Þankadagspakki 2026 - okkar vinátta
Þankadagspakkinn 2026 er kominn út!
Þemað að þessu sinni er "okkar vinátta" og framhaldsþema frá árinu 2025.
Hér má lesa meira um þankadagspakkann og finna hlekk til að sækja verkefnin.

Klípusögur kveiktu í umræðunum
Rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum
Í gær, mánudaginn 1. desember, var haldið rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum. Fengum við góðan hóp til okkar sem kom víða að af landinu en það er einmitt markmið rafrænna námskeiða. Með þeim viljum við hjá Æskulýðsvettvanginum auka aðgengi þeirra sem búa úti á landi að námskeiðunum og var gaman að sjá hversu vel það tókst í gær.
Námskeiðið sjálft fjallaði um samskipti og siðareglur sem er mjög mikilvægur hluti í okkar starfi. Góð samskipti eru lykillinn að jákvæðum tengslum og mikilvægt er að hægt sé að ræða þau ágreiningsmál sem koma upp á friðsælan máta. Auk þess er mikilvægt að öll þekki til siðareglna Æskulýðsvettvangsins en þar eru fönguð í orð þau siðferðislegu gildi og viðmið um hátterni sem Æskulýðsvettvangurinn og þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn starfa eftir: vellíðan – velferð – öryggi.
Á námskeiðinu fengu þátttakendur klípusögur þar sem þau notuðu siðareglurnar til að leysa úr ágreiningsmálum sem geta komið upp innan hópa og mynduðust góðar og gagnlegar umræður í kjölfarið.
Við þökkum öllum fyrir komuna og hlökkum til að sjá sem flest á næsta námskeiði sem haldið verður 25. febrúar 2026. Aðgangur að námskeiðinu er ókeypis og hægt er að skrá sig hér: www.aev.is/skraning-a-namskeid/
Fálkaskátaflokkur Árbúa Fálkakempur 2025

Síðastliðna helgi buðu Hraunbúar fálkaskátum landsins í heimsókn í Skátalund við Hvaleyrarvatn þar sem skátarnir hlupu um í póstaleik í kringum vatnið og kepptust um farandviðurkenninguna.
Veðrið lék um fálkaskátana en þau hófu leika með skemmtilegum eltingarleik við skátaskálann áður en lagt var að stað í leit af póstum kringum vatnið. Skátarnir söfnuðu sér inn stigum sem flokkur með samvinnu og góðri frammistöðu í verkefnunum sem meðal annar voru að leysa skátadulmál, rugla í hefðbundnum skátasöngvum, súrra þrífót, leiða hvort annað í gegnum blindrabraut og gera sjúkrabörur úr eigin fötum.
Að lokum söfnuðust allir flokkarnir saman við Skátalund þar sem þau kepptu í lokaþrautinni, að brenna band, en hver flokkur fékk einn skátahníf, einn eldspýtustokk og einn viðardrumb. Skátarnir þurftu síðan að ná upp nægilega stórum loga til þess að ná að brenna band sem var fest þvert yfir hverja stöð.
Fálkaflokkurinn í Árbúum voru fyrst til þess að brenna bandið og báru því sigur úr bítum þetta árið. Þau fengu afhentan farandviðurkenninguna sem nú fær að príða Árbúaheimilið þar til að fálkaskátadagurinn verður haldinn næsta haust.
Svo var að sjálfsögðu sungin nokkur vel valin skátalög til að halda hita í fálkunum á meðan beðið var eftir úrslitum. Eftir kvöldvöku gæddu fálkar og foringjar sér á heitu kakói og kexi að skátasið áður en haldið var heim.
Skátaskírteinið snýr aftur
Það gleður okkur að tilkynna að skátaskírteinið snýr aftur eftir nokkurra ára hlé. Að þessu sinni mun skírteinið verða rafrænt í símaveski með aðstoð Leikbreytis.
Öll sem eru skráð hjá sínu félagi í Abler fá tilkynningu á næstu dögum til að hlaða niður sínu skírteini. Forráðafólk skáta undir 18 ára aldri fá tilkynninguna til sín en hægt er að hlaða skírteininu niður í fleiri en eitt símtæki.
