Dagskrárbankinn stækkar með þinni hjálp

Saman getum við hjálpast að og búið til stóran og flottan dagskrárbanka. Vegna fjölda áskorana hefur Skátamiðstöðin tekið af skarið og byrjað að setja inn efni. Við vitum að skátar og skátaforingjar eiga mikið af spennandi dagskrárefni í bakpokanum sínum sem gæti nýst öðrum. Hér getur þú skoðað efnið sem er komið inn núþegar!
Villt þú hjálpa til við að stækka dagskrárbankann? Þú getur fyllt út formið eða sent póst á skatarnir@skatarnir.is með þínum hugmyndum!
Kolbrún Ósk rær á ný mið

Kolbrún Ósk Pétursdóttir mun í byrjun janúar hætta sem starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar og Skátamóta. Kolbrún hefur unnið ötult og glæsilegt starf sem viðburðastýra BÍS, mótsstjóri Landsmóts skáta 2024 á Úlfljótsvatni og stutt fararhópa og aðra viðburði á vegum BÍS.
Með þakklæti í hjarta kveðjum við Kolbrúnu Ósk og óskum henni velfarnaðar í nýjum ævintýrum í leik og starfi. Takk fyrir alla þá vinnu sem þú hefur veitt skátastarfi á Íslandi.
Opnunartími yfir hátíðarnar
Opnunartími verður takmarkaður yfir hátíðarnar en verður sem hér segir:
| Skrifstofa BÍS & Skátabúðin | |
| 20. desember | OPIÐ |
| 21.-26. desember | LOKAÐ |
| 27. desember | OPIÐ |
| 30. desember | OPIÐ |
| 31. desember | LOKAÐ |
| 1. janúar | LOKAÐ |
| Sígræna jólatréð | |
| 20. desember | 09:00 - 18:00 |
| 21. desember | 10:00 - 18:00 |
| 22. desember | 10:00 - 18:00 |
| 23. desember - 1. janúar | LOKAÐ |
Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar velkomin í Skátamiðstöðina

