Félagsstarf skáta til og með 3. febrúar
Tvær nýjar reglugerðir vegna yfirstandandi heimsfaraldurs taka gildi 13. janúar, önnur um takmörkun á samkomum og hin um takmörkun á skólastarfi sem tekur m.a. til æskulýðs og tómstundastarfs þ.m.t. skátastarfs. Samkvæmt því getur félagsstarf skáta á grunnskólaaldri hafist aftur með nokkrum takmörkunum þó, félagsstarf rekkaskáta þarf áfram að fylgja almennum samkomutakmörkunum. Fjölskylduskátastarf getur farið fram ef fjöldi fullorðinna er undir 20, ekki fleiri en einn forráðaraðili fylgir hverju barni í starfinu og þau fylgja reglum um almennar samkomutakmarkanir, börn á leikskólaaldri eru undanskilin nálægðartakmörkunum og grímuskyldu.
Stjórnir skátafélaga eru samt hvattar til að taka mið af ástandi í þeirra nærsamfélagi og leita líka leiðbeininga frá sínum sveitarfélögum og hverfastjórnum ef þau vita að aðrar æskulýðsstofnanir í kringum þær hafa lokað vegna smita.
Athygli er vakin á að blikur eru á lofti um að þessar leiðbeiningar gætu breyst hratt aftur
Dreka- fálka- og dróttskátar (7 – 15 ára)
Þátttakendur:
- Drekaskátar, Fálkaskátar og Dróttskátar mega vera 50 saman á skátafundi
- Blöndun er leyfileg á milli hópa.
Staðsetning skátafunda:
- Mælst til að vera utandyra. Ef stór hluti er í sóttkví og/eða einangrun er mælst til að hafa fundinn á rafrænum vettvangi til að auka aðgengileka.
- Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými.
- Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
- Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa í sama rými.
Skátaforingjar:
- Reyna skal að halda fjölda skátaforingja í lágmarki þó ávallt vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis, samkvæmt reglugerð má fjöldi skátaforingja að hámarki vera 20.
- Skátaforingjar skulu gæta 2 metra nálægðartakmörkunar á milli hvors annars og milli sín og barnanna eins og kostur er.
- Skátaforingjar skulu bera andlitsgrímur þegar ekki er unnt að gæta fjarlægðartakmarkanna og er mælst til þess að þær séu bornar öllum stundum í starfi.
Starfsfólk:
Séu starfsmenn í skátafélögum gilda sömu reglur um þau og skátaforingja.
Forráðamenn, aðstandendur og aðrir aðilar:
Ekki er sérstaklega talað um forráðafólk og aðstandendur þátttakenda í reglugerð en mælst er til þess að þau ásamt öðrum sem ekki tilheyra félagsstarfi hverrar skátasveitar skulu lágmarka viðveru í skátaheimili þegar skátafundir eru haldnir. Þau skulu bera grímu öllum stundum ef þau þurfa að mæta í persónu þar sem skátasveitin er að störfum og gæta nálægðartakmarkana gagnvart þátttakendum, skátaforingjum og öðrum.
Rekka-, róver- og eldri skátar (16 ára og eldri)
Vilji skátar á þessum aldursbilum koma saman er þeim ráðlagt að færa allt það starf utandyra, vera aldrei fleiri en 20, gæta nándartakmarkana og bera grímur sé ekki hægt að tryggja þær. Áfram er mælst til að allar samkomur sem snúa að skipulagi félagsins s.s. foringjaráðsfundir, stjórnarfundir, baklandsfundir og samanbærilegt sé framkvæmt rafrænt.
Ferðir og útilegur á öllum aldursstigum
Mælst er til þess að fara eingöngu í dagsferðir. Að svo stöddu er augljóslega meiri smithætta að fara og dvelja til lengri tíma saman í stórum hópi og erfitt að tryggja að sóttvarnartakmörkum sé fylgt í einu og öllu meðan á dvöl stendur.