26 sæmd forsetamerkinu á 60 ára afmæli þess

Í dag veitti frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, 26 skátum forsetamerkið við hátíðlegar athafnir á Bessastöðum. Þetta er fjölmennasti hópurinn sem hlýtur forsetamerkið síðan árið 2016. Frú Halla Tómasdóttir er verndari skátahreyfingarinnar og veitir forsetamerkið þeim rekkaskátum (16-18 ára) sem hafa stundað metnaðarfullt rekkaskátastarf. Forsetamerkishafarnir Fríða Björg Tómasdóttir, Skátafélaginu Klakki, og Kristófer Njálsson, Skátafélaginu Mosverjum, fluttu ávarp í athöfnunum þar sem þau sögðu frá skátaferli sínum og þeim verkefnum sem þau unnu að í tengslum við forsetamerkisvegferðina.
Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að.
Í byrjun vegferðarinnar setja skátarnir sér markmið fyrir rekkaskátastarfið sitt og í lok hennar endurmeta þeir síðan vegferðina. Skátarnir þurfa að ljúka verkefnum úr fjórum verkefnaflokkum: Leiðtogafærni, Skapandi hugur, Heimurinn og umhverfið og Tilveran mín. Til þess að öðlast merkið þurfa skátarnir meðal annars að sækja 5 daga skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefjast virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil. Dæmi um þetta eru að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn skátafélags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.
Í ár er 60 ára afmæli forsetamerkisins og síðan merkið var fyrst veitt árið 1965 hafa 1488 skátar verið sæmdir því. Eftir athafnir dagsins var afmæli merkisins fagnað í Jötunheimum, skátaheimili Vífils en þar komu saman nokkrar kynslóðir forsetamerkishafa ásamt öðrum góðum skátum. Elín Richards, forsetamerkishafi 36, ávarpaði gesti veislunnar sem og Jóhanna Björg, forsetamerkishafi nr. 1083 fyrir hönd starfsráðs. Þá fóru Fríða og Kristófer aftur með hugvekjuna sína frá því fyrr um daginn og skátahöfðingi og forsetamerkishafi númer 1000, Harpa Ósk bauð gesti velkomna.

Hugvekja nýtta forsetamerkishafa
Kristófer: Virðulegi forseti, ágætu skátavinir og aðrir góðir gestir
Það er ekki oft sem maður fær tækifæri líkt þessu, að standa frammi fyrir forseta Íslands, - hvað þá í höfuðstöð hennar þar sem tilefnið er að fagna okkar afreki. Mér finnst því frábært að geta nýtt þessa hugvekju til þess að miðla þakklæti mínu fyrir hönd okkar sem fyrir örfáum mínútum sátum í þessu herbergi með sveittar hendur, ólm í að öðlast þessa fögru nælu og heiðurinn sem henni fylgir.
Nú sitjum við saman með misslitnar og krumpaðar bækur sem hafa öðlast líf eftir traust verk sitt sem fylgifiskar í verkefnum okkar. Það er mikilvægt að sjá hvernig hver bók endurspeglar fjölbreytnina í persónuleika og vinnubrögðum okkar. Því það er sama fjölbreytnin í huga, sálu og líkama hvers og eins okkar sem kjósa að vinna okkar hlut í að halda skátahreyfingunni lifandi sem málar þennan einstaka lit hennar.
Fríða: Ég hef oft verið spurð hvað það er eiginlega sem við gerum í skátunum. Fólk virðist halda að við séum að kveikja eld og hnýta hnúta alla fundi en öll hér inni vitum við að skátastarfið er svo miklu meira en það. Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfann, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar.
Nú veit ég ekki með ykkur en ég ætla að vera alveg hreinskilin og segja að ég byrjaði ekki í skátunum vegna einhverjar djúprar köllunar til að þjóna samfélaginu eða bjarga heiminum, heldur einfaldlega vegna þess að vinir mínir voru í skátunum og þetta virtist skemmtilegt. Ég held að flest okkar geti samt verið sammála um að það hafi kannski ekki alveg verið fyrsti dagurinn sem breytti lífinu, en einhvern veginn, án þess að maður tók eftir því fór þetta starf að festa rætur í hjartanu mans og varð að gríðarstórum hluta af manni. Það hafa verið ótal skipti þar sem ég hef hugsað ,,af hverju er ég að gera þetta“ hvort sem ég hafi verið í skafrenningi að reyna að tjalda eða á landsmóti blaut alveg inn að beini.
Kristófer: En það eru einmitt þessi augnablik sem kenna manni hvað samvinna og jákvætt hugarfar þýða í raun.
