Fálkaskátaflokkur Árbúa Fálkakempur 2025

Síðastliðna helgi buðu Hraunbúar fálkaskátum landsins í heimsókn í Skátalund við Hvaleyrarvatn þar sem skátarnir hlupu um í póstaleik í kringum vatnið og kepptust um farandviðurkenninguna.
Veðrið lék um fálkaskátana en þau hófu leika með skemmtilegum eltingarleik við skátaskálann áður en lagt var að stað í leit af póstum kringum vatnið. Skátarnir söfnuðu sér inn stigum sem flokkur með samvinnu og góðri frammistöðu í verkefnunum sem meðal annar voru að leysa skátadulmál, rugla í hefðbundnum skátasöngvum, súrra þrífót, leiða hvort annað í gegnum blindrabraut og gera sjúkrabörur úr eigin fötum.
Að lokum söfnuðust allir flokkarnir saman við Skátalund þar sem þau kepptu í lokaþrautinni, að brenna band, en hver flokkur fékk einn skátahníf, einn eldspýtustokk og einn viðardrumb. Skátarnir þurftu síðan að ná upp nægilega stórum loga til þess að ná að brenna band sem var fest þvert yfir hverja stöð.
Fálkaflokkurinn í Árbúum voru fyrst til þess að brenna bandið og báru því sigur úr bítum þetta árið. Þau fengu afhentan farandviðurkenninguna sem nú fær að príða Árbúaheimilið þar til að fálkaskátadagurinn verður haldinn næsta haust.
Svo var að sjálfsögðu sungin nokkur vel valin skátalög til að halda hita í fálkunum á meðan beðið var eftir úrslitum. Eftir kvöldvöku gæddu fálkar og foringjar sér á heitu kakói og kexi að skátasið áður en haldið var heim.
Útkall eftir umsóknum á norrænt gilwell
BÍS stendur til boða að senda 3 þátttakendur á norrænt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Finnlandi. Þátttakendur verða frá öllum Norðurlöndunum en námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.
HVAR OG HVENÆR
Námskeiðinu í Finnlandi er skipt í nokkra hluta:
- 3 netnámskeið: sunnudaginn 1. febrúar, sunnudaginn 22. mars og sunnudaginn 26. apríl. Nánari tímasetningar koma síðar
- Útilega í Asikkala, suður Finnlandi, dagana 29. júní - 4. júlí 2026
- Lokahelgi þjálfunarinnar í suður Finnlandi 6.-9. janúar 2027. Nánari staðsetning kemur síðar.
MARKMIÐ
Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.
Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.
KRÖFUR
Þátttakendur þurfa að vera 22 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.
KOSTNAÐUR
Þátttökugjaldið er 550 evrur ásamt því að þátttakendur þurfa að greiða eigin ferðakostnað (2 ferðir til Finnlands).
UMSÓKNIR
Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 12. október.
Skátar fagna fjölbreytileikanum

Skátastarf snýst um miklu meira en að binda hnúta og ganga á fjöll. Skátastarf snýst um að finna sitt fólk, læra að treysta sjálfu sér og öðrum og finna öryggið til að vera nákvæmlega þú sjálft. Fyrir hinsegin ungmenni getur það skipt sköpum að tilheyra hópi þar sem fjölbreytni er ekki bara liðin heldur fagnað. Þátttaka skátanna í Gleðigöngunni er löngu orðinn fastur liður í dagskrá sumarsins en Hjálpasveit skáta í Reykjavík hefur tekið þátt í göngunni með skátunum frá upphafi. Með þátttökunni sýnum við ungu skátunum okkar í verki að skátahreyfingin sé staður þar sem þau geta verið þau sjálf, að við stöndum með mannréttindum og fögnum fjölbreytileikanum.
En skátar tóku ekki aðeins þátt í Gleðigöngunni í Reykjavík á laugardaginn var heldur var fjölbreytileikanum einnig fagnað á Fálkaskátamóti á Úlfljótsvatni um helgina. Hátt í 180 fálkaskátar, foringjar og sjálfboðaliðar dönsuðu og gengu frá Friðarlautinni upp í KSÚ þar sem haldið var eftirminnanlegt diskóblót í ljósaskiptunum. Myndirnar tala fyrir sig.
Þá var Elín Esther Magnúsdóttir, rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni ein af þremur viðmælendum í þættinum Hinsegin dagar, vikur, mánuðir, ár sem sýndur var sunnudaginn 10. ágúst í tilefni hinsegin daga. Viðtalið er einlægt, skemmtilegt og hvetjandi en Elín Esther er frábær fyrirmynd fyrir unga skáta. Horfa má á þáttinn hér en innslagið með Elínu hefst á 29. mínútu.
Lokað yfir verslunarmannahelgina
Lokað verður í Skátamiðstöðinni mánudaginn 4. ágúst vegna frídag verslunarmanna. Skátamiðstöðin opnar aftur þriðjudaginn 5. ágúst.
Einstakt Sumar-Gilwell á Úlfljótsvatni

