
Alþjóðaráð leitar að bæði þátttakendum og foringjum til að taka þátt í Nordic Adventure Race á vesturströnd Noregs, 10-16. júlí 2026! Tilvalið tækifæri fyrir drótt- og rekkaskátaflokka og foringja þeirra en Nordic Adventure Race er skátakeppni þar sem skátarnir ganga ákveðna vegalend, leysa þrautir og keppa í ýmsum skátaáskorunum. Þemað í þetta skipti er ævintýri og þjóðsögur!
Hvað er Nordic Adventure Race (NAR) ?
Nordic Adventure Race er spennandi viðburður sem flakkar á milli norðurlandanna. Færeyjar héldu viðburðinn fyrst 2022 og er nú komið að Noregi.
Á viðburðinum munu 50 skátar frá hverju landi vera skipt upp í nýja 6 skáta flokka og fá þar að leiðandi að kynnast skátum frá hinum norðurlöndunum. Flokkarnir fara síðan að stað í vikulanga göngu um norska fjallalendið þar sem þau munu fá tækifæri til að keppa í ýmsum þrautum á leiðinni til að safna inn stigum til að sigra keppnina. Á viðburðinum er lögð áhersla á skapandi hugsun, samvinnu og krefjandi útivist.
Almennar upplýsingar fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða
- Dróttskáta og rekkaskáta, skáta fædd á bilinu 10. 07. 2008 – 17. 10. 2013
- Rekkaskátar eldri en 18 ára geta farið með sem foringjar eða sjálfboðaliðar, skátar fædd 10. 07. 2008 eða fyrr.
- Skátafélag sendir inn eina umsókn fyrir alla sína skáta ásamt foringjum og sjálfboðaliðum
- Einungis 50 þátttakendapláss og 10 foringja/sjálfboðaliðapláss
- Sjálfboðaliðar og foringjar aðstoða við dagskrá mótsins og ólíklegt er að þau verði með sínum skátum á meðan á viðburðinum stendur.
Hér er hægt að lesa nánari upplýsingar um viðburðinn
Þátttökugjald
Þátttökugjaldið fyrir skátanna er 4.000 NOK ( u.þ.b. 50.000 kr.)
Gjaldið fyrir foringja / sjálfboðaliða er 1.5000 NOK (u.þ.b. 19.000 kr.)
Annar kostnaður er í höndum fararhópsins en fluggjaldið og sameiginleg einkenni er ekki innifalið í þátttökugjaldinu. Það sem er innifalið í þátttökugjaldinu er allur matur þegar viðburðurinn hefst, ferðalagið til og frá Oslo/Gardermoen að staðsetningu viðburðar, mótsmerki, öll dagskrá ásamt einhverjum sameiginlegum búnaði sveitarinnar.
Skráningin
Skátafélagið fyllir út umsóknareyðublaðið hér að neðan fyrir hönd skátaflokksins. Alþjóðaráð fer svo yfir allar skráningar og hefur samband við hópinn um næstu skref. Skátaforingjar hópanna mynda svo saman fararstjórn fyrir íslenska fararhópinn.
Skráningafrestur er til 31. júlí
Ertu með einhverjar spurningar? Endilega sendu á althjodarad@skatarnir.is