Fríða: Að þrautseigja þýði ekki að gefast aldrei upp, heldur að halda áfram jafnvel þegar maður þarf að taka smá hlé, draga andann djúpt og reyna aftur. Á milli þess að frjósa, hlæja og reyna að muna hvernig í ósköpunum maður gerir fánahnút, lærir maður eitthvað meira, um sjálfan sig, um aðra og um það hvað það þýðir að standa saman.
Kristófer: Talandi um samvinnu. Ég myndi segja að ferðin til Kóreu hafi sett mestan svip á ferlið mitt. Ég hafði fjarlægst skátahreyfingunni mikið þegar ég ákvað að slást í fararhópinn okkar á Alheimsmót skáta. Þar upplifði ég eitt, ef ekki besta ævintýri lífs míns. Ég hef aldrei verið hluti af jafn stórum hópi fólks - skáta alls staðar af úr heiminum - jafnvel frá löndum sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um. Ég hef aldrei fengið jafn gullið tækifæri til að vera jafn frjáls í anda og þá. Það var endalaust hægt að fíflast í og með fólki. Skemmtilegastir voru Indverjarnir. Þeir kunnu æstustu leikina en sýndu líka yndislega gestrisni sem ég miða nú sjálfur við þegar ég býð fólki heim til mín. Einnig var samheldnin og samvinnan í verki svo einstaklega góð meðal íslenska fararhópsins. Svo góð að ást mín fyrir skátastarfinu vaknaði úr blundi sínum.
Fríða: Hér í dag eru líka mörg kunnugleg andlit úr ferðinni. Saman sköpuðum við ógleymanlegar minningar og erum nú aftur saman komin til að deila öðrum merkum áfanga í lífi okkar.
Kristófer: Skátastarfið er svo sannarlega ólgandi sjór. Í því myndast vinabönd og upplifanir sem annað hvort haldast eða enda en öldurnar draga mann alltaf aftur til minninganna. Eins og í dag hafa þær dregið okkur saman til að heiðra allar þær einstöku minningar sem við höfum myndað saman eða sér.
Fríða: Það er eitthvað alveg einstakt við það hvað skátarnir draga fram það besta í fólki. Maður hittir fullt af mismunandi einstaklingum í skátunum en ég held að ég geti fullyrt það að fólkið í skátunum er eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann hitt. Ég hef bæði eignast nýja vini og tengst þeim ég átti fyrir á hátt sem erfitt er að útskýra. Þetta er fólkið sem hlær með manni, stundum að manni en hjálpar manni samt alltaf á fætur sem minnir okkur á það hvers vegna þetta er allt þess virði.
Í ár fagnar forsetamerkið 60 ára afmæli. Það er svolítið sérstök tilfinning að standa hér í dag og hugsa til allra 1473 forsetamerkishafana sem hafa staðið hér á undan mér. 60 ár af skátum sem hafa tekið við þessu merkilega merki, hver og einn með sína sögu, sín ævintýri og sínar áskoranir. Þó tíminn hafi breyst, þá held ég að kjarninn sé sá sami. Við höfum öll á okkar hátt, lofað því sama: Að leggja okkar að mörkum í samfélaginu, að sýna gott fordæmi og að lifa eftir skátalögunum.
Kristófer: Eða eins og Baden Powell orðaði það “Gerum okkar besta til að skilja við heiminn örlítið betri en þegar við komum í hann.”
Fríða: Það er fallegt að hugsa til þess að við erum nú orðinn hluti af þessum hópi, þessari keðju fólks sem sér til þess að skátaandinn lifi áfram, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Forsetamerkið er nefnilega ekki bara viðurkenning fyrir það sem við höfum gert, heldur áminning um að halda áfram að lifa eftir skátalögunum. Að halda áfram að vera forvitin, hjálpsöm og hugrökk. Kæru skátar, innilega til hamingju með þetta afrek. Munið að forsetamerkið er ekki lokaverkefni, heldur byrjun á nýjum kafla.
Skátar úr 9 félögum
Eftirfarandi rekkaskátar úr 9 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 2. nóvember 2025 og bættust í hóp 1488 forsetamerkishafa frá upphafi.
