða talist styrktarfélagar BÍS eða skátafélags án þess að hafa félagsaðild. Styrktarfélagar BÍS hafa ekki réttindi eða skyldur gagnvart BÍS. Öllum fullorðnum sem koma að starfi með ungmennum í skátastarfi ber að skila heimild til BÍS til öflunar upplýsinga úr sakaskrá ríkisins samkvæmt Æskulýðslögum nr. 70/2007.
Með að skrá þig eða barn í þinni forsjá í skátastarf utan sumartíma samþykkir þú eða barnið sem er skráð gerist skáti og hafi félagsaðild að BÍS og því skátafélagi sem þú eða barnið er skráð í. Þegar viðburðir eru sóttir hjá öðru félagi en því sem þú eða barnið hefur félagsaðild að stofnast ekki félagsaðild hjá því félagi sem heldur viðburðinn.
Barn sem sækir sumarnámskeið á vegum skátafélags eða BÍS hlýtur ekki við það félagsaðild að BÍS eða því skátafélagi sem það sækir námskeiðið hjá.
Félagsaðild að BÍS er skilyrði fyrir þátttöku í viðburðum á vegum BÍS og erlendum skátaviðburðum á vegum erlendra landssamtaka skáta og heimssamtakanna WOSM og WAGGGS. Félagsaðild að skátafélagi og BÍS er gild innan þess starfsárs sem til hennar er stofnað. Hvert starfsár nær frá 1. ágúst hvers árs til 31. júlí næsta árs. Félagsaðild þarf að endurnýja árlega.
Öll skátafélög á Íslandi heyra undir BÍS og starfa samkvæmt lögum þess (sem má finna á https://skatarnir.is/log) og samkvæmt grunngildum BÍS (sem má finna á https://skatarnir.is/grunngildi). Þá getur stjórn BÍS sett reglugerðir um vissa þætti í starfinu sem félögum ber að fara eftir í starfi sínu. Allt skátastarf heyrir undir æskulýðslög nr. 70/2007.
BÍS hefur sett sér forvarnarstefnu, vímuvarnarstefnu, jafnréttisstefnu og umhverfisstefnu sem öllum sem hafa aðild að BÍS ber að starfa samkvæmt í starfinu. Þessar stefnur má finna á https://skatarnir.is/reglugerdir-og-stefnur.
BÍS er aðili að Æskulýðsvettvanginum, skammstafað ÆV, og starfar eftir þeim siðareglum, stefnum og viðbragðsferlum sem Æskulýðsvettvangurinn setur sér að fylgja hverju sinni. Allt efni Æskulýðsvettvangsins má finna á https://aev.is.
Öll innan BÍS eiga rétt á að vera örugg í starfi fyrir hvers kyns ofbeldi og misrétti. Hafi einstaklingur orðið fyrir slíku skal það tilkynnt ábyrgðaraðila í starfinu, stjórn félags, stjórn landssamtakanna eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs eftir eðli þess sem hefur átt sér stað og hverjum þolandi treystir hverju sinni. Ábendingar um slíkt geta komið frá þolanda, forráðafólki þolanda eða frá þriðja aðila sem hefur vitneskju um óæskilega hegðun. Ábendingar er hægt að senda undir nafni eða komið nafnlaust til samskiptaráðgjafa á https://samskiptaradgjafi.is/tilkynningarform, í þeim tilfellum er mikilvægt að upplýsingar séu ítarlegar svo samskiptaráðgjafi geti fylgt máli eftir.
Stjórn skátafélags og stjórn BÍS getur vísað einstaklingi tímabundið eða til frambúðar úr starfi t.d. vegna agabrota eins og þau eru skilgreind í viðbragðsáætlun ÆV, brot á siðareglum ÆV, ef einstaklingur fer gegn grunngildum BÍS, ef einstaklingur fer gegn vímuvarnarstefnu BÍS og ef fullorðinn einstaklingur svíkur sæmdarheit, fer gegn reglugerð um skátaforingja eða einstaklingur hlýtur dóm vegna brota sem 3. mgr. 10 greinar æskulýðslaga tekur til. Þá geta stjórnir félaga og BÍS líka hafnað styrktaraðilum. Samanber 14. grein laga BÍS.
