Heimaverkefni – Endurvinnsla

Endurvinnsla

Heimaverkefni fyrir fjarskáta

Færnimerki Endurvinnsla
Færnimerki endurvinnsla

Verkefni vikunnar er áskorun að vinna ykkur inn færnimerkið Endurvinnsla. Markmiðið er að klára verkefnin hérna fyrir neðan og senda á foringjana ykkar. Þegar þið hafið klárað verkefnið hafið þið unnið ykkur inn merkið sjálft.

Aukaverkefni eru verkefni sem þarf ekki að klára til að fá merkið, en getur verið skemmtilegt að gera. Bæði getur það verið góð áskorun, eða skemmtileg viðbót.

Þið hafið þangað til í næstu viku til að klára þetta verkefni

Um merkið

Við eigum aðeins eina jörð og til þess að við sem hana byggjum getum notið hennar sem lengst er mikilvægt að við göngum vel um hana. Skátar taka virkan þátt í að reyna að vernda jörðina og viðhalda henni og það er best gert með því að vita hvernig við höfum áhrif á hana og hvað við getum gert til að minnka skaðleg áhrif okkar.

Verkefnin

  • Skoða hvernig er flokkað heima
    • Gott er að byrja þetta verkefni á að skoða vel hvernig hlutum er hent heima. Athugið hvernig flokkun er háttað til að geta svarað eftirfarandi spurningum
    • Er flokkað pappír og plast sér?
    • Eru glerkrukkur og annað gler flokkað eða endurnýtt eftir notkun?
    • Eru áldósir flokkaðar eða endurnýttar eftir notkun?
  • Flokka í fimm daga
    • Núna er markmiðið ykkar að flokka i fimm daga á heimilinu ykkar. Gott er að taka til fötur eða kassa sem hægt er að merkja og safna saman í eftir flokkum. Markmiðið ykkar er að flokka eftirfarandi flokka, en auðvitað er hægt að vera með fleiri flokka.
      • Pappír
      • Plast
      • Málmur
      • Gler
    • Fara með það sem flokkað var í endurvinnslu.
      • Þegar þið eruð búin að flokka í fimm daga er komið að því að tæma flokkunar tunnurnar. Finnið næsta flokkunarstöð frá ykkar heimili. Það getur verið flokkunartunna úti, grenndargámar eða flokkunarstöð Sorpu.

Aukaverkefni

  • Gefa gamalt dót
    • Ef þið eigið dót sem þið eruð ekki að leika ykkur með lengur, getur verið gott að gefa einhverjum það. Hægt er að gefa yngri systkinum eða skyldmennum, eða að fara með dót á nytjamarkaði eins og góða hirðinn þar sem dótið fær að halda áfram að gleðja einhvern annan.
  • Búa til innkaupapoka úr gömlum bol
    • Ef þið eigið gamlan bol sem þið passið ekki lengur í, eða er orðinn tættur og skemmdur getið þið búið til endurnýtanlegan poka úr honum eins og sýnt er hér https://www.youtube.com/watch?v=zgpaM3u2zng