Hamravíðir vex nú einnig á Úlfljótsvatni
Í dag rigndi á okkur en öll hafa verið á fullu í dagskrá með bros á vör. Þreytan er farin að gera vart við sig en spenningurinn fyrir heimsóknardegi og hátíðarkvöldvöku morgundagsins leynir sér ekki. Trönubyggingar rísa, fánastangir hækka og verður hæsta fánastöngin tilkynnt í Pappírsheimum, landsmótsblaði morgundagsins.
Skáti er náttúruvinur og í dag var Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni færð gjöf sem mun stækka um ókomin ár. 175 plöntur frá Dróttskátasveitinni Montis frá Klakki á Akureyri. Sveitin fór að Hömrum í vor, klipptu til greinar og ræktuðu hríslur sem þau tóku svo með sér í rútuna á Landsmót. Plönturnar voru gróðursettar á svæðinu í dag. Gróðursettur var Hamravíðir og vex hann nú á Hömrum og Úlfljótsvatni.
Þegar skátafélagið Klakkur fékk Hamra árið 1999 stóðu þar auð tún en svæðið hefur tekið stakkaskiptum vegna gróðursetninga skáta í gegnum árin. Það var á níunda áratugnum sem skátafélagið Klakkur og Hamrar, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, hóf að færa ÚSÚ hríslur og gróðursetja víðsvegar á svæðinu. Vill Bandalag íslenskra skáta færa bestu þakkir fyrir gjafirnar í gegnum tíðina.