Einstaklingum getur verið vikið af viðburðum vegna agabrota t.d. vegna agabrota eins og þau eru skilgreind í viðbragðsáætlun ÆV, brot á siðareglum ÆV, ef einstaklingur fer gegn grunngildum BÍS, ef einstaklingur fer gegn vímuvarnarstefnu BÍS og ef fullorðinn einstaklingur svíkur sæmdarheit, fer gegn reglugerð um skátaforingja eða einstaklingur hefur ekki og/eða vill ekki veita BÍS heimild til öflunar úr sakaskrá ríkisins samkvæmt æskulýðslögum nr. 70/2007. Í slíku tilviki þarf forsjáraðili að koma sækja viðkomandi eða bera kostnað sem af heimferðinni hlýst.
Við greiðslu gjalda er stuðst við sjálfvirkt greiðslukerfi. Það er á ábyrgð greiðanda að greiða á tilsettum tíma og getur stofnast til innheimtukostnaðar sé svo ekki gert. BÍS og skátafélög geta ekki breytt þeim kostnaði og taka ekki þátt í að greiða hann. Í slíku tilfelli getur viðkomandi haft samband við skátafélagið eða BÍS og fengið aðstoð þeirra að semja við þann sem annast innheimtuna.
Athugið að skuldfærslutímabil geta verið breytileg eftir bönkum og kortategundum.
Skráningar í vetrarstarf, á viðburði, námskeið og annað starf á vegum skátafélaga og BÍS er bindandi. Til að afskrá/afpanta skal skriflegt erindi þess efnis sent skrifstofu viðkomandi einingar. Þá gilda endurgreiðsluskilmálar hverju sinni. Ef einstaklingur hættir við þátttöku án þess að tilkynna um það eða tilkynnir það of skömmu fyrir viðburð er gjaldi haldið eftir og innheimt sé það ógreitt. Eftir að tímabil hefst sem greitt hefur verið fyrir er ekki endurgreitt. Þegar greiðslur með frístundastyrk eru endurgreiddar er það alltaf innan kerfis og eftir reglum viðkomandi sveitarfélags og aldrei greitt beint út til einstaklinga.
Þurfi einstaklingur að hætta við þátttöku vegna slyss, meiðsla eða veikinda kann læknisvottorðs að vera krafist til að eiga rétt á endurgreiðslu. Þó geta sérstakir skilmálar tekið fyrir að það skapi rétt til endurgreiðslu t.d. í stærri ferðum utan landssteina.
Þátttakendur í öllu starfi á vegum skátafélags og/eða BÍS eru ekki sérstaklega slysatryggðir, ábyrgðartryggðir eða vátryggðir að öðru leyti af BÍS eða aðildarfélögum þess. Bent er á að þessar tryggingar eru oft hluti af heimilis- og fjölskyldutryggingum og öðrum almannatryggingum forráðafólks. Sama gildir um ferða- og forfallatryggingar.
Með því að skrá þig eða barn í þinni forsjá í starf hjá skátunum staðfestir þú meðvitund þína um að í starfinu gætu verið teknar myndir eða myndband af þér/barninu í starfi. Þú getur óskað eftir því að myndir eða myndbönd séu ekki tekin af þér eða þínu barni við stjórnendur þeirrar einingar sem starfað er hjá. Myndir og myndbönd eru alltaf tekin með vitneskju og samþykki viðkomandi og á tæki félagsins. Myndir og myndbönd kunna að vera birt til að sýna frá viðburðum á samfélagsmiðlum og vefsíðum skátafélaganna og/eða BÍS og á öðrum opinberum vettvangi.
Ábyrgðaraðilar myndvinnslunnar eru ýmist skátafélögin eða BÍS og fylgja gildandi lögum og reglum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ávallt er starfað samkvæmt sameiginlegri persónuverndarstefnu BÍS.