Þann 5. desember næstkomandi er dagur sjálfboðaliðans og viljum við í Skátamiðstöðinni þakka okkar sjálfboðaliðum kærlega fyrir allt þeirra framlag til skátahreyfingarinnar og bjóða þeim að koma í Hraunbæ 123 og þyggja léttar veitingar kl. 15:00-17:00.
Sjálfboðaliðar eru ómetanlegt afl sem drífur skátahreyfinguna áfram. Sem dæmi má nefna: sinna foringjastörfum, sitja í stjórn skátafélags, vera í baklandi, byggja upp og viðhalda skátaheimilum eða skátaskálum, stýra dagskrá á viðburðum, ganga frá og þrífa eftir viðburði, taka að sér hlutverk í ráðum og nefndum, yfirfara fjölmargar eldri minjar og gamlan búnað, elda ljúffengan mat fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur, slá gras, mála byggingar, klippa tré og setja upp skilti til að undirbúa stórviðburð, vera fararstjórar og sveitarforingjar á erlendum skátamótum, bjóða fram sína sérþekkingu og kunnáttu á skátafundum eða á fræðsluviðburðum.
Sjálfboðaliðar leika líka lykilhlutverk í rekstri útilífsmiðstöðvarinnar okkar á Úlfljótsvatni. Þangað koma árlega hátt í 30 erlendir sjálfboðaliðar sem dvelja í 3-9 mánuði hver og leggja ómælda vinnu í dagskrá, matseld, þrif og viðhald. Þegar á þarf að halda er svo fjöldinn allur af íslenskum sjálfboðaliðum sem er tilbúinn að stökkva til og lyfta grettistaki.
Meðal sjálfboðaliðaverkefna sem hafa verið unnin í ár eru ótal handtök í undirbúningi fyrir landsmót, svo sem við að mála hús, slá gras, hreinsa blómabeð, hengja upp skilti, leggja vatnslagnir, setja upp sturtur, leggja göngustíga, halda við tækjum og búnaði og margt, margt fleira.
Án sjálfboðaliða væri Úlfljótsvatn ekki sá staður sem það er í dag, og þeir munu halda áfram að vera mikilvægasti drifkrafturinn bakvið áframhaldandi uppbyggingu staðarins.
Augljóst er að án sjálfboðaliðanna okkar væri varla hægt að bjóða upp á spennandi, skemmtilegt og öflugt skátastarf og erfitt er að ná almennilega yfir öll þau fjölbreyttu verkefni sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér í gegnum árin.
Fundur fólksins - Tölum saman daginn fyrir kosningar!
Lýðræðishátíð unga fólksins fer fram í Hörpunni 29. nóvember sem hluti af Fundi fólksins, ráðstefnu Almannaheilla.
Krökkum í 10. bekk í Reykjavík er boðið á Lýðræðishátíðina og verða þátttakendur um 150. Hátíðin byrjar kl. 10.00 í salnum Kaldalóni þar sem hópurinn fær örfyrirlestur um það að taka afstöðu og láta í sér heyra.
Eftir það verður unga fólkinu skipt í hópa og skiptum þeim niður á fleiri sali þar sem þau setjast á umræðuborð og ræða fjögur málefni. Í lokin munu þau svo kjósa um það hvað skiptir þau mestu máli.
Þau hafa óskað eftir sjálfboðaliðum til að vera umræðustjórar hjá hópunum og hvetjum við skáta, 18 ára og eldri, til að bjóða sig fram!
Þetta á að vera skemmtilegt og áhugavert verkefni fyrir sjálfboðaliða og tækifæri til að leiða hóp í málefnalegu samtali.
Hver sjálfboðaliði/umræðustjóri myndi taka að sér eitt umræðuefni og fara með fjóra hópa í gegnum það efni.
Þú getur skráð þig hér sem sjálfboðaliði. Þú getur sett inn það umræðuefni sem þú hefur mestan áhuga á, en ekki víst að við getum sinnt öllum óskum.
Að neðan eru umræðuefnin sem á að taka fyrir. Hlutverk umræðustjóra er að hvetja nemendur til að taka til máls og segja sína skoðun. Ekki verra ef umræðustjóri þekkir málefnið eða kynnir sér fyrirfram.
Umræðuefnin eru:
-
Símabann í skólum
-
Á að banna síma alfarið í skólum?
-
Ættu að vera reglur um símanotkun í skólunum?
-
Af hverju símabann? Er það raunhæft?
-
Hefur síminn áhrif á þig í skólanum?
-
Er hægt að finna aðrar leiðir svo símar trufli ekki í skólum? Eða hafi áhrif á samskipti nemenda?
-
-
Samræmd próf og inntaka í framhaldsskóla
-
Á að taka upp samræmd próf?
-
Af hverju? Af hverju ekki
-
-
Hvað finnst þér um inngönguskilyrði í framhaldsskóla í dag?
-
Veistu hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að komast inn í framhaldsskóla?
-
-
Á að færa kosningarétt til 16 ára?
-
Myndir þú vilja geta kosið á morgun?
-
Finnst þér að 16 ára ættu að geta kosið?
-
Fylgistu með kosningunum?
-
Veistu hvaða flokk þú myndir kjósa?
-
-
Samgöngumál - strætó, Borgarlína.
-
Tekur þú strætó?
-
Hvernig finnst þér strætó samgöngur?
-
Veistu hvað Borgarlínan er?
-
Myndirðu vilja fá Borgarlínu?
-
Yfirlýsing stjórnar
Vegna umfjöllunar RÚV í liðinni viku um alheimsmót skáta 2023 og um meint fjármálamisferli og frændhygli hjá Bandalagi íslenskra skáta viljum við, undirrituð, koma eftirfarandi á framfæri.
Við sem sitjum og sátum í stjórn BÍS í aðdraganda ferðarinnar, á meðan á henni stóð og eftir hana stöndum þétt við hlið skátahöfðingja Íslands. Í ljósi umræðu síðustu daga þykir okkur rétt að benda á að þótt skátahöfðingi sé í forsvari fyrir stjórn BÍS eru allar ákvarðanir teknar af stjórninni í sameiningu. Þetta á einnig við um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kringum alheimsmótið.