Úr Árbúum:
Daníel Þröstur Pálsson
Úr Faxa:
María Fönn Frostadóttir
Úr Fossbúum:
Vigdís Jóna Árnadóttir
Úr Hraunbúum:
Dagný Lind Pálsdóttir
Inga Dís Guðjónsdóttir
Logi Friðriksson
Úr Klakki
Anton Bjarni Bjarkason
Anton Dagur Björgvinsson
Ásbjörn Garðar Yngvason
Birkir Kári Gíslason
Birkir Kári Helgason
Fríða Björg Tómasdóttir
Hörður Andri Baldursson
Snædís Hanna Jensdóttir
Úr Kópum:
Eva Rut Tryggvadóttir
Silja Líf Eiðsdóttir
Úr Mosverjum:
Eberg Óttarr Elefsen
Kristófer Njálsson
Pétur Jón Árnason
Unnur Elísa Sigurgísladóttir
Úr Víflum:
Elí Hrönn Hákonar
Helgi Þórir Sigurðsson
Ingvar Jarl Eineborg
Úr Ægisbúum:
Aðalsteinn Ingi
Andri Rafn Ævarsson
Berglind Anna Magnúsdóttir
Gróðursettu tæplega 500 tré
Ungmennaráð BÍS hélt viðburðinn Tré og tjútt í og við húsnæði Land og skógar í Mógilsá, Esjuhlíðum helgina 5.-7. september síðastliðinn í samstarfi við Skógrætarfélag Reykjavíkur og loftslagssjóð Reykjavíkur. Þátttakendur voru 36 á aldrinum 13 - 18 ára bæði skátar frá fjölmörgum skátafélögum og önnur þar sem viðburðurinn var opinn öllum, vonandi vakti þetta áhuga einhverra um skátastarf.
Skátarnir komu sér fyrir og könnuðu svæðið á föstudeginum, í kvöldmat voru ljúffengar kjúklingavefjur sem þátttakendur elduðu sjálf. Öll þurftu að vakna snemma á laugardeginum, borða morgunmat og útbúa nesti því ferðinni var heitið upp á Esju. Skógræktarfélag Reykjavíkur kenndi þátttakendum réttu handtökin ásamt því að veita þeim fræðslu um þær mismunandi trjátegundir sem þau voru að gróðursetja og hvar best væri að gróðursetja þær svo þær séu vænlegastar til langlífs svona hátt uppi í Esjunni. Þær trjátegundir sem voru gróðursettu voru 175 Gráelri, 140 Stafafurur, 105 Kjarrelri og 40 Víði eða um 460 plöntur í heildina sem þátttakendur gróðursettu á mettíma.
Eftir hádegismat gátu þau sem vildu tekið gönguna upp að Steini sem var um helmingurinn af hópnum en rest fór aftur niður í tjaldbúðina. Í síðdegishressingu voru kleinur og kanilsnúðar og svo var haldið af stað í stöðva dagskrá. Í stöðvunum var meðal annars uppkvistun við stíg í skóginum þar sem farið var yfir hvernig eigi að snyrta trén til þess að hleypa meiri birtu inn í skóginn og svo voru afgangs viðardrumbar endurnýttir og fræðsluefni í kringum það.
Högni reiddi fram dýrindis hamborgara fyrir þátttakendur og svo var haldið skógarball og þar var tjúttað og dansað. Kvöldvaka var haldin við varðeldalautina sem skátarnir gerðu fyrr um daginn og sum skelltu sér í saunu. Þetta var svo sannarlega eftirminnilegt kvöld. Á sunnudeginum var tiltekt og allt rusl týnt upp. Viðburðinum var slitið með pylsum á grilli og merkja afhendingu.
Markmið viðburðarins var að gróðursetja tré og veita athygli á loftslagsmálum, efla náttúrutengsl ungmenna, kynna skátastarf, og læra um allskonar skemmtilegt sem hægt er að nýta afurðir trjáa í. Einnig var áhersla lögð á að sýna þeim frábært útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Þátttökugjald á viðburðinn var ekkert þar sem verkefnið hlaut styrk úr Loftlagssjóði ungs fólks í Reykjavík (Youth Climate Action Fund) sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg Philanthropies.
Ungmennaráð BÍS þakkar öllum þeim sem komu fyrir frábæra helgi og vonast er til að geta haldið fleiri viðburði í þessum dúr.