Markpóstar kunna að vera sendir forráðafólki skráðra félaga á hverju starfsári í til að upplýsa um skátastarfið eða auglýsa viðburði í starfinu. Þá fá félagar póst um afsláttarkjör sín.
Um söfnun, vinnslu og miðlun annarra persónuupplýsinga má lesa í persónuverndarstefnu BÍS sem er sameiginleg stefna landssamtakanna og allra aðildarfélaga, sjá https://skatarnir.is/personuverndarstefna.
Skilmálar voru síðast uppfærðir á stjórnarfundi BÍS 13. september 2022
Persónuverndarstefna Bandalags íslenskra skáta
Almennt
Bandalag íslenskra skáta (BÍS) leggur ríka áherslu á vernd og öryggi persónuupplýsinga í starfsemi sinni. Persónuverndarstefna þessi tekur til vinnslu persónuupplýsinga sem BÍS ber ábyrgð á sem ábyrgðaraðili. BÍS meðhöndlar persónuupplýsingar í samræmi við lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og persónuverndarstefnu þessa.
Persónuverndarstefnan er endurskoðuð reglulega, svo sem vegna breytinga á því hvernig BÍS vinnur með persónuupplýsingar eða vegna breytinga á regluverki sem gildir um persónuvernd á hverjum tíma. Uppfærð persónuverndarstefna tekur gildi án fyrirvara með birtingu á heimasíðu BÍS.
Útgáfa þessi var samþykkt af stjórn og gefin út þann 12. maí 2020.
Vinnsla, vinnsluheimild og tilgangur
BÍS leggur áherslu á meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga, þannig að aðeins séu skráðar persónuupplýsingar sem eru viðeigandi í hvert skipti og ekki umfram það sem nauðsynlegt er. Einnig, að vinnsla sé einungis í samræmi við skýran og málefnalegan tilgang – og að allri vinnslu sé hætt þegar tilgangur er ekki lengur til staðar.
BÍS safnar persónuupplýsingum um starfsfólk, sjálfboðaliða, félagsmenn (þar á meðal börn), aðstandendur félagsmanna (barna), þátttakendur á skátamótum, útilegum og á viðburðum sem eru ýmist opnir eða lokaðir innan skátahreyfingarinnar, tengiliði viðskiptavina og birgja, sem og gesti í húsakynnum BÍS í gegnum myndavélaeftirlit.
Grundvöllur söfnunar og vinnslu persónuupplýsinga hjá BÍS er í sumum tilvikum samningur eða samningsumleitanir. Á það einkum við um samband BÍS við starfsfólk, sjálfboðaliða og starfsumsækjendur, sem og viðskiptavini og birgja. Persónuupplýsingar eru þá unnar í þeim tilgangi að uppfyllta samningsskyldur og í rekstrarlegum tilgangi.
BÍS vinnur persónuupplýsingar einnig á grundvelli samþykkis skráðra einstaklinga og er það helst í tengslum við póstlista (markpósta), skráningu í skátafélag og/eða á skátamót, í tengslum við myndatöku og myndbirtingar. Í þeim tilvikum gætir BÍS þess að öflun samþykkis sé með lögmætum hætti og í samræmi við kröfur nýju persónuverndarlöggjafarinnar. Tilgangur vinnslunnar er þá margvíslegur en miðar þó einkum að upplýsingagjöf og rekstri BÍS.
BÍS heldur úti rafrænu myndavélakerfi í húsakynnum sínum að Hraunbæ 123 og Eldshöfða 18 í Reykjavík og eru persónuupplýsingar unnar úr kerfinu á grundvelli lögmætra hagsmuna BÍS af því að gæta eigna sinna og öryggis starfsfólks og gesta. BÍS byggir einnig vinnslu með persónuupplýsingar sem tengjast slysum sem verða í skátastarfi á sömu vinnsluheimild og er það gert til að vernda hagsmuni þeirra sem koma að málinu, m.a. í tengslum við hugsanlega réttarkröfu.
