Eintóm gleði á síðasta degi Landsmóts

Í gær var síðasti dagskrárdagur Landsmóts haldinn hátíðlegur þar sem öll voru velkomin í heimsókn til að kynnast ólíkum menningarheimum og skoða hvað skátafélögin höfðu upp á að bjóða. Skátafélög kynntu heimabæi og lönd sín og buðu meðal annars upp á ýmsar veitingar og skemmtilega leiki á borð við flöskuendurvinnslu þar sem hægt var að fá skátamerki að launum, taka ferð á villtum bola og einnig voru ýmsar gerðir af gestabókum um allt svæðið.

Um hádegisbil flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið og sýndi björgun úr vatni og hífði nokkra skáta úr Úlfljótsvatni og vakti það mikla lukku meðal áhorfenda.

Mynd: Helgi Jónsson

Meðal gesta mótsins voru Guðni Th. Thorlacius, forseti Íslands og verndari skátahreyfingarinnar og Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, en þau gengu um svæðið með mótsstjórn og stjórn BÍS og gæddu sér á veitingum, prófuðu leiki og spjölluðu við skáta allsstaðar að úr heiminum. Mörgum erlendum skátum fannst magnað að sjá forsetan falla svo vel í hópinn vildu ólm fá mynd með honum.

 

BMX bros voru einnig á svæðinu og sýndu listir sínar við góðar undirtektir. Veðrið var eins og sönnu íslensku veðri sæmir, rigning, glampandi sól og hiti, þrumur og eldingar, úrhellis rigning og svo loks logn og skýjað. Ótrúlegt að upplifa allar þessar veðurbreytingar á einum og sama deginum.

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldvaka en þar stigu á svið gamalreyndur kvöldvökuhópur ásamt yngri og nýrri kvöldvökuhóp og stjórnuðu þau stórglæsilegri kvöldvöku en einnig voru skemmtiatriði sem vöktu mikla gleði. Inspector Spacetime kom svo brekkunni í partýstuð og myndaðist ein lengsta kóngaröð sem sést hefur á Landsmóti. Stuðlabandið hélt svo stuðinu uppi lang frameftir kvöldi og ómuðu tónar þeirra og gleði skátanna um allt tjaldsvæðið.


Skátablaðið Pappírsheimur - 6. tölublað

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 6. tölublað. 


Reistu 15,3 metra háa fánastöng í skjóli nætur

Á Landsmóti fór fram keppni um hæðstu fánastöngina og þar er ekki átt við hefðbundna fánastöng heldur fánastöng sem hefur verið súrruð saman eða búin til með öðrum frumlegum hætti.

Kanadískir og íslenskir skátar vöknuðu um miðja nótt, söfnuðu saman trönum og bindingum og reistu 15,3 metra háa fánastöng fyrir framan stóra sviðið á mótsvæðinu. Mörg voru hissa þegar þau fóru á stjá morguninn eftir en þa trjónaði fánastöngin yfir allt með nokkrum fánum á.

 


Hamravíðir vex nú einnig á Úlfljótsvatni

Í dag rigndi á okkur en öll hafa verið á fullu í dagskrá með bros á vör. Þreytan er farin að gera vart við sig en spenningurinn fyrir heimsóknardegi og hátíðarkvöldvöku morgundagsins leynir sér ekki. Trönubyggingar rísa, fánastangir hækka og verður hæsta fánastöngin tilkynnt í Pappírsheimum, landsmótsblaði morgundagsins.

Skáti er náttúruvinur og í dag var Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni færð gjöf sem mun stækka um ókomin ár. 175 plöntur frá Dróttskátasveitinni Montis frá Klakki á Akureyri. Sveitin fór að Hömrum í vor, klipptu til greinar og ræktuðu hríslur sem þau tóku svo með sér í rútuna á Landsmót. Plönturnar voru gróðursettar á svæðinu í dag. Gróðursettur var Hamravíðir og vex hann nú á Hömrum og Úlfljótsvatni.

Þegar skátafélagið Klakkur fékk Hamra árið 1999 stóðu þar auð tún en svæðið hefur tekið stakkaskiptum vegna gróðursetninga skáta í gegnum árin. Það var á níunda áratugnum sem skátafélagið Klakkur og Hamrar, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, hóf að færa ÚSÚ hríslur og gróðursetja víðsvegar á svæðinu. Vill Bandalag íslenskra skáta færa bestu þakkir fyrir gjafirnar í gegnum tíðina.

 


Skátablaðið Pappírsheimur - 5. tölublað

 

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 5. tölublað. 


