Breytingar á siðareglum Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Breytingarnar byggja á breytingartillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins í apríl síðastliðnum og voru í framhaldi unnar af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins. Ráðgjafahópinn skipa aðilar frá öllum aðildarfélögunum; Skátarnir, Landsbjörg, KFUM og KFUK og UMFÍ.

Helstu breytingar voru eftirfarandi:

Breytingar sem snúa að samskiptum:

Þessum reglum var bætt við

  1. Starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða aðrir sem gegna valdastöðum þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og þann aðstöðumun sem staða þeirra skapar þeim.
  2. Hvers kyns kynferðislegt daður, orðbragð eða samneyti aðila í ábyrgðarstöðu gagnvart þátttakanda sem er yngri en 18 ára er með öllu óheimilt.
  3. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Regla sem var áður númer 8, og fjallar um skyldu ábyrgðaraðila að fá leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá, var fjarlægð þar sem hún er í hluta reglanna sem fjalla um rekstur og ábyrgð og á frekar heima þar.

Reglu númer 14 var breytt og er nú:

Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna ábyrgð í rafrænum samskiptum og netnotkun. Ekki skal vera í rafrænum samskiptum við þátttakendur undir 18 ára aldri án vitneskju forsjáraðila þeirra og aðeins í tengslum við þátttöku þeirra í starfi félagsins. Öll samskipti skulu fara fram í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir.

Markmiðið með þessari breytingu er að vekja athygli á því að samskiptaleiðir í félögum sem okkar þurfa að vera skýrar og eiga sér stað með þeim hætti að við getum svarað fyrir þær. Með því að taka fram að samskipti eigi sér stað í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir er einnig betur hægt að stíga inn í þegar samskipti eiga sér stað á samfélagsmiðlum sem við viðurkennum ekki sem samskiptavettvang starfi með börnum.

Breytingar sem snúa að rekstri og ábyrgð

Þessum reglum var bætt við:

  1. Öllu starfi skal sinna með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og standa skal vörð um markmið og heiður þess. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna félaginu, samstarfsfólki, samstarfsaðilum og þátttakendum virðingu, sanngirni og trúnað í samskiptum sínum.
  2. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að starfsfólki og sjálfboðaliðum séu falin verkefni eða þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.
  3. Allt starf skal unnið á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Ávallt skal veita faglegar og réttar upplýsingar.
  4. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta þess að sitja ekki beggja vegna borðs í málum er varða hagsmuni félagsins. Forðast skal að skapa þær aðstæður sem geta dregið óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Það á meðal annars við þegar félagið tilnefnir einstaklinga til að taka þátt í eftirsóttum verkefnum eða þegar samið er við starfsfólk, verktaka eða aðra þjónustuaðila.

Uppfærðar siðareglur má finna hér og á prentvænuformi hér.

Nánari upplýsingar um Æskulýðsvettvanginn og starfsemi hans er hægt að finna hér.


Netnámskeið í barnavernd nú aðgengilegt á ensku

Netnámskeið í barnavernd nú aðgengilegt á ensku

Frá lok árs 2019 hefur Æskulýðsvettvangurinn haldið úti netnámskeiði í barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem samtökin þróuðu ásamt sérfræðingum í málaflokknum. Á þeim tveimur árum sem námskeiðið hefur verið aðgengilegt hefur fjöldi fólks, eða nokkur hundruð einstaklingar á ári, tekið námskeiðið.

Það er okkur sönn ánægja að greina frá því að námskeiðið er nú einnig aðgengilegt á ensku. Að því tilefni er rétt að minna á að siðareglur Æskulýðsvettvangsins eru einnig aðgengilegar á ensku.

Það er mikilvægt fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og mögulegum afleiðingunum af því. Tilgangurinn er að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp.

Námskeiðið er ókeypis og við hvetjum sem flest til þess að nýta sér námskeiðið og þá þekkingu sem þar er að finna í sínu starfi og stuðla með því að vönduðu, uppbyggilegu og öruggu starfi með börnum og ungmennum!

Netnámskeið má nálgast á ensku hér

Netnámskeið má nálgast á íslensku hér

Siðareglur má nálgast á ensku hér

Siðareglur má nálgast á íslensku hér


Öll heimsmarkmiðin plaggat

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiðanna til næstu 2 ára.

Hlutverk ungmennaráðs heimsmarkmiðanna er að vinna með málefni tengd heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, og vinna að því að koma sjónarmiðum barna á framfæri. Þetta er eina ungmennaráðið sem starfar innan stjórnsýslunnar og gefur það sínar ráðleggingar til ráðuneyta og ýmissa stofnanna eftir óskum. Einnig hefur ráðið greiðan aðgang að ráðuneytunum til að koma sínum málefnum á framfæri og funda til að mynda árlega með ríkisstjórn.

Ungmennaráðið heldur á lofti ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá sér í lagi hvað varðar áhrif barna á ákvarðanatöku og rétt þeirra til að láta í ljós skoðanir sínar.

Í ungmennaráðinu sitja tólf börn og skulu þau vera 13-18 ára á meðan á skipunartímabilinu stendur. Öll börnin í ráðinu skulu því vera fædd á árunum 2006-2009. Leitast er eftir því að hafa fjölbreyttan hóp barna í ráðinu, þá sér í lagi með tilliti til kynjahlutfalls og búsetu en áhersla hefur verið lögð á að vera með fulltrúa úr öllum landshlutum. Ráðið heldur að meðaltali einn netfund í mánuði, og hittist í persónu á lengri fundum 3-4 sinnum yfir árið.

Umsóknir fara fram á vef stjórnarráðsins og er umsóknarfrestur til og með 15. nóvember

Öll heimsmarkmiðin plaggat

Privacy Preference Center