Þá kemur það fyrir að vinnsla byggir á lagaskyldu og á það til dæmis við þegar BÍS óskar eftir heimild frá starfsfólki og sjálfboðaliðum til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Á BÍS hvílir sú skylda samkvæmt æskulýðslögum nr. 70/2007.
Þegar unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við heilsufarsupplýsingar barna sem gefnar eru við skráningu í skátafélag, upplýsingar um slys eða viðkvæmar upplýsingar í tengslum við ráðningarsamband við starfsfólk, tryggir BÍS að til viðbótar við almenna vinnsluheimild sé til staðar vinnsluheimild vegna vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
BÍS hefur meðal annars byggt á afdráttarlausu samþykki fyrir því að veita upplýsingarnar og til þess að uppfylla skyldur í tengslum við ráðningarsambandið, þannig að starfsfólk geti nýtt sér ákveðin réttindi, til dæmis tengd orlofi eða stéttarfélagi.
Þegar unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar gætir BÍS þess sérstaklega að tryggja öryggi upplýsinganna, bæði með tæknilegum öryggisráðstöfunum, eins og aðgangstakmörkunum, og skipulagslegum, á borð við öruggt verklag sem felur til dæmis í sér að upplýsingum sé eytt eða þær gerðar ópersónugreinanlegar um leið og þeirra er ekki lengur þörf.
Varðveislutími
BÍS geymir persónuupplýsingar í þann tíma sem nauðsynlegt er til að uppfylla tilgang vinnslunnar, ekki nema lengri geymslutíma sé krafist, til dæmis í lögum. Sé möguleiki á því að þörf verði fyrir persónuupplýsingar síðar til að uppfylla lagaskyldu eða höfða mál vegna réttarkröfu mun BÍS varðveita þær upplýsingar á öruggu formi eins lengi og nauðsyn ber til. Í ákveðnum tilvikum geymir BÍS upplýsingar ótímabundið í sögulegum tilgangi.
Miðlun og öryggi
Persónuupplýsingum kann að vera miðlað til annarra aðila (vinnsluaðila) til þess að vinna tiltekin verkefni tengd starfsemi og rekstri BÍS. Einnig kann upplýsingum að vera miðlað innan skátahreyfingarinnar s.s. til annarra skátafélaga. Í einstaka tilfellum er upplýsingum miðlað til erlendra aðila (meðal annars þriðju landa). Það á við til dæmis þegar einstaklingar taka þátt í skátamótum erlendis. Þá kann upplýsingum að vera miðlað út fyrir skátahreyfinguna til þess að gefa tölfræðiupplýsingar, en það er þá ávallt á ópersónugreinanlegu formi.
Þegar upplýsingum er miðlað til vinnsluaðila tryggir BÍS samkvæmt fyrirmælum vinnslusamnings að aðeins sé veittur aðgangur að persónuupplýsingum sem eru nauðsynlegar til að ljúka við verkefni eða veita ákveðna þjónustu. Þar getur til dæmis verið um að ræða upplýsingatækniþjónustu varðandi hýsingu og rekstur kerfa eða þjónustu við kerfi, eða jafnvel atvinnuljósmyndara sem fenginn er til að taka myndir á viðburðum.
Í þeim tilvikum gengur BÍS úr skugga um að vinnsluaðilarnir séu ábyrgir og öryggir. Þar á meðal að þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til vinnsluaðila í persónuverndarlöggjöfinni. Þegar upplýsingar eru sendar úr landi, t.d. til erlendra mótshaldara, leitast BÍS við að gera ákveðnar öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi gagna og eyðingu, þegar þeirra er ekki lengur þörf.
Að öðru leyti er persónuupplýsingum ekki miðlað til þriðja aðila, nema að fengnu samþykki eða ef slík miðlun er í samræmi við ákvæði samninga, laga eða dómsúrskurð.