Blað var brotið í sögu Gilwell á Íslandi síðustu helgi þegar 16 gilwellskátar fengu tækifæri til að hefja vegferð sína að þriðju og fjórðu perlu. Er það í fyrsta skipti sem framhaldsnámskeið með þessu sniði er haldið á Íslandi. Á sama tíma fór fram grunnnámskeið Gilwell, með 10 þátttakendum í tveimur flokkum, Gaukum og Hröfnum. Grunnnámskeiðið tók forskot á sæluna, og mætti degi fyrr heldur en framhaldsnámskeiðið eða miðvikudaginn 28. maí. Þá gafst þeim tími til að kynnast flokknum sínum og reisa tjaldbúð.
Dagskrá námskeiðanna var fjölbreytt. Báðir hópar fengu tækifæri til að æfa sig í útieldun, taka þátt í póstaleikjum og kvöldvökum og sitja vinnustofur um menningu og gildi og þarfamiðuð samskipti. Á grunnnámskeiðinu einbeittu þátttakendur sér að eigin skátastarfi og starfi skátafélagsins á meðan áhersla framhaldsgilwells er skátastarf á landsvísu; verkefnastjórnun og stefnumótun. Þátttakendur framhalds Gilwell fengu innihaldsríkt örnámskeið í verkefnastjórnun frá Halldóru Guðrúnu Hinriksdóttur og vinnustofu í krísustjórnun frá Hermanni Sigurðssyni. Þá ber að nefna að Gilwell skátinn Valdís Þorkelsdóttir fékk Gilwell einkenni sín afhent 58 árum eftir að hún hóf Gilwell vegferðina sína, eftir að áhuginn kviknaði aftur í kjölfar Gilwell útskriftar barnabarns Valdísar fyrir ekki löngu síðan. Síðan þá hefur Valdís orðið hluti af skátasamfélaginu á ný en viðstödd afhendinguna voru því góðir vinir úr starfinu sem og þátttakendur framhaldsnámskeiðsins ásamt leiðbeinendum þeirra.
Sérstakur gestur á námskeiðinu var Diana Slabu frá Evrópustjórn WOSM en hún kynnti fyrir þátttakendum störf Evrópustjórnarinnar, stefnur og áherslur og uppbyggingu teymisins. Andinn var sérstaklega góður á námskeiðunum og samheldni hópanna áberandi. Þar var hlegið, grátið, sungið og allt þess á milli. Aðspurð um upplifun sína af námskeiðinu lýsti Díana henni eins og að ganga inn í fjölskyldu. Þar hitti hún naglann á höfuðið en samheldnin, samvinnan og samveran var einkennandi fyrir námskeiðið. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig verkefni þátttakendanna þróast og skila sér út í skátastarfið í landinu.
Skátar frá Norðurlöndunum vinna saman - Norðurlandaþing 2024

Dagana 8.-12. maí tók hópur íslenskra skáta þátt í Norðurlandaþingi sem haldið var í Færeyjum að þessu sinni. Norðurlandaþing er haldið á 3 ára fresti af norrænu skátanefndinni (NSK) sem er samstarfsvettvangur skátasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið vettvangsins er að skapa tækifæri til samstarfs, til að miðla reynslu og deila menningu á milli landanna. Hér er hægt að lesa meira um starfsemi NSK.
Allt að 180 skátar frá öllum Norðurlöndunum voru samankomin á ráðstefnunni, þar af 19 manns frá Íslandi. Íslenski hópurinn samanstóð af stjórn og starfsfólki BÍS, fulltrúum frá Alþjóðaráði og fulltrúum ungmenna.

Fyrsta daginn fengu þátttakendur að upplifa náttúruundir Færeyja með vali um ferðir um eyjarnar. Hægt var að fara í fjallgöngu í Klaksvík, gönguferð um Kirkjubø eða göngu um Gásadal og að skoða Múlafoss. Seinna um daginn var þingið sett en þemað að þessu sinni var Tími breytinga. Á opnunarathöfninni fengum við ræður frá Skátahöfðingja og forsætisráðherra Færeyja ásamt tónlistaratriðum, eitt frá ungum skátum í Þórshöfn og svo flutti færeyski tónlistarmaðurinn Marius Ziska nokkur lög.
Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá sem samanstóð að mestu af kynningum og vinnusmiðjum ásamt því að þátttakendur fengu tækifæri á því að rýna betur í sýn, stefnu og samstarfsgrundvöll NSK.