Röppuðu skátaheitið í Lækjarbotnum
Foringjanámskeið fór fram helgina 12.-14. september í Lækjarbotnum. 25 foringjar tóku þátt í námskeiðinu og voru þau ýmist dreka-, fálka- eða dróttskátaforingjar. Þátttakendur á námskeiðinu störfuðu í fjórum flokkum sem hétu Dróttningar, Eldri drekar, Cola og Meistarar.
Á laugardagsmorgninum æfðu þátttakendurnir sig að gera starfsáætlanir fyrir veturinn og eftir hádegi var haldin símamasturskeppni þar sem flokkarnir kepptust um að byggja hæsta símamastrið úr spagettí og sykurpúðum, því von var á tímaflakkara sem ætlaði að lenda við Lækjarbotna og þá er mikilvægt að vera í góðu sambandi við fólk á jörðu niðri. Keppnin fór fram utandyra, enda næst þannig best samband við tímaflakkarann og því þurftu flokkarnir að beita ýmsum brögðum svo að vindurinn blési ekki turnunum út í buskann. Svo fór að Dróttningar báru sigur úr býtum í keppninni en ásamt því að reisa hæsta símaturninn höfðu þau líka skreytt turninn sinn með blómum. Flokkurinn Meistarar fékk sérstök verðlaun fyrir að reisa frístandandi símaturn, þó hann væri ekki hæstur. Í gegnum þennan leik voru foringjarnir að læra um PGM (plana-gera-meta). Þess má til gamans geta að Dróttningar sömdu sérlega flottan hrópsöng við lagið Jólin alls staðar.
Foringjarnir lærðu líka um hvatakerfið og gerðu leikþátt um skáta sem þurfti að hvetja áfram. Þá lærðu þátttakendur hvernig á að huga að öryggi í skátastarfi og að búa til áhættumat. Um kvöldið var haldin skemmtileg kvöldvaka þar sem allir flokkarnir voru með skemmtiatriði. Á sunnudeginum lærðu foringjarnir um skátaaðferðina og bjuggu til leiki til þess að kenna ungum skátum skátalögin og skátaheitið. Einn flokkurinn gerði leik þar sem átti að rappa skátaheitið. Leiðbeinendasveitin, sem skipulagði námskeiðið, hvetur lesendur Skátavefsins til að prófa að rappa skátaheitið. Meðal síðustu dagskrárliða á námskeiðinu var vinnusmiðja þar sem foringjarnir áttu að skrifa niður sínar uppáhaldsminningar úr skátastarfi og tengja þær við einn af þáttum skátaaðferðarinnar.
Á foringjanámskeiðinu spunnust margar góðar umræður og að baki er skemmtilegt námskeið. Leiðbeinendasveitin óskar öllum skátaforingjum góðs gengis á starfsárinu!
Næstum eins og Ísland, en samt ekki

Fréttin birtist upphaflega á heimasíðu Hraunbúa.
Brekkulegan var haldin í Leirvik í Færeyjum í fyrsta sinn síðan 1983 dagana 31. júlí – 5. ágúst.
Leirvik er lítill bær á Eysturoy og þar búa rétt um eitt þúsund manns, á mótinu voru um fimm hundruð skátar svo það má ætla að mótið hafi sett svip á bæinn þessa daga sem það stóð.
Mótssvæðið var upp á Brekku eins og heimamenn nefna það, það er að segja fyrir ofan bæinn. Og vegna þess hve allt er bratt þarna eða í brekku þá bar mótið nafn með rentu. Mótsvæðið var í smá brekku og sæta þurfti lagi við að tjalda svo að vel færi um alla og það gekk glimrandi vel.
Á mótinu voru skátar frá norðurlöndunum, Skotlandi, Slóveníu, Kanada og fleiri löndum svo það má segja að mótið hafi verið alþjóðlegt þó það hafi ekki verið stórt.
Smæð mótsins gerði það að verkum að auðvelt var að kynnast skátum alls staðar að og andrúmsloftið var mjög vinalegt.
Mótið var skipulagt af skátum í Færeyjum og þau voru óþreytandi í að aðstoða okkur á alla lund.
Dagskráin var bæði ævintýraleg og skemmtileg þar sem hægt var að fara í ratleik um Leirvik, göngur um fjöllin í kring, á kanóa, veiða, síga og margt fleira.