BÍS gerir viðeigandi öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga. Öryggisráðstafanir eru reglulega teknar út og stöðugt er unnið að umbótum. Gætt er að því að uppfæra persónuupplýsingar eftir þörfum og þær eru ekki varðveittar lengur en þörf er á.
Stjórn og aðgangur skráðra einstaklinga
Einstaklingar sem óska eftir upplýsingum um vinnslu persónuupplýsinga eða vilja nýta réttindi tengd þeim eiga rétt á því að senda fyrirspurn á netfangið: personuvernd@skatar.is. Réttindi einstaklinga kunna að felast í því að:
- draga samþykki sitt fyrir vinnslu til baka (hvenær sem er);
- fá tilteknar upplýsingar um vinnslu ábyrgðaraðila á persónuupplýsingum sínum;
- óska eftir aðgangi að þeim persónuupplýsingum sem unnið er um hann;
- andmæla vinnslu persónuupplýsinga og/eða óska eftir því að vinnsla sé takmörkuð;
- óska eftir því að persónuupplýsingum sínum sé eytt;
- óska eftir leiðréttingu upplýsinga, enda séu þær ófullkomnar eða ónákvæmar;
- leggja fram kvörtun til Persónuverndar um vinnslu BÍS. Nánari upplýsingar um það ferli má finna á heimasíðu Persónuverndar (personuvernd.is).
Réttindi einstaklinga tengd vinnslu persónuupplýsinga geta verið háð takmörkunum sem má meðal annars leiða af lögum og/eða hagsmunum tengdra aðila. Þannig þarf að meta fyrirspurnir og viðbrögð við þeim í hvert skipti.
BÍS mun ávallt óska eftir formlegri staðfestingu á auðkenni einstaklinga sem senda fyrirspurn tengda vinnslu persónuupplýsinga. Afgreiðsla erinda er að meginstefnu gjaldfrjáls.
Vafrakökur (e. cookies)
Vafrakökur eru textaskrár sem eru vistaðar á því tæki sem notað er til að heimsækja vefsíður BÍS og dótturfélaga. Mismunandi tegundir af vafrakökum eru til. BÍS notar eingöngu vafrakökur sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja virkni vefsíðu BÍS.
BÍS notar Google Analytics til vefmælinga. Ákveðin atriði eru skráð við hverja komu inn á vefsíðu BÍS, svo sem tími og dagsetning komu, leitarorð, frá hvaða vef er komið, gerð vafra og stýrikerfis. Þessar upplýsingar eru notaðar við vefþróun.
Viðmið um framboð
LEIÐBEINANDI VIÐMIÐ
vegna framboða til stjórnar BÍS og annarra trúnaðarstarfa á vegum BÍS
Frambjóðendur:
Skátamiðstöðin skal bjóða frambjóðendum aðgang að eftirfarandi, að framboðsfresti loknum:
- Kynningarvefsvæði á vefsíðu BÍS.
- Útsendingu rafrænna fjöldapósta frá Skátamiðstöðinni sem hluta af Þriðjudagspóstinum.
- Tengiliðum allra skátafélaga.
Frambjóðendur munu ekki fá aðgang að félagatali eða netfangalista BÍS.
Í fjórðu grein siðareglna Æskulýðsvettvangsins segir:
„Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu aldrei misnota aðstöðu sína gagnvart samskiptaaðilum eða þátttakendum með neinum hætti sér til framdráttar eða eigin hags.“
Þeim frambjóðendum, eða stuðningsmönnum frambjóðenda, sem starfa sinna vegna hafa aðgang að félagatali og/eða öðrum netfangalistum er því óheimilt að nýta sér þann aðgang/þær upplýsingar í þágu eigin/tiltekins framboðs.
Frambjóðendur og stuðningsmenn frambjóðenda:
Hafa ber í huga að siðareglur Æskulýðsvettvangsins eru siðareglur BÍS og skulu því frambjóðendur, sem og aðrir skátar, fylgja þeim. Í þessu samhengi má sérstaklega minna á 8. gr. í flokknum Rekstur og ábyrgð:
„Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu leitast við að skapa jákvætt andrúmsloft í starfi. Gæta skal hófs og sanngirni í ummælum um hvert annað eða aðra svo sem með því að taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi.“
Frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra eru því beðnir að gæta hófs í framboðsbaráttu og hvattir til bræðralags og jákvæðra samskipta.