Fimmti dagur ævintýra á Landsmóti

Fimmti dagur Landsmóts var rólegur en fullur af ævintýrum. Loks fengum við týpískt íslenskt sumarveður, skýjað, hlýtt og smá gola. Þátttakendur fóru í klifurturninn, hoppukastalana, gönguferðir og ýmislegt fleira. Áfram var unnið að samfélagsverkefnum og voru undirgöngin meðal annars máluð í öllum regnbogans litum. Útieldunin hefur einnig slegið í gegn en í dag var til dæmis heill fiskur eldaður í dagblaði yfir opnum eldi. Hæfileikakeppni mótsins sló í gegn og ómuðu fagnaðarlætin um allt. Þar voru meðal annars söngatriði, dansatriði, tónlistaratriði og rapp.

Í fjölskyldubúðum hefur einnig verið mikil og fjölbreytt dagskrá. Í dag var dagvaka, eða kvöldvaka haldin að degi til svo allra yngstu þátttakendur gætu verið með og mættu skátar frá skátafélagi Sólheima í heimsókn. Bátasmiðjan í fjölskyldubúðum hefur einnig slegið í gegn og líka búningarnir sem hægt er að fá lánaða.

Um kvöldið var svo æsispennandi flokkakeppni þar sem skátaflokkar kepptust um að hljóta titilinn "Flokkur mótsins" en til þess þurftu flokkarnir að takast á við ýmsar skátaþrautir. Einnig var Gilwell endurfundir (e. reunion) og þar var mikið spjallað, sungið og hlegið. Enn einn frábær ævintýradagur að líða undir lok!


Skátablaðið Pappírsheimur - 4. tölublað

 

Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 4. tölublað. 


Skátaandinn svífur yfir svæðið

Fjórði dagur mótsins byrjaði vel, sólin skín og öll komin út á stuttermabolnum, buslandi í vatninu og í leit að nýjum ævintýrum. Það er magnað að sjá hvað skátaandinn svífur yfir svæðið, öll hafa áhuga á að kynnast nýjum skátavinum allsstaðar að úr heiminum. Mörg eru að fræðast um skátastarf í öðrum löndum og kynnast annarri menningu. Að sögn þátttakenda eru aðal töfrarnir við Landsmót að kynnast öðrum skátum og skiptast á sögum og merkjum.

Einnig fagnaði Skátasafnið 10 ára afmæli, 15. júlí. Af því tilefni var haldin afmælishátíð í og við nýuppgert húsnæði safnsins. Haldnar voru ræður og lög sungin. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi og Davíð Þrastarson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, afhentu Skátasafninu styrk upp á þrjár og hálfa milljón, frá Bandalagi íslenskra skáta, til uppbyggingar safnsins og uppsetningu nýrrar sýningar. Atli B. Bachmann tók við styrknum fyrir hönd safnsins.

Guðmundur Pálsson
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, Davíð Þrastarson og Atli B. Bachmann

Kvöldið einkenndist svo að skemmtun og gleði á kvöldvökum um allt svæðið. Dagurinn hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur og ævintýralegur í frábæru veðri og vonandi býður dagurinn í dag upp á enn fleiri ævintýri og nýja vini.


Skátablaðið Pappírsheimur - 3. tölublað


Yfir Landsmót kemur út mótsblað og ber það heitið Pappírsheimur og eru ritstjórar þess Unnur Líf Kvaran og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir. Hér má lesa 3. tölublað. 


Froðupartý sló í gegn

Þriðji dagur Landsmóts fór vel af stað, enn eru einhver tjöld og búnaður í þurrkun en gleðin leynir sér þó ekki. Öll eru boðin og búin til að hjálpa nágrönnum sínum og skemmta sér vel á meðan.

Í dag var boðið upp á stórskemmtilegan skyndiviðburð, froðupartý í risastórum hoppukastala og var gleðin allsráðandi. Ungmennaráð átti frumkvæði af viðburðinum en þau eru á aldrinum 15 - 19 ára.

Í opnu dagskrárbilunum hafa drótt- og rekkaskátar tækifæri á að koma og stjórna útvarpsþætti í FM Landsmót skáta 106.1 sem einnig er hægt að hlusta á hér, og hefur það slegið í gegn og koma sum oftar en einu sinni. Dæmi um þætti sem þau hafa verið í loftinu eru spurningaþættir, spjallþættir og viðtalsþættir. Sum koma til að stjórna tónlistinni í hálftíma.

 


Privacy Preference Center