Það voru tvö íslensk félög á svæðinu, Hraunbúar og Árbúar og voru félögin í góðu samstarfi í undirbúningi og mikill samgangur á meðan á mótinu stóð. Það er mikill fjársjóður að eiga góða vini í skátastarfinu og gott að geta unnið með öðrum félögum.
Veðráttan í Færeyjum er svipuð því sem við eigum að venjast á Íslandi nema líkur á rigningu og þoku voru í við meiri. Við vorum ágætlega heppin með veður, fengum mjög gott veður bæði þegar við vorum að setja upp tjaldbúð og taka hana niður, þess á milli var veðrið yfirleitt ágætt og þó það rigndi eitthvað og hvessti þá gerði það lítið til því Hraunbúar voru vel búnir svo að ekki væsti um þá.
Hraunbúar og Árbúar fóru saman af mótinu til Þórshafnar og dvöldu þar dagpart í góðu veðri áður en haldið var á gististað nálægt flugvellinum nóttina fyrir heimferð.
Náttúran í Færeyjum er engu lík, fjöllin, hafið og veðrið. Fólkið er dásamlegt og ævintýrin sem við tökum með heim eru ógleymanleg. Við lærðum skoska dansa, tókum þátt í lokaathöfninni, eignuðumst nýja vini og hlökkum til að heimsækja Færeyjar aftur.
Hægt er að sjá fleiri myndir og myndbönd frá ferðinni á instagram @skatafelagidhraunbuar í highlights Brekka 2025.
15 Árbúar mættu á Brekkuleguna í Færeyjum

Eftir mikinn undirbúning og marga skipulagsfundi fór galvaskur hópur Árbúa á Færeyska skátamótið Brekkuleguna en hún var síðast haldin árið 1983. Fararhópur Árbúa samanstóð af fimm fararstjórum og 10 þátttakendum drótt- og rekkaskáta á aldrinum 13-17 ára. Ferðin stóð yfir frá 25. júlí til 6. ágúst. Fulltrúar íslenskra skáta á mótinu voru auk Árbúa, hópur af hressum Hraunbúum.
Áður en farið var á mótið ákvað hópurinn að kynnast Færeyskri menningu og upplifa hvernig það er að vera skáti í Færeyjum. Hópurinn gisti því fyrstu tvær næturnar í skátaheimili Mikkjals á Ryggi í Miðvági en næstu fjórar á skátaheimili í Þórshöfn. í Miðvági kynntist hópurinn Færeyskum skátum, fóru í göngur og fengu að smakka Færeyskan mat eins og hval og lax. Í Þórshöfn upplifðu skátarnir Ólafsvöku, þjóðhátíðardag Færeyinga. Dagskrá Ólafsvöku var frá morgni til kvölds m.a. skrúðganga með færeyskum hestum, dansi, söng og árabátakeppni. Auk þess fóru nokkrir skátar og kíktu á setningu Lögþingsins, alþingi Færeyinga. Einnig var farið á Þjóðminjasafn Færeyja og lært um sögu og menningu eyjanna.
Þann 31. júlí var komið að hápunkti ferðarinnar þ.e. sjálft skátamótið, Brekkuleguna sem haldið var í Leirvík á Austurey. Brekkulegan stóð yfir til 5. ágúst og voru um 500 skátar á mótinu frá 10 mismunandi löndum og var þetta stærsta mót Færeysku skátahreyfingar í yfir 40 ár, eða frá því að Brekkulegan var haldin síðast 1983. Árbúar tóku þátt í fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá og m.a. fóru dróttskátarnir í krefjandi hike tvo daga í röð. Annað var gegnum gil þar sem vaða þurfti gegnum vatn sem náði upp á mitti, hitt var upp á fjall sem veitti fallegt útsýni yfir tjaldsvæðið. Auk gönguferða var boðið upp ýmsa dagskrá t.d. morðgátu, dorg á bryggjunni, valslöngusmíði og flekasmíði. Einnig var menningardagur þar sem íslensku skátarnir kynntu Landsmót 2026 og buðu upp á kjötsúpu og íslenskt nammi.
Þó ferðin væri búinn að vera einstaklega skemmtileg var að lokum komið að því að fara heim. Eftir mikla og erfiða kveðjustund, þar sem skipst var á minjagripum og tengiliða upplýsingum við nýja vini hvaðanæva úr heiminum var farið í rútu með Hraunbúum þann 6. ágúst út á völl og þar var gist síðustu nóttina áður en við flugum heim snemma morguns þann 7. ágúst.