Smþykkt á fundi stjórnar BÍS 4. mars 2015
Fyrirvari
Fyrirvari um tölvupóstsendingar
Þessi tölvupóstur og viðhengi hans er trúnaðarmál, og er eingöngu ætlaður skráðum viðtakanda. Ef þér eruð ekki réttur viðtakandi eða póstur þessi berst yður fyrir tilviljun eða mistök er yður óheimilt að lesa, skrá, notfæra á nokkurn hátt eða dreifa efni hans, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um fjarskipti. Vinsamlegast gerið sendanda viðvart um að sending hafi ranglega borist yður og eyðið póstsendingunni.
Disclaimer for electronical correspondence
The electronic message, including any attachments, contains confidential information intended for a specific individual. If you are not the intended recipient, you must not read, use or disseminate that information according to Icelandic law. If you have received this transmission in error please notify the sender immediately and delete the message.
Afsláttur
Afsláttur fyrir skáta
Ef skáti er skráður í skátafélag í gegnum Sportabler er nóg að sýna þá skráningu til að fá afslátt.
Eftirfarandi fyrirtæki veita skátum afslætti:
ÚLFLJÓTSVATN
50% afsláttur á tjaldsvæðisgjöldum. Gildir ekki þegar skátaviðburðir eru.
KLIFURHÚSIÐ
Klifurhúsið í Ármúla 23, 108 Reykjavík veitir 10 % afslátt af aðgengisgjöldum fyrir eitt skipti.
Hægt er að skoða heimasíðu Klifurhússins hér.
PROTRIP
ProTrip ehf. býður ykkur 25% afslátt af gjaldskránni sinni. Ef ykkur vantar rútuferðir þá sendið okkur gjarnan fyrirspurn með tölvupósti á info@protrip.is
Til að afslátturinn sé reiknaður inn í verðið þurfið þið einungis að taka fram að ferðin sé fyrir skátana
KEILUHÖLLIN
Keiluhöllin í Egilshöll veitir 10% afslátt af brautum, mat og gosi. Ekki áfengi.
Nánari upplýsingar um keiluhöllina er að finna á heimasíðu þeirra hér.
FÖNDRA
Föndra, alhliða föndurverslun með vefnaðarvöru, garn og föndurvörur, staðsett á Dalvegi 18, 200 Kópavogi býður upp á 15% afslátt
Nánari upplýsingar um Föndru er að finna á heimasíðu þeirra hér.
66° NORÐUR
Útifataverslunin 66°Norður býður skátum upp á 16% afslátt.
Nánari upplýsingar um 66°Norður er að finna á heimasíðu þeirra hér.
MARGT OG MIKIÐ
Verslunin Margt og Mikið býður skátum upp á 15% afslátt. af útivistarbakpokum 15-75L.
(afslátturinn gildir ekki af barnaburðarpokum og ekki af tilboðsvörum)
Nánari upplýsingar um úrvalið af bakpokum hjá Margt og Mikið er að finna á heimasíðu þeirra hér.
FLÜGGER
Verslunin Flügger býður skátum upp á 20% afslátt. af hilluverði. Á sama tíma styrkir Flügger Skátana af veltu þeirra sem nýta sér skátaafsláttinn. Það virkar þannig að þegar keypt er málning þarf að taka fram hvaða félagasamtök ( Bandalag íslenskra Skáta) þið viljið styrkja og færð í leið 20% afslátt af kaupunum.
Nánari upplýsingar um verslunina og úrvalið í boði er hægt að finna á heimasíðunni Flügger hér.
ICELANDCOVER
404 Error, content does not exist anymore
ERROR 404
-
NOT FOUND
// You may have mis-typed the URL,
// Or the page has been removed,
// Actually, there is nothing to see here...