Vinnusmiðjurnar komu frá þátttökulöndunum þar sem lögð var áhersla á spennandi og gagnlegar smiðjur til að kynna hin ýmsu verkefni sem bandalögin eru að vinna að. Sem dæmi má nefna smiðju um geðheilbrigðismál í skátastarfi, hvernig hægt er að vekja vitund skáta um veruleika flóttafólks, hvernig dagskrá rekka- og róverskáta lítur út, hvernig sænskir skátar kynna tækifæri til alþjóðastarfs og svo margt margt fleira. Íslensku skátarnir stóðu fyrir þrem smiðjum, einni um sjálfbæra viðburði, aðra um öryggi í skátastarfi og sú þriðja kynnti starfsemi Grænna skáta og hvað það gefur íslensku skátahreyfingunni.


Að lokum ber sérstaklega að nefna að Færeyingar héldu smiðju sem bar heitið Skótahjálpin, þar sem þau sögðu frá góðgerðarstarfi sínu þar sem þau safna peningum fyrir góð málefni. Til að mynda gáfu þau íslenskum skátum 500 þúsund krónur fyrir sumarstarfi grindvískra barna.

Einnig sammældust Norrænu bandalögin um að veita styrk til skáta í Brasilíu sem standa í ströngu um þessar mundir að hjálpa samfélagi sínu að kljást við mikil flóð sem hafa geysað í suðurhluta landsins.
Að sjálfsögðu var svo boðið upp á kvöldvökur að skátasið í lok hvers dags!
Við þökkum frændfólki okkar í Færeyjum fyrir einstaklega vel skipulagða og gagnlega ráðstefnu og erum full tilhlökkunar að innleiða þær hugmyndir sem við fengum á ráðstefnunni í okkar starfsemi.
Eflum óformlegt nám - menntaráðstefna skáta í París

Bandalag íslenskra skáta sendi 5 fulltrúa á vel heppnaða menntaráðstefnu skáta í París á dögunum. Á ráðstefnunni var áherslan lögð á að styðja og efla menntunargildi skátastarfs um allan heim. Yfir 500 skátar mættu á ráðstefnuna ásamt fulltrúum fjölda stofnana og samtaka.

Fulltrúar okkar dreifðu sér á ýmsar málstofur þar sem fjölbreytt málefni voru til umræðu. Sem dæmi má nefna:
- Hvernig á að stýra sjálfboðaliðastarfi og fá fleiri að borðinu?
- Mikilvægi þess að fá pásu frá símanum
- Hvaða leiðir getur skátastarf farið í átt að heimsfrið?
- Hvernig stuðlum við að vitundarvakningu innan skátanna í umhverfis- og loftslagsmálum?
- Hvert stefnum við sem alþjóðahreyfing?
Að auki sóttu fulltrúarnir mjög áhugaverða fræðslu um rafræn skátamerki, en nú stendur yfir þróun á rafrænu alþjóðlegu kerfi þar sem skátar geta hlaðið upp og fengið fleiri merki fyrir hæfni sína og unnin verkefni.
Vegvísir fyrir menntun í skátastarfi
Við lok ráðstefnunnar voru málefni hennar og umræður tekin saman og útbúinn vegvísir fyrir skátastarf. Vegvísirinn inniheldur 10 leiðir til að efla innihaldsríkara og aðgengilegra skátastarf. Vegvísinn má finna hér.
Sá lærdómur sem þátttakendur okkar taka með sér heim verður nýttur vel til þess að efla innra starfið.

Grænir skátar leita að framkvæmdastjóra

Grænir skátar leita að framkvæmdastjóra í fullt starf. Um er að ræða fjölbreytt starf sem krefst bæði forystuhæfileika en auk þess vilja og hæfni til að sinna ýmsum verkefnum í daglegum rekstri. Fyrirtækið leggur áherslu á arðsaman rekstur og samfélagslega ábyrgð. Fyrirtækið stuðlar að sjálfbærni og náttúruvernd með starfsemi sinni og veitir einstaklingum með skerta starfsgetu atvinnutækifæri.
Helstu verkefni og ábyrgð:
- Stýra daglegum rekstri fyrirtækisins og gæta jafnvægis milli fjárhagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta starfseminnar
- Forysta og framkvæmd á nýlegri stefnumótun félagsins
- Umsjón og ábyrgð með fjármálastjórn, þ.m.t. áætlanagerð, mælingum og eftirfylgni
- Ábyrgð á að byggja upp og leiða fjölbreyttan hóp starfsmanna til árangurs
- Innkaup á stærri rekstrarvörum
- Ábyrgð á samskiptum við helstu samstarfsaðila og aðra hagsmunaaðila
- Markaðs- og sölumál
Menntun og hæfnikröfur:
- Farsæl reynsla af rekstri
- Leiðtoga- og stjórnunarhæfileikar til að leiða einstakt fyrirtæki til árangurs
- Hæfni til að styðja öflugan hóp starfsmanna til ábyrgðar og nýta mismunandi hæfileika allra starfsmanna óháð starfsgetu
- Viðleitni til að sinna ýmsum úrlausnarefnum í daglegum rekstri
- Háskólamenntun eða önnur menntun sem að nýtist í starfi
Um Græna skáta:
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi.
Umsóknarfrestur er til og með 28. janúar 2024.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Sævar Skaptason, stjórnarformaður Grænna skáta, saevar@heyiceland.is.
Umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir áhuga á starfinu og rökstuðningur um hæfni til að geta sinnt starfinu með farsælum hætti.
Staða Erindreka laus til umsóknar

Markmið með starfi erindreka er að efla starf skátafélaga í landinu og vinna að því að fjölga skátum í starfi með stuðningi við skátafélög.
Leitað er eftir að erindreki sýni frumkvæði og eigi auðvelt með að vinna með ungu fólki, geti unnið sjálfstætt, skipulagt verkefni og stýrt verkefnum jafnt sem að vinna í hópastarfi.
Erindreki vinnur náið með viðburðastjóra og öðru starfsfólki BÍS í samráði við starfsráð að því að þróa og efla innra starf skátafélaga með þeim verkfærum sem þróuð hafa verið. Erindreki er mikið í beinum samskiptum við skátafélögin og sveitastjórnir/bæjarstjórnir eftir tilvikum – í samráði við framkvæmdastjóra BÍS.
Vinnutími er sveigjanlegur og gert er ráð fyrir því að erindreki sé einnig á ferðinni í heimsóknum til skátafélaga, forsvarsmanna sveitarfélaga og stuðningsaðila skátastarfs. Starfsstöð erindreka er í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 í Reykjavík en við hvetjum fólk á landsbyggðinni einnig að sækja um.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Veitir stuðning við uppbyggingu skátastarfs og fjölgun skáta í starfi
- Aðstoð við uppbyggingu á fjölskylduskátun
Stuðningur við skátastarf
- Ber ábyrgð á og styður við verkefni fyrir skátafélög í landinu sem tengjast skátaaðferðinni og dagskrármálum
- Stuðningur við nýja foringja
- Vinnur með öðrum að þróun dagskrár í skátastarfi. Fundir með dagskrárforingjum
- Aðstoðar við fræðslumál og námskeiðahald í skátastarfi
- Aðstoða og ráðgjöf við gerð á nýju dagskrárefni og dagskrárvef
- Setja inn upplýsingar á heimasíðu
- Önnur tilfallandi verkefni á skrifstofu
Menntunar- og hæfniskröfur
- Menntun sem nýtist í starfi
- Góð almenn tölvukunnátta (ritvinnsla – gagnagrunnar)
- Reynsla af skipulagningu og stjórnun verkefna
- Sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði
- Eftirfylgni með verkefnum
- Góð mannleg samskipti og með góða, jákvæða og hvetjandi framkomu
- Eiga auðvelt með að vinna með öðrum og virkja fólk
- Nauðsynlegt að hafa mikla reynslu og brennandi áhuga á skátastarfi, með þekkingu á stöðu skátastarfs á Íslandi í dag og hafa verið virk/ur í starfi undanfarin ár
Fríðindi í starfi
- Sveigjanlegur vinnutími
- Fjölskylduvæn stefna
- Heilsustyrkur
- Hvetjandi starfsumhverfis
Umsóknir fara í gegnum Alfreð.is
Um okkur
Skátamiðstöðin þjónustar skátafélög landsins, annast útgáfumál, fræðslumál, alþjóðleg samskipti, fjáraflanir, sameiginlega viðburði og önnur þau verk sem lúta að rekstri landshreyfingar æskulýðssamtaka.
Hjá skátahreyfingunni starfar frábær hópur atvinnufólks og sjálfboðaliða að því að efla skátastarf í landinu.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu

Nú hafa um 141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu!
Frá 1.-12. ágúst mun Saemangeum á vesturströnd Suður Kóreu taka á móti um 55.000 skátum frá mismunandi löndum alls staðar úr heiminum og byggja upp tjaldbúð með þemanu ,,teiknaðu þinn draum".



Við óskum íslenska fararhópnum góðrar ferðar og við vitum að þau munu njóta sín í þessari ævintýraferð og eignast einstaka lífsreynslu.
Til að fylgjast nánar með hópnum getið þið fylgt aðgangnum á instagram og facebook.
