Okkur er fyrirmunað að skilja hver tilgangur þessarar umfjöllunar er annar en að kasta rýrð á starfsemi skátahreyfingarinnar og þá sérstaklega á störf skátahöfðingja, þar sem bæði öllum hlutaðeigandi, þar á meðal fararstjórn, hefur verið boðið til samtals um málið og var það okkar upplifun að þau sem hefðu þegið það boð hefðu gengið sátt frá borði. Við ítrekum að við erum enn opin til samtals og viljum ekkert frekar en að leysa málin á farsælan hátt. Umfjöllun RÚV hefur verið mjög einhliða og byggð á rangfærslum sem fjölmiðlafólki ætti að hafa verið ljóst um. Það er okkar mat að umfjöllunin brjóti gegn siðareglum blaðamanna. Í siðareglunum er meðal annars gerð sú lágmarkskrafa að upplýsingar séu settar fram á heiðarlegan hátt og greinarmunur gerður á skoðunum og staðreyndum. Það er ljóst að umfjöllunin uppfyllir ekki þessa lágmarkskröfu.
Varðandi starfsmannamál þá kemur stjórn BÍS eingöngu að ráðningu framkvæmdastjóra og hefur annars ekki beina aðkomu að mannaráðningum bandalagsins. Þær eru á ábyrgð framkvæmdastjóra. Það er þó alltaf svo að í litlu samfélagi eru óhjákvæmilega tengsl á milli aðila. Tekið skal fram að Harpa Ósk var hvorki skátahöfðingi né framkvæmdastjóri í afleysingum þegar báðar systur hennar og kærasti annarrar þeirra voru ráðin í störf á vegum BÍS. Það skal ítrekað að þau sem eru ráðin til starfa fyrir hreyfinguna eru ráðin af eigin verðleikum en ekki vegna skyldleika. Að gefa annað í skyn er ekki síður áfellisdómur á það góða fólk sem þar hefur unnið við afar fjölbreytt störf.
Við teljum brýnt að ávarpa þær ásakanir sem fram hafa komið um hæfi Hörpu Óskar til þess að sinna stöðu framkvæmdastjóra BÍS í afleysingum. Hefur í þessu samhengi verið vísað í starfsreglur stjórnar BÍS og gefið í skyn að ráðning hennar í afleysingar með skömmum fyrirvara brjóti gegn þeim. Í starfsreglum stjórnar BÍS segir orðrétt “Stjórnarmenn skulu ekki þiggja laun fyrir stjórnarsetu né vera fastráðnir starfsmenn BÍS eða dótturfyrirtækja.” Það er alveg á hreinu að Harpa Ósk hefur aldrei þegið laun fyrir stjórnarsetu og aldrei verið fastráðin á skrifstofu BÍS. Starfsfólk í afleysingum er enda ekki fastráðið.
Haustið 2022 kom upp sú staða að framkvæmdastjóri BÍS þurfti að hverfa frá störfum með mjög skömmum fyrirvara. Þetta var álagstími á skrifstofunni og því var mikilvægt að finna afleysingu fyrir hana strax til að hægt væri að sinna áfram brýnustu málefnum BÍS og dótturfélaga. Sú ráðstöfun var í fyrstu hugsuð til nokkurra vikna en þegar ljóst var að fyrrum framkvæmdastjóri myndi ekki snúa aftur til starfa var hún framlengd. Skátahöfðingi hafði á þessum tíma svigrúm í sinni vinnu til þess að færa til verkefni og varð því úr að lögð var tillaga fyrir félagsforingjafund um að hún sinnti störfum framkvæmdastjóra tímabundið á meðan á ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra stæði. Sú tillaga var samþykkt. Ráðningarferlið tók lengri tíma en áætlað var. Nýr framkvæmdastjóri kom formlega til starfa í maí 2023 en hóf í raun ekki störf að fullu fyrr en í ágúst, viku áður en farið var á alheimsmót. Harpa var því enn að sinna aðlögun hans að nýju starfi þegar mótið átti sér stað. Það er því ljóst að stjórn hafði umboð félagsforingjafundar fyrir afleysingunni og er afgreiðsla þessa máls því í samræmi við lög og reglugerðir BÍS þrátt fyrir að annað hafi verið gefið í skyn í umfjöllun RÚV um málið.
Við viljum árétta að allir þeir sjálfboðaliðar sem starfa í stjórn BÍS, þar á meðal skátahöfðingi, gera það af heilindum með það að markmiðiði að móta uppbyggilegt og skemmtilegt skátastarf í landinu.
Auður Sesselja Gylfadóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, fyrrum meðstjórnandi
Davíð Þrastarson, meðstjórnandi
Guðrún Stefánsdóttir, meðstjórnandi
Huldar Hlynsson, fyrrum meðstjórnandi
Sævar Skaftason, gjaldkeri
Unnur Líf Kvaran, meðstjórnandi
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, fyrrum meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, aðstoðarskátahöfðingi
Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur

Bandalag íslenskra skáta vottar aðstandendum, félögum í björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ og öllum vinum okkar í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu innilega samúð vegna fráfalls félaga og formanns Kyndils.
Andrea Dagbjört ráðin í fullt starf sem Erindreki BÍS

Andrea hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af skátastarfi og hefur sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir hreyfinguna og sitt félag. Hún er starfandi sveitarforingi dróttskátasveitar og hefur reynslu í stjórnarsetu skátafélaga og sem aðstoðarfélagsforingi. Andrea mun taka við starfi erindreka og vinna að stefnu BÍS við að styðja skátafélög landsins og viðburðum.
Við bjóðum Andreu hjartanlega velkomna til starfa.
Vefverslun Skátabúðarinnar komin í loftið!

Skátabúðin hefur að undanförnu unnið að uppfærslu á vefverslun sinni til að gera síðuna notendavæna og aðgengilegri. Nú er hún loks komin í loftið! Fleiri vörur munu bætast við á komandi misserum. Skoðaðu vefverslunina hér!