Með skátakveðju,
Daníel Þröstur Pálsson
Skátarnir fagna fjölbreytileikanum
Grein eftir Kolbrúnu Ósk Pétursdóttir, skátaforingja í Garðbúum, sem birtist í tímariti Hinsegin daga.
Skátastarf hefur verið á Íslandi í yfir 100 ár og þó að við „séum öllum hnútum kunnug“ kunnum við líka að fylgja tímanum. Skátarnir eru í stöðugri þróun í takt við samfélagið og skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni að læra í gegnum leik, verkefni, samveru og útivist. Við trúum því að besta leiðin til að vaxa sé að prófa eitthvað nýtt, vinna með öðrum og fá að vera nákvæmlega eins og maður er. Markmið skátahreyfingarinnar er að skilja heiminn eftir betri en við fundum hann – mikilvægt og stórt markmið sem þýðir að við hugsum um náttúruna og samfélagið auk þess sem við sköpum rými þar sem öll fá að vera þau sjálf.
Ég byrjaði í skátunum 18 ára gömul, frekar seint miðað við flest, þá nýkomin heim úr skiptinámi. Heimkoman reyndist mér erfið: ég var smá týnd og vissi ekki alveg hvert ég stefndi. Þá kom vinkona mín og bauð mér að vera skátaforingi með sér í skátafélagi sem var að endurvekja skátastarfið hjá sér. Ég ákvað að slá til þótt ég vissi ekki alveg út í hvað ég var að fara.
Þar sá ég hversu dýrmæt gildi skátanna eru og hversu mikil áhrif starfið getur haft – bæði á börnin og okkur sem leiðum það. Það var þó ekki fyrr en á mínu fyrsta skátamóti sem ég upplifði þessa tilfinningu: Ég er skáti. Ég var hluti af fjölbreyttu og fallegu samfélagi þar sem öll fá að vera þau sjálf. Þar kviknaði löngunin hjá mér til að vaxa, prófa eitthvað nýtt og einfaldlega vera ég sjálf. Ég kom líka frekar seint út úr skápnum og eftir að ég gerði það tók það mig alveg smá tíma að þora að taka þátt í hinsegin samfélaginu. Mér fannst ég ekki nógu hinsegin til að vera með, vildi ekki taka pláss frá öðrum sem ég hélt að ættu meira heima þar. En þegar ég leyfði mér að stíga inn í hinsegin samfélagið small þetta fyrir alvöru. Ég fann að þessi tvö samfélög – skátahreyfingin og hinsegin samfélagið – eru ekkert svo ólík. Þau standa fyrir frelsi, fjölbreytileika og virðingu. Að við fáum að lifa okkar lífi – frjáls undan fordómum, mismunun og útilokun. Að við fáum að vera við sjálf og að það sé í lagi.
Skátarnir í Gleðigöngunni
Skátarnir hafa tekið þátt í Gleðigöngunni af fullum krafti frá 2014. Við mætum í skátabúningunum okkar, með regnbogafána, syngjandi og hlæjandi og sendum samfélaginu skýr skilaboð: Fjölbreytileikanum er ekki bara sýnt umburðarlyndi – heldur virkilega fagnað!
Við viljum að öll tilheyri og sýna að skátasamfélagið stendur með réttlæti, mannréttindum og jafnræði. Hér þarf enginn að fela sig eða aðlaga sig til að passa inn! Það er ástæðan fyrir því að við göngum í Gleðigöngunni. Þetta er skemmtileg og falleg stund sem við eigum með vinum og fjölskyldu en það er líka gríðarlega mikilvægt. Þetta er tákn um það samfélag sem við viljum búa í, þar sem öll fá að vera með. Þetta er stórt verkefni og við ætlum að leggja okkar af mörkum um ókomna tíð.
Ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í skátunum. Og ég er þakklát fyrir að hafa fundið minn stað í hinsegin samfélaginu. Og í dag er ég stolt af því að fá að leggja mitt af mörkum til beggja þessara samfélaga – þar sem fjölbreytileikanum er fagnað af alvöru. Því að einmitt þannig skiljum við heiminn eftir betri en við fundum hann.
Lesa má tímaritið í heild sinni